Okrið

GullidklosettStundum verða smá slys, eins og um síðustu helgi þegar klósettsetan sprakk langsum og varð nær ónothæf. Auðvitað datt manni Byko fyrst í hug en þeir áttu ekkert sem heitið gat seta á þetta fína IFÖ klósett, og bentu á umboðsaðila IFÖ sem heitir Tengi. Tengi er í húsi sem er voðalega fínt að sjá, neðst við Smiðjuveg, veit reyndar ekki litinn á götunni, en húsið er grátt. Þangað skeiðaði ég glaður í bragði og hlakkaði mikið til að geta skipt um setu á klósettinu, t.d. að fá flotta viðarsetu, allavega eitthvað huggulegra en hið þunnildislega hismi sem nú var sprungið.

En nei, og nei aftur. Fyrstu kynni af þessarri verslun voru frekar fúl. Æ, það var í sjálfu sér ekkert að en andrúmsloftið allt var eitthvað neikvætt. Mér var bent til fjögurra sölumanna sem sátu með sútarsvip við skrifborð hlið við hlið. Ég bauð hressilega góðan dag, en enginn tók undir. Það var bara eins og ég væri ekki þarna. Loksins fékk ég þó aðstoð en draumur minn um flotta klósettsetu var nú fljótlega úti því sölumaðurinn sagði eingöngu vera til eina gerð, nákvæmlega eins og fyrir var. Sú gerð átti að kosta 2500 kr. Eftir smá grams í tölvunni fann þó sölumaðurinn aðra gerð sem hann sagði að kostaði tólfþúsund og eitthvað. Smellurinn sem heyrðist þegar ég missti andlitið í gólfið bergmálaði um alla búð, en enginn kippti sér upp við það. Sennilega alvanir. Mér tókst að tísta útúr mér hvað klósettið kostaði allt, og hvernig gullhúðin væri á setunni. Ég man ekki svörin, en ég er enn að jafna mig. Ég ákvað í sjokkinu að kaupa aumingjalegu setuna sem kostaði reyndar 2612 kr. þegar að kassanum kom. Finnst fólki bara allt í lagi að borga á þrettánda þúsund fyrir klósettsetu?? Mér finnst það ekki í lagi og 2612 er 2000 krónum of mikið fyrir plasthismið.

Nú, í morgun fór ég svo í bankann til að kaupa pund. Þar á ég við gjaldmiðil þeirra englendinga. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landsbankans var gengi pundsins í morgun kr. 125,68 en ég var rukkaður um 128 kr fyrir stykkið. Samkvæmt upplýsingum bankans er það sem ég þurfti að greiða svokallað seðlagengi og er þessu hærra vegna kostnaðar bankans við að kaupa seðlana í útlöndum, flytja þá til landsins og geyma. Þetta heitir að vera bæði með belti og axlabönd, og til að tryggja að brækur bankans haldist enn betur uppi eru þeir tilbúnir að borga mér rúmar 123 krónur fyrir þessa sömu seðla ef svo skyldi fara að ég notaði þá ekki alla. Þetta er bara siðlaust okur í minni bók.

Veit ekki hvað öðrum finnst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er náttulega mafíósastarfsemi af verstu gerð. Spurning hvort þeir hafi ekki lært af honum Tony Soprano bara. Þetta er allavega eitthvað í hans stíl

Tómas Þráinsson (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 14:07

2 Smámynd: Vignir Arnarson

Ef þú er blankur Krúsi minn talaðu þá bara við mig ég skal hjálpa þér vinur en mundu bara í framtýðinni að kaupa ekki pund það gerir engin nú til dags.

Vignir Arnarson, 10.11.2007 kl. 14:34

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Tómas, já þetta lyktar allt af mögulegri mafíósastarfsemi. Mér sýnist líka æ fleiri ganga í dökkum jakkafötum með barðastóra hatta.

Þakka þér fyrir stuðninginn Vignir minn, en maður kemst víst ekki af án punda á Bretlandi, ennþá.

Markús frá Djúpalæk, 10.11.2007 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband