Um myglusvepp - af vef hús og heilsu

Myglusveppir gegna mikilvægu hlutverki í náttúrunni. Utandyra er eðlilegt að myglusveppir vaxi, enda eru þeir þar í sínu náttúrulega umhverfi þar sem ríkir samkeppni um næringu og aðstöðu til vaxtar . Þar eru þeir nauðsynlegir til þess að náttúrulegt niðurbrot á lífrænum efnum geti átt  sér stað.  
Gró myglusveppa er að sjálfsögðu oft að finna utandyra og stundum berast þau inn í híbýli okkar með lofti, lifandi verum og vindum og er því eðlilegt er að finna gró myglusveppa innandyra.  (30% m.v. loft utandyra)
.

Myglusveppir eiga hins vegar ekki að þrífast  innandyra í híbýlum manna. Myglusveppir ná aðeins að vaxa og gró þeirra að dafna innandyra þar sem umhverfið er þeim hagstætt. Þessar lífverur ná aðeins að vaxa við kjöraðstæður í hýbýlum manna. Þessar kjöraðstæður eru raki, æti og lítil samkeppni annarra lífvera eða gróðurs.  Það er við þessar aðstæður, sem myglusveppir og gró þeirra geta verið skaðlegir heilsu þeirra sem búa í nágrenni þeirra. Það er oft erfitt að greina sveppamyndun með berum augum  og því erfitt að varast þá og eituráhrif þeirra.

Við höfum fyrir löngu áttað okkur á þeirri hættu sem
líkama okkar getur stafað af því að leggja okkur til munns þá villtu sveppi sem vaxa úti í náttúrunni.  Við vitum að þeir eru flestir eitraðir.  Myglusveppir  eða fúkkasveppir eru hins vegar oftast smáir og sakleysislegir og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum, að vísindamenn og læknar hafa rannsakað þessa gerð sveppa og þau eiturefni sem þeir mynda og áhrif þessara eiturefna á heilsu manna.

Við inntöku í gegnum meltingarveg, til dæmis þegar við borðum eitraða sveppi, eru viðbrögð líkamans við eitrinu skörp og frekar augljós. Hins vegar er erfiðara að greina eituráhrif þeirra myglusveppa sem
eru í umhverfi okkar og  berast inn í líkamann í gegn um húð og öndunarfæri. Þar sem mygla er í gangi eru gró sveppa á ferð og flugi. Við gleypum og öndum að okkur sveppagróunum. Í gróunum er eitur sem berst inn í líkamann við öndun, snertingu eða í gegnum húð, oft á löngum tíma. Þessi eiturvirkni gerist hægt og einkennin geta komið fram smátt og smátt og er því erfiðara að greina og finna orsök eitrunarinnar en þegar eitraður sveppur er etinn. .

Vísindamenn, líffræðingar og læknar hafa verið að rannsaka og finna þessi áhrif á síðustu árum og því er ennþá margt sem á eftir að skýrast. Flestar eru þessar rannsóknir á frumstigi og er spennandi að fylgjast með því sem á eftir að koma í ljós í náinni framtíð. Margar rannsóknir hafa þegar verið gerðar á áhrifum þessa eiturs á líkamann eftir snertingu eða innöndun.

Það er ljóst, og nú viðurkennd staðreynd meðal vísindamanna, að myglusveppir mynda eiturefni (mycotoxin) sem eru skaðleg heils
u  manna.
Gró og aðrir svepphlutar innihalda eiturefni (mycotoxin)  og mótefnavaka. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna mynda myglusveppir mVOC (microbial volitale organic compound) og eiturefni sem verða til vegna annars stigs efnaskipta
.

Komið hefur í ljós að eituráhrif þessara sveppa eru all víðtæk og geta til dæmis valdið einkennum í taugakerfi, í meltingarvegi og í stoðkerfi líkamans. Einnig getur eitrunin breytt og ruglað hormónastarfsemi, sem og efnaskiptum í líkamanum. Vegna þess hversu hægvirk, víðtæk og flókin einkennin geta verið, náum við oftast ekki að tengja sjúkdómseinkenni okkar við þessar eitranir, nema eftir nákvæma sjúkrasögu og athugun og rannsókn á umhverfi á heimili eða á vinnustað.

Margir sjúkdómar eru sannanlega umhverfistengdir og því benda sumir vísindamenn á að tengsl geti verið á milli þeirra og eiturefna sveppagróa. Þessir sjúkdómar eru einkum svokallaðir sjálfsofnæmissjúkdómar og  sjúkdómar þar sem efnaskipti eða hormónabúskapur er ekki eðlilegur.

Í mörgum tilfellum eitrunar verður bæling á ónæmiskerfinu, auk þess sem slímhúð í öndunar– og meltingarvegi verður viðkvæm og bólgin. Þetta getur leitt til þess að sýkingar verða algengari og alvarlegri. Þess utan  geta myglusveppir og gró þeirra vakið ofnæmisviðbrögð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband