Um Þjóðkirkjuna

Margir hafa haldið því fram hér í bloggheimum og víða annars staðar að Þjóðkirkjan á Íslandi sé ríkisskirkja og krefjast aðskilnaðar með látum. Sá aðskilnaður varð reyndar fyrir nokkrum árum og hefur greinilega farið hljóðar en þurft hefði. Þjóðkirkjan á Íslandi er ekki ríkiskirkja heldur rekin með svipuðum hætti og sænska kirkjan, meðan til dæmis sú danska og norska eru hreinar ríkiskirkjur. Þjóðkirkjan er EKKI á fjárlögum nema að því sem nemur afgjaldi af þeim gífurlegu eignum sem kirkjan átti en ríkið hefur tekið til sín í gegnum tíðina. Sem dæmi um slíkar jarðir má nefna allt byggingarland í Garðabæ og land það sem Kárahnjúkavirkjun stendur á. Byggir þetta á samningi milli ríkis og kirkju sem einhverjir hafa viljað rifta en spurningin er hversu mikið það myndi kosta ríkið. Reyndar setur ríkið kirkjunni rammalög sem það setur ekki öðrum trúfélögum og það er til kirkjumálaráðherra sem er kannski meira formsins vegna, enda muna menn sennilega að Björn Bjarnason hefur verið á því að leggja niður þetta embætti. Kirkjan ræður sjálf sínum innri og ytri málefnum en eins og aðrir reynir hún stundum að hafa áhrif á lagasetningu sem snertir hana beint. Ríkið innheimtir öll sóknargjöld fyrir þjóðkirkjuna eins og önnur trúfélög, sem er fyrst og fremst af praktískum ástæðum því innheimtumaður ríkissjóðs á auðveldara með að rukka en formenn hverrar sóknarnefndar eða trúfélags eins og gert var forðum.

Þetta er raunveruleg staða mála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Samband ríkis og kirkju hér kemur glögglega fram í stjórnarskránni.

62. grein Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 17:41

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Breyta má þessu með lögum.

Markús frá Djúpalæk, 1.11.2007 kl. 17:46

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Fjárveitingar til helstu verkefna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins samkvæmt fjárlögum 2007 eru eftirfarandi:

Löggæslustofnanir og öryggismál8.570 41,2% Kirkjumál4.906 23,6% Sýslumenn3.974 19,1% Dómsmál1.528 7,3% Fangelsismál1.036 5,0% Ráðuneyti802 3,9% Samtals20.815100%

http://www.rikiskassinn.is/verkefni-rikisins/raduneyti/nr/5317

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 17:46

4 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Þarna er um að ræða þetta afgjald af kirkjujörðum sem ég nefndi í pistli mínum.

Markús frá Djúpalæk, 1.11.2007 kl. 17:47

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Já, breyta má þessu með lögum en þjóðkirkjan er sem sagt gildur aðili á fjárlögum og tryggilega samansúrruð við ríkið.

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 17:48

6 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Afgjaldið mun vera um 1458 milljónir og innheimt sóknargjöld til þjóðkirkjunnar um 1836 milljónir.

Markús frá Djúpalæk, 1.11.2007 kl. 17:50

7 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Hún er ekki ríkiskirkja í þeirri merkingu að hún sé ríkisrekin. Þar er mikill munur á. Rétt þarf að vera rétt, hvaða skoðun sem menn hafa á kirkjunni annars. Auðvitað koma þau gjöld sem innheimt eru fyrir kirkjuna og aðra söfnuði fram á fjárlögum, annað væri óeðlilegt. Afgjaldið kemur auðvitað líka fram á fjárlögum því ríkið þarf að gera grein fyrir hvað verður um allar þær milljónir sem í það fara. Á móti hefur ríkið full afnot þeirra jarða sem áður voru í eigu kirkjunnar.

Markús frá Djúpalæk, 1.11.2007 kl. 17:53

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Sem er svo sem skiljanlegt frá sjónarhóli sannkristinna stjórnmálamanna eins og td. núverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, sem hefur látið hafa eftir sér að hann telji ekkert athugavert við að stjórnmálamenn hafi samráð við einhverjar óskýranlegar "verur" möö. raddir í eigin hausum. Að sjálfsögðu eru hugmyndir téðra stjórnmálamanna og annarra bússara um lýðræðið á reiki eftir því enda hefur enginn kosið þessar verur til eins eða neins í því sambandi.

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 17:56

9 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Þessu náði ég ekki alveg - en kannski hefur einhver þessarra vera hvatt ráðherra til að leggja niður kirkjumálaráðuneytið.

Markús frá Djúpalæk, 1.11.2007 kl. 18:03

10 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Markús, mér finnst þetta aðallega vera spurning um orðalag. Stjórnarskráin segir um þjóðkirkju (ríkiskirkju) að ræða. Þessi tegund átrúnaðar (eitt af ótalmörgum afbrigðum kristninnar) hefur því forgang umfram annan. Það er í sjálfu sér óeðlileg mismunun en hins vegar er út í hött að púkka upp á ótal trúfélög í kringum hina ýmsu guði og fjölmörg afbrigði af sumum þeirra. Þetta nær engri átt. Ef á annað borð er til einhver guð sem getur gefið tilveru sína mönnum til kynna sem sönnun fyrir tilvist sinni, nú þá væri auðvitað ekki þessi endalausi hringlandi og klofningur.

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 18:32

11 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Markús, mér finnst það sýna skaðsemi trúarbragða í hnotskurn þegar stjórnmálamenn leyfa sér að skjóta sér á bak við þennan margfræga guð og reyna þannig að gera hann samsekan sér og slá þannig ryki í augu þeirra sem trúaðir eru. Við þekkjum söguleg dæmi þessa og þau sum glæný eins og þegar Búss segist hafa orðið forseti eftir fyrirmælum í hausnum á sér og hann segist líka hafa ráðist á Írak og al-queida eftir skipunum frá guði (og pyndað fólk og strádrepið og stolið olíunni þess, væntanlega þá líka eftir forskrift að ofan) og fleira mætti tína til. Auðvitað er það alþekkt að fjölda- og raðmorðingjar og aðrir síkópatar kenni guði um sín illvirki og Búss fylgir langri hefð í þeim efnum.

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 18:38

12 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Nei í raun er þetta spurning um praxis. Þjóðkirkja er ekki það sama og ríkiskirkja, því þjóðin getur átt sér kirkju án þess að hún sé rekin af ríkissjóði. Þannig er staðan í dag og hefur verið í hátt í áratug. Ástæða fyrir þessarri færslu er ekki af trúarlegum toga, heldur til þess að benda á það að þegar hefur verið framkvæmt það sem allir eru að heimta, aðskilnað ríkis og kirkju. Eðlilega er ríkið að borga kirkjunni það sem hún á hjá ríkinu í formi afgjalds af jörðum, nákvæmlega hið sama og ég myndi vilja fá hefði ríkið sölsað undir sig mína eign. Svo er hitt allt önnur spurning hvaða trú menn vilja iðka og annað eftir því. En stjórnarskrárákvæðið sem þú nefndir í upphafi þýðir raunverulega aðeins það að höfundar stjórnarskrárinnar töldu réttast að þjóðin játaði evangelísk lúterska trú. Þeir höfðu þó þá framsýni að nefna jafnframt að því mætti þó breyta.

Markús frá Djúpalæk, 1.11.2007 kl. 18:39

13 Smámynd: Baldur Fjölnisson

En auðvitað snýst þetta um peninga og völd þegar öllu er á botninn hvolft. Þannig er fjallað um bænir í um 500 versum biblíunnar, trú í innan við 500 versum en yfir 2000 vers hafa með peninga og eignir að gera. Þurfið þér frekar vitnanna við?

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 18:43

14 Smámynd: Baldur Fjölnisson

OK Markús, en ég set smá spurningamerki við að "sölsa undir sig" þar sem kirkjan eignaðist jú þessar eignir með ýmsum hætti og meðölum og hinn illi skálkur Jón Arason var sérlega gráðugur að því leyti.

Baldur Fjölnisson, 1.11.2007 kl. 18:47

15 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Alveg rétt, en breytir ekki því að kirkjan er ekki á fjárlögum sem sérstök stofnun sem þiggur greiðslur frá ríkinu.

Markús frá Djúpalæk, 1.11.2007 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband