Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Fávitar

UmferðAfsakið orðbragðið en þetta er bara það fyrsta sem mér datt í hug eftir hremmingar morgunsins.

Við fórum í IKEA verzlunina risavöxnu í morgun, og lögðum bílnum í bílastæði nærri byggingunni. Þetta stæði var sérvalið vegna þess að öðru megin var kantur og engin hætta á bíl þeim megin, og þar af leiðandi hægt að leggja býsna fjarri bílnum hinu megin, sem ég og gerði. Þeim megin stóð gamall vínrauður Mercedes Benz E, og vegna þess hversu langt hann var frá okkar bíl tók ég ekki niður númerið á honum. Fjarlægðin dugði þó ekki til þess að vernda Avensisinn því þegar við komum út eftir rúmlega klukkustundar rölt um óravíddir IKEA var komin stór hurðaopnunar-rispa í vinstri afturhurðina á bílnum! Stór rispa en sem betur fer ekki beygla. Það er alveg gersamlega óþolandi að fólk skuli ekki geta gengið inn í druslurnar sínar án þess að skemma næsta bíl, og þessum fávita sem gerði þetta til upplýsingar kostar um það bil 30-40 þúsund krónur íslenskar að laga það sem tók hann sekúndubrot að skemma!! Það veit ég því ég er nýbúinn að punga þeirri upphæð út fyrir viðgerð á sömu hliðinni. Dýr Ikea ferð það. Best bara að kaupa sér gamla druslu og hætta að spá í þetta.

Nú, en töfrum reykvískrar umferðar var hvergi nærri lokið, því næst lá leiðin í BYKO í Breiddinni. Þar er fremur þröngt bílastæði miðað við umfang verslunarinnar. Ég stoppaði í götunni sem liggur fyrir ofan verslunina og gaf stefnuljós inn á planið því þar voru tveir bílar að fara úr stæðum, og örlitlar tafir af þeim sökum. Við slíkar aðstæður þýðir ekkert annað en að bíða því ekki þýðir að troðast inn á milli, skilar engu. En hvað gerðist? Jú ökumaður bílsins fyrir aftan mig, sem var á grænum, gömlum Toyota RAV4 ruddist framhjá mér, þó hann hlyti að sjá að ég var með blikkandi stefnuljós til vinstri. Það þarf ekki að spyrja hvernig hefði farið ef ég hefði beygt um leið og þessi fáráðlingur ákvað að bruna framhjá og hver hefði þá verið í rétti? Ha? Ha? Ef þú ert að lesa þetta, ökuníðingurinn á Ravinum, þá skaltu vita að þetta er ekki eðlileg hegðun í umferðinni! Og ekki gott uppeldislega fyrir dóttur þína sem sat í aftursætinu. Langt í frá. 

Þessi tvö dæmi eru bara örlítið brot af því sem er að gerast í umferðinni í borginni á hverri mínútu, hverjum klukkutíma, allan sólarhringinn.  Dæmin eru mýmörg og það hafa örugglega allir einhvern tíma lent í einhverju fáránlegu, pirrandi eða stórhættulegu í umferðinni. Það er stundum bara heppni að komast í gegnum daginn.

Tökum okkur á! Plís.


Mögnuð mynd!

GuðnyHalldórsdottirÉg er sammála kvikmyndagagnrýnanda Morgunblaðsins í flestu. Þarna er á ferðinni mjög áhugaverð mynd, með merkilegan og reyndar magnaðan söguþráð sem mun að einhverju leyti byggður á  reynslu Guðnýjar sjálfrar. Þarna er vakin athygli á málum sem enn grassera í þjóðfélaginu, sifjaspellum, illri meðferð á börnum, upplognum sakargiftum og fleiru og fleiru og fleiru. Sláandi saga. Framvindan er góð, persónur vel skapaðar og trúverðugar flestar, andrúmsloft og umhverfi magnað og tekst vel að skapa tíðaranda hippatímans. Að minnsta kosti að því litla sem ég man þann tíma. Ég fékk smá flassbakk í það minnsta. Það hefði líka verið töff að tölvugera Hallgrímskirkju hálfbyggða í því eina atriði sem hún sást, en kannski of dýrt. Og þá komum við að því eina sem truflaði mig. Ef ég er ekki farinn að þjást af sjóntruflunum og heyrnarskerðingu var eitthvað flökt í lýsingu og stundum heyrði ég ekki hvað leikarar sögðu, reyndar mjög sjaldan, en því miður einu sinni á ögurstundu. Annað fannst mér nú ekki að.  Tónlistin var yfirleitt mjög góð, reyndar á köflum örlítið yfirgnæfandi en mjög flott.

Og þá kemur að því jákvæðasta: Leikararnir voru frábærir. Hvert einasta hlutverk stórvel skipað og allir mjög sannfærandi í sínu. Alveg sama hvort um þrautþjálfaða eða nýgræðinga var að ræða, flott frammistaða hjá öllum.

Mér finnst að þeir sem að þessarri mynd standa eigi klappið fyllilega skilið.

Ég get ekki annað en mælt með að allir sem á annað borð fara einhvern tímann í bíó geri það, og jafnvel þeir sem sjaldan fara, því þetta er ein af þeim myndum sem snertir við manni, skilur eitthvað eftir þegar út úr myrkvuðum salnum er komið og heldur áfram að valda manni vangaveltum lengi á eftir.


mbl.is Klappað þar til ljósin voru kveikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki ástæðan?

Alltaf tekst okkur íslendingum að haga okkur eins og villimenn. Það er eins og sumum okkar takist til dæmis aldrei að standast freistinguna að svindla á kerfinu með einum eða öðrum hætti. Um leið og finnst smuga þá er það gert. Kannski er það að sumu leyti vegna þess að ýmis kerfi virðast hygla einum en ekki öðrum og þeir sem ekki fá hyglinguna (er það orð, annars?) reyna allt til að komast í hópinn. Þetta leiðir smám saman til þess að hyglingin verður aflögð eða gerð fáránleg, eins og að þurfa að hafa sérstaka eftirlitsmenn í strætó. Kommon!

Eðlilegast væri að allir fengju frítt í strætó, eða að gjaldtaka fyrir notkun þessarra gulu vina okkar væri þannig að efnahagnum stæði ekki stórhætta af henni.


mbl.is Svindl með strætókort stóreykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljúgum hærra

Ég er einn af mörgum sem fæ alltaf smá beyg fyrir flug og meira að segja stundum flughræðslu og af og til flugskelfingu. Stundum hef ég verið hroðalega illa haldinn og allt að því skelfingu lostinn áður en kemur að því að stíga upp í flugvél. Svo slæm hefur  líðanin endrum og eins orðið að ég hef átt mjög erfitt með að einbeita mér að því sem svo mörgum finnst svo undursamlega skemmtilegt, það er að versla í fríhöfninni fyrir flug. Það skrýtna er að þetta gerist ekki alltaf, bara stundum. En alltaf er smábeygur undirliggjandi.

Ég veit ekki alveg hvað veldur þessu, það er allavega engin staðföst rök að baki þessarri líðan, hún bara sprettur upp, eins og svitinn á enninu á mér. Og hverfur svo um leið og flugvélin sleppir flugbrautinni. Hvað gerist þá? Jú, við tekur flugleiði, skemmtilegt orð. Já það er ekkert voðalega gaman að sitja í þrengslunum í flugvélinni kannski tímunum saman, fylgjast með rápinu á hinum farþegunum, það er eins og allir um borð þurfi að fara á klósettið eða þekki einhvern aftast í vélinni sem nauðsynlega þarf að heimsækja eða öfugt. Síðan koma flugliðarnir í heimsókn sem eru iðulega að reyna að selja manni eitthvað sem á að vera á alveg stórkostlega fínu verði. Svo sér maður yfirleitt ekkert út.

Stundum reyni ég að lesa eitthvað, eða sofna. Svo þegar nálgast lendingu og ég hrekk upp af svefninum eða dett upp úr bókinni tekur beygurinn, hræðslan eða skelfingin völdin aftur og sleppir ekki klónum fyrr en allir eru búnir að klappa fyrir því hvað flugstjórinn er flinkur að lenda. Þá naga ég mig í handarkrikana fyrir að vera svona mikill asni að njóta ekki flugtaks og lendingar betur og heiti mér því að þetta verði öðruvísi næst. Og stundum tekst það því flughræðslan er mismikil.

En ég er ekkert viss um að ég yrði neitt sérlega hress ef ég kæmist að því að flugstjórinn væri á sneplunum.


mbl.is Drukkinn flugstjóri millilenti farþegaþotu á Arlanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gestir í síðdegisútvarpi

KatrínHallÍ dag fékk ég Katrínu Hall, listrænan stjórnanda Íslenska Dansflokksins í heimsókn. Hún sagði okkur undan og ofan af sögu flokksins, starfinu í vetur og þeirri miklu grósku sem er í starfi Íslenska Dansflokksins. Hún sagði frá þeim verkum sem sýnd verða sunnudaginn 9. september næstkomandi og greinilegt að það er mikið um að vera hjá Íslenska dansflokknum sem hefur starfað í 34 ár.

Síðara viðtalið var við hana Þórdísi Tinnu sem hefur vakið mikla athygli fyrir bloggið sitt. Hún hefur þar sagt tæpitungulaust frá veikindum sínum, en hún er að berjast við lungnakrabbamein. Í gær var sendur tölvupóstur á félagsmála- og heilbrigðisráðherra að áeggjan Þórdísar Tinnu og Gíslínu sem líka er bloggari.

Þórdís sagði okkur sögu sína og hversu erfitt það getur verið að berjast við kerfið og blankheitin um leið og berjast þarf við vágestinn sem barið hefur að dyrum, veikindin. Hún segist samt sjálf vera afskaplega lánsöm enda að eigin sögn umvafin öryggisneti góðra vina og fjölskyldu en finnur greinilega til með þeim sem ekki hafa þess konar bakhjarla.

Við sögðum henni frá höfðinglegri gjöf sem henni barst frá einum hlustenda Útvarps Sögu, sem sýnir og sannar hve margt gott fólk er þarna úti sem vill láta gott af sér leiða. Það er frábært að vita til þess.

http://thordistinna.blog.is/blog/thordistinna/


Gamall en ágætur

GolfgrinTwo women were playing golf. One teed off and watched in horror as her ball headed directly toward a foursome of men playing the next hole. The ball hit one of the men. He immediately clasped his hands together at his groin, fell to the ground and proceeded to roll around in agony.
The woman rushed down to the man, and immediately began to apologize, 'Please allow me to help. I'm a physical therapist and I know I could relieve your pain if you'd allow me,' she told him.
'Oh, no, I'll be all right. I'll be fine in a few minutes' the man replied.
He was in obvious agony, lying in the foetal position, still clasping his hands together at his groin. 
At her persistence, however, he finally allowed her to help. She  gently took his hands away and laid them to the side, loosened his pants and put her hands inside. She administered tender and
artful massage for several long moments and asked, 'How does that feel?'
He replied, 'It feels great .....but my thumb still hurts like hell!'

Örugglega skemmtilegra

í franska smábænum Rodez en á Rhodos. Allavega eitthvað færri túristar þar ef að líkum lætur.
mbl.is Afdrifarík stafsetningarvilla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er mælt?

happynationOg hvað er mælt? Fjöldi flatskjáa, nýrra bíla, leðursófasetta og græja af öllum gerðum? Er spurt um ytri, veraldleg gæði eingöngu? Eða er mælt hve miklum tíma við getum varið með börnum okkar og öðrum ástvinum? Hve oft við getum farið í göngutúr í góðu veðri og hve oft er hægt að sitja í sólinni og drekka morgunkaffið? Er mælt hve vel er búið að öldruðum og öryrkjum, veikum börnum og fullorðnum? Er mælt hve oft við getum farið í söfn og kirkjur og bíó og leikhús og á tónleika og hve mikið eða lítið það kostar okkur að fara á slíka staði? Er mælt hve löngum tíma við verjum í vinnunni á hverjum degi og hve mikla eða litla gleði vinnan veitir okkur?

Eða er kannski bara spurt, telurðu lífsgæði þín vera mikil, já eða nei? Og látið þar við sitja.


mbl.is Ísland í öðru sæti á efnahags- og lífsgæðalista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

A selur B sem selur C

Og við stöndum fyrir utan og glápum í forundran á þessa endaleysu.
mbl.is Glitnir kaupir 39,8% í TM á 20 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umfjöllun morgunsins

Í morgunútvarpinu tók ég fyrir málefni aldraðra og öryrkja, einkum í framhaldi af frétt frá í gær um öryrkja sem missir bæturnar sínar í heilt ár vegna of langrar vistunar á sjúkrahúsi. Einnig fjallaði ég um dreifibréfið til heilbrigðis- og félagsmálaráðherra sem bloggarar gengust fyrir að senda í gær. Ég las upp úr bloggfærslunni hennar Þórdísar Tinnu frá 31.ágúst þar sem hún vandaði ráðamönnum ekki kveðjurnar og varð kveikjan að fyrrnefndum dreifipósti. Einnig talaði ég við Sigurstein Másson formann Öryrkjabandalagsins sem var bjartsýnn á úrbætur í meðförum nýrra ráðherra.

Þessi umfjöllun vakti það mikla athygli að í símatíma í þætti Sigurðar G. Tómassonar kl. 9 hringdi fólk og tjáði sig um þetta og vildi gera sitt til að aðstoða Þórdísii Tinnu í veikindum hennar.

Það er mikið af góðu fólki þarna úti, meira um það síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband