Fljúgum hærra

Ég er einn af mörgum sem fæ alltaf smá beyg fyrir flug og meira að segja stundum flughræðslu og af og til flugskelfingu. Stundum hef ég verið hroðalega illa haldinn og allt að því skelfingu lostinn áður en kemur að því að stíga upp í flugvél. Svo slæm hefur  líðanin endrum og eins orðið að ég hef átt mjög erfitt með að einbeita mér að því sem svo mörgum finnst svo undursamlega skemmtilegt, það er að versla í fríhöfninni fyrir flug. Það skrýtna er að þetta gerist ekki alltaf, bara stundum. En alltaf er smábeygur undirliggjandi.

Ég veit ekki alveg hvað veldur þessu, það er allavega engin staðföst rök að baki þessarri líðan, hún bara sprettur upp, eins og svitinn á enninu á mér. Og hverfur svo um leið og flugvélin sleppir flugbrautinni. Hvað gerist þá? Jú, við tekur flugleiði, skemmtilegt orð. Já það er ekkert voðalega gaman að sitja í þrengslunum í flugvélinni kannski tímunum saman, fylgjast með rápinu á hinum farþegunum, það er eins og allir um borð þurfi að fara á klósettið eða þekki einhvern aftast í vélinni sem nauðsynlega þarf að heimsækja eða öfugt. Síðan koma flugliðarnir í heimsókn sem eru iðulega að reyna að selja manni eitthvað sem á að vera á alveg stórkostlega fínu verði. Svo sér maður yfirleitt ekkert út.

Stundum reyni ég að lesa eitthvað, eða sofna. Svo þegar nálgast lendingu og ég hrekk upp af svefninum eða dett upp úr bókinni tekur beygurinn, hræðslan eða skelfingin völdin aftur og sleppir ekki klónum fyrr en allir eru búnir að klappa fyrir því hvað flugstjórinn er flinkur að lenda. Þá naga ég mig í handarkrikana fyrir að vera svona mikill asni að njóta ekki flugtaks og lendingar betur og heiti mér því að þetta verði öðruvísi næst. Og stundum tekst það því flughræðslan er mismikil.

En ég er ekkert viss um að ég yrði neitt sérlega hress ef ég kæmist að því að flugstjórinn væri á sneplunum.


mbl.is Drukkinn flugstjóri millilenti farþegaþotu á Arlanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flughræðsla getur legið í genunu.. og margt sem hægt er að gera í henni..  En þetta er óþægileg tilfinning.. virkilega.. ég er t.d. hrædd við rafmagn.. jam..

Björg F (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 12:42

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég hef orðið flughrædd með aldrinum. 'Eg vil kalla það aukinn þroska . Í hvert skipti sem ég er innanborðs í vél sem tekur á loft upplifi svona súrrealískt móment. Hversu fáránlegar aðstæður eru þetta ekki. Stálklumpur hífur sig frá jörðu og svifur um loftin blá eins og fjöður. Eða þannig. Þetta er náttúrlega fáránlegt. Og með auknum þroska geri ég mér grein fyrir því.

Jóna Á. Gísladóttir, 8.9.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband