"Ósvífnu" forsetaframboðin

Í tilefni þess að nú eru 35 ár síðan Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands datt mér í hug að birta hér þessa ritgerð sem ég kallaði "Ósvífnu forsetaframboðin". Þar er fjallað um fyrirhuguð og framkvæmd framboð gegn sitjandi forsetum íslenska lýðveldisins. 

Svona til gamans má nefna að forsetakosningar fóru fram á sama mánaðardegi, 29. júní árin 1952, 1980 og 1996 og þessu næstum alveg óskylt þá varð Isabel Perón forseti Argentínu eftir lát eiginmanns síns, forsetans Juan Perón þann 29. júní 1974. Hún hafði verið varaforseti bónda síns og sat í embætti fram að herforingjabyltingu 1976. En nóg um það; hér kemur greinin um "ósvífnu forsetaframboðin". 

ForsetarÍslands

Inngangur

Fyrstu almennu forsetakosningarnar á Íslandi fóru fram á vordögum 1952 eftir andlát Sveins Björnssonar fyrsta forseta Íslands. Harðri og óvæginni kosningabaráttu lyktaði með því að Ásgeir Ásgeirsson hlaut kosningu með naumum meirihluta á Bjarna Jónsson vígslubiskup. Framjóðandi stjórnarflokkanna laut í lægra haldi og þó stjórnmálaflokkarnir hafi ekki skipt sér beinlínis af forsetakosningum síðan, hefur orðið til sú kenning að sá eða sú sigri í forsetakosningum sem fjærst þykir standa valdhöfunum.[1] En stenst sú kenning? Á næstu síðum hyggst ég gera grein fyrir framboðum gegn sitjandi forsetum á lýðveldistímanum, jafnt þeim sem urðu að veruleika og nokkrum sem ekki urðu það.  Svo virðist vera sem ekki hafi þótt tilhlýðilegt að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta, slíkt uppátæki sýnist hafa þótt ósvífið og mótframbjóðendurnir álitnir furðufuglar, auk þess sem kostnaður við „óþarfar“ forsetakosningar hefur þótt  mikill. Hvort sem slíkt viðurnefni hafi átt við þá eða ekki virðist sem sú hugdetta ein að skora sitjandi forseta á hólm hafi dugað til að almenningur teldi þá sem það gerðu heldur skrýtna, slíkt framboð væri „[h]ámark ruddamennsku eða dómgreindarleysisins“ eins og Þórlindur Kjartansson hagfræðingur orðaði það árið 2004.[2]

Þrisvar hefur sitjandi forseti þurft að heyja kosningabaráttu, árin 1988, 2004 og 2012. Hugmyndin er að greina viðbrögð almennings og fjölmiðla árið 1988 þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur, og við fyrirhuguðu framboði Snorra Ásmundssonar og framboðum Ástþórs Magnússonar og Baldurs Ágústssonar gegn Ólafi Ragnari Grímssyni árið 2004. Sömuleiðis mun ég stuttlega gera grein fyrir viðbrögðum við tilkynningu Alberts Guðmundssonar um framboð undir lok kjörtímabils Kristjáns Eldjárns og hvernig var brugðist við framboðum sem ekki urðu að veruleika árin 1956 og 1980. Forsetakosningarnar 2012 þar sem Ólafur Ragnar Grímsson atti kappi við fimm frambjóðendur hafa nokkra sérstöðu, þar sem ekki er að sjá að mikill dónaskapur hafi þótt að bjóða sig fram gegn honum þá. Á hinn bóginn lítur út fyrir að farið hafi verið í manngreinarálit, því ekki fengu allir frambjóðendur hlýjar móttökur; þau viðbrögð verða skoðuð.

Framboð Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980 hefur fengið viðurnefnið „fífldjarfa framboðið“, mótframboðin 1988 og 2004 gætu kallast „ósvífnu framboðin“ og of fjarri valdhöfunum til að hljóta náð fyrir augum kjósenda.

Fyrir 1988

Frá öndverðu hefur verið litið á embætti forseta sem afar virðulegt, jafnt sem mikilvægt. Sú niðurstaða að forseti skyldi verða þjóðkjörinn gæti gefið til kynna að hvaða Íslendingur sem væri, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, gæti boðið sig fram til að gegna þessu æðsta embætti ríkisins. Ef betur er að gáð virðist raunin ekki vera sú. Í hvert sinn er forseti hefur tilkynnt embættislok sín hafa bollaleggingar um hugsanlegan eftirmann fljótlega hafist. Yfirleitt hafa þá nöfn fyrirfólks í samfélaginu verið nefnd, þeirra sem framarlega hafa verið í stjórnmálum, stjórnsýslu, viðskiptum, menningu og listum. Fyrir forsetakosningarnar 2012 velti Sigríður Dögg Auðunsdóttir fyrir sér hvaða eiginleikum góður forsetaframbjóðandi þyrfti að vera gæddur. Niðurstaðan var sú að hann þyrfti að vera vel menntaður, með framtíðarsýn, tala erlend tungumál og vera lífsreyndur heimsborgari sem kynni að taka mótlæti jafnt sem meðbyr.  Síðast en ekki síst þyrfti hann að hafa það sem nefnt hefur verið kjörþokki.[3] Sjaldgæft er að óbreytt alþýðufólk hafi komist á blað yfir mögulega forsetaframbjóðendur, og dytti því í hug að impra á mögulegu framboði hafa viðbrögð orðið hörð.

ForsetarPetur_HoffmannPétur Hoffmann Salómonsson var einn af þeim sem settu mark mark á lífið í Reykjavík um miðbik 20. aldar. Hann sást oft ganga prúðbúinn um götur borgarinnar þar sem hann spjallaði við hvern þann sem hlusta vildi. Hann var sagður hafa lifað mjög ævintýralegu lífi, á að hafa slegist við nokkra bandaríska hermenn á heimaslóðum sínum í Selsvör og haft mikinn sigur. Sömuleiðis lét hann slá mynt með eigin mynd, átti að kunna Íslendingasögurnar utan að og skrifaði sjálfur talsvert.[4] Hann gaf m.a. út lítinn bækling sem hann kallaði Smádjöflar: liðið ofsótti mig, en smádjöflar unnu á mér þar sem hann lýsti hvernig hann hefði hugsað sér að bjóða sig fram gegn Ásgeiri Ásgeirssyni forseta árið 1956, einkum vegna vonbrigða með embættisfærslur hans. Pétur hélt því fram að margir málsmetandi menn, embættismenn sem aðrir hefðu gengið hver undir annars hönd að hræða hann frá framboði.[5] Sé eitthvað sannleikskorn í orðum Péturs eru viðbrögðin keimlík því sem síðar gerðist þegar venjulegir, óþekktir og stundum svolítið sérstakir borgarar hugðust bjóða sig fram til embætti forseta Íslands.

Fyrir forsetakosningarnar árið 1980 mætti ætla að  dálkahöfundur Mánudagsblaðsins óttaðist að það gæti orðið mannskemmandi í framtíðinni að bjóða sig fram til forseta, því óvirðuleg „aukaframboð“ undanfarið hefðu gert kosningar til embættisins að aðhlátursefni.[6] Ekki er ólíklegt að þarna sé vísað til framboðs Rögnvaldar Pálssonar málarameistara, sem þó neyddist til að hætta við framboð.

Í ágústbyrjun 1979 sagðist Albert Guðmundsson alþingismaður ákveðinn í að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands, með fyrirvara um að Kristján Eldjárn gæfi ekki kost á sér en hann hafði þá ekki gefið afgerandi svar um áframhaldandi setu sína. Mörgum þótti alþingismaðurinn of fljótur til og sýna Kristjáni og forsetaembættinu vanvirðingu með yfirlýsingagleði sinni. Einari Karli Haraldssyni öðrum ritstjóra Þjóðviljans fannst fréttaflutningur Dagblaðisins smekklaus og að stjórnmálamaðurinn Albert myndi tapa vinsældum og fylgi með því að gefa Kristjáni ekki tóm til að taka ákvörðun um áframhaldandi setu í embætti.[7] Þegar leið á haustið án þess að forseti tjáði hug sinn um framhaldið var að sjá að Albert sjálfur og stuðningsmenn hans teldu líklegt að þeir héldu framboði sínu til streitu hvaða ákvörðun sem Kristján tæki.[8] Við það kom upp eitt þeirra áhyggjuefna sem iðulega hefur verið nefnt síðan, þegar mótframboð hefur komið gegn sitjandi forseta; kostnaðurinn. Haustið 1979 snerust þær  vangaveltur ekki um kostnaðinn við kosningar heldur um að hvetja Kristján til áframhaldandi setu, því þó Albert byði sig fram gegn honum væru möguleikar hans á sigri taldir svo hverfandi að ríkið þyrfti aðeins að greiða einum forseta laun.[9] Í því felst þó sú rökvilla að í raun gæti forseti ekki látið af embætti nema við andlát sitt til að spara ríkissjóði fé.

Þótt snemmbúin yfirlýsing um Alberts Guðmundssonar um framboð hafi þótt ósmekkleg og dónaleg er ekki að sjá að hann hafi í raun ekki verið talinn eiga erindi í framboð, enda „málsmetandi“ maður, landsþekktur og fremur vinsæll stjórnmálamaður.  Kristján Eldjárn tilkynnti ákvörðun sína um að hætta um áramótin 1980 og kosningabarátta fór í hönd.

ForsetarFrambjóðendur1980

Einn þeirra sem tilkynntu um framboð sitt snemma árs 1980 var málarameistari úr Kópavogi, Rögnvaldur G. Pálsson að nafni. Hann hefur fengið þau eftirmæli að hafa verið „stór karakter sem enginn komst hjá að taka eftir“, „.litríkur og skemmtilegur kall“ og „merkileg og sérstök persóna sem setti svip á bæinn“.[10] Líklegt er að allt þetta hafi átt við um Rögnvald sem gaf meðal annars út þau kosningaloforð að hann ætlaði að hætta að veita fálkaorður og taka að selja þær frekar hæstbjóðendum og reisa forsetahöll í Viðey, enda Bessastaðir fulllágreistir fyrir hann.[11] Hann talaði fjálglega um stuðningsmannahóp sinn í fjölmiðlum en virtist svo ætíð vera einn á ferð, við kynningu og atkvæðasmölun. Ekki er annað að sjá en Rögnvaldur hafi fengið sömu tækifæri til að kynna sig í fjölmiðlum og aðrir frambjóðendur en honum gekk illa að sannfæra fólk um að framboð hans væri í fullri alvöru, hann fékk lítið brautargengi í skoðanakönnunum og dró að lokum framboð sitt til baka, að sögn vegna skorts á meðmælendum. Þá sagðist Rögnvaldur ætla að snúa sér að stjórnmálum en byrja á að halda málverkasýningu. Samanburður við Pétur Hoffmann Salómonsson er nokkuð sláandi, báðir voru þeir „kynlegir kvistir“ sem virðast ekki hafa bundið bagga sína sömu böndum og samferðamenn þeirra, t.d. varði Rögnvaldur löngum stundum á seinni hluta ævinnar til að undirskriftasöfnunar gegn þeirri vá sem hann taldi spilakassa vera.[12]

Forsetakosningar 1988

ForsetarSigrúnÞorsteinsdóttirÞað vakti mikla athygli þegar Sigrún Þorsteinsdóttir, sem var meðlimur í húmanistaflokknum Flokki mannsins, ákvað að bjóða sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988. Viðbrögðin voru yfirleitt þau að það væri dónaskapur, hneyksli og fáránlegt að skora farsælan forseta á hólm, auk þess sem kostnaður við „vonlausar kosningar“ væri allt of mikill. Sigrún bauð sig fram til að auka á lýðræði í landinu, vildi virkja forsetaembættið enn frekar og fjölga þjóðaratkvæða-greiðslum.[13] Því var þó haldið fram að framboð hennar væri til að vekja athygli á Flokki mannsins, en að hið „ósvífna framboð“ myndi líklega verða flokknum endanlega að falli.[14] Vigdís forseti vildi lítið hafa sig frammi í kosningabaráttunni, með þeim rökum að þjóðin vissi hvað hún stæði fyrir.[15] Eftir skoðanakönnun í byrjun júní sem sýndi slakt gengi Sigrúnar sagði einn stuðningsmanna Vigdísar að honum „eins og öðrum landsmönnum“ þætti eðlilegt að hún drægi framboð sitt til baka.[16] Andstaða við framboð Sigrúnar virtist vera mikil í samfélaginu, fjöldamargar greinar birtust um ósvífni hennar að bjóða sig fram, um þann óheyrilega kostnað sem af framboðinu hlytist og annað í þeim dúr. Oft var frambjóðandinn dreginn sundur og saman í háði í aðsendum greinum og leiðurum blaða en þrátt fyrir það birtust greinar í blöðum henni til stuðnings. Ragnari Sverrissyni járniðnaðarmanni fannst „út í hött“ að ætla að meta lýðræðið til fjár og Áshildi Jónsdóttur fjölmiðlafulltrúa Sigrúnar fannst lágkúrulegt af fjölmiðlum að saka frambjóðandann um að kosta samfélagið mikla peninga með framboði sínu.[17] Svo fór að sitjandi forseti fékk afgerandi meirihluta atvæða sem túlkað hefur verið sem staðfesting á stöðu hennar sem sameiningartákn.[18] Þá má hafa í huga að við forsetakosningarnar var Vigdís orðin nokkurskonar fulltrúi valdakerfisins, en Sigrún var víðs fjarri því. Kjörsókn var ríflega 72 af hundraði og Sigrún mat niðurstöðuna þannig að þeir sem heima sátu hafi viljað virkari forseta.[19] Sigrún bauð sig fram til að draga fram eðli forsetaembættisins og skyldur hans gagnvart kjósendum sem eini þjóðkjörni embættismaður landsins. Því er ekki nema að hluta rétt það sem Gunnar Helgi Kristinsson, Indriði H. Indriðason og Viktor Orri Valgarðsson héldu fram í grein sinni um forsetakosningarnar 2012 að þær hafi snúist meira um eðli forsetaembættisins en fyrri kosningar.[20]

Forsetakosningar 2004

ForsetarFramboð2004Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands árið 1996. Eftir einhverja hörðustu pólítísku orrahríð sem forseti Íslands hafði lent í, synjun staðfestingar fjölmiðlalaganna árið 2004, buðu tveir menn sig fram gegn sitjandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, „[h]vorugur … þungavigtarmaður“ eins og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur orðaði það í bók sinni Saga af forseta.[21]  Eftir átta ár í forsetastóli þurfti Ólafur að etja kappi að nýju við Ástþór Magnússon sem hafði einmitt fengið á sig svipað orð og Pétur Hoffmann og Rögnvaldur Pálsson, að vera „furðufugl“, til alls líklegur. Ástþór var forvígismaður samtaka sem kölluðu sig Frið 2000, vildi „virkja Bessastaið“ og segist hafa orðið fyrir miklu mótlæti á Íslandi síðan hann stofnaði þau árið 1995.[22] Hann á án efa nokkurn þátt í að skapa sér ímynd hálfgerðs trúðs með atferli sínu, t.d. mætti hann við fyrirtöku í dómssal íklæddur jólasveinabúningi og sagði í kosningabaráttunni 2004 að Ólafur Ragnar Grímsson hegðaði sér eins og krakki.[23] Ástþóri tókst að safna nægilegum fjölda meðmælenda og það tókst einnig kaupsýslumanninum Baldri Ágústssyni sem taldi brýnt að auka á virðingu fyrir forsetaembættinu.[24] Fjórði maðurinn hugðist bjóða sig fram, Snorri Ásmundsson listamaður, sem hætti við framboð sitt á síðustu stundu með þeim orðum að kosningarnar bæru yfirbragð „skrípaleiks og sirkuss“, auk þess sem hann hefði ekki tíma til að standa í því að vera forseti vegna mikilla anna í myndlistarheiminum. Í BA ritgerð í listfræði við Háskóla Íslands staðhæfir Hildur Jörundsdóttir að með framboði sínu hafi Snorri verið að framkvæma listrænan gjörning, sem einhverjir í samfélaginu hafi áttað sig á, en aðrir tekið alvarlega og gagnrýnt virðingarleysi Snorra fyrir forsetaembættinu harðlega.[25]   Snorri hafði fengið mjög lélegar undirtektir í skoðanakönnunum, Ástþór Magnússon galt mikið afhroð í kosningunum og fékk aðeins 1.5% greiddra atkvæða. Baldur virtist frekar ná eyrum kjósenda og fékk tæp 10% meðan sitjandi forseti, fékk 63 af hundraði. „Ólafur Ragnar Grímsson náði vitaskuld endurkjöri en erfitt var að túlka úrslitin honum í vil“skrifaði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur  árið 2010. [26] Ólafur hafði staðið í mikilli orrahríð við ríkisstjórn og alþingi vegna synjunar fjölmiðlalaganna og niðurstaða kosninganna bendir til að meirihluti kjósenda hafi viljað hafa þann mann áfram í embætti sem líklegastur var að standa uppi í hárinu á ríkjandi stjórnvöldum. Ólafur var hæfilega langt frá ríkjandi valdhöfum en ekki má gleyma að kjörsókn var óvenju rýr, tæp 63% og um 21% skilaði auðu.

Forsetakosningar 2012

ForsetarKosningar2012Forsetakosningarnar 2012 hafa þá sérstöðu að sitjandi forseti hafði gefið í skyn í áramótaávarpi sínu að hann hygðist draga sig í hlé. Yfirlýsing forsetans var nógu óljós til að mjög skiptar skoðanir voru um hvort hann hygði á áframhaldandi setu eða ekki. Jón Lárusson, lögreglumaður og sagnfræðingur, tilkynnti í viðtali á Útvarpi Sögu 9. janúar að hann byði sig fram til embættis forseta Íslands „ … að vel ígrunduðu máli“. Viðbrögð við framboði hins nánast óþekkta lögreglumanns létu ekki á sér standa, einstaka fagnaði framboði Jóns en athugasemdir eins og „[h]vaða Dúddi Mæjónes er nú þetta?“ og „[e]r ekkert lengur hægt að gera hér á Íslandi svo sómi sé að?“ sáust á athugasemdakerfum vefmiðla.[27] Athugasemdir sem þessar gætu bent til að tiltölulega óþekktur Íslendingur þyki enn ekki eiga erindi í forsetaframboð. Svo fór að Jón dró framboð sitt til baka, að sögn vegna skorts á meðmælendum og kvaddi með þeim orðum að fjölmiðlar hefðu ekki áliti framboð hans „alvöru“ og 

"Sá tími sem liðinn er frá því að ég gaf kost á mér, hefur opinberað fyrir mér það sem ég í raun taldi mig vita, að þó við viljum meina að við séum öll jöfn, þá eru sumir jafnari en aðrir."[28]

Þessi orð Jóns Lárussonar lýsa vel því viðhorfi sem tiltölulega óþekktir einstaklingar hafa mátt þola þegar þeir hafa reynt að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Sé frambjóðandinn ekki landskunn, málsmetandi manneskja er líklegt að viðkomandi fái þann dóm að vera furðufugl með annarlegar hugmyndir og sé eingöngu að valda ríkissjóði miklum útgjöldum með framhleypninni. Hik forseta að tilkynna framboð kann að hafa aukið umburðarlyndi fjölmiðla og almennings fyrir framboðum gegn honum. Þótt Jón næði ekki tilskyldum meðmælendafjölda tókst algerlega óþekktum Íslendingi búsettum í Noregi það, Hannes Bjarnason fékk um 1% atkvæða að lokum. Andreu J. Ólafsdóttur, sem hafði staðið í mikilli baráttu gegn stjórnvöldum og var nokkuð kunn fyrir störf sín fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, gekk lítið betur en Ólafur Ragnar Grímsson forseti sigraði í kosningunum með um 53% atkvæða að baki.  Var það mun lægra hlutfall en sitjandi forseti hafði áður fengið í kosningum.[29] Forsetinn, sem hafði tvisvar á kjörtímabilinu synjað lögum staðfestingar, hlaut enn brautargengi, líklega vegna þess að hann hafði verið staðfastur í afstöðu sinni og stóð hæfilega fjarri stjórnvöldum. Bloggari nokkur hafði enda fullyrt að framboð gegn Ólafi gæti „rústa[ð] forsetaembættinu í þeirri mynd sem það er í dag til þess að flokkarnir og formenn þeirra haldi þeim völdum sem þeir eitt sinn höfðu.“[30]

Niðurstöður

Framan af lýðveldistímanum virtist útilokað að sitjandi forseti fengi mótframboð. Hugsanlegt er að Pétur Hoffmann Salómonsson, sem ætíð þótti undarlegur í háttum, hafi ætlað að bjóða sig fram gegn Ásgeiri Ásgeirssyni 1956 en að hans sögn komu sterk öfl í veg fyrir það.

Sitjandi forseti hefur þrisvar þurft að berjast fyrir endurkjöri, 1988, 2004 og 2012. Albert Guðmundsson þótti ósvífinn að tilkynna um framboð sitt áður en Kristján Eldjárn hafði opinberlega ákveðið hvað hann hygðist fyrir, árið 1979. Líkast til komst hann upp með ósvífnina vegna þess hve þekktur hann var, enda málsmetandi stjórnmálamaður. Rögnvaldur Pálsson hugðist bjóða sig fram til forseta 1980 en náði ekki tilskyldum fjölda meðmælenda. Hann þótti nokkuð sérstakur í háttum og virtist hafa undarlegar hugmyndir um eðli embættisins og hlutverk. Þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur 1988 fannst fjölmiðlamönnum mörgum, og almenningi hún harla ósvífin að ráðast gegn farsælum forseta og valda samfélaginu kostnaði.

Hvorugur andstæðinga Ólafs Ragnars Grímssonar árið 2004 var álitinn þungavigtarmaður og nokkrir frambjóðenda gegn honum árið 2012 guldu þess að vera ekki nægilega þekktir í samfélaginu. Niðurstaðan er því sú að harla erfitt er enn fyrir meðaljón að bjóða sig fram til embættis forseta, frambjóðandi þarf að hafa náð að sanna sig með einhverjum hætti frammi fyrir alþjóð áður en hann þykir hæfur til framboðs.

Sú kenning að sá eða sú sigri í forsetakosningum sem fjærst þykir standa valdhöfunum stenst að hluta; hún hefur ekki átt við þegar frambjóðandi etur kappi við sitjandi forseta, jafnvel þó sá frambjóðandi sé víðs fjarri valdinu. Árið 1988 er auðsætt að Sigrún Þorsteinsdóttir og hugmyndafræði hennar var of fjarri valdinu til að hljóta brautargengi og Ólafur Ragnar Grímsson hafði í aðdraganda kosninganna 2004 og 2012 verið of einarður í umdeildum málum gagnvart ríkisstjórn landsins til að nokkur gæti raunverulega ógnað stöðu hans.

Heimildir:

[1] Guðni Th. Jóhannesson: Gunnar Thoroddsen. Ævisaga, (Reykjavík 2010), bls. 248.

[2] Þórlindur Kjartansson: „Forsetinn þarf mótframboð“, Vefritið Deiglan, 2. janúar 2008, http://www.deiglan.com/index.php?itemid=11675, (skoðað 15. okt. 2013).  

[3] Sigríður Dögg Auðunsdóttir: „Landsmóðirin gegn forsetanum“, Fréttatíminn, 22. júní 2012,  http://www.frettatiminn.is/daegurmal/landsmodirin_gegn_forsetanum/ , (skoðað 7. desember 2013).

[4] „Pétur Hoffmann Salómonsson látinn“, Morgunblaðið, 21. október 1980, bls. 3. 

[5] Sjá: Pétur Hoffmann Salómonsson: Smádjöflar: liðið ofsótti mig, en smádjöflar unnu á mér, (Reykjavík 1960).

[6] „Aukaframboð“, Mánudagsblaðið, 26. maí 1980, bls. 8.

[7] „Klippt og skorið“, Þjóðviljinn, 25. september 1979, bls. 4.

[8] „Forsetaframboðið: Albert kominn af stað og ekki aftur snúið“, Dagblaðið, 20. september 1979, bls. 1.

[9] „Orðspor“, Frjáls verslun, 7. tbl. 38. árg (1979), bls. 15.

[10] „Grandvar“: „Forsetaframbjóðandi látinn“, Málefnin.com, 23. september 2007, http://www.malefnin.com/ib/index.php?showtopic=101475, (skoðað 14. okt. 2013).

[11] „Vikan kynnir forsetaframbjóðendur: Rögnvaldur G. Pálsson.“, Vikan 14. tbl.(1980), bls. 23.

[12] „Finnst þér rétt að Háskólinn hafi tekjur af spilakössum?“, Stúdentablaðið, 8. tbl., 67. árg. (1995), bls. 14.

[13] Páll Valsson: Vigdís. Kona verður forseti, (Reykjavík 2009), bls. 365-366.

[14] Ómar Friðriksson: „Forsetakosningar 1988: Um hvað er kosið?“, Alþýðublaðið, 24. júní 1988, bls. 4.

[15] Vigdís. Kona verður forseti, bls.366.

[16] „Árni Guðjónsson: Sigrún dragi framboð sitt til baka“, Dagblaðið Vísir, 7. júní 1988, bls. 40.

[17] Sjá Ragnar Sverrisson: „Ósvífið forsetaframboð“, Kjallaragrein í DV  20.  júní 1988 og „Ekki þekkst áður að rætt sé um kostnað kosninga“, Dagblaðið Vísir, 18. maí 1988, bls. 2.

[18] Vigdís. Kona verður forseti, bls. 367.

[19] „ „Þeir sem sátu heima vilja virkari forseta“  - segir Sigrún Þorsteinsdóttir að loknum kosningum.“, Morgunblaðið, 28. júní 1988, bls. 4.

[20] Gunnar Helgi Kristinsson, Indriði H. Indriðason og Viktor Orri Valgarðsson, „Hvað voru kjósendur að hugsa? Forsetakosningar á Íslandi 2012“, Stjórnmál og stjórnsýsla 8/2 (2012), bls. 221−244,  hér bls. 222 og 226. http://www.stjornmalogstjornsysla.is/wp-content/uploads/2012/12/a.2012.8.2.2.pdf.

[21] Guðjón Friðriksson: Saga af forseta. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Útrás, athafnir, átök og einkamál, (Reykjavík 2008), bls. 343.

[22] „Ástþór Magnússon Wium“, Virkjum Bessastaði, http://lydveldi.blog.is/blog/lydveldi/about/, (skoðað 30. nóvember 2013).

[23] „Ástþór Magnússon reyndi ítrekað að ná tali af forseta Íslands. Vill ræða við forseta um fjölmiðlalögin“, Morgunblaðið, 9. júní 2004, bls. 4.

[24] „Forsetakosningar 2004“, www.landsmenn.is, http://www.landsmal.is/index.php?id=21&activemenu=21, (skoðað 30. nóvember 2013).

[25] Hildur Jörundsdóttir, Pólítísk framboð Snorra Ásmundssonar sem gjörningar. Greining og túlkun á framboðunum með tilliti til viðtökusögu almennings og fræðimanna, BA-ritgerð í listfræði við HÍ (janúar 2011), bls. 16-18.

[26] Guðni Th. Jóhannesson: „Bylting á Bessastöðum“, Skírnir 184 (vor 2010), bls. 61−99 (hér bls. 64). 

[27] Sjá: „Jón vill forsetaembættið: Vill færa valdið til fólksins. „Almenningur hefur valdið“.“, dv.is, 9. janúar 2012, http://www.dv.is/frettir/2012/1/9/jon-vill-forsetaembaettid-vill-faera-valdid-til-folksins/, (skoðað 29. nóvember 2013).

[28] Sjá: „Slæm vika fyrir Jón Lárusson lögreglumann á Selfossi. Sumir jafnari en aðrir“, Fréttatíminn 18. maí 2013, bls. 32.

[29]„Hvað voru kjósendur að hugsa? Forsetakosningar á Íslandi 2012“, hér bls. 225.

[30] Friðrik Hansen Guðmundsson: „Mótframboðum gegn forsetanum er ætlað að rústa embættinu í núverandi mynd.“, Friðrik Hansen Guðmundsson á blog.is, 16. júní 2012, http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/1245248/, (skoðað 15. okt. 2013).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fínt yfirlit, Markús, hef nú lesið drjúgan part af því. Þú átt eftir að bæta við þetta framboði Þóru Arnórsdóttur -- og áhrifum Icesave-málsins.

Jón Valur Jensson, 29.6.2015 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband