Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verði þinn vilji

Fyrir austan Þingvallakirkju er Þjóðargrafreiturinn, hringlaga mannvirki úr hraungrýti, sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson. Mín skoðun er sú að Robert Fischer hafi ekki gert það fyrir íslenzku þjóðina sem þessir tveir gerðu, auðvitað er hann andlegt stórmenni líkt og þeir, en mér finnst nú þurfa meira til en að hafa búið á Íslandi í 3 ár og hafa verið nokkuð flinkur að tefla til að komast að innan um þá andans mógúla. Þeir tveir sem þarna hvíla vildu Íslandi allt! Þó að Fischer hafi átt hér góða vini er ég ekkert viss um að hann hafi endilega lifað eftir þeim einkunnarorðum. Hann hefur bara verið feginn að fá hér skjól undan heimsins áþján, áþján sem hann skapaði sér mikið til sjálfur með ótrúlega bilaðri framkomu og orðum, á stundum. 

Þegar verið var að undirbúa einvígi aldarinnar sem fram fór í Reykjavík 1972, þá vildi Fischer að það færi fram í Júgóslavíu en andstæðingur hans Spassky vildi að það færi fram hér. Um tíma var jafnvel talað um að halda það á báðum stöðum. Svo fór þó ekki.

Mig minnir líka að ég hafi lesið það einhvern tíma að Fischer vildi verða lagður til hvílu í hvítu marmaragrafhýsi, þannig að hann langar sennilega ekkert að vera skilinn eftir á Þingvöllum. Væri ekki nær að fara að óskum hins látna og útbúa (á kostnað dánarbúsins) hugglegt grafhýsi fyrir hann? Kannski er hægt að finna lausan blett í Suðurgötukirkjugarðinum, og ef ekki, eru nú til fleiri gullfallegir kirkjugarðar á Íslandi.


mbl.is Fischer grafinn á Þingvöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnin er fundin!

Eða fyndin 

NASA var að taka viðtöl við fók sem átti að senda til Mars. 
Aðeins mögulegt var að senda einn einstakling en sá hængur var á að 
hann gæti ekki snúið aftur til jarðar.

Fyrsti viðmælandinn var Geir H Haarde. Aðspurður hvað hann myndi vilja fá 
borgað fyrir að fara í þessa ferð svaraði hann ,,Eina milljón dollara” og bætti við: ,,ég mun láta féð renna til Háskólanna á Íslandi”. Svo brosti hann eins og Geir einum er lagið.

Næsti viðmælandi,Ingibjörg Sólrún, var spurð sömu spurningar. Hún bað um 
tvær milljónir dollara. ,,Ég vil láta fjölskyldu mína fá eina milljón og gefa 
hina til framþróunar í kvennafræðum”.

Síðasti viðmælandinn var Guðni Ágústsson. Þegar hann var spurður hversu 
mikið hann vildi fyrir viðvikið, hvíslaði hann í eyra 
viðmælandans: ,,Þrjár milljónir dollara”.  ,,Hvers vegna viltu miklu meira en 
hinir???”, spurði viðmælandinn.

Guðni svaraði svaraði um hæl: ,,Ef þú lætur mig fá 3 milljónir, mun 
ég láta þig fá eina milljón, ég held einni sjálfur og við sendum 
Geir.”


mbl.is Guðni: Forsætisráðherra er daufur og sinnulaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fávitar

UmferðAfsakið orðbragðið en þetta er bara það fyrsta sem mér datt í hug eftir hremmingar morgunsins.

Við fórum í IKEA verzlunina risavöxnu í morgun, og lögðum bílnum í bílastæði nærri byggingunni. Þetta stæði var sérvalið vegna þess að öðru megin var kantur og engin hætta á bíl þeim megin, og þar af leiðandi hægt að leggja býsna fjarri bílnum hinu megin, sem ég og gerði. Þeim megin stóð gamall vínrauður Mercedes Benz E, og vegna þess hversu langt hann var frá okkar bíl tók ég ekki niður númerið á honum. Fjarlægðin dugði þó ekki til þess að vernda Avensisinn því þegar við komum út eftir rúmlega klukkustundar rölt um óravíddir IKEA var komin stór hurðaopnunar-rispa í vinstri afturhurðina á bílnum! Stór rispa en sem betur fer ekki beygla. Það er alveg gersamlega óþolandi að fólk skuli ekki geta gengið inn í druslurnar sínar án þess að skemma næsta bíl, og þessum fávita sem gerði þetta til upplýsingar kostar um það bil 30-40 þúsund krónur íslenskar að laga það sem tók hann sekúndubrot að skemma!! Það veit ég því ég er nýbúinn að punga þeirri upphæð út fyrir viðgerð á sömu hliðinni. Dýr Ikea ferð það. Best bara að kaupa sér gamla druslu og hætta að spá í þetta.

Nú, en töfrum reykvískrar umferðar var hvergi nærri lokið, því næst lá leiðin í BYKO í Breiddinni. Þar er fremur þröngt bílastæði miðað við umfang verslunarinnar. Ég stoppaði í götunni sem liggur fyrir ofan verslunina og gaf stefnuljós inn á planið því þar voru tveir bílar að fara úr stæðum, og örlitlar tafir af þeim sökum. Við slíkar aðstæður þýðir ekkert annað en að bíða því ekki þýðir að troðast inn á milli, skilar engu. En hvað gerðist? Jú ökumaður bílsins fyrir aftan mig, sem var á grænum, gömlum Toyota RAV4 ruddist framhjá mér, þó hann hlyti að sjá að ég var með blikkandi stefnuljós til vinstri. Það þarf ekki að spyrja hvernig hefði farið ef ég hefði beygt um leið og þessi fáráðlingur ákvað að bruna framhjá og hver hefði þá verið í rétti? Ha? Ha? Ef þú ert að lesa þetta, ökuníðingurinn á Ravinum, þá skaltu vita að þetta er ekki eðlileg hegðun í umferðinni! Og ekki gott uppeldislega fyrir dóttur þína sem sat í aftursætinu. Langt í frá. 

Þessi tvö dæmi eru bara örlítið brot af því sem er að gerast í umferðinni í borginni á hverri mínútu, hverjum klukkutíma, allan sólarhringinn.  Dæmin eru mýmörg og það hafa örugglega allir einhvern tíma lent í einhverju fáránlegu, pirrandi eða stórhættulegu í umferðinni. Það er stundum bara heppni að komast í gegnum daginn.

Tökum okkur á! Plís.


Einelti

Einelti í allri sinni mynd er eitthvað það versta sem mannskepnan hefur látið sér detta til hugar að framkvæma. Kannski hugsa þeir sem stunda það bara alls ekki neitt. Þeir hugsa án efa ekki um afleiðingarnar sem eineltið hefur fyrir þolandann. - Stundum fer allt vel og þolandinn stendur uppi sem sterkari manneskja fyrir vikið. Því miður verður hitt oftar uppi á teningnum  að út úr eineltinu komi brotin manneskja með skerta sjálfsmynd og sjálfstraust. Þess vegna verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn einelti í hvaða mynd sem það kann að birtast, og gæta okkur á því að taka alls ekki þátt í því, þó það virðist saklaust meðan á því stendur. Mér var sendur þessi litli texti eftir Magnús Þór Sigmundsson, falleg vísa sem í einfaldleik sínum færir okkur inn í heim þess sem orðið hefur fórnarlamb eineltis. Ég ætla að stelast til að birta hann hér:

Upp á nýttSkólinn – kennarinn,Kvíðin – geng ég inn.Taskan – þung sem blý,Ókunn – enn á ný. Allra augu á mig staramig langar til að hlaupa – fara, aftur þangað sem ég átti heima en ég verð að gleyma – byrja alveg upp á nýtt.Hér veit enginn – hve mér var strítt. Feimin – við eigin rödd, dreymin – hvar er ég stödd – Hjartað – ótt og títt,hamast – allt er nýtt. Allra augu á mig stara...... Ég sit og veit af mér við þetta borðsamt er ég ekki hér – ekki við,heyri’ekki orðsvo utan við mig. Allra augu á mig stara...... En mér líður betur því er ekki að leyna,því hér er ekkert sem ég vil gleyma,allt svo nýtt – mér er ekki strítt – og við næsta borð er sætur strákur – sem brosir blítt.Ég ætla’að byrja upp á nýtt. 


Áhyggjur

..af heilsufari 81 árs gamals þjóðar"leiðtoga" sem í rúma fjóra áratugi hefur séð til þess að þjóð hans þróist ekkert til nútímasamfélags eru að mínu mati óþarfar. Best hefði verið fyrir kúbverja að losna við kallinn fyrir löngu! Lýsingar manns sem heimsótti hina raunverulegu Kúbu voru vægast sagt óhugnanlegar. Öll þjónusta í lágmarki, tómar verslanir (þökk sé verslunarbanni Bandaríkjamanna), flest sjálfsögð mannréttindi bönnuð (til dæmis þarf leyfi ríkisins til að eiga tölvu og nota hana), launin þannig að fólk hefur meira upp úr því að selja vindla á götuhornum en starfa sem læknar, lögfræðingar eða kennarar. Það sem gerist í svona samfélagi að öll framþróun og vilji til hennar hverfur, áhuginn er enginn því "leiðtoginn" heldur öllu niðri. Með járnaga. Þrátt fyrir að okkur vesturlandabúum finnist Castro krúttlegur kall, með sítt skegg og vindil held ég að tilfinningar hins almenna kúbverja til hans séu eitthvað annars konar. Jafnvel þó hann hafi verið duglegur að gefa skít í Ameríku.

Við skulum bara vona að  eftirmaður hans, hvort sem það verður Raul bróðir eða einhver annar, sjái til þess að almenn mannréttindi verði tekin upp á Kúbu. Við skulum líka vona að stóri bróðir í Ameríku sjái líka að sér og aflétti verslunar og hafnbönnum af. Þá fer kúberjum kannski að líða eins og fólki og kannski verður hægt að fara og sjá hina raunverulegu Kúbu án þess að fá verk í sálina á eftir.


mbl.is Orðrómur um að Kastró sé allur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband