Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Ég hélt þeir væru grænir með fálmara

0marsbúiVísindamenn hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA velta nú vöngum yfir mynd sem eitt af geimförum þeirra sendi til jarðar frá Mars. Mars-bílarnir Opportunity og Spirit hafa ekið um yfirborð plánetunnar síðan í apríl árið 2004.

 Í árslok sendi annar þeirra til jarðar mynd sem sýnist vera af einhverri lifandi veru á gangi um yfirborð plánetunnar.

Vísindamennirnir liggja nú yfir myndinni til þess að reyna að skera úr um hvort þetta sé skuggi, steinmyndun....eða hvort þarna sé í raun Marsbúi á ferðinni.


Skemmtileg mismæli

0MaoStundum getur fólki vafist svo óskaplega tunga um höfuð:

- Það er ekki hundur í hettunni (það er ekki hundrað í hættunni)
- Það er ljóst hver ríður rækjum hér (það er ljóst hver ræður ríkjum hér)
- Þetta er nú ekki upp í kött á nesi (... ekki upp í nös á ketti)
- Mér er nú ekkert að landbúnaði
- Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis
- Þessi peysa er mjög lauslát!
- Þau eiga þvílíka myllu, lifa eins og greifingjar og leika á alls eggi (geri aðrir betur)
- Hann sló tvær flugur í sama höfuðið
- ... þarna hefði ég sko viljað vera dauð fluga á vegg
- Ég sá svo sætan strák að ég fór alveg fram hjá mér
- Ég var svo þreyttur að ég henti mér undir rúm
- Hann sat bara eftir með súrt eplið
- Svo lengist lærið sem lífið (lærir svo lengi sem lifir)
- Og nú, góðir farþegar, er einmitt fengitími melóna! (uppskerutími)
- Ég hreinlega vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að setjast
- Þar stóð hundurinn í kúnni (þar lá hundurinn grafinn / þar stóð hnífurinn í kúnni)
- Maður fer í bæinn til að sjá sig og sýna aðra
- Svo handflettir maður rjúpurnar (hamflettir)
- Já, fólk núorðið er svo loðið á milli lappanna
- Ég sagði honum þegjandi þörfina (hugsaði honum þegjandi þörfina)

Allt annað líf...

..ég held að sú taktík sem íslenska landsliðið í handbolta verður að fara að tileinka sér sé sú að ímynda sér að það sé ekkert í húfi í leikjunum. Telja sér trú um að þetta séu bara vináttuleikir eða að þeir séu ekki mjög mikilvægir af einhverjum öðrum ástæðum. Þegar svo hagar til spila þeir best eins og sannaðist í kvöld og í leikjunum gegn tékkum á dögunum.

Það er samt gaman að vera íslendingur á svona dögum. Ég sá ekki betur en tveir frændur mínir sætu á áhorfendapöllunum, skeggjaðir með hjálma. Þeir voru allavega voða líkir mér.


mbl.is Stórsigur gegn Ungverjum á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suðurlandsvegur

Þessi grein birtist á bloggi góðvinar míns Vignis Arnarsonar og ég gerðist svo djarfur að kippa henni hér inn í von um að hún verði lesin af enn fleirum. Ég er að miklu leyti sammála Vigni, ekki öllu, en umræðan er mikilvæg. 

Tvöföldun Suðurlandsvegar hefur mikið verið til umræðu undanfarin ár. Umferð um veginn hefur aukist jafnt og þétt og því miður hefur slysum einnig fjölgað, bæði dauðaslysum og alvarlegum bílslysum. Það skynjar það hver maður sem keyrir þarna um hve mikil nauðsyn það er að tvöfalda veginn.

Helst hefur verið bitist um það hvort skuli leggja svokallaðan 2+2 veg sem er með tvær akreinar í báðar áttir eða 2+1 veg, sem hefur tvær akreinar og eina akrein til skiptis. En lítum aðeins nánar á þá kosti sem 2+2 vegur hefur umfram 2+1 veg.Það fyrsta sem kemur upp í hugann er eflaust akstur neyðarbifreiða um einfaldan veg. Þegar neyðarbifreiðar aka um einfaldan veg þarf ökumaður bifreiðar á sama vegi að hægja á sér og aka út í kant, á meðan ökumaður á tvíbreiðum vegi getur einfaldlega skipt um akrein og því tekur þessi framúrakstur mun skemmri tíma og í miklum snjó og illviðri gæti þetta skipt sköpun fyrir báða ökumenn. Aðrir augljósir kostir er að umferð gengur greiðlegar og þarf ekki endilega að koma upp sú staða að þurfa að loka t.d. Hellisheiði ef umferðarslys verður, hugsanlega væri þá hægt að beina umferðinni um hina akreinina á meðan. Verði vegurinn lagður þannig að vegrið verði á milli akreina úr gagnstæðri átt minnkar verulega sú hætta að bílar úr gagnstæðum áttum skelli saman, t.d. við framúrakstur. Vörubílar keyra þarna um oft á dag og menn taka fram úr þeim og taka oft mjög mikla áhættu, þar er strax komin ein ástæða fyrir að leggja 2+2 veg.

Banaslys á Suðurlandsvegi í fyrra voru fjögur og af þeim fimmtán banaslysum sem urðu þetta ár, létust því 26.7% á Suðurlandsvegi. Meðaltal þeirra sem látast ár hvert í umferðarslysum á Suðurlandsvegi hefur hingað til verið 1.2 á ári. Þrjú af þeim banaslysum sem urðu árið 2007 á veginum komu til þar sem bifreið lenti framan á annari bifreið eða keyrði yfir á öfugan vegarhelming. Með tilkomu 2+2 vegar og vegriðs á milli eða gryfju er búið að koma í veg fyrir það vandamál að mestu ef ekki öllu leyti og þannig búið að stórauka öryggi vegfarenda. Þá má koma fram að ekki hefur orðið banaslys á Reykjanesbraut frá því að hún var tvöfölduð í báðar áttir og gryfja sett á milli gagnstæðra akreina.

Þannig getur tvöföldun vegarins komið í veg fyrir fjölmörg slys sem kosta tryggingafélög og samfélagið gífurlegar fjárhæðir ár hvert, svo ekki sé talað um þann andlega skaða sem banaslysin valda.

Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá Almennra, hefur lýst því yfir að tryggingafélagið sé tilbúið að tvöfalda Suðurlandsveg, í báðar áttir og ljúka verkinu á fjórum árum í samvinnu við Ístak og fleiri verktaka. Gróf kostnaðaráætlun þeirra sýndi fram á verulega lækkun á kostnaði, frá því að Vegagerðin kom fram í fjölmiðlum og setti fram sína áætlun. Þannig segir Þór að tvöfalda megi veginn í báðar áttir fyrir aðeins um 7.5- 8 milljarða í stað þeirra 12 milljarða sem Vegamálastjóri nefndi í fjölmiðlum. Frá því að þessi umræða kom fyrst upp og farið var að kanna kostnað hafa heyrst tölur allt frá 6 milljörðum og upp í 12 milljarða.  Samgönguráðherra talaði um 6-8 milljarða en alþingismenn segja 8-12 og jafnvel meira. Það ber reyndar að hafa í huga að kostnaður rokkar upp og niður eftir því hvort verið er að tala um að hafa mislæg gatnamót eða hringtorg á veginum. Áætlaður kostnaður 2+2 vegar er talinn vera um 40-50% hærri en á 2+1 vegi. En er virkilega hægt að verðleggja þau mannslíf sem tvöföldun mun koma til með að bjarga? Þannig hafa menn kastað þessu á milli sín í langan tíma. 

Hinsvegar er einnig á dagskrá mun stærri vegaframkvæmd, Sundabrautin, sem kostar mun hærri fjárhæðir en Suðurlandsvegur gæti nokkurn tíma kostað. Talið er að kostnaðurinn við Sundabraut nemi allt að 26 milljörðum, sem er þá allt að þrefalt meira en tvöföldun Suðurlandsvegar í báðar áttir. Markmiðið með Sundabrautinni er að gera fólki kleyft að komast á mun skemmri tíma að Kjalarnesi og þaðan hvert sem það vill fara, hvort sem það er norður í land eða sunnudagsbíltúr í Hvalfirðinum. Þetta finnst ráðamönnum okkar þjóðar vera í fínu lagi, þetta gæti stytt þann tíma sem þeir eru að keyra í fína sumarbústaðinn sinn á rándýru jörðinni sinni norður í landi, um allt að hálftíma, og því verður að klára þessa framkvæmd sem allra fyrst. Það vakna upp ýmsar spurningar með Sundabrautinni, t.d. hversu mörg alvarleg bílslys verða á þessum vegarkafla á hverju ári sem er í þokkabót innan Reykjavíkursvæðisins og því er hámarkshraði ýmist frá 50-80km/klst en ekki 90km/klst einsog á Suðurlandsvegi, þar sem fólk hinsvegar keyrir oft langt yfir leyfilegum hámarkshraða og gefur auga leið að þar skapast mun meiri slysahætta.  

Á sumrin skapast oft umferðateppur á einföldum köflum á Suðurlandsvegi sem mætti bjarga með tilkomu tvöföldunar, á meðan leiðin að Kjalarnesi frá miðbæ Reykjvaíkur er tvöfölduð og jafnvel þrefölduð mest alla leið. Það þarf ekki að taka það fram að slíkar umferðarteppur sem myndast, jafnvel um hverja helgi á sumrin, geti haft alvarlega afleiðingar á einföldum vegi. Hvað ætla menn að gera þegar sjúkrabíll með slasaðan mann þarf að komast til Reykjavíkur frá Selfossi en leiðin er teppt vegna þess að vegurinn er löngu hættur að bera alla þá umferð sem um hann fer? Með einfaldri reikningsaðferð má komast að þeirri niðurstöðu að ríkið er að fá tugi milljarða í kassann á ári frá bifreiðaeigendum og má þar nefna bifreiðargjöld og álögur af bensíni.

Líklega mætti því tvöfalda Suðurlandsveg fyrir aðeins brot af þeirri upphæð sem ríkið fær á ári hverju og á einu ári ætti meira að segja Sundabraut nokkurnveginn að borga sig. Þó skal taka fram að þessar tölur eru ekki að fullu staðfestar, þannig að þegar talað er um peningaleysi, þá spyr ég, í hvað fara peningar bifreiðaeiganda, ef ekki í vegakerfið?


Karol Bielecki

bieleckiBara ein pæling, vantar okkur ekki alltaf pólverja í vinnu? Væri ekki hægt að ráða hann í eitthvað gott starf á Íslandi og Fischera hann svo snarlega? Okkur vantar svona mann held ég. Sjökommaáttamörk til viðbótar í hverjum leik hefðu aldeilis gert okkur gott!

Þetta segja pólverjarnir sjálfir um kallinn:

Nasz główny bombardier. Człowiek z młotem pneumatycznym w ramieniu, którego "kopnięć" boją się wszyscy bramkarze na świecie. Niemcy boją się go jak ognia. W czasie meczu grupowego gdy Bielecki tylko dochodził do piłki komentator niemieckiej telewizji krzyczał "Achtung! Bielecki!", a prasa w kraju naszych zachodnich sąsiadów każe uważać na "Rudego Olbrzyma". Piłka po jego rzutach leci nawet 120 kilometrów na godzinę. 25-latek z Magdeburga jest na razie na Mistrzostwach Świata najlepszym strzelcem reprezentacji Polski i szóstym całego turnieju. Ma na koncie 53 gole, wszystkie zdobyte atomowymi uderzeniami z drugiej linii. Chyba jedyny zawodnik na mistrzostwach, który potrafi zdobywać gole z 10., a nawet z 11. metra. Najlepszy zawodnik polskiej drużyny w klasyfikacji kanadyjskiej (53 gole i 10 asyst).

 


mbl.is Guðjón Valur í þrettánda sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna tekst þetta...

0handbolti...ég hef fulla trú á strákunum og vona að þeir hafi það líka! Þurfa þeir ekki að sigra í þessum leik og næsta til að eiga einhvern séns á Ólympíusæti?

KOMA SVO!


mbl.is Sverre inn í hópinn fyrir Einar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kappið og ræðukeppnin

0ratorMikið fár hefur kviknað eftir uppákomu í ræðukeppni milli FB og Borgarholtsskóla síðastliðið föstudagskvöld. Þegar liðsmaður tapliðs Borgarholtsskóla stóð í pontu tók hann fram brjóstamynd af keppanda FB-liðsins, sem var að sögn stolið úr tölvu hennar fyrir nokkru. Á meðal viðstaddra voru móðir stúlkunnar og sex ára systir.

Þegar ég var örlítið yngri en ég er í dag tók ég iðulega þátt í ræðukeppnum af svipuðu tagi og Morfís og man eftir nokkrum uppákomum svipuðum þessari. Þó var nú aldrei gengið það langt að draga upp nektarmyndir af andstæðingunum, enda netið ekki til og nektarmyndir varla til nema í vafasömum blöðum sem yfirleitt voru höfð í efstu hillum bókaverslana.

Hvort sem myndin sem hér um ræðir er af umræddri stúlku eða ekki verða menn auðvitað að gæta sín og láta ekki kappið hlaupa með sig í gönur. Þeir sem taka þátt verða að muna að þrátt fyrir að ræðukeppnin sé sýndarveruleiki og fólk sé í ákveðnum leik um leið og í pontu er komið, er hætta á að særa fólk þó tilgangurinn hafi ekkert verið sá þegar brandarinn var búinn til. Slíkt gerðist fyrir aldarfjórðungi í Morfís keppni sem háð var á Akranesi, þar sem vegið var að persónu ákveðinnar manneskju sem ekki einu sinni tók þátt í keppninni. Agalega fyndið meðan það stóð á ræðuspjöldunum en sorglegt þegar það var komið fram af vörum ræðumannsins.

Sem betur fer olli það mál engum alvarlegum búsifjum eða álitshnekki og allir jafnvel löngu búnir að gleyma atburðinum, en ef hefndarþorstinn hefði verið látinn ráða hefði kannski ekki verið jafn auðvelt að gleyma og fyrirgefa. Þannig þurfa þeir sem nú eru fullir heiftar í garð ræðuliðs Borgarholtsskólans að finna leið til að fyrirgefa þeim barnaskapinn, þó ég skilji vel að í hita augnabliksins geti það virst fjarlægur möguleiki.

Í svona keppni þarf nefnilega að hafa aðgát í nærveru sálar, jafnt og í lífinu sjálfu.


Þetta kom einu sinni fyrir mig...

...hrikalegt!
mbl.is Vaknaði í eigin kistulagningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hef ekki hundsvit á handbolta

0handboltiEn mikið rosalega vona ég að strákarnir okkar fari að sýna sitt rétta andlit, rétt eins og þeir gerðu í leiknum gegn slóvökum. Nú verða allir að setjast við þau viðtæki sem hægt er að fylgjast með leiknum úr og senda sterka íslenzka strauma til Noregs. Þannig klárum við þetta!
mbl.is Ólafur með á morgun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verði þinn vilji

Fyrir austan Þingvallakirkju er Þjóðargrafreiturinn, hringlaga mannvirki úr hraungrýti, sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson. Mín skoðun er sú að Robert Fischer hafi ekki gert það fyrir íslenzku þjóðina sem þessir tveir gerðu, auðvitað er hann andlegt stórmenni líkt og þeir, en mér finnst nú þurfa meira til en að hafa búið á Íslandi í 3 ár og hafa verið nokkuð flinkur að tefla til að komast að innan um þá andans mógúla. Þeir tveir sem þarna hvíla vildu Íslandi allt! Þó að Fischer hafi átt hér góða vini er ég ekkert viss um að hann hafi endilega lifað eftir þeim einkunnarorðum. Hann hefur bara verið feginn að fá hér skjól undan heimsins áþján, áþján sem hann skapaði sér mikið til sjálfur með ótrúlega bilaðri framkomu og orðum, á stundum. 

Þegar verið var að undirbúa einvígi aldarinnar sem fram fór í Reykjavík 1972, þá vildi Fischer að það færi fram í Júgóslavíu en andstæðingur hans Spassky vildi að það færi fram hér. Um tíma var jafnvel talað um að halda það á báðum stöðum. Svo fór þó ekki.

Mig minnir líka að ég hafi lesið það einhvern tíma að Fischer vildi verða lagður til hvílu í hvítu marmaragrafhýsi, þannig að hann langar sennilega ekkert að vera skilinn eftir á Þingvöllum. Væri ekki nær að fara að óskum hins látna og útbúa (á kostnað dánarbúsins) hugglegt grafhýsi fyrir hann? Kannski er hægt að finna lausan blett í Suðurgötukirkjugarðinum, og ef ekki, eru nú til fleiri gullfallegir kirkjugarðar á Íslandi.


mbl.is Fischer grafinn á Þingvöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband