Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Vesalings Ówen

Fregnir herma að bandaríski gamanleikarinn Owen Wilson hafi verið fluttur með hraði á sjúkrahús í Los Angeles í gær eftir að hann hafi reynt að fyrirfara sér.

Við skulum vona að aumingja Owen jafni sig á þessu og taki gleði sína aftur. Þetta er snillingur sem við megum ekki missa.


Tökum aftur upp gömlu númerin!

Það er svo stutt síðan þetta nýja kerfi var tekið upp, sem er að verða gamalt, eða hvernig á að orða þetta? Allavega er númerakerfið á Íslandi tiltölulega nýtt og er það sprungið? Við erum auðvitað bara klikkuð. Hvernig getur þjóð sem telur bara rúmlega 300 þúsund hræður verið búin að sprengja svona tiltölulega stórt kerfi? Detta ekki líka alltaf út bílar þannig að það er hægt að endurskrá gamalt númer á nýjan bíl?

Mín tillaga er að taka upp gamla kerfið með bókstaf frá A og upp í Ö með möguleika á allt að 5 tölustöfum með. Það má nota mjög lengi geri ég ráð fyrir.


mbl.is Bílnúmer framtíðarinnar komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnst ykkur ekki...

..alveg kominn tími á að búa langferðabíla bílbeltum. Aldrei dytti okkur til hugar að aka um án beltis, en um leið og fólk er komið í rútu er það allt í einu bara í lagi. Svona slys sýna og sanna að það er löngu kominn tími á úrbætur í þeim efnum. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona aðstöðu lengur!
mbl.is Sjúkraflutningum vegna rútuslyss að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndband dagsins

Er með "gáfumannapoppsveitinni" Lloyd Cole & the Commotions sem komst í hóp svokallaðra Íslandsvina með tónleikahaldi í Laugardalshöll í júní 1986.

Lagið heitir Brand new friend og talar sínu máli sjáflt:

http://www.youtube.com/watch?v=1uOJ3OZSV4o


Hvers konar rugl er þetta?

Það gerir hver starfsmaðurinn á fætur öðrum mistök á mistök ofan í gegnum umsóknarkerfið og svo er bara yppt öxlum og sagt sorry þegar stúlkan er búin að rífa sig upp og drífa sig til náms í bæinn. Þetta er svo einstaklega týpískt íslenskt að það er næstum ekki fyndið. Fólk er alltaf að lenda í svona rugli alls staðar í kerfinu, í verslunum og víðar en sjaldnast er kannski um jafn mikilvæg mál og þarna er að ræða. Samt skiptir þetta alltaf máli en fólk er ekkert alltaf að hafa hátt um þegar svona lagað hendir.

Auðvitað ætti einhver að sýna manndóm og standa við það sem búið var að lofa, auðvitað getur það orðið þrautin þyngri því stúlkan er ekki fjárráða, en fjandakornið, kennitalan hennar er örugglega búin að vera fyrir augum fjölda starfsmanna þessa Keilis-fyrirbæris sem hafa bara látið málið ganga áfram - og teymt hana á asnaeyrunum. Skamm!!!

Hættið þessarri framkomu þarna þjónustuaðilar út um allt!


mbl.is Fær ekki stúdentaíbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Valur

Ég fór í dag að taka þátt í hátíðahöldum Vals við Hlíðarenda þar sem verið var að vígja hin nýju og glæsilegu íþróttamannvirki. Þetta er mjög glæsileg aðstaða og verður án efa lyftistöng fyrir starfsemi félagsins.

Á næstu árum bætist við hina glæsilegu íþróttahöll, stúku og grasvöll sem þegar er risið, knatthús og nokkrir æfingavellir til viðbótar. Þetta er án efa einhver besta aðstaða sem eitt íþróttafélag hefur og gaman er að segja frá því að Valur hefur greitt fyrir þessar framkvæmdir af stórum hluta úr eigin vasa, þó Reykjavíkurborg komi einnig myndarlega að.

Til hamingju með daginn!


Áhyggjur

..af heilsufari 81 árs gamals þjóðar"leiðtoga" sem í rúma fjóra áratugi hefur séð til þess að þjóð hans þróist ekkert til nútímasamfélags eru að mínu mati óþarfar. Best hefði verið fyrir kúbverja að losna við kallinn fyrir löngu! Lýsingar manns sem heimsótti hina raunverulegu Kúbu voru vægast sagt óhugnanlegar. Öll þjónusta í lágmarki, tómar verslanir (þökk sé verslunarbanni Bandaríkjamanna), flest sjálfsögð mannréttindi bönnuð (til dæmis þarf leyfi ríkisins til að eiga tölvu og nota hana), launin þannig að fólk hefur meira upp úr því að selja vindla á götuhornum en starfa sem læknar, lögfræðingar eða kennarar. Það sem gerist í svona samfélagi að öll framþróun og vilji til hennar hverfur, áhuginn er enginn því "leiðtoginn" heldur öllu niðri. Með járnaga. Þrátt fyrir að okkur vesturlandabúum finnist Castro krúttlegur kall, með sítt skegg og vindil held ég að tilfinningar hins almenna kúbverja til hans séu eitthvað annars konar. Jafnvel þó hann hafi verið duglegur að gefa skít í Ameríku.

Við skulum bara vona að  eftirmaður hans, hvort sem það verður Raul bróðir eða einhver annar, sjái til þess að almenn mannréttindi verði tekin upp á Kúbu. Við skulum líka vona að stóri bróðir í Ameríku sjái líka að sér og aflétti verslunar og hafnbönnum af. Þá fer kúberjum kannski að líða eins og fólki og kannski verður hægt að fara og sjá hina raunverulegu Kúbu án þess að fá verk í sálina á eftir.


mbl.is Orðrómur um að Kastró sé allur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið hrikalega voru þetta góðir þættir

Me and my girl voru þættir framleiddir á árunum 1984 til 1989 og eru að mínu mati dæmi um snilld breta við gerð gamanefnis. Þættirnir fjölluðu um ekkilinn Simon Harrap sem rak auglýsingastofu ásamt félaga sínum Derek Yates. Simon átti eina dóttur barna Sam að nafni og tengdamóðir hans kom mikið að rekstri fyrirtækisins andlega og fjárhagslega. Mikið safn aukapersóna kom við sögu í þáttunum en sú sterkasta var Muriel kona Dereks, sem merkilegt nokk, sást aldrei í einum einasta þætti. Í hverjum einasta þætti gerðist eitthvað ótrúlega fyndið og vandræðalegt og oftar en ekki var það Derek sem var uppspretta grínsins. RUV sýndi þessa þætti um árabil en hefur ekki sýnt þá alla. Ég held að það væri hægt að gera margt vitlausara en að endursýna Me and my girl.

Í þessu atriði koma þeir félagar drukknir heim af einhverju skralli ....

http://www.youtube.com/watch?v=DX96LhyUz-k


Óður til Íslands

AlendingSamkvæmt upplýsingum annarra fréttamiðla mun maðurinn hafa verið mjög drukkinn, áreitt aðra farþega og áhöfn og látið öllum illum látum. Það er lítið gaman að hafa slíka ferðafélaga, eiginlega gersamlega óþolandi og ólíðandi. Því spyr ég sem flugfarþegi, á ekki að meina mjög drukknum farþegum inngöngu í flugvélar og á nokkuð að vera að bera áfengi í fólk um borð í þeim? Það verður bara til þess að svona atburðir geta gerst. Það er alkunna, svo varla þarf frá að segja, að drukkið fólk getur misst alla stjórn á hegðun sinni og framkvæmir hluti sem það ella myndi aldrei gera. Ég held að það sé mikilvægara en að velta fyrir sér hvort fjölskylda á leið í sólarlandaferð sé með naglaklippur og -þjöl með sér og hvort rakakremið og sólvörnin séu í líterspoka eða ekki. Sumt af því sem fólk þarf að ganga í gegnum á flugvöllum nú til dags er tómt bull og annað auðvitað alveg nauðsynlegt.

Ég held að flugyfirvöld ættu að fara að huga að því hvort í alvöru sé ekki hægt að setja stífar reglur um hvort flugfarþegar sem eru áberandi drukknir fái nokkuð að fara með, það held ég myndi fækka svona atvikum.

 


mbl.is Lenti á Keflavíkurflugvelli með óðan farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndband dagsins

Er frá níunda áratugnum eins og svo oft áður. Hér er á ferðinni gríðarlega spes náungi sem kallar sig Thomas Dolby. Hann er raunverulega Róbertsson en félagar hans kölluðu hann alltaf Dolby, því hann hafði svo mikinn áhuga á allskyns tækni og vísindum. Eftir að hann komst til frægðar fór Dolby hljóðkerfisfyrirtækið í mál við hann en deilan leystist eftir að Thomas lofaði að nota Dolby nafnið eingöngu í sama mund og Tómasarnafnið. Lag dagsins heitir Europa and the pirate twins, kom út 1981 og síðan á fyrstu stóru plötu kappans The golden age of wireless. Vinsælasta lag hans er á sömu plötu, heitir She blinded me with science, mér þykir líklegt að einhverjir kannist við það og ég lofa að henda því einhvern tíma hérna inn.

http://www.youtube.com/watch?v=hUbNzxifJTU


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband