Merkilegt réttarfar.

Svo virðist sem fimm útlendir karlmenn  hafi ráðist inn á Íslending sem býr í einu af leiguherbergjum í húsnæðinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.  Hann varðist árásinni með hnífum og særði einn. Sá var fluttur á slysadeild með áverka á brjósti.  Hnífamaðurinn íslenski var handtekinn og gistir fangageymslur.

En ég spyr, voru árásarmennirnir sendir heim í te og skonsur á meðan sá sem fyrir árásinni varð var settur í járn og stungið í steininn? Þetta er auðvitað fáránlegt, en hefur þó skírskotun í lög.

Til eru lög um neyðarvörn sem oft er kölluð sjálfsvörn í daglegu tali. Í 12.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir svo:


12. gr. Það verk er refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.
Hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar, og ástæðan til þess er sú, að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða, að hann gat ekki fullkomlega gætt sín, skal honum ekki refsað.

Samkvæmt 12. grein er neyðarvörn lögmæt réttarvörsluathöfn manns, sem felur í sér nauðsynlega beina valdbeitingu gegn öðrum manni eða mönnum, til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás á þann, sem neyðarvörninni beitir, eða einhvern annan.  Í 2. málsgreininni felst þó greinilega að handtaka má þann sem beitir meira afli sem er hættulegra en árásin getur talist.  Í þessu tilfelli átti maðurinn sem ráðist var á af fjölda manns sem sagt að spyrja þá kurteislega hvort þeir væru með hnífa áður en hann tók sinn upp og fór að reyna að verjast með honum. Það hefur greinilega gleymst þegar lagagreinin var samin í rólegheitunum á Alþingi, að fólki bregður hroðalega við árás og býst til varnar af miklum krafti og án þess að velta sérstaklega fyrir sér hvort varnirnar séu "hættulegri" en árásin. Svo má heldur ekki gleyma því að oft þarf vörnin að vera hættulegri en árásin til að henni ljúki.

Dæmi ef karlmaður ræðst að konu og dregur hana með sér í húsasund og heldur henni fastri meðan hann reynir að koma fram vilja sínum við hana, og konan sparkar af alefli í punginn á manninum, er þá vörn konunnar orðin hættulegri en árásin? Það mætti halda því fram með þeim rökum að það sé hættulegra að sparka en að halda manneskju fastri með handafli, en afleiðingar árásarinnar hefðu orðið mun alvarlegri fyrir konuna hefði hún ekki beitt þessu afli. Því þyrfti að sjálfsögðu að horfa til hugsanlegra afleiðinga, niðurstöðu árásarinnar þegar metið er hvort varnaraflið teljist of mikið ekki. Árás hóps manna á einn mann getur orðið skelfileg fyrir hann, ef hann grípur ekki til annars fulltingis, eins og t.d. að draga upp hníf. Með þessu er ég ekki að hvetja til hnífanotkunar almennt til annars en að matast með og kannski tálga einstaka spýtukall, en hvað í ósköpunum átti maðurinn annað að gera? Hvað hefðum við öll gert? Varist með offorsi eða boðið upp á appelsín?

Mig langar bara að vita hvort það sé rétt eins og skín í gegn í fréttinni, að þeir sem réðust að hinum handtekna hafi ekki verið teknir höndum og ef svo er, hvers vegna í ósköpunum það var ekki gert?

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.


 


mbl.is Líkamsárásir og eftirför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála þessari grein mjög svo/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.7.2008 kl. 14:02

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Atarna var góð færsla og sannarlega umhugsunarefni. Ekki er langt síðan England fór hreinlega á annan endan þegar karlmaður sem var einbúi og bjó "afskekkt" á hérlendan mælikvarða skaut til bana annan af tveimur innbrotsþjófum sem ruddust inn á heimili hans - og var dæmdur til fangavistar vegna þess að skotið lenti ekki beint framan í belginn á bófanum. Þar af leiðandi taldi dómarinn að ekki hefði verið um nægilega sannfærandi sjálfsvörn að ræða.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.7.2008 kl. 15:48

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Það er svo furðanlega margt skrítið í kýrhausnum ... meira en vér dauðlegir menn skiljum.

Markús frá Djúpalæk, 6.7.2008 kl. 21:56

4 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þarna er ég sammála þér Markús það er sko svo sannarlega margt skrítið í kýrhausnum.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 6.7.2008 kl. 22:17

5 Smámynd: Beturvitringur

Góð grein og gagnleg. Hæðnin hnykkir líka á.

Sá sem ráðast átti á og vildi hvorki bjóða uppá appelsín né kleinur, hefur verið handtekinn fyrir vopnaburð (nema það hafi verið ostahnífur).

Hins vegar heyrði ég í fréttunum að EINN hefði verið fluttur á sjúkrahús en ALLIR HINIR handteknir.

Beturvitringur, 7.7.2008 kl. 00:45

6 Smámynd: Jakob Jörunds Jónsson

Sæll frændi,

Mér var kennt það hjá Gæslunni í gamla daga að hin almenna regla er sú að sjálfsvörnin má ekki skapa meiri hættu en árásin. Ýkt dæmi væri ef að ég myndi ráðast að þér og gefa þér einn ''Árna Johnsen'' á smettið og þú myndir þakka fyrir þig með því að munda haglara og freta af mér hausinn. Semsagt ''vörnin'' í þessu tilviki er miklu meiri en ''árásin'' gaf tilefni til.

Þetta ákveðna dæmi sem þú nefndir er vissulega skrítið. Ef maður verður fyrir árás ofurefli manna, finnst mér ekkert óeðlilegt við að munda hníf til sjálfsvarnar.

Finnst mér sennilegast að eitthvað vanti í fréttina sem gæti útskýrt málavöxtu. Það væri svo sem ekki í fyrsta sinn sem íslenskir fjölmiðlar gera sig seka um ónákvæman fréttaflutning.

Ég hringi síðar...

Jakob Jörunds Jónsson, 7.7.2008 kl. 14:15

7 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Þakka ykkur öllum fyrir innlitið og skynsamlegar og skemmtilegar athugasemdir...

Markús frá Djúpalæk, 7.7.2008 kl. 14:45

8 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það á sem sagt að spyrja fyrst og skjóta svo. Mér hefur persónulega reynst þetta gagnlegt þó ég sjái ekki beint tilganginn með spurningunni.. ég hef aldrei beðið nógu lengi með að skjóta svo til að heyra svarið.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 7.7.2008 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband