Færsluflokkur: Bloggar
I will always love you
26.10.2015 | 18:07
... er reyndar eftir Dolly Parton, en auðvitað er óþarfi að blanda staðreyndum eitthvað inn í fréttir.
Söng hátt og illa með í 20 mínútur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Og ekki má gleyma...
8.5.2013 | 18:33
Öfgafull Star Trek megrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland og umheimurinn til loka fyrri heimsstyrjaldar
19.4.2013 | 14:31
Breski sagnfræðingurinn Arnold Toynbee kom fram með þá kenningu að á Íslandi líkt og á grísku nýlendunum í Litlu-Asíu hafi samtök skipshafna skapað lýðræðislegt stjórnskipulag, þar sem sú tvöfalda ögrun að flytja til nýs og harðbýls lands hafi lyft menningunni til mikils þroska. Þar á Toynbee jafnt við stjórnmál sem bókmenntir, en getur þess einnig að ögrunin hafi vart meiri mátt vera. Hann tekur einnig fram að menningarheimur Íslendinga hafi notið einangrunarinnar.[1] Það var enda löngum ríkjandi söguskoðun að Ísland hefði um aldir verið einangrað land á ysta hjara veraldar. Talið var að íbúar landsins hefðu lítinn sem engan áhuga á því sem gerðist utan landsteinananna og sömuleiðis hefðu erlend ríki lítilla sem engra hagsmuna að gæta gagnvart Íslandi og væru áhugalaus um þetta eyland norður í Ballarhafi.
Lengi var talið að Íslandsáhugi útlendinga, og þá einkum stórþjóða hafi fyrst aukist meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð, einkum vegna meints hernaðarlegs mikilvægis landsins. En var það raunverulega svo? Hér á eftir ætla ég að gera grein fyrir stöðu Íslands á alþjóðavettvangi í frá landnámi allt til loka fyrri heimsstyrjaldar.
U P P H A F I Ð
Atlantshafið og fjarlægðin til og frá öðrum löndum voru ákveðin vörn fyrir Ísland. Löng og erfið sigling en þó hvergi ómöguleg, beið þeirra sem hingað vildu sigla. Þó bendir Þór Whitehead, sagnfræðingur, á það í bók sinni Ófriður í aðsigi" hve mikilvægt það hafi verið Íslendingum frá öndverðu að geta átt margvísleg samskipti við grannlönd sín, einkum Noreg[2]. Frá upphafi konungsvalds og fram á tuttugustu öld tengdust málefni Íslands á erlendum vettvangi fyrst og fremst utanríkisverslun og veiðum erlendra manna á Íslandsmiðum.[3] Þeir menn sem kölluðu sig Íslendinga höfðu brotist undan valdi Noregskonungs sem þó hótaði oft að fara með hernaði gegn hinum brottflúnu til að auka tekjur sínar og völd. Vegalengdin frá Noregi til Íslands virðist þó hafa haldið aftur af konungum uns innviðir þjóðveldisins voru orðnir feisknir af stanslausum erjum innanlands. Þá greip Noregskonungur tækifærið og lofaði að tryggja frið og næga aðdrætti. Hinn svokallaði Gamli sáttmáli milli höfðingja Íslands og Noregskonungs varð til. Hér verður ekki tekin afstaða til hvort vangaveltur sagnfræðingsins Patriciu Boulhosa um tilgang og tilurð sáttmálans standist.[4] Sömuleiðis veltir Pétur J. Thorsteinsson, fyrrum sendiherra, fyrir sér hvort sáttmálinn hafi verið ríkjasamningur í nútímaskilningi, enda sé samningurinn við konung einan. Þó var að því er virðist litið á Ísland sem hluta Noregs.[5] Á fjórtándu öld sameinaðist Noregur danska ríkinu, en hafði ekki haft tök á að standa við skuldbindingar konungs gagnvart Íslandi, enda hafði flotaveldi hans hnignað og lítið verið um siglingar til Íslands árum saman. Eftir árið 1537 laut Ísland Danakonungum beint.[6] Fram undir árið 1400 hafði lítið borið til tíðinda í utanríkismálum Íslands; Íslendingar versluðu enda nær eingöngu við Norðurlönd fyrstu aldir Íslandsbyggðar.[7]
E N S K A Ö L D I N O G Þ Ý S K A
Snemma á fimmtándu öld hófust siglingar enskra til Íslands, jafnt til fiskveiða og verslunar. Þeir óskuðu eftir frjálsum aðgangi að fiskimiðum og vildu fá að versla við Íslendinga að vild.[8] Danir neyddust til að gefa verslun og fiskveiðar frjálsar.[9] Landsmenn höfðu setið og vildu sitja einir að fiskimiðum sínum enda hafði sú breyting orðið á útflutningsversluninni að sjávarafurðir voru orðnar aðalútflutningsvaran.[10] Fiskneysla var að aukast og miklar framfarir höfðu orðið í skipasmíðum, sem leiddi til þess að á Íslandsmið flykktust sjósóknarar helstu ríkja Norðurálfu.[11] Talið er öruggt að Englendingar hafi verið byrjaðir að veiða fisk við Íslandsstrendur þegar á fyrsta áratug fimmtándu aldar. Íslendingar munu hafa amast við fiskveiðum þeirra hér við strendur, enda sýndu sæfararnir ensku mikinn yfirgang.[12] Sömuleiðis hófu ensk kaupskip siglingar til landsins, höfðu vetursetu og höfðu uppi allnokkurn ófrið.[13]
Veldi Englendinga á hafinu var að aukast, þeir gerðust öflugasta sæveldi veraldar, drottnuðu á Norður-Atlantshafinu, drógu Ísland inn á áhrifasvæði sitt og sáu til þess að Danakonungi var um megn að beita valdi sínu. Þó virðast þeir enga löngun hafa haft til að eignast landið, þó þeim hefði það sennilega verið í lófa lagið.[14] Margar sögur eru til af miskunarleysi enskra Íslandsfara gagnvart innfæddum og öðrum sem reyndu að standa í vegi fyrir þeim; einna hæst ber dráp Björns Þorleifssonar, hirðstjóra, árið 1467. Ódæði það leiddi af sér ófrið á Norður-Atlantshafi[15].
Í kjölfar ákvörðunar Englandskonungs að senda herskip sín til varnar fiskveiðiflotanum enska á Íslandsmiðum árið 1484 brutust átök enn á ný út milli enskra og danskra sem stóðu í sex ár. Þeim lyktaði með því að Englendingar og Hollendingar fengu leyfi til fiskveiða og verslunar við Ísland, gegn því að þeir greiddu tolla og skatta. Jafnframt var þess krafist að þessar þjóðir endurnýjuðu leyfi sitt á sjö ára fresti. Veturseta erlendra manna í landinu var þó bönnuð. Samkomulag þetta var staðfest með svokölluðum Piningsdómi, þó með þeirri merkilegu breytingu að Englendinga var hvergi getið í dómnum.[16] Með þessu varð auðveldara fyrir Hansakaupmenn að sigla til Íslands. Siglingar Hollendinga hingað urðu aldrei miklar, en aðrar þjóðir t.d Baskar og Spánverjar veiddu talsvert hér við land. Óhætt er að segja að þarna hafi verið veitt ákveðið frelsi til siglinga til Íslands. Varð úr að samkeppni mikil ríkti milli Englendinga og Þjóðverja um siglingar til landsins, sem stóð þó ekki lengi því árið 1602 hófst tímabil sem kennt hefur verið við einokunarverslun Dana.[17]
Þegar líða tók á sextándu öld jókst verslun Þjóðverja en draga tók úr verslun Englendinga. Konungsvald tók að styrkjast í Danmörku á sama tíma, og með tilstilli hers og flota treystu Danir ríkisvald á Íslandi. Um þær mundir urðu breytingar sem drógu úr áhuga Englendinga á að sigla til Íslands; fiskur lækkaði í verði í kjölfar siðaskipta og enskir sjómenn hófu að stunda sjó frá Nýfundnalandi. Þó höfðu þeir bækistöð í Vestmannaeyjum allt til ársins 1558.[18]
Þjóðverjar náðu smám saman miklum ítökum á Íslandi og á miðunum umhverfis landið og munu hafa beitt þeim aðferðum að fá íslenska ráðamenn í lið með sér. Helgi Þorláksson segir það illa kannað, en þó munu vera til þekkt dæmi þessa[19]. Þegar leið á sextándu öld kvörtuðu Þjóðverjar mjög yfir Englendingum sem voru að versla í leyfisleysi á Íslandi, enda höfðu þeir verið hirðulausir um að endurnýja samninginn frá 1490[20]. Danir tóku á hegðun Englendinga af hörku undir lok sextándu aldar og hófu einhverjar mestu hernaðaraðgerðir sínar við Íslandsstrendur og tóku nokkur skip ensk til að þrýsta á að Englendingar virtu fyrrgreindan samning. Helga Þorlákssyni þykir athyglisvert hversu mikla stillingu Englendingar sýndu í þessum átökum, að þeir beittu hvorki ofbeldi né sendu herskip til verndar flotanum[21].
Danakonungum líkaði einnig illa hversu mjög Þjóðverjar græddu á versluninni og vildi láta danska þegna sína njóta viðlíka ágóða. Því var tekið til við að leigja dönskum þegnum eina og eina verslunarhöfn á Íslandi uns Þjóðverjum var bolað út og þegnar Danakonungs fengu Íslandsverslunina alla.[22]
Í S L A N D U N D I R D Ö N S K U V A L D I
Á seytjándu öld stækkaði heimsveldið breska og Ísland og miðin umhverfis féllu í skuggann af þeim miklu landvinningum, kaupskap og auðsöfnun sem blasti við Englendingum.[23] Hafið var sömuleiðis áfram trygging Íslendinga, enda landið afskekkt og einangrað í hernaðarlegu tilliti. Danir sluppu að mestu við að halda uppi landvörnum á Íslandi, en gripu til þess ráðs að afvopna Íslendinga, sem kom sér verulega illa þegar sjóræningjar fóru ránshendi um landið á 17.öld.[24] Danakonungur var hylltur sem einvaldur á Íslandi árið 1662 og á síðari hluta 17. aldar og alla þá átjándu mun ekki hafi hafa borið til stórtíðinda í utanríkismálum landsins. Nokkrar deilur spruttu vegna veiða erlendra skipa á Íslandsmiðum, aðallega Englendingar og Hollendingar.[25] Undir lok átjándu aldar tók þó að draga til tíðinda.
Í S L A N D Á B R E S K U V A L D S V Æ Ð I
Ekkert veldi Dönum sterkara virtist sækjast eftir Íslandi til eignar eða afnota og þó Englendingar réðu ríkjum á öldum hafsins var frekar vandræðalítið með þeim og Dönum, þar til um aldamótin 1800. Á árunum 1785 til 1815 munu ýmsir mektarmenn breskir hafa lagt það til að Bretastjórn legði Ísland undir sig.
Vert er að segja frá að samkvæmt leyniskjali breska utanríkisráðuneytisins frá árinu 1785 virðist hugur Breta hafa staðið til að innlima Ísland í heimsveldið. Hugsanlega var megintilgangurinn að ná hér í brennistein sem átti að vera nóg til af auk annarra lands- og sjávargæða. Leitað hafði verið til sir Josephs Banks sem hafði komið til landsins í vísindaleiðangri árið 1772, hafði mikið álit á Íslendingum og mun hafa litið á þessi áform sem mannúðarverk.[26] Ekkert varð úr þessu ráðabruggi en forvígismaður þess, John Hyndford Cochrane reyndi hvað hann gat meðan hann lifði að fá Bretaveldi til að innlima Ísland. Líklegt má telja að löngun til að efla eigin frama hafi ráðið framgöngu Cochranes í þessu máli.
Árið 1801 gerði Cochrane lokatilraun til að fá bresku stjórnina til að yfirtaka Ísland, enda sannfærður um að eftir miklu væri að slægjast, en þá voru breyttir tímar. Danir voru hluti af Hlutleysisbandalagi þjóða Norður-Evrópu gegn Bretum í stríðinu sem geysaði um norðurálfu og kennt var við Napóelon Frakkakeisara. Það varð til þess að Cochrane taldi tímabært að hernema landið.[27] Hann áleit að ekki þyrfti fjölmennt herlið til þess. Joseph Banks tók undir þessar hugmyndir, þó þeir væru ósammála um land- og sjávargæði Íslands.[28] Banks taldi hertöku Íslands vera vænlega fyrir vansæla íbúa eyjunnar sem síðar gætu orðið dyggir enskir þegnar. Síðast en ekki síst væri hertakan álitshnekkir fyrir Dani gagnvart öðrum ríkjum Evrópu. Aðstæður urðu þó til þess að ekki kom til hernáms Íslands og líklegt er að Bretum hafi varla fundist svara kostnaði að hertaka landið.[29]
Árið 1807 tók Danmörk afstöðu gegn Bretum í Napóleonsstyrjöldunum, styrjöld var hafin milli þessarra þjóða, skorið var á tengsl Íslands við danska ríkið, Bretar settu á hafnbann, hertóku skip og lokuðu siglingaleiðum. Íslendingar leituðu til óvina danska ríkisins um undanþágu frá hafnbanni til að vöruskortur yrði ekki í landinu, sem Bretar samþykktu og kröfðust á móti að fá að versla frjálst og veiða að vild[30]. Þeir sendu hingað herskip og neyddu fulltrúa konungs til að leyfa þeim verslun, en Danir reyndu hvað þeir gátu að hafa það að engu.
Um sumarið 1809 var brotið blað í samskiptum Dana og Breta þegar til Íslands kom skip í eigu kaupmanns nokkurs, Phelps að nafni. Með honum í för var maður sem er Íslendingum betur kunnur, danskur sjóliðsforingi að nafni Jörgen Jörgensen, Jörundur kallaður hundadagakonungur. Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur, einn helsti sérfræðingur íslenskur um atburði sumarsins 1809, hefur ályktað að Jörgensen kunni að hafa haft nasasjón af fyrri hugmyndum Banks um innlimun Íslands í Bretaveldi.[31] Helgi P. Briem lögfræðingur, gerir því skóna í doktorsritgerð sinni að valdaránstilraun þeirra kumpána sé runnin undan rifjum Banks, segir að ekki sé vitað hvort Banks datt í hug að nota mætti Jörgensen til þess að koma fram byltingunni á sakleysislegan hátt, strax við fyrstu ferð hans til Íslands." Helgi fullyrðir jafnframt að Banks hafi talið Jörgensen rétta manninn til að koma byltingunni af stað og heppilegan til að hafa forystu í ferð Phelps kaupmanns til Íslands.[32] Helgi telur Banks hafi dottið í hug að Daninn væri kjörinn til að hefja byltingu á Íslandi og að þjóðerni hans drægi ennfremur úr áhættu Breta ef illa færi, þeir gætu hæglega þvegið hendur sínar af honum, eins og Helgi P. Briem orðaði það.[33] Það gerði Banks líka svo um munaði þegar eftirmál byltingarinnar hófust og sagði Jörgensen vera stórhættulegan byltingarmann, illmenni, sem hefði troðið hugmyndafræði frönsku stjórnarbyltingarinnar upp á saklausa Íslendinga.[34]
Þór Whitehead segir að Bretastjórn hefði aldrei lagt blessun sína yfir valdarán Phelps og Jörgensens, það hefði verið fullkomin lögleysa að þeirra mati.[35] Kjánaskapur", feikn" og ódæðisverk" voru meðal þeirra orða sem Banks notaði til að lýsa áliti sínu á því sem átt hafði sér stað. Þó er til er bréf sem aldrei var sent íslensku yfirvaldi þar sem Banks hvetur til handtöku stiftamtmannsins danska til að mögulegt væri af hálfu Breta að hernema landið. Ætla má að bresk yfirvöld hafi verið fallin frá öllum slíkum áformum áður en kom til bréfið yrði sent. Anna Agnarsdóttir hefur sömuleiðis slegið því föstu að bresk stjórnvöld hafi verið alsaklaus af byltingunni.[36]
Bretar gerðu þó samning við æðstu menn Íslendinga, Stephensenbræður, fengu tryggingu fyrir verslun og öryggishagsmunum sínum, gegn því að lýsa landið hlutlaust og heita því vernd.[37]
Bresk stjórnvöld fengu það sem þau vildu, án þess að þurfa að innlima Ísland, þegar verslun Breta á Íslandi gat hafist í kjölfar tilskipunar þess efnis árið 1810. Ágóðinn af þeirri skipan var mestur fyrir breska kaupmenn að ógleymdum Íslendingum sjálfum. Ísland var komið undir vernd Bretlands með þessari tilskipun.
Þegar Napóleonsstríðum lauk með Kílarfriðnum 1814 gátu Danir hert tök sín á Íslandi að nýju sökum þess hve sáttfúsir Bretar voru við þá, en eftir því sem leið á öldina nítjándu jókst krafan um fríverslun, sem gekk að lokum eftir.
Í S L AN D T E N G I S T U M H E I M I N U M
Með aukinni tækni á sviði vélbúnaðar, tilkomu gufuvéla, minnkaði einangrun Íslands. Tveir atburðir á síðari hluta 19. aldar sýna það svo ekki verður um villst.
Frakkar óskuðu eftir aðstöðu til fiskvinnslu og verslunar á Þingeyri við Dýrafjörð árið 1855 og var málið rætt fram og til baka í tvö ár á Íslandi og í Danmörku. Ýmsir Íslendingar héldu fram að beiðnin gæti stefnt þjóðerni og atvinnuvegum Íslendinga í tvísýnu en málgagn dönsku stjórnarinnar taldi sjálfsagt að verða við henni ef stöðin hefði ekkert hernaðargildi".[38] Frakkar sendu tiginn prins til landsins til að reka á eftir málinu. Kjartan Ólafsson fullyrðir í tímaritinu Sögu árið 1986 að fáir hafi efast þá að heimsókn sú hafi tengst viðleitni Frakka til að tryggja sér heimild til að stofna nýlendu í Dýrafirði. Máli sínu til stuðnings vísar Kjartan til blaða- og bréfaskrifa.[39]
Annað dæmi er kvittur sem kom upp í Bretlandi um að konungur Danmerkur hyggðist afhenda Rússum Ísland til sjóhernaðar gegn stuðningi við landadeilur Dana í Slésvík. Umræða um málið olli nokkurri kátínu meðal breskra þingmanna sem augljóslega þótti ekki mikil ógn af Íslandi. Þór Whitehead bendir á hér sé á ferð fyrsta dæmi um hugmyndir um að nota mætti Ísland sem stökkpall til árása á grannland, og að fjarlægðin frá Bretlandi til Íslands hefði minnkað.[40]
Skipun ræðismanna ýmissa ríkja á Íslandi er enn eitt dæmið um að landið og umheimurinn væru að færast saman.
T E N G S L I N V I Ð B R E T A
Í lok nítjándu aldar voru viðskipti Breta og Íslendinga orðin fjörug, fastar ferðir gufuskipa voru milli landanna og Bretar voru teknir til við að sækja á Íslandsmið að nýju. Á fyrsta ári nýrrar aldar gerðu Danir og Bretar svo með sér samning sem takmarkaði stærð landhelginnar við þrjár sjómílur. Bretar höfðu dregið Ísland yfir á áhrifasvæði sitt í Napóleonsstyrjöldunum og Danir vildu allt til vinna að halda góðri sambúð við Breta. Íslenskir bændur áttu viðskipti við Breta og þó ætla mætti að óvild skapaðist í garð stórþjóðarinnar vegna ágangs hennar á íslenskum fiskimiðum segir Þór Whitehead að ekki megi sjá annað en vinarþel í garð hennar í heimildum.[41] Verslun við Breta var og mjög vinsæl.
Pétur Thorsteinsson vill ekki kalla atburði sem urðu í tengslum við veiðar Breta á Íslandsmiðum undir aldamótin 1900 þorskastríð".[42] Þó er t.d. sagt frá stofnun eftirlitsfélagsins Vigilantia sem átti að sigta út landhelgisbrjóta og hvernig skoðanir fólksins í landinu virtust skiptast í tvö horn, ýmist voru menn andvígir Bretum og veiðum þeirra eða fylgjandi.[43] Eftir áralangar deilur náðist samkomulag við Breta árið 1901 um tilhögun veiða utan landhelgi.[44]
Bretar og Frakkar, sem höfðu lengi deilt innbyrðis, bundust samtökum gegn vaxandi veldi Þjóðverja árið 1904.
T E N G S L I N V I Ð Þ J Ó Ð V E R J A
Snemma á nítjándu öld tókust vinsamleg kynni með Þjóðverjum og Íslendingum, enda fylltust Þjóðverjar áhuga á menningu Norðurlandaþjóða og norrænum fræðum. Einkum beindist áhugi hugvísindamanna að Íslandi, sem þeir kölluðu Sögueyjuna. Það gat af sér mikla athygli og skilning á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19.öld.[45] Áhrifanna gætti einnig í hina áttina; sterk áhrif voru af þýskri menningu á þá íslensku. Þó voru Íslendingar seinni til að hefja viðskipti við Þjóðverja en að stofna til menningartengsla við þá, það gerðist ekki fyrr en á snemma á tuttugustu öld, en var mjög einhliða, Íslendingum í óhag.[46] Um það bil tíu af hundraði innfluttra vara á Íslandi kom frá Þýskalandi á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöld.[47]
Landveldið Þýskaland var ákveðið í að hasla sér völl á hafinu og hnekkja sjóveldi Breta og gera Þýskaland að heimsveldi. Þó er ekki að sjá að hernaðarlegur áhugi Þjóðverja á Íslandi hafi aukist nokkuð, eins og frásögn af tilraunum stofnenda Milljónafélagsins" bera með sér. Þeir reyndu að afla sér rekstrarfjár frá Þýskalandi og reyndu að heilla Þjóðverja með því að bjóða þeim að reisa kolastöð í Viðey. Áhuginn var enginn enda Ísland víðs fjarri í þeim hugmyndum sem þýskum þóttu bestar við að koma breska flotanum á kné.[48]
Þór Whitehead telur að eftir að gufuskip urðu algeng hafi Ísland orðið hernaðarlega mikilvægara en áður, en í augum Breta réðist mikilvægi landsins fyrst og fremst af því hvernig Þjóðverjar höguðu hernaði sínum.[49]
Í S L A N D Í F Y R R I H E I M S S T Y R J Ö L D
Fræðimenn greinir á um hverjar séu meginorsakir fyrri heimsstyrjaldarinnar sem hófst í lok júlí 1914. Spenna og vantraust höfðu verið að magnast milli stórvelda árum saman sem fundu sér enga aðra útgönguleið en stríð. Hvort sem kenna má hernaðarhyggju eða heimsvaldastefnu um stríðið má telja ljóst að átökin höfðu mun meiri áhrif á Ísland en fyrri styrjaldir í Evrópu. Landið var þegar lýst hlutlaust í stríðinu.[50]
Þjóðverjar höfðu eflt flota sinn mjög, enda höfðu Bretar verið orðnir áhyggjufullir yfir varnarleysi Íslands fyrir stríðið.[51] Atlantshafið varð vettvangur átaka, einkum hvað snerti aðföng og bann við flutningum á þeim. Það hafði mikil áhrif á Íslandi, eins og gefur að skilja. Til að Bretar gætu haft betra eftirlit með því sem gerðist á hafinu umhverfis Ísland varð úr að þeir skipuðu hér sendiræðismann.[52] Þór Whitehead vill ekki þvertaka að þýska flotastjórnin hefði á þessum tíma getað séð sér hag í að eiga aðgang að höfn á Íslandi.[53] Bretum voru hernaðarhagsmunir mjög ofarlega í huga, siglingaleiðin yfir Atlantshaf var þeim gríðarmikilvæg. Sömuleiðis var varnarleysi Íslands stór þáttur í öryggiskeðju Breta, en framvinda hernaðarins á hafinu gaf Bretum þó ekki ástæðu til að taka landið. Þó var landið aldrei langt úr augsýn flotans breska.[54] Hefðu átök færst í aðrar áttir en þau gerðu hefðu Bretar að líkum þurft að koma sér upp flotabækistöð í landinu.
Bretar bönnuðu Íslendingum öll viðskipti við Þjóðverja árið 1915, og þeir sem fóru ekki að þeim reglum voru settir á svartan lista og í viðskiptabann.[55] Bretar vildu styrkja hafnbannið og fengu Íslendinga, sem töldu sig ekki eiga annars úrkosta, til að gera við sig viðskiptasamning án atbeina Dana. Samningar tókust, þar sem viðskiptum við Norðurlönd voru settar þröngar skorður og útflutningur til Danmerkur var alveg stöðvaður, en Bretar lofuðu að tryggja Íslendingum helstu aðföng en svo virðist að þeir hafi þurft að beita nokkrum þrýstingi.[56] Þar með má segja að hlutleysiskröfunni hafi verið vikið til hliðar, enda tóku Íslendingar þarna afstöðu með Bretum gegn Þjóðverjum. Bandaríkjamenn tóku að sér að sjá Íslendingum fyrir nauðsynjum eftir að þeir blönduðust í stríðið.[57] Þegar kom fram á árið 1917 efldu Þjóðverjar kafbátahernað sinn á Atlantshafinu sem stöðvaði um tíma allar siglingar milli Íslands og Norðurlanda, en við þeim vanda var brugðist með að leyfa siglingar til landsins frá Danmörku.[58] Segja má að þarna hafi Íslendingar verið komnir með utanríkismál í sínar hendur, þó þeir væru hluti danska konungdæmisins.[59] Öryggismál ýttu undir aðskilnað við Dani, Íslendingar öðluðust eins konar sjálfræði í sínum málum, og höfðu enga vörn af sambúð sinni við Dani.[60] Íslendingar gátu átt friðsamleg samskipti við Breta þó Danir ættu í stríði við þá.[61] Ætla má af heimildum að Íslendingar hafi almennt verið fylgjandi bandamönnum í stríðinu, en þó var trausta fylgismenn Þjóðverja að finna í landinu, einkum meðal menntamanna.[62]
Þjóðverjar gerðu tilraun með að senda hingað til lands leynilegan erindreka til að stunda áróður og að veita ýmsar upplýsingar um aðstæður á Íslandi. Sá var ógætinn og komst því fljótlega upp um hann, en almennt virðist þýska stjórnin lítinn áhuga hafa haft á Íslandi. Svo er að sjá að Þjóðverjar hafi almennt talið að Bretar hyggðust innlima Ísland í ríki sitt, hér kvað við kunnuglegan tón, en að líkum voru þessar grunsemdir að ósekju, enda höfðu Bretar náð þeim markmiðum sem þeir ætluðu, án þess að þurfa að innlima landið.[63]
S T R Í Ð S L O K O G F U L L V E L D I 1 9 1 8
Með fullveldissamningi Íslands og Dana sem tók gildi 1. desember árið 1918, lýstu Íslendingar yfir ævarandi hlutleysi", sem að mati Þórs Whitehead girti fyrir af fremsta megni að Ísland blandaðist sjálfkrafa í stríðsátök sem Danir væru þátttakendur í.[64] Í reynd var framkvæmd utanríkismála áfram í Danmörku en yfirstjórn þeirra var í Reykjavík.[65]
Þegar samningurinn gekk í gildi var styrjöldinni lokið, en mikilvægt var fyrir Íslendinga að nota hlutleysisyfirlýsinguna til að sannfæra Atlantshafsveldin um að Ísland gengi aldrei í lið með óvinum þeirra. Íslendingar trúðu enda að hlutleysi tryggði best öryggi þeirra og gerði þjóðinni kleyft að búa frjáls og sjálfráða í landinu, þó á valdsvæði Breta sem veittu skjól.
[1] Þórhallur Vilmundarson, Um sagnfræði, þróun sagnaritunar. Heimspekikenningar um sögu. Heimildafræði (Reykjavík 1969), bls. 44-45.
[2] Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi. Ísland í síðari heimsstyrjöld (Reykjavík 1980), bls 11.
[3] Pétur J. Thorsteinsson, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, sögulegt yfirlit (Reykjavík 1992), bls. 8.
[4] Sjá Patricia Pires Boulhosa, Gamli sáttmáli: Tilurð og tilgangur. Íslensk þýðing Már Jónsson (Reykjavík 2006).
[5] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 6-7.
[6] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 8.
[7] Sólrún B. Jensdóttir, Ísland á brezku valdsvæði 1914-1918 (Reykjavík 1980), bls. 11.
[8] Ófriður í aðsigi, bls. 14.
[9] Ófriður í aðsigi, bls. 15.
[10] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 8.
[11] Ófriður í aðsigi, bls. 13.
[12] Ófriður í aðsigi, bls. 13.
[13] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 9-10.
[14] Ófriður í aðsigi, bls. 14.
[15] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 11.
[16] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 12.
[17] Ófriður í aðsigi, bls. 14, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 13.
[18] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 13.
[19] Helgi Þorláksson, Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", Saga Íslands VI (Reykjavík 2003), bls. 149.
[20] Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", bls. 152-153.
[21] Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", bls. 154-156.
[22] Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", bls. 142-143.
[23] Ófriður í aðsigi, bls. 16.
[24] Ófriður í aðsigi, bls. 15-16.
[25] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls.13-14.
[26] Anna Agnarsdóttir, Ráðabrugg á dulmáli. Hugleiðingar um skjal frá 1785". Ný Saga, tímarit Sögufélags, 6. árg, (1993) bls. 36.
[27] Anna Agnarsdóttir, Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi á árunum 1785-1815" Saga, tímarit Sögufélags, XVII (1979), bls. 15.
[28] Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi", bls. 17.
[29] Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi", bls. 21.
[30] Ófriður í aðsigi, bls. 17.
[31] Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi", bls. 30.
[32] Helgi P. Briem, Sjálfstæði Íslands 1809 (Reykjavík 1936), bls. 503.
[33] Sjálfstæði Íslands bls. 503.
[34] Eftirmál byltingarinnar 1809", bls. 81.
[35] Ófriður í aðsigi, bls. 19.
[36] Anna Agnarsdóttir, Aldahvörf og umbrotatímar", Saga Íslands IX (Reykjavík 2008), bls. 84.
[37] Ófriður í aðsigi, bls.
[38] Ófriður í aðsigi, bls. 22-23.
[39] Kjartan Ólafsson, Áform Frakka um nýlendu við Dýrafjörð", Saga tímarit sögufélags, XXIV (1986), bls. 196.
[40] Ófriður í aðsigi, bls. 24.
[41] Ófriður í aðsigi, bls. 28.
[42] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 42.
[43] Þórunn Valdimarsdóttir, Horfinn heimur. Árið 1900 í nærmynd (Reykjavík 2002), bls. 104-106.
[44] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 49.
[45] Ófriður í aðsigi, bls. 30.
[46] Ófriður í aðsigi, bls. 31.
[47] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 68.
[48] Ófriður í aðsigi, bls. 32-33.
[49] Ófriður í aðsigi, bls. 34.
[50] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 66.
[51] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 67 og Ófriður í aðsigi, bls. 35.
[52] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 67-68.
[53] Ófriður í aðsigi, bls. 35.
[54]Ófriður í aðsigi, bls.37.
[55] Ófriður í aðsigi, bls. 38.
[56] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 71.
[57] Ófriður í aðsigi, bls. 38-41.
[58] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 72.
[59] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 75
[60] Ófriður í aðsigi, bls. 46.
[61] Ófriður í aðsigi, bls. 47.
[62] Ófriður í aðsigi, bls. 42.
[63] Ófriður í aðsigi, bls. 42-45.
[64] Ófriður í aðsigi, bls.47.
[65] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 79.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Andlát bloggs
18.4.2013 | 17:24
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vatnið og tíminn
18.7.2012 | 14:45
Jæja já, mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan síðast að ég stakk niður stílvopni hér. Það var um jólin 2009 að mér datt í hug að óska öllum gleðilegra jóla og tala tungum við það.
Þá óraði mig ekki fyrir því að sumarið 2012 myndi ég sitja á Þjóðarbókhlöðunni að grufla í skrifum Vilmundar Gylfasonar - og ekki bara til gamans, heldur til að skila sem BA ritgerð í draumafaginu, sagnfræði!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Upp er runninn aðfangadagur!
24.12.2009 | 08:28
Kæru vinir, Geseënde Kersfees, Rehus-Beal-Ledeats, Gezur Krislinjden, Feliz Navidad, Shuvo Naba Barsha, Sretan Bozic, Glædelig Jul, Gajan Kristnaskon, Rõõmsaid Jõulupühi, Merry Christmas, Melkin Yelidet Beaal, Hyvaa joulua, Joyeux Noel, Kala Christouyenna eða bara einfaldlega Gleðileg jól!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg...
3.7.2009 | 13:39
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Merkileg niðurstaða Hæstaréttar
29.1.2009 | 18:46
Gaukur Úlfarsson var í dag sýknaður í Hæstarétti af meiðyrðakæru Ómars R. Valdimarssonar. Hæstiréttur snýr því við dómi héraðsdóms sem fann Gauk sekan fyrir ummæli sem hann lét falla á netinu.
Málið á rætur sínar að rekja til skrifa Gauks á bloggsíðu sinni þar sem hann fjallaði um Ómar undir fyrirsögninni Aðal rasisti bloggheima".
Ómar hafði samband við Gauk vegna þessa og bað hann um að fjarlægja færsluna. Þegar Gaukur varð ekki við því ákvað Ómar að höfða mál. Hann fór fram á tvær milljónir í skaða- og miskabætur auk þess sem hann krafðist þess að Gaukur greiddi honum átta hundruð þúsund krónur fyrir birtingu á dómsúrskurði í þremur dagblöðum.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur var Gaukur dæmdur til þess að greiða Ómari 300 þúsund krónur í miskabætur auk hálfrar milljónar í málskostnað.
Hæstiréttur taldi, að skoða mætti skrif Gauks sem lið í almennri umræðu um stjórnmál í aðdraganda alþingiskosninga, en þau birtust í miðli sem opinn var hverjum sem vildi kynna sér þau. Ómar hafi tekið þátt í þeirri umræðu á sama vettvangi. Dómurinn var á því að ummæli Gauks hafi verið ályktanir sem hann hafi talið sig geta reist á orðum Ómars og yrði því ekki slegið föstu að þær hafi verið með öllu staðlausar, eins og það er orðað.
Hæstiréttur snéri því við dómi héraðsdóms og ákvað að ummælin skyldu ekki ómerkt. Af því leiðir að dómurinn tók heldur ekki aðrar kröfur Ómars til greina og sýknaði Gauk.
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Veiran sem smýgur um þjóðarlíkamann - grein Njarðar P. Njarðvík
7.1.2009 | 15:55
Markaðshyggjan hefur margs konar ásýnd. Skrifar Njörður P. Njarðvík í Fréttablaðið í dag. Hann bætir svo við: Og sumar sjást ekki, því að hún á til að bregða fyrir sig ýmsum grímum til að dylja eðli sitt. Ekki einasta hefur hún kollsteypt öllu efnahagslífi á Íslandi. Hún hefur einnig reynst eins konar veira sem smýgur um allan þjóðarlíkamann og lamar nánast ónæmiskerfið. Til að mynda hefur henni tekist að eitra íþróttir og menningarlíf. Sjúkdómseinkennin sjáum við dag hvern í öllum fjölmiðlum landsins, enda heldur hún áfram að grafa um sig.
Um þessa veiru og margt fleira áhugavert ætlum við Njörður að ræða í Síðdegisútvarpinu á Útvarpi Sögu næstkomandi föstudag, 9.janúar. Njörður er margfróður maður, vel lesinn og ekki síst á hann mikla lífsreynslu að baki. Það verður áhugavert að setjast niður með Nirði og spjalla, og ekki síður verður gaman fyrir hlustendur að heyra hvað hann hefur að segja.
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
Hagræðing um 1,3 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)