Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015
"Lýðræðið eitt er vettvangurinn til að berjast á"
31.1.2015 | 12:07
Ég hef tekið þá ákvörðun að birta BA ritgerð mína í sagnfræði hér á blogginu. Í ritgerðinni var gerður samanburður á þeim breytingum sem Vilmundur Gylfason boðaði á sínum tíma og því sem krafist var eftir efnahagshrunið með sérstakri áherslu á tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Vilmundur vildi að stjórnarskránni yrði beitt til breytinga á innviðum samfélagsins og kom fram með ýmsar tillögur til þess. Kannað var hvert Vilmundur sótti hugmyndir sínar og hvaða samspil er milli þeirra og nálgunar stjórnlagaráðsliða að verki sínu. Í ritgerðinni var horft til þróunar stjórnarskrárinnar og þeirra breytinga hafa verið gerðar á henni á lýðveldistímanum. Fjallað var um ráðgefandi stjórnlagaráð og hvaða hlutverk því var ætlað. Vegna lengdar ritgerðarinnar mun ég birta einn kafla í einu uns allt er komið. Ritgerðin verður hér að mestu óbreytt frá upprunalegu útgáfunni - fyrir utan minniháttar breytingar vegna framrásar tímans.
Inngangur
Vilmundur Gylfason setti ekki aðeins mark sitt á samtíð sína þau tæp 35 ár sem hann lifði, heldur lifðu hugmyndir hans um endurbætur á íslensku stjórnkerfi áfram.[1] Eftir að hann sneri til Íslands frá námi í Bretlandi árið 1973 beitti hann sér fyrir umbótum á íslensku samfélagi, ekki síst í stjórnsýslu, lagasetningu og dómsvaldi. Hann starfaði sem menntaskólakennari og vann við ljósvaka- og prentmiðla. Síðan haslaði hann sér einnig völl í stjórnmálum sem þingmaður og ráðherra. Hann var jafnaðarmaður að hugsjón líkt og má sjá í orðum hans og sagðist sjálfur fremur aðhyllast franska jafnaðarmennsku en þá þýsku. Í anda þess kvaðst hann vilja gera löglega uppreisn í grasrótinni meðal fólksins og stokka upp gamla flokkakerfið.[2] Til að sú uppreisn væri möguleg taldi Vilmundur breytinga þörf á grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar. Hann lagði til atlögu við það sem hann kallaði samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna með stofnun Bandalags jafnaðarmanna árið 1983, en Kvennaframboðið varð til á svipuðum tíma, sem hafði sömuleiðis veruleg áhrif á stjórnmál á Íslandi. Þótt flokkakerfið lifði það herhlaup af má fulllyrða að tillögur Vilmundar hafi haft varanleg áhrif.
Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008 mátti t.d. iðulega heyra nafn Vilmundar nefnt í tengslum við endurreisn landsins. Áköf andstaða við kerfi sem hyglaði vinum og vandamönnum kom upp ásamt háværu ákalli um skipulags- og stefnubreytingar. Flokkakerfið var harðlega gagnrýnt og var því m.a. kennt um hvernig fór ásamt veikum eftirlitsstofnunum. Einnig var vísað til slitinnar og óskýrrar stjórnarskár.[3] Svo var að sjá sem margir þeirra sem kröfðust breytinga eftir hrunið, þar á meðal sumir þeirra sem buðu sig fram til stjórnlagaþings, hafi horft til kenninga Vilmundar sem fyrirmyndar að umbótum.
Í þessari rannsókn verður fjallað um hugmyndafræði og umbótatillögur Vilmundar Gylfasonar og þær bornar saman við orðræðuna eftir bankahrunið og tillögur stjórnlagaráðs. Kannað verður hvert Vilmundur sótti hugmyndir sínar og hvaða samspil er milli þeirra og nálgunar stjórnlagaráðsliða að verki sínu. Jafnframt verður horft til samfélagsástands á hvorum tíma. Þótt nafn hans hafi orðið fyrirferðarmikið í orðræðu samfélagsins eftir efnahagshrunið og vitnað í ræður hans og rit verða færð fyrir því rök að tillögur hans hafi fremur haft óbein en bein áhrif á niðurstöður stjórnlagaráðs. Hugmyndir þess komu víða að, rétt eins og Vilmundar sjálfs. Hugmyndafræði hans átti sér almennt uppruna í lýðræðis- og frelsishugsjónum 17. og 18. aldar, í kenningabanka franskra jafnaðarmanna, anarkista og fleiri pólítískra hugsuða. Svipað á við um vinnu stjórnlagaráðs sem leitaði fanga við vinnu sína hvaðanæva að og komst jafnvel að svo róttækum niðurstöðum að það hlaut ákúrur fyrir.
Umbótatillögur Vilmundar höfðu sumar náð framgangi gegnum stjórnmálin á Íslandi. Breytingar og þróun hafa orðið verulegar á sviði fjölmiðlunar, innan dómskerfisins og stjórnsýslu síðan hann lagði fram hugmyndir sínar. Því lagði stjórnlagaráð aðrar og oft minni áherslu á fjölmarga þætti en þótt hefði þurfa þrjátíu árum fyrr. Greint verður hvar stjórnlagaráð og Vilmundur áttu samleið og hvar ekki, sem virðist oft frekar endurspeglast í hugarfari því sem er að baki tillögunum en niðurstöðunni sjálfri. Sýnt verður að samhljóm má sjá í andstöðu við vald stjórnmálaflokka, leit að leiðum til að draga úr spillingu og löngun til að efla beint lýðræði. Stjórnlagaráð líkt og Vilmundur lagði áherslu á valddreifingu og aðhald milli valdþátta ríkisins. Sú mikla áhersla sem ráðið lagði á að ná taumhaldi á einstökum þáttum ríkisvaldsins með auknu valdboði og eftirlitsstofnunum er varla sú leið sem Vilmundur hefði valið enda var hann þeirrar skoðunar að fækka bæri stofnunum ríkisins. Eitt og annað er líkt með hugmyndum stjórnlagaráðs og Vilmundar um hvernig bregðast skuli við áratugalöngum deilum um jöfnun atkvæðisréttar milli kjördæma en annað er ólíkt. Stjórnlagaráðliðum þótti einna byltingakenndast í tillögum sínum að gefa kjósendum kost á greiða atkvæði þvert á framboðslista sem hafði einnig verið meðal hugmynda Vilmundar. Viðhorf til mannréttinda hefur víkkað út og breyst mjög undanfarin þrjátíu ár; því eru tillögur stjórnlagaráðs efnislega nokkuð lagt frá kenningum Vilmundar og á suman hátt svo byltingakenndar að ráðið hefur legið undir ámæli fyrir þær. Á hinn bóginn má víða sjá keimlíka sanngirnis- og réttlætiskröfu og hann hélt fram í öllum málflutningi sínum. Sú tillaga Vilmundar að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu var mjög í anda hrifningar hans á franskri stjórnskipan og mikilvæg leið til að treysta valdmörk í stjórnsýslunni. Sú aðferð var í upphafi nokkrum stjórnlagaráðsliðum hugstæð og hún rædd í þaula. Niðurstaða ráðsins var að slíkt beint kjör æðsta yfirmanns framkvæmdarvaldsins gæti m.a. ógnað þingræðinu og því varð önnur leið ofan á sem þótti heldur styrkja það.
Eftir Vilmund liggja mikil skrif, bókakaflar, viðtöl og blaðagreinar sem hér verður stuðst við til að útskýra hugmyndafræði hans. Einnig verða þingmál hans og ræður teknar til skoðunar, einkum tvær þar sem hann annars vegar tilkynnti um stofnun Bandalags jafnaðarmanna og hins vegar útlistaði grundvallaratriði þau sem lágu að baki stjórnmálastefnu þess. Jafnframt verður byggt á ævisögu hans, Löglegt en siðlaust eftir Jón Orm Halldórsson, frá árinu 1985 og námsritgerð eftir Jón Egilsson.[4] Fyrsta mál Vilmundar sem þingmanns Bandalags jafnarðarmanna var þingsályktunartillaga um gerð frumvarps til stjórnskipunarlaga um aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds.[5] Sú tillaga verður skoðuð, en fylgiskjöl með henni voru greinar eftir Gylfa Þ. Gíslason og Ólaf Jóhannesson sem birtust í tímaritinu Helgafelli árið 1945 ásamt yngri grein eftir flutningsmanninn sjálfan.[6] Þau skrif skipa veigamikinn sess, enda byggði Vilmundur hugmyndir sínar mjög á þeim. Einnig verður horft til skrifa fræðimanna um ríki og ríkisvald á borð við Svan Kristjánsson, Ragnheiði Kristjánsdóttur, Ólaf Jóhannesson og Gianfranco Poggi.[7]
Nokkur meginatriði í íslenskri stjórnsýslu og stjórnskipan, sem Vilmundi voru ofarlega í huga,verða greind í ritgerðinni. Þau verða borin saman við þær hugmyndir sem komu upp eftir hrun, einkum skrif og tillögur stjórnlagaráðs. Við greininguna verður stuðst við viðtöl höfundar og annara við nokkra stjórnlagaráðsliða og greinaskrif þeirra fyrir og eftir veru þeirra í ráðinu. Leitast var við að hafa kynjaskiptingu þeirra sem jafnasta og að þeir hefðu komið að störfum mismunandi nefnda innan ráðsins. Sumir vildu ræða störf sín og hugmyndir við höfund en aðrir vildu fremur fá sendan spurningalista.[8] Einhverjir vildu ekki láta nafns síns getið og verður það virt í hvívetna. Fræðimenn hafa rýnt nokkuð í ástæður og mögulegar afleiðingar efnahagshrunsins og tengsl þess við kröfu um endurreisn og endurskipulagningu samfélagsins. Nokkur slík rit voru höfð til hliðsjónar til að skerpa skilning höfundar. Má þar nefna skrif tveggja stjórnlagaráðsliða, þeirra Eiríks Bergmanns Einarssonar, stjórnmálafræðings og Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðings og bróður Vilmundar.[9] Þorvaldur líkt og fleiri hefur bent á að stjórnarskrám hafi iðulega verið breytt eftir samfélagsáföll eða miklar breytingar. Guðni Th. Jóhannesson, Ólafur Arnarson, Guðrún Johnsen, Ásgeir Jónsson og breski blaðamaðurinn Roger Boyes hafa allir velt hruninu, ástæðum þess og afleiðingum fyrir sér og var horft til þeirra.[10] Við skrifin voru einnig höfð til hliðsjónar nokkur rit um heimspeki stjórnmálanna, um eðli ríkis og ríkisvalds og sögulegan bakgrunn vestræns lýðræðisskipulags.[11] Loks verður vikið að frumvarpi stjórnlagaráðs og greinargerð með því ásamt ritinu Ný stjórnarskrá Íslands sem er niðurstaða vinnu ráðsins.[12]
Nokkuð hefur verið skrifað um stjórnarskrármál og störf stjórnlagaráðs á liðnum árum. Iðulega hefur verið horft til ástæðna þess að stofnað var til ráðsins, einstakra greina frumvarpsins, og hvað standi í vegi stjórnarskrárbreytinga.[13] Frumvarp stjórnlagaráðs hefur hins vegar ekki verið borið saman við kenningar pólítísks áhrifavalds á borð við Vilmund Gylfason, líkt og gert verður hér.
Ritgerðin skiptist í fimm meginkafla auk niðurstaðna. Í fyrsta kafla er greint frá kenningum Vilmundar og áhrifavalda hans og þær settar í samfélagslegt samhengi. Næstu þrír kaflar eru einskonar millistef þar sem horft er til orðræðunnar sem varð til í kjölfar hrunsins, kröfunnar um breytt samfélag og hvernig nafn Vilmundar bar á góma í því samhengi. Uppruni og þróun stjórnarskrárinnar verður rakinn og gerð grein fyrir tilurð stjórnlagaráðs. Þar verða skrif ýmissa þeirra sem sóttust eftir eða náðu kjöri til stjórnlagaráðs greind og hugað að í hvaða smiðjur þeir leituðu eftir hugmyndum. Fimmti og efnismesti kaflinn snýr að samanburði á meginatriðum hugmynda Vilmundar og stjórnlagaráðsins. Um er að ræða gagnrýni hans á ægivald stjórnmálaflokka og kröfu hans um skýra aðgreiningu ríkisvaldsins og skipan hinna þriggja þátta þess löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvalds sem tengist m.a. hugmyndum um beint kjör forsætisráðherra. Því skyld eru sjónarmið sem snerta skipun embættismanna ríkisins. Að sama skapi verður horft til þess hvernig Vilmundur og stjórnlagaráð fjölluðu um málskotsrétt og þjóðaratkvæðagreiðslur. Sjónum verður beint að mannréttindaákvæðum stjórnarskrár og ekki síst kjördæmaskipan og kröfunni um jafnt vægi atkvæða. Afstaða Vilmundar og stjórnlagaráðs til fjölmiðla verður einnig borin saman.
-----
Ljósmynd af Vilmundi Gylfasyni er fengi af vef Alþingis og ljósmynd af stjórnlagaráði af fésbókarsíðu ráðsins.
[1] Sjá t.d. Ágúst Einarsson: Ég vil byltingu og blóð Viðtal Karls Th. Birgissonar ritstjóra við Ágúst Einarsson sem birtist í Helgarpóstinum 2. nóvember 1995, Greinasafn fyrra bindi. Úrval greina og erinda um stjórnmál, menningu og menntun, ([Reykjavík] 2007), bls. 141. Titill ritgerðarinnar er fenginn úr hátíðarræðu sem Vilmundur Gylfason flutti á Húsavík 17. júní 1975, sjá: Við viljum bætt og umfram allt geðfelldara þjóðfélag. Hátíðarræða flutt á Húsavík 17. júní sl., Tíminn 24. júní 1975, bls. 10.
[2] Vilmundur Gylfason: Ræða um vantraust, 23. nóvember 1982, gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar. Ræðuna er að finna í Alþingistíðindum B 1982-1983, d.801- 806 en hér verður stuðst við samhljóða frumrit Vilmundar.
[3] Vef. Þarf að breyta stjórnarskránni?, Spurt og svarað á vef Stjórnlagaráðs, http://stjornlagarad.is/upplysingar/spurt-og-svarad/, skoðað 7. apríl 2014.
[4] Jón Ormur Halldórsson: Löglegt en siðlaust. Stjórnmálasaga Vilmundar Gylfasonar (Reykjavík 1985) og Jón Egilsson: Siðspilling og siðbót: þjóðfélagsgagnrýni Vilmundar Gylfasonar 1975-1978, óbirt BA ritgerð í sagnfræði (HÍ), 1997.
[5] Alþingistíðindi A 1982, bls. 802.
[6] Ólafur Jóhannesson: Hugleiðingar um stjórnarskrána, Helgafell (1945), bls. 104-113; Gylfi Þ. Gíslason: Lýðræði og stjórnfesta. Hugleiðingar um stjórnskipunarmálið, Helgafell (1945), bls 114-123 og Vilmundur Gylfason: Franskt stjórnarfar og íslenskar aðstæður. Hugleiðingar um breytta stjórnarskrá, Tímaritið Málþing (1979).
[7] Svanur Kristjánsson: Frá nýsköpun lýðræðis til óhefts flokkavalds. Fjórir forsetar Íslands 1944-1996, Skírnir 186 (Vor 2012); Lýðræðisbrestir íslenska lýðveldisins. Frjálst framsal fiskveiðiheimilda. Skírnir, 187. ár (Haust 2013); Ragnheiður Kristjánsdóttir: Efasemdir um þingræði., Þingræði á Íslandi. Samtíð og saga, ritstjórn: Ragnhildur Helgadóttir o.fl. (Reykjavík 2011); Ólafur Jóhannesson: Lög og réttur (Reykjavík 1985) og Gianfranco Poggi: The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule, Handbook of Historical Sociology (London 2003), ritstjórar Gerard Delanty og Engin F. Isin.
[8] Spurningar til stjórnlagaráðsiða sneru að hversu mikilvægt þeim hefði þótt að uppræta spillingu, íhuga kjör embættismanna og vald stjórnmálamanna auk myndunar valdablokka. Rætt var um þrískiptingu ríkisvaldsins, kjördæmamál og jöfnun atkvæðaréttar. Rædd var sú hugmynd að kjósa forsætisráðherra beint. Sömuleiðis var vikið að hve ofarlega stjórnlagaráðsliðum hefði verið í huga afnám þingrofsréttar eða þrenging hans. Einnig var spurt um beint lýðræði, ákvæði um mannréttindi svo sem eignarrétt, tjáningarfrelsi og eðli hagsmunasamtaka. Þeir voru einnig spurðir hvað hefði orðið til þess að þeir buðu sig fram, hvaða hugmyndafræði hefði verið þeim efst í huga og hvort hugmyndir Vilmundar Gylfasonar hefðu haft áhrif á þá,fyrir og á meðan störfum stjórnlagaráðs stóð.
[9] Eiríkur Bergmann Einarsson: Iceland and the International Financial Crisis:Boom, bust and Recovery (Basingstoke 2014) og Þorvaldur Gylfason: From Collapse to Constitution: The Case of Iceland, CESifo Working Paper Series No. 3770, (June 2012).
[10] Guðni Th. Jóhannesson: Hrunið:Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykjavík 2009); Ólafur Arnarson: Sofandi að feigðarósi (Reykjavík 2009); Guðrún Johnsen: Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland (Basingstoke 2014); Ásgeir Jónsson: Why Iceland: How One of the World's Smallest Countries Became the Meltdown's Biggest Casualty (New York 2009) og Roger Boyes: Meltdown Iceland: How the Global Financial Crisis Bankrupted an Entire Country (London 2009).
[11] Atli Harðarson: Neyddur til að vera frjáls, Afarkostir. Greinasafn um heimspeki (Reykjavík 1995); Guðmundur Hálfdanarson: Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk (Reykjavík 2001); John Locke: Ritgerð um ríkisvald, íslenzk þýðing eftir Atla Harðarson (Reykjavík 1986); Michael Mann: The Autonomous Power of the State, States in History, ritstjóri John A. Hall (Oxford 1989); Páll Skúlason: Réttlæti, velferð og lýðræði. Hlutverk siðfræðinnar í stjórnmálum, Pælingar II (Reykjavík 1989); James Rachels: Stefnur og straumar í siðfræði (Reykjavík 1997) og Stefanía Óskarsdóttir: Þingræði verður til, Þingræði á Íslandi, samtíð og saga, Ritstjórn Ragnhildur Helgadóttir og fleiri (Reykjavík 2011).
[12] Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum. Stjórnlagaráð. Umsjón með útgáfu: Agnar Bragi Bragason, Andrés Ingi Jónsson, Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir, Sif Guðjónsdóttir, Þorsteinn Fr. Sigurðsson, (Reykjavík 2011) og Ný stjórnarskrá Íslands. Frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga 2011, útgefandi Daði Ingólfsson í samstarfi við Stjórnarskrárfélagið ([Reykjavík] 2011).
[13] Sjá: Sigurður Hólmar Kristjánsson: Stjórnlagaráð, saga þess og hlutverk, óbirt BA ritgerð í lögfræði (HA), 2012; Brynhildur Bolladóttir: Tillögur stjórnlagaráðs að ákvæði í stjórnskipunarlögum um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana, óbirt BA ritgerð í lögfræði (HÍ), 2012; Ásgeir Einarsson: Málskotsréttur forseta Íslands, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (HÍ), 2012; Salka Margrét Sigurðardóttir: Er vilji allt sem þarf? Hvers vegna norræna velferðarstjórnin hafði ekki erindi sem erfiði við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (HÍ), 2014 og Einar Franz Ragnars: Frá Búsáhaldabyltingu til Stjórnlagaþings : hver eru tengslin á milli Búsáhaldabyltingarinnar og Stjórnlagaþings?, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (Bifröst) 2011.
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
Spádómi Hitlers fylgt eftir
27.1.2015 | 11:26
Þar sem 27. janúar mun vera um veröld alla til minningar um Helförina langar mig að birta hér grein sem ég skrifaði ásamt Aroni Erni Brynjólfssyni sagnfræðingi. Greinin birtist fyrst í Sögnum árið 2013.
Þegar ítök kirkjunnar fóru þverrandi í Vestur-Evrópu og kenningar um jöfn mannréttindi urðu til, fengu gyðingar að lifa og stunda kaupskap sinn og viðskipti nánast í friði. Um miðja 19. öld kom fram kenningin um náttúruvalið byggð á kenningum Charles Darwins um uppruna tegundanna og að hinir hæfustu lifi af. Vísindamenn yfirfærðu kenningarnar á samfélag manna þ.á m. náttúrufræðingurinn Francis Galton, líffræðingurinn Alexis Carrel og náttúrufræðingurinn Ernst Haeckel. Kenningar spruttu upp um að germanski kynstofninn væri sterkastur og hreinastur allra, afkomandi göfugs kynstofns aría, þaðan sem öllu hinu fagra, sterka og góða stafaði, meðan andstæðan væri spilltur og úrkynjaður ættstofn gyðinga.[1] Austurríski rithöfundurinn Stefan Zweig lýsti hvernig stjórnmálin fóru ekki varhluta af þessari hugmyndafræði með uppgangi bolsévisma, fasisma og nasisma og sagði: fyrst og fremst er þó þjóðernishyggjan sú erkiplága, sem eitrað hefur blóma evrópskrar menningar.[2]
Hugmyndir um að gyðingar væru af náttúrulegum ástæðum óæðri fékk byr undir vængi víða í Evrópu og til varð hugtakið gyðingavandamál sem vísindamenn jafnt sem prestar og stjórnmálamenn sögðu að þyrfti að leysa. Blöð, tímarit, bækur og bæklingar sem boðuðu andúð á gyðingum, voru gefin út og lesin spjaldanna á milli. Því má sjá að hugmyndin um að gyðingar væru á einhvern hátt óæðri og í raun nánast réttdræpir, hafði skotið rótum löngu áður en Adolf Hitler komst til valda sem foringi Þriðja ríkisins.
Greinin sem hér fer á eftir er hluti rannsóknar höfunda á helförinni í tengslum við námskeiðið Hitler og þjóðernisjafnaðarstefnan, vorið 2011. Markmið rannsóknarinnar var fyrst og fremst að lýsa aðdraganda og upphafi helfararinnar, en höfundar skoðuðu einnig kenningar þess efnis að hún hafi ekki átt sér stað, eða væri stórlega orðum aukin. Gerð verður grein fyrir hugmyndum um lausnir á gyðingavandamálinu og yfirlýsingu Hitlers um útrýmingu gyðinga efndu þeir til styrjaldar í Evrópu. Einnig verður gerð tilraun til að svara hvort það sem gert var hafi verið með vitund og vilja óbreyttra borgara og hvort helförin hafi verið skipulögð frá upphafi.
- Hver var spádómurinn?
Eitt af verkefnum Nasistaflokksins eftir að hann hafði náð völdum í Þýskalandi árið 1933 var að finna lausn á gyðingavandamálinu. Tveir háttsettir foringjar í flokknum komu fram með hugmyndir í maí-hefti Nationalsozialische Monatshefte sama ár. Annar þeirra var Achim Gercke, nýskipaður sérfræðingur innanríkisráðuneytisins í kynþáttamálum. Honum var umhugað að losna við gyðinga úr landinu enda væri ekki lausn að safna þeim saman í eigin lokuð samfélög. Því stakk Gercke upp á skipulögðum brottflutningi þeirra frá Þýskalandi enda áleit hann hugsanlegt að gyðingar gætu þannig orðið þjóð, besta úrræðið væri að koma þeim kerfisbundið fyrir á einum stað.[3] Hinn var Johann von Leers, helsti hugmyndasmiður Nasistaflokksins í kynþáttamálum, en honum fannst kjörið að gyðingum yrði fundið landsvæði fjarri Evrópu þar sem flutningur til Palestínu væri ómögulegur, einkum vegna hættu á árekstrum við múslíma. Leers taldi Madagaskar, undan austurströnd Afríku, kjörinn áfangastað því í nýju föðurlandi gætu gyðingar gert nákvæmlega það sem þá lysti án þess að trufla aðra íbúa veraldarinnar.[4]
Alkunna er að þessi leið var ekki valin, heldur voru gyðingar í Þýskalandi smám saman einangraðir félagslega og bannað að hafa nokkur samskipti við aría. Gyðingum var gert að láta af öllum störfum fyrir hið opinbera og var meinað að gegna ábyrgðarstörfum sem kröfðust samneytis við aría. Síðar voru helstu eignir og fyrirtæki gyðinga gerð upptæk og úrslitadómurinn, spádómur foringjans, Adolfs Hitlers vofði yfir.
Í janúarlok 1939 ávarpaði Hitler þýska þingið og boðaði skilyrðislausa útrýmingu gyðinga kæmi til annarrar styrjaldar, því hann trúði að náin samvinna og tengsl væru milli auðugra gyðinga, sósíalista og bolsévika. Því snerist spádómur Hitlers um að drægi alþjóðlegt auðvald veröldina inn í heimsstyrjöld yrði niðurstaðan ekki sigur bolsévismans og þar með gyðinga, heldur alger útrýming á kynstofni þeirra í Evrópu.[5]
- Spádómnum fylgt eftir
Morð á óæskilegum einstaklingum höfðu tíðkast í Þýskalandi fyrir stríð, t.d. líknarmorð á andlega og líkamlega fötluðum þýskum þegnum, sem áttu eftir að hafa áhrif á aðferðir í útrýmingarbúðum síðar.[6]
Í kjölfar innrásar þýska hersins í Pólland 1. september 1939 var Hitler ákveðinn í að útnefna Hans Frank, fyrrverandi lögmann Nasistaflokksins, landstjóra almenna stjórnunarumdæmisins (e. General Government) sem átti að verða aðalheimkynni innfæddra.[7] Síðar átti að flytja slava, pólska gyðinga og síðar alla aðra gyðinga til köldustu héraða Sovétríkjanna. Hugmyndir um brottflutning voru því enn uppi, en ætlunin var að fangarnir puðuðu í helkulda norðurhjarans, uns þeir létust úr hungri, sjúkdómum og vosbúð. Þeir sem væru óhæfir til vinnu yrðu drepnir miskunnarlaust án nokkurrar tafar.[8]
Áætlun um þjóðernishreinsun (e. ethnic cleansing) í Póllandi var hrundið af stað með samþykki Hitlers. Sex sérsveitir SS (þ. Einsatzgruppen) þustu inn í landið og höfðu heimild til að skjóta alla sem sýndu minnsta mótþróa við handtöku eða virtust líklegir til vandræða. Strangar siðareglur gilda almennt í hernaði, sem gerði sérsveitunum erfitt fyrir þegar ganga átti milli bols og höfuðs á pólska aðlinum, klerkastéttinni og menntastéttinni. Þó sveitirnar vildu ekki styggja þýska herinn tókst þeim að myrða um 60 þúsund manns.[9] Ekki virðist hafa verið erfitt að finna böðla, viljuga að leggja sitt af mörkum við að þóknast Hitler og láta spádóm hans rætast. Það virðist engu máli hafa skipt hvar í stétt þessir menn voru; hermenn, lögreglumenn, iðnaðarmenn eða skrifstofumenn virtust allir tilbúnir að þjóna foringjanum.
Tveimur dögum eftir að innrásaráætluninni Barbarossa[10] var hrundið af stað lagði Heinrich Himmler, yfirmaður SS sveitanna, fram allsherjaráætlun fyrir þá sem fengju það hlutverk að endurskipuleggja búsetu þjóða og þjóðarbrota í hernumdum löndum. Hugmyndin var að flytja ríflega 30 milljónir slava, þ.e. Pólverja, Tékka og Slóvaka, auk stóra hópa gyðinga hvaðanæva að úr Evrópu til vesturhluta Síberíu. Þarna var kominn einangraður samastaður fyrir gyðinga og slava þar sem þeir að lokum dæju út.
- Hvað gerðist eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin?
Reinhard Heydrich, einn helsti hugmyndasmiður helfararinnar, fékk leyfi Hitlers til að framfylgja áætluninni um að friða hertekin héruð Sovétríkjanna eftir innrásina í Sovétríkin í júní 1941. Sendar voru fjórar dauðasveitir frá Póllandi í kjölfar innrásarhersins til að gera upp við gyðinga sem voru virkir í Kommúnistaflokknum, en einnig mátti handtaka alla þá sem voru taldir styðja flokkinn. Vart fer á milli mála að Heydrich og hans menn höfðu mjög frjálsar hendur. Í sjálfu sér var nóg fyrir meðlimi dauðasveitanna að gera ráð fyrir að gyðingar sem urðu á vegi þeirra væru kommúnistar, til að þeir teldust réttdræpir.[11]
Fyrstu morðin á gyðingum eftir innrásina í Austur-Pólland og Sovétríkin voru framin þann 24. júní 1941 í litlum bæ í Litháen. Þann 3. júlí 1941 staðfesti foringi dauðasveitarinnar í Luzk, í austurhluta Póllands, að hafa heimilað mönnum sínum að skjóta 1160 karlkyns gyðinga til bana.[12] Litháískir þjóðernissinnar í Kowno tóku þátt í morðunum með því að berja gyðinga til bana með kylfum á meðan fólk safnaðist saman umhverfis og fylgdist með af ákafa. Sumar mæður höfðu börn sín með til að sýna þeim réttlát morð meðan þýsku hermennirnir stóðu álengdar og tóku ljósmyndir sér til skemmtunar.[13] Morðum af þessu tagi fjölgaði mjög og í ágúst 1941 höfðu 10 til 12 þúsund gyðingar og kommúnistar verið myrtir.
Hitler mun hafa verið ánægður með gang mála í Sovétríkjunum en krafðist þess að yfirmaður Gestapo, Heinrich Müller, sæi til þess að foringjar dauðasveitanna kæmu framvegis öllum skýrslum varðandi aðstæður gyðinga og aftökur rakleiðis til hans. Dr. Joseph Goebbels áróðursráðherra varð einnig mjög ánægður við lestur skýrslnanna, taldi árangurinn frábæran og í kjölfarið lýsti hann yfir að spádómur Hitlers væri að rætast.[14]
Að útrýma kommúnísku stjórnkerfi og þar með arfleifð gyðinga varð sameiginlegt markmið yfirmanna þýska hersins og yfirmanna dauðasveitanna. Afskiptaleysi hersins skipti höfuðmáli fyrir dauðasveitirnar svo þær fengju að athafna sig að vild. Mörgum yfirmönnum hersins fannst drápin vera nauðsynleg til að hefna fyrir ofbeldi og glæpi sem Þjóðverjar hefðu þurft að þola af hálfu gyðinga ásamt því að heiður Þýskalands og stolt æðri kynstofnsins væri í húfi. Öll orð hinna viljugu herforingja urðu hvatningarorð, meðan orð þeirra sem mögluðu og þótti aðgerðirnar ekki sýna minnsta vott um hermennsku voru hunsuð.[15]
Morðin á gyðingum tóku á sig aðra mynd þegar dauðasveitirnar hættu að drepa karlmenn eingöngu, og hófu að myrða eiginkonur og börn sem gætu sóst eftir hefnd síðar.[16]
- Aðferðirnar þróast
Hæstráðendur Þriðja ríkisins litu á morðin á gyðingum sem lokalausnina á gyðingavandamálinu í Evrópu. Þó er greinilegt að í upphafi var ferlið harla losaralegt og óskipulagt. Sagnfræðingum hefur ekki komið saman um hver bar ábyrgð á öllum ákvörðunum en spjót þeirra flestra beinast að Hitler sjálfum sem var foringi ríkisins, æðsti yfirmaður hersins og bar því ábyrgð á öllum hernaðarlegum aðgerðum.[17]
Nokkrir fræðimenn, þ.á m. þýski sagnfræðingurinn Martin Broszat, hafa efast um að Hitler hafi nokkurn tíma gefið skýra skipun um að hefja ferlið sem síðar varð þekkt sem helförin. Það hafi smám saman þróast út frá áðurnefndum aðgerðum árin 1941 og 1942. Þessi niðurstaða byggir fremur á skorti á heimildum en raunverulegri vitneskju um hvað gerðist.[18] Aðrir hafa fullyrt að Hitler hafi einungis gefið fyrirskipun munnlega, öfugt við líknardrápin í Þýskalandi, þar sem fyrirskipunin var skjalfest.[19]
Þegar litið er á þróun helfararinnar, og þ.a.l. lokalausnarinnar, kemur í ljós að eitt fjöldamorð leiddi af öðru. Morðin á fötluðum og þroskaheftum þýskum þegnum, sem voru að mestu framkvæmd með eiturgasi, voru upphafið sem sannfærði æðstu menn Nasistaflokksins að fjöldamorð væru framkvæmanleg. Aðferðirnar sem nasistar beittu voru breytilegar, í upphafi voru gyðingar jafnvel skotnir til bana á staðnum. Þeir sem gátu unnið voru sendir rakleiðis í fangabúðir eða í gyðingahverfin, þar sem hungursneyð, kuldi og sjúkdómar drógu flesta til dauða. Til eru dæmi um að skotvopn hafi verið notuð í fanga- og útrýmingarbúðunum til að flýta fyrir og skila ásættanlegum árangri, enda þótti gasið ekki alltaf áreiðanlegt. Óbreyttir þýskir borgarar virtust reiðubúnir að horfa framhjá eða jafnvel taka þátt í morðum á saklausu fólki sem þeim hafði verið talin trú um að væri óæðra.[20]
Himmler og flestir undirmenn hans áttuðu sig á að fljótlegra og gagnlegra væri að koma öllum gyðingum fyrir í sérvöldum búðum utan Þýskalands. Þar gætu morðin gengið hraðar fyrir sig, þar sem enginn kæmist á snoðir um þau og auðveldara yrði að leyna aðstæðum fanga innan veggja búðanna. Óhætt er að fullyrða að þeir hafi viljað leyna sannleikanum af ótta við viðbrögð þýsku þjóðarinnar og umheimsins.[21]
- Flutningar hefjast
Líklegt er að allar aðgerðir gegn gyðingum hafi þurft samþykki Hitlers, en honum var orðið ljóst að gangur stríðsins væri smám saman að breytast til hins verra fyrir Þýskaland. Innrásin í Sovétríkin gekk illa og varla voru til nægilega margar járnbrautarlestir til að flytja búnað og gögn til eða frá víglínunni og enn síður fyrir allsherjarflutninga gyðinga austur á bóginn. Svæðin sem nasistar réðu yfir í austri voru hugsuð sem lífsrými fyrir Þjóðverja (þ. Lebensraum) en jafnframt fyrir þjóðernishreinsanir enda voru sovéskir gyðingar drepnir þar þúsundum saman. Hitler taldi allar aðgerðir gegn þeim gyðingum sem eftir voru í Evrópu, hvort heldur sem við víglínurnar eða fyrir aftan þær, yrðu að bíða betri tíma því aðgerðirnar þóttu of áhættusamar. Í námunda við andstæðinga þýska herliðsins var hætta á að upp kæmist um ofsóknir gegn gyðingum og áform um lokalausnina.
Í ágúst 1941, þegar fregnir bárust af fyrirskipun Stalíns um flutning 600 þúsund sovéskra þegna af þýskum uppruna (e. Volga Germans) til Vestur-Síberíu og Norður-Kasakstans, skipti Hitler um skoðun og ákvað að brottflutningur gyðinga austur hæfist um miðjan september. Erfitt er að fullyrða hvort þessi ákvörðun Hitlers hafi verið viðbrögð við aðgerðum Stalíns en ætla má að svo hafi verið. Hitler hafði talið gríðarlega nauðsyn á flutningunum svo hægt væri að taka endanlega á gyðingavandamálinu, sem hefði setið of lengi á hakanum. Frekari tafir á lokalausn gyðingavandamálsins væru óásættanlegar enda bæru gyðingar ábyrgð á stríðinu og skyldu nú sjá spádóminn uppfylltan.[22]
Um miðjan september var tilkynnt að gyðingar í tékknesku verndarríkjunum Bæheimi og Mæri skyldu tafarlaust fluttir austur á bóginn. Fyrsti áfangastaður þeirra myndi vera pólsku héruðin, sem höfðu verið undir handarjaðri nasista í rúm tvö ár, en eftirlifendur yrðu fluttir lengra austur vorið eftir.
Sagnfræðingurinn Ian Kershaw virðist ekki vera sannfærður um að beint samhengi sé milli flutninga gyðinga austur og morðaðgerða gagnvart þeim. Hann telur líklegra að einhvers konar víxlverkun hafi átt sér stað þar sem eitt leiddi af öðru uns örvæntingin hafi orðið til að æðstu menn Nasistaflokksins gengu nánast af göflunum varðandi drápsaðferðir síðustu þrjú ár stríðsins. Kershaw segir heldur engar heimildir vera til um skipulagða áætlun varðandi þjóðarmorð á þessum tíma. Þrátt fyrir þessi orð Kershaws má ekki gleyma því að aðgerðir gegn gyðingum hófust af miklum krafti snemmsumars 1941, byggðar á spádómsræðu Hitlers. Þeir sem þær framkvæmdu vildu ólmir sanna sig og leggja lóð sín á vogarskálarnar við að þóknast Þriðja ríkinu og foringjanum. Eftir að Hitlers veitti Heydrich heimild til friðunar hertekinna héraða Sovétríkjanna, fjölgaði morðunum á skömmum tíma og fjölmargir nasistaforingjar sýndu mikið frumkvæði við að stemma stigu við gyðingavandamálinu á yfirráðasvæðum sínum. Eftir að flutningar á gyðingum hófust austur á bóginn, gengu allar aðgerðir vonum framar fyrir Nasistaflokkinn en fjölmargra gyðinga beið dauðinn einn.[23] Opinber áætlun um algert þjóðarmorð átti eftir að líta dagsins ljós innan fárra mánaða.
- Ráðstefnan í Wannsee
Þann 20. janúar 1942 voru margir af æðstu forystumönnum Þriðja ríkisins samankomnir á ráðstefnu sem síðan hefur verið kennd við fundarstaðinn, Wannsee í úthverfi Berlínar. Þar var samþykkt áætlun um lokalausnina á gyðingavandamálinu. Ráðstefnan stóð stutt, hugsanlega ekki nema í 90 mínútur. Fjöldamorðin sem þegar voru hafin fengu á sig formlega mynd og samþykkt var áætlun um að allir gyðingar í Þýskalandi, í þeim löndum sem hernumin höfðu verið og jafnvel víðar í álfunni, skyldu fluttir til nauðungarvinnu og í útrýmingarbúðir í almenna stjórnunarumdæminu í Póllandi. Athygli vekur að Hitler tók ekki þátt í Wannsee-ráðstefnunni en vissi líklega af henni.[24] Að mati Ians Kershaws er það þó ekki öruggt, en foringinn hafði áréttað orð sín úr spádómsræðunni um örlög gyðinga nokkrum dögum fyrir ráðstefnuna.[25] Markmið þeirra sem sóttu ráðstefnuna hefur að öllum líkindum verið að þóknast foringjanum; nú hafði leiðin að lokalausninni verið mótuð. Ekki eru allir fræðimenn sammála um efni Wannsee-ráðstefnunnar. Einn þeirra, þýski sagnfræðingurinn Ernst Nolte, gengur svo langt að hafna tilvist hennar í bók sinni, Der europäische Bürgerkrieg, 19171945, en lítur um leið algerlega framhjá því að þátttakendur ráðstefnunnar hafi staðfest að þeir hafi verið viðstaddir og eins að fundargerðir hennar séu til.[26] Það er harla merkilegt að virtur sagnfræðingur skuli horfa framhjá slíkum heimildum um atburð sem átti eftir að hafa afgerandi áhrif á sögu helfararinnar og gera hana í raun opinbera.
Fyrstu útrýmingarbúðirnar voru í borginni Kulmhof í norðanverðu Póllandi þar sem fjölmargir sovéskir gyðingar dóu af völdum eiturgass og aðrir voru skotnir til bana. Í útrýmingarbúðum á borð við Treblinka var tekið til við notkun gasklefa sem þótti mikil framför. Himmler ákvað að breyta starfsheiti Auschwitz og Majdanek fangabúðanna í útrýmingarbúðir, þar sem fárra beið annað en skjótur dauðdagi.[27] Í Auschwitz var hætt að nota kolsýring eða koleinoxíð og tekið að nota blásýru þess í stað.[28] Til marks um hversu skipulega var gengið til verks er áætlað að um 75 til 80 af hundraði fórnarlamba helfararinnar hafi enn verið á lífi um miðjan mars 1942, en ellefu mánuðum síðar hafi aðeins um fjórðungur þeirra enn verið lífs.[29] Fyrir árslok 1942 töldu yfirmenn SS sveitanna sjálfir að um 4 milljónir gyðinga væru látnar.[30]
Evrópskir gyðingar voru drepnir hvenær sem færi gafst í álfunni á árunum 1941 til 1945, á götum úti, í orrustum eða eftir þær, við leifturárásir, heima í gyðingahverfunum, í fanga- og útrýmingarbúðum eða við flutninginn í þær. Það sýnir að tilraun var gerð til að láta spádóm Hitlers rætast, nógu margir voru tilbúnir að þóknast foringjanum í verki.
- Efasemdarmennirnir
Til eru þeir sem fullyrt hafa að helför nasista gegn gyðingum sé uppspuni frá rótum og hafi aldrei átt sér stað. Þeir sem þannig tala afneita því að þjóðarmorð hafi verið framið á gyðingum í síðari heimsstyrjöld og fullyrða að saga helfararinnar sé samsæri gyðinga um að gera hlut þeirra sem mestan á kostnað annarra hópa sem fóru einnig illa út úr stríðinu. Þeir benda á að ríkisstjórn Þriðja ríkisins hafi alls ekki haft opinbera stefnu um útrýmingu gyðinga, sem er ekki fráleitt, og að tilgangurinn með útrýmingarbúðum og gasklefum hafi ekki verið að myrða gyðinga. Þeir segja mun færri gyðingar hafa látist en opinberlega hefur verið haldið fram og að fleiri aríar en gyðingar hafi látist í útrýmingarbúðum. Þau rök hafa einnig heyrst að nasistar hefðu ekki haft tíma til að myrða allan þennan fjölda fólks. Yfirleitt stangast niðurstöður þeirra sem hafna helförinni á við sagnfræðileg gögn og heimildir sem til eru, enda iðulega byggðar á fyrirfram gefnum forsendum. Þó hafa þess háttar rök verið notuð í réttarhöldum yfir grunuðum stríðsglæpamönnum, t.d. Klaus Barbie, slátraranum frá Lyon, en verjandi hans taldi engu meiri glæp að senda gyðinga í gasklefa en að berjast við þjóðir eins og Víetnama eða Palestínumenn, sem væru að reyna að losa sig undan erlendu valdi.[31]
Ernst Nolte telur rök þeirra sem hafna helförinni ekki alveg út í bláinn og ástæður þeirra oft virðingarverðar. Hann hefur haldið því fram að ástæða þess að dauðasveitirnar myrtu fjölda gyðinga á austurvígstöðvunum hafi verið fyrirbyggjandi öryggisráðstöfun því fjöldi gyðinga hafi tilheyrt andspyrnuhreyfingum á svæðinu. Þó alls ekki megi setja Nolte í hóp þeirra sem hafna helförinni alfarið, þótti bandaríska sagnfræðingnum Deboruh Lipstadt, höfundi bókarinnar Denying the Holocaust, einkar óþægilegt að svo virtur sagnfræðingur skyldi vera þessarar skoðunar og taldi það gefa málstað þeirra sem andmæltu helförinni byr undir báða vængi.[32] Eftir að bók Lipstadt kom út höfðaði breski rithöfundurinn David Irving meiðyrðamál á hendur henni og útgáfufélaginu þar sem hann hélt fram að útilokað væri að milljónir gyðinga hefðu verið myrtar í gasklefum né að gyðingaofsóknir hefðu verið skipulagðar. Hann fullyrti einnig að útrýmingarbúðirnar í Auschwitz væru síðari tíma tilbúningur. Skemmst er frá því að segja að Irving var úrskurðaður afneitari Helfararinnar [sic], gyðingahatari og kynþáttahatari og sagður vera nasistavinur, sem hefði falsað söguna málstað þeirra til framdráttar.[33]
- Óbreyttir borgarar viljugir böðlar eða saklaus verkfæri?
Daniel Jonah Goldhagen, stjórnmálafræðiprófessor við Harvard, skrifaði afar umdeilda bók um helförina, Hitler´s Willing Executioners sem vakti þegar mikla athygli. Hann fullyrti að í Þýskalandi hefði skapast sérstök gerð gyðingahaturs, sem hann kallaði drápskenndan gyðingafjandskap (e. eliminationist antisemitism). Þar hefðu nasistar orðið herrar samfélags, gegnsýrðu af fjandskap í garð gyðinga, sem gerði afar róttæka og öfgafulla leið til upprætingar þeirra framkvæmanlega.[34]
Goldhagen hélt því einnig fram að þýskir gerendur helfararinnar, konur jafnt sem karlar, hafi komið fram við gyðinga á þann grimmilega, hrottalega og banvæna hátt sem raun bar vitni, því það þótti einfaldlega rétt og nauðsynlegt. Sömuleiðis hafi langvarandi, heiftarlegt og inngróið hatur mikils meirihluta þýsku þjóðarinnar á gyðingum verið ástæða löngunar að losna við þá úr samfélaginu með öllum tiltækum ráðum. Meginþema bókarinnar var því að allir Þjóðverjar, háir og lágir, ungir sem aldnir, ríkir og fátækir, væru jafn sekir.
Hitlers Willing Executioners hlaut fádæma viðtökur hjá almenningi, einkum í Þýskalandi, en fræðimönnum fannst Goldhagen ganga of langt. Hann væri of dómharður í garð þýsku þjóðarinnar og liti framhjá áralöngum rannsóknum fræðimanna á helförinni til þess eins að þjóna fyrirframgefinni hugmynd. Ian Kershaw og þýski sagnfræðingurinn Eberhard Jäckel fullyrtu að bókin væri léleg og bætti litlu sem engu við skilning manna á upphafi helfararinnar.[35] Kershaw dró í efa niðurstöðu Goldhagens um að aðstæður í Þýskalandi hefðu verið gerólíkar þeim sem annars staðar þekktust og sömuleiðis væri ólíklegt að allir Þjóðverjar hefðu verið gallharðir gyðingahatarar. Kershaw var þó þeirrar skoðunar að fræðimenn ættu erfitt með að andmæla skrifum Goldhagens, enda væru þau svo kraftmikil og tilfinningaþrungin að almennur lesandi gæti álitið fræðileg svör veikluleg, ósannfærandi og bæru keim af réttlætingu á því sem gerst hefði. Hann taldi jafnvel að ný kynslóð tryði fræðimönnum síður því harðari mótrök sem þeir kæmu með.[36]
Sagnfræðingurinn David Bankier, sem fæddist í Þýskalandi en ólst upp í Ísrael, segir að morðin á gyðingum hafi skilið eftir sig djúp ör í sálum margra sem þurftu að taka þátt í þeim. Sektarkenndin hafi gert mörgum þeirra ómögulegt að lifa í sátt við eigin samvisku, meðan fyrir aðra hafi þetta verið stórkostlegir tímar.[37] Svo virðist einnig vera að aðferðirnar við morðin hafi fengið á sig einhvers konar ógnvænlegan ævintýrablæ líkt og menn hafi ekki viljað trúa því sem raunverulega hafi gerst.[38] Þó má fullyrða að vitneskja um fjöldamorðin einskorðaðist ekki við hermenn, því fjölmargir óbreyttir borgarar höfðu nægja vitneskju um stefnu nasista til að átta sig á atburðarásinni.
Í nóvember og desember árið 1944 var hópur þýskra borgara í Aachen yfirheyrður af háttsettum foringjum úr tólftu herdeild Bandaríkjahers. Mikil sektarkennd og vanlíðan vegna örlaga gyðinga var áberandi meðal hinna yfirheyrðu, auk þess sem þeir viðurkenndu að mjög hefði verið á þeim brotið. Flestir höfðu heyrt sögusagnir af meðferðinni á gyðingum í Póllandi en virtust samt ekki geta horfst algerlega í augu við sannleikann. Nánast allir sögðu að það hefðu verið stærstu mistök Hitlers að ráðast gegn gyðingum og að sökin væri öll foringjans. Nokkrum mánuðum áður hafði sálfræðiherdeild Bandaríkjahers kynnst svipuðum vitnisburðum, auk þess sem dulin og djúpstæð sektarkennd virtist hafa búið um sig vegna hegðunar þýska hersins, einkum á austurvígstöðvunum og gagnvart gyðingum. Þjóðverjar bjuggust við grimmilegri hefnd og voru tilbúnir að sætta sig við hana, en vonuðu að Bandaríkjamenn gætu haft hemil á ofsa þeirra sem kæmu til með að refsa þeim.[39]
- Lokaorð
Þegar Adolf Hitler ávarpaði þýska þingið árið 1939 og spáði útrýmingu gyðinga, voru orð hans sögð í samfélagi sem var mjög litað af gyðingaandúð jafnvel hatri. Gyðingar voru taldir ganga erinda sósíalista og bolsévika, auk þess sem þeir voru álitnir óæðri. Upp komu hugmyndir um að eina leiðin til að leysa gyðingavandamálið væri að flytja þá til svæða víðs fjarri Evrópu, en af því varð ekki. Andúð gegn gyðingum í Þýskalandi jókst með tímanum og svo fór að þeir voru útilokaðir frá ábyrgðarstöðum og samneyti við aría. Í kjölfar innrásar Þjóðverja í Pólland og síðar Sovétríkin magnaðist andúðin enn frekar og gefin voru leyfi til að drepa gyðinga, hvar sem til þeirra næðist, eða hneppa þá í fangavist. Engar heimildir virðast þó vera til um skipulagða áætlun um þjóðarmorð gyðinga framan af styrjöldinni. Morð og fangelsanir þeirra og annarra af óæðri kynstofnum virðast hafa verið fremur óskipulögð og sett í sjálfvald hvers herforingja. Það var ekki fyrr en í kjölfar Wannsee-ráðstefnunnar snemma árs 1942 að útrýmingarherferðin tók á sig opinbera mynd og varð að skipulegri stefnu í átt að lokalausn gyðingavandamálsins, algerri útrýmingu í sérhönnuðum búðum. Þeir sem hafa hafnað því að helförin hafi átt sér stað, hún hafi ekki verið skipulögð eða að mun færri gyðingar hafi látist en haldið hefur verið fram, hafa ekki fengið mikinn meðbyr með hugmyndum sínum og byggja þær á fáum sem engum heimildum. Þó hafa þeir nokkuð til síns máls um skipulagsleysi aðgerðanna, einkum á fyrstu tveimur árum stríðsins.
Margt bendir til að fjöldi almennra borgara hafi vitað af og tekið þátt í ofsóknum gegn gyðingum. Það lítur út fyrir að þeir sem voru andvígir aðgerðunum töldu sig ekki geta brugðist við með neinum hætti. Því útilokaði fólk raunveruleikann og reyndi að halda áfram sínu daglega lífi. Fjölmargir voru ósammála hugmyndum Hitlers og annarra nasista, sem héldu því fram að gyðingar og ýmsir aðrir væru af óæðri kynstofnum, og þ.a.l. væri ofbeldi gegn þeim og útrýming réttlætanleg. Óttinn við yfirvaldið og eigin bana varð þó til þess að fáir brugðust við. Sagnfræðingar eins og Ian Kershaw hafa hafnað hugmyndum Daniels Goldhagen um að þýskt samfélag hafi verið gegnsýrt drápskenndum gyðingafjandskap, aðstæður þar hafi ekki verið ólíkar þeim sem þekktust um alla Evrópu. Styrjöldin og helförin höfðu hins vegar varanleg áhrif á þýskt samfélagið, þar sem skömm, vanlíðan og samviskubit hlóðst upp í sálarlífi Þjóðverja. Þó tæp sjötíu ár séu liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldar er óvíst hvort þær tilfinningar séu horfnar úr þýsku þjóðarsálinni.
[1] Um hugmyndir fræðimannanna má til dæmis lesa í bókum Galtons Hereditary Genius og English men of science: their nature and nurture sem komu út á árunum 1869 og 1874, einnig í bók Carrels L'Homme, cet inconnu sem kom út á ensku árið 1936 undir heitinu Man, the Unknown. Kenningar Haeckels eru sennilega hvergi skýrar settar fram en í bók hans Natürliche Schöpfungsgeschichte frá árinu 1876. Ensk þýðing þeirrar bókar, The History of Creation, kom fyrst út árið 1876.
[2] Zweig, Stefan: Veröld sem var sjálfsævisaga. Halldór J. Jónsson og Ingólfur Pálmason þýddu. 3. útgáfa. Reykjavík, 2010, bls. 8.
[3] Gercke, Achim: Die Lösung der Judenfrage, Nationalsozialistische Monatshefte, 38. hefti (1933), bls. 195-197.
[4] von Leers, Johann: Das ende der jüdischen Wanderung, Nationalsozialistische Monatshefte, 38. hefti (1933), bls. 229-231.
[5] Kershaw, Ian : Hitler. London, 2009, bls. 469.
[6] Friedlander, Henry: The Origins of Nazi Genocide. From Euthanasia to the Final Solution. Chapel Hill, 1995, bls. 39.
[7] Kershaw: Hitler, bls. 508.
[8] Sama, bls. 669.
[9] Sama, bls. 518-519.
[10] Barbarossa var dulnefni yfir innrás Þýskalands í Sovétríkin, sem hófst 22. júní 1941.
[11] Kershaw: Hitler, bls. 668-670.
[12] Sama, bls. 670-674.
[13] Sama, bls. 670-674.
[14] Sama, bls. 670-674.
[15] Sama, bls. 670-674.
[16] Sama, bls. 674-675.
[17] Friedlander: The Origins of Nazi Genocide, bls. 284.
[18] Jäckel, Eberhard: Hitler in history. Hanover NH, 1984, bls. 46.
[19] Friedlander: The Origins of Nazi Genocide, bls. 285.
[20] Sama, bls. 284.
[21] Sama, bls. 286.
[22] Kershaw: Hitler, bls. 684.
[23] Sama, bls. 687.
[24] Breitman, Richard: The Architect of Genocide: Himmler and The Final Solution. London, 2004, bls. 229-233.
[25] Kershaw: Hitler, bls. 696-697.
[26] Lipstadt: Denying the Holocaust. The Growing Assault on Truth and Memory. London, 1994, bls. 214.
[27] Friedlander: The Origins of Nazi Genocide, bls. 286-287.
[28] Koleinoxíð er baneitrað og binst auðveldlega við rauðkornin í blóðinu. Ástæðan er sú að hemóglóbínsameindir rauðkornanna vilja frekar bindast CO en O2. Afleiðingin er sú að vefir og líffæri líkamans fá ekki nægt súrefni. Snertur af koleinoxíði getur valdið höfuðverk og sljóleika en í meira magni getur það orsakað óafturkræfar heilaskemmdir og jafnvel dauða. (Dagur Snær Sævarsson: Gæti ég fengið að vita það helsta um kolefni?. Vísindavefurinn 20.11.2007. http://visindavefur.is/?id=6917. Skoðað 14.02.2011)
Tilraunir leiddu í ljós að blásýra (HCN) væri hentug: Hún er nefnilega bráðdrepandi því að ekki þarf nema um 50 grömm til að myrða um 1000 manns. Hún verkar fyrst á frumur í öndunarvegi fórnarlambanna og leiðir oftast til þess að þau kafna á fáum mínútum.. (Páll Björnsson: Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands?. Vísindavefurinn 20.3.2001. http://visindavefur.is/?id=1392. Skoðað 14.2.2011).
[29] Browning, Christopher R.: The Path to Genocide. Essays on Launching the Final Solution. Cambridge, 1992, bls. 169.
[30] Kershaw: Hitler, bls. 697.
[31] Lipstadt, Deborah: Denying the Holocaust, bls. 11.
[32] Lipstadt: Denying the Holocaust, bls. 214.
[33] Morgunblaðið 12. apríl 2000, bls. 30.
[34] Goldhagen, Daniel Jonah: Hitlers Willing Executioners. Ordinary Germans and the Holocaust. London, 1996, bls. 23.
[35] Kershaw, Ian: The Nazi dictatorship: Problems and Perspectives of Interpretation. London, 2000, bls. 255.
[36] Sama, bls. 257.
[37] Bankier, David: German public awareness of the final solution. The Final Solution. Origins and Implementation. Ritstjóri David Cesarini. London, 1994, bls. 215.
[38] Sama, bls. 216.
[39] Sama, bls. 216.
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
70 ár frá frelsun Auschwitz | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |