"Lýðræðið eitt er vettvangurinn til að berjast á"

Ég hef tekið þá ákvörðun að birta BA ritgerð mína í sagnfræði hér á blogginu. Í ritgerðinni var gerður samanburður á þeim breytingum sem Vilmundur Gylfason boðaði á sínum tíma og því sem krafist var eftir efnahagshrunið með sérstakri áherslu á tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Vilmundur vildi að stjórnarskránni yrði beitt til breytinga á innviðum samfélagsins og kom fram með ýmsar tillögur til þess. Kannað var hvert Vilmundur sótti hugmyndir sínar og hvaða samspil er milli þeirra og nálgunar stjórnlagaráðsliða að verki sínu.  Í ritgerðinni var horft til þróunar stjórnarskrárinnar og þeirra breytinga hafa verið gerðar á henni á lýðveldistímanum. Fjallað var um ráðgefandi stjórnlagaráð og hvaða hlutverk því var ætlað. Vegna lengdar ritgerðarinnar mun ég birta einn kafla í einu uns allt er komið. Ritgerðin verður hér að mestu óbreytt frá upprunalegu útgáfunni - fyrir utan minniháttar breytingar vegna framrásar tímans. 

Vilmundur

Inngangur

Vilmundur Gylfason setti ekki aðeins mark sitt á samtíð sína þau tæp 35 ár sem hann lifði, heldur lifðu hugmyndir hans um endurbætur á íslensku stjórnkerfi áfram.[1] Eftir að hann sneri til Íslands frá námi í Bretlandi árið 1973 beitti hann sér fyrir umbótum á íslensku samfélagi, ekki síst í stjórnsýslu, lagasetningu og dómsvaldi. Hann starfaði sem menntaskólakennari og vann við ljósvaka- og prentmiðla. Síðan haslaði hann sér einnig völl í stjórnmálum sem þingmaður og ráðherra. Hann var jafnaðarmaður að hugsjón líkt og má sjá í orðum hans og sagðist sjálfur fremur aðhyllast franska jafnaðarmennsku en þá þýsku. Í anda þess kvaðst hann vilja gera löglega uppreisn í grasrótinni meðal fólksins og stokka upp gamla flokkakerfið.[2] Til að sú uppreisn væri möguleg taldi Vilmundur breytinga þörf á grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar. Hann lagði til atlögu við það sem hann kallaði samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna með stofnun Bandalags jafnaðarmanna árið 1983, en Kvennaframboðið varð til á svipuðum tíma, sem hafði sömuleiðis veruleg áhrif á stjórnmál á Íslandi. Þótt flokkakerfið lifði það herhlaup af má fulllyrða að tillögur Vilmundar hafi haft varanleg áhrif.  

Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008 mátti t.d. iðulega heyra nafn Vilmundar nefnt í tengslum við endurreisn landsins. Áköf andstaða við kerfi sem hyglaði vinum og vandamönnum kom upp ásamt háværu ákalli um skipulags- og stefnubreytingar. Flokkakerfið var harðlega gagnrýnt og var því m.a. kennt um hvernig fór ásamt veikum eftirlitsstofnunum.  Einnig var vísað til slitinnar og óskýrrar stjórnarskár.[3] Svo var að sjá sem margir þeirra sem kröfðust breytinga eftir hrunið, þar á meðal sumir þeirra sem buðu sig fram til stjórnlagaþings, hafi horft til kenninga Vilmundar sem fyrirmyndar að umbótum.  

Í þessari rannsókn verður fjallað um hugmyndafræði og umbótatillögur Vilmundar Gylfasonar og þær bornar saman við orðræðuna eftir bankahrunið og tillögur stjórnlagaráðs. Kannað verður hvert Vilmundur sótti hugmyndir sínar og hvaða samspil er milli þeirra og nálgunar stjórnlagaráðsliða að verki sínu. Jafnframt verður horft til samfélagsástands á hvorum tíma. Þótt nafn hans hafi orðið fyrirferðarmikið í orðræðu samfélagsins eftir efnahagshrunið og vitnað í ræður hans og rit verða færð fyrir því rök að tillögur hans hafi fremur haft óbein en bein áhrif á niðurstöður stjórnlagaráðs. Hugmyndir þess komu víða að, rétt eins og Vilmundar sjálfs. Hugmyndafræði hans átti sér almennt uppruna í lýðræðis- og frelsishugsjónum 17. og 18. aldar, í kenningabanka franskra jafnaðarmanna, anarkista og fleiri pólítískra hugsuða. Svipað á við um vinnu stjórnlagaráðs sem leitaði fanga við vinnu sína hvaðanæva að og komst jafnvel að svo róttækum niðurstöðum að það hlaut ákúrur fyrir.

Umbótatillögur Vilmundar höfðu sumar náð framgangi gegnum stjórnmálin á Íslandi. Breytingar og þróun hafa orðið verulegar á sviði fjölmiðlunar, innan dómskerfisins og stjórnsýslu síðan hann lagði fram hugmyndir sínar. Því lagði stjórnlagaráð aðrar og oft minni áherslu á fjölmarga þætti en þótt hefði þurfa þrjátíu árum fyrr. Greint verður hvar stjórnlagaráð og Vilmundur áttu samleið og hvar ekki, sem virðist oft frekar endurspeglast í hugarfari því sem er að baki tillögunum en niðurstöðunni sjálfri. Sýnt verður að samhljóm má sjá í andstöðu við vald stjórnmálaflokka, leit að leiðum til að draga úr spillingu og löngun til að efla beint lýðræði. Stjórnlagaráð líkt og Vilmundur lagði áherslu á valddreifingu og aðhald milli valdþátta ríkisins. Sú mikla áhersla sem ráðið lagði á að ná taumhaldi á einstökum þáttum ríkisvaldsins með auknu valdboði og eftirlitsstofnunum er varla sú leið sem Vilmundur hefði valið enda var hann þeirrar skoðunar að fækka bæri stofnunum ríkisins. Eitt og annað er líkt með hugmyndum stjórnlagaráðs og Vilmundar um hvernig bregðast skuli við áratugalöngum deilum um jöfnun atkvæðisréttar milli kjördæma en annað er ólíkt. Stjórnlagaráðliðum þótti einna byltingakenndast í tillögum sínum að gefa kjósendum kost á greiða atkvæði þvert á framboðslista sem hafði einnig verið meðal hugmynda Vilmundar.  Viðhorf til mannréttinda hefur víkkað út og breyst mjög undanfarin þrjátíu ár; því eru tillögur stjórnlagaráðs efnislega nokkuð lagt frá kenningum Vilmundar og á suman hátt svo byltingakenndar að ráðið hefur legið undir ámæli fyrir þær. Á hinn bóginn má víða sjá keimlíka sanngirnis- og réttlætiskröfu og hann hélt fram í öllum málflutningi sínum. Sú tillaga Vilmundar að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu var mjög í anda hrifningar hans á franskri stjórnskipan og mikilvæg leið til að treysta valdmörk í stjórnsýslunni. Sú aðferð var í upphafi nokkrum stjórnlagaráðsliðum hugstæð og hún rædd í þaula. Niðurstaða ráðsins var að slíkt beint kjör æðsta yfirmanns framkvæmdarvaldsins gæti m.a. ógnað þingræðinu og því varð önnur leið ofan á sem þótti heldur styrkja það.

StjórnlagaráðEftir Vilmund liggja mikil skrif, bókakaflar, viðtöl og blaðagreinar sem hér verður stuðst við til að útskýra hugmyndafræði hans. Einnig verða þingmál hans og ræður teknar til skoðunar, einkum tvær þar sem hann annars vegar tilkynnti um stofnun Bandalags jafnaðarmanna og hins vegar útlistaði grundvallaratriði þau sem lágu að baki stjórnmálastefnu þess. Jafnframt verður byggt á ævisögu hans, Löglegt en siðlaust eftir Jón Orm Halldórsson, frá árinu 1985 og námsritgerð eftir Jón Egilsson.[4] Fyrsta mál Vilmundar sem þingmanns Bandalags jafnarðarmanna var þingsályktunartillaga um gerð frumvarps til stjórnskipunarlaga um aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds.[5] Sú tillaga verður skoðuð, en fylgiskjöl með henni voru greinar eftir Gylfa Þ. Gíslason og Ólaf Jóhannesson sem birtust í tímaritinu Helgafelli árið 1945 ásamt yngri grein eftir flutningsmanninn sjálfan.[6] Þau skrif skipa veigamikinn sess, enda byggði Vilmundur hugmyndir sínar mjög á þeim. Einnig verður horft til skrifa fræðimanna um ríki og ríkisvald á borð við Svan Kristjánsson, Ragnheiði Kristjánsdóttur, Ólaf Jóhannesson og Gianfranco Poggi.[7]  

Nokkur meginatriði í íslenskri stjórnsýslu og stjórnskipan, sem Vilmundi voru ofarlega í huga,verða greind í ritgerðinni. Þau verða borin saman við þær hugmyndir sem komu upp eftir hrun, einkum skrif og tillögur stjórnlagaráðs. Við greininguna verður stuðst við viðtöl höfundar og annara við nokkra stjórnlagaráðsliða og greinaskrif þeirra fyrir og eftir veru þeirra í ráðinu. Leitast var við að hafa kynjaskiptingu þeirra sem jafnasta og að þeir hefðu komið að störfum mismunandi nefnda innan ráðsins. Sumir vildu ræða störf sín og hugmyndir við höfund en aðrir vildu fremur fá sendan spurningalista.[8] Einhverjir vildu ekki láta nafns síns getið og verður það virt í hvívetna.  Fræðimenn hafa rýnt nokkuð í ástæður og mögulegar afleiðingar efnahagshrunsins og tengsl þess við kröfu um endurreisn og endurskipulagningu samfélagsins. Nokkur slík rit voru höfð til hliðsjónar til að skerpa skilning höfundar. Má þar nefna skrif tveggja stjórnlagaráðsliða, þeirra Eiríks Bergmanns Einarssonar, stjórnmálafræðings og Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðings og bróður Vilmundar.[9] Þorvaldur líkt og fleiri hefur bent á að stjórnarskrám hafi iðulega verið breytt eftir samfélagsáföll eða miklar breytingar. Guðni Th. Jóhannesson, Ólafur Arnarson, Guðrún Johnsen, Ásgeir Jónsson og breski blaðamaðurinn Roger Boyes hafa allir velt hruninu, ástæðum þess og afleiðingum fyrir sér og var horft til þeirra.[10] Við skrifin voru einnig höfð til hliðsjónar nokkur rit um heimspeki stjórnmálanna, um eðli ríkis og ríkisvalds og sögulegan bakgrunn vestræns lýðræðisskipulags.[11] Loks verður  vikið að frumvarpi stjórnlagaráðs og greinargerð með því ásamt ritinu Ný stjórnarskrá Íslands sem er niðurstaða vinnu ráðsins.[12]  

Nokkuð hefur verið skrifað um stjórnarskrármál og störf stjórnlagaráðs á liðnum árum. Iðulega hefur verið horft til ástæðna þess að stofnað var til ráðsins, einstakra greina frumvarpsins, og hvað standi í vegi stjórnarskrárbreytinga.[13] Frumvarp stjórnlagaráðs hefur hins vegar ekki verið borið saman við kenningar pólítísks áhrifavalds á borð við Vilmund Gylfason, líkt og gert verður hér.

Ritgerðin skiptist í fimm meginkafla auk niðurstaðna. Í fyrsta kafla er greint frá kenningum Vilmundar og áhrifavalda hans og þær settar í samfélagslegt samhengi. Næstu þrír kaflar eru einskonar millistef þar sem horft er til orðræðunnar sem varð til í kjölfar hrunsins, kröfunnar um breytt samfélag og hvernig nafn Vilmundar bar á góma í því samhengi. Uppruni og þróun stjórnarskrárinnar verður rakinn og gerð grein fyrir tilurð stjórnlagaráðs. Þar verða skrif ýmissa þeirra sem sóttust eftir eða náðu kjöri til stjórnlagaráðs greind og hugað að í hvaða smiðjur þeir leituðu eftir hugmyndum. Fimmti og efnismesti kaflinn snýr að samanburði á meginatriðum hugmynda Vilmundar og stjórnlagaráðsins. Um er að ræða gagnrýni hans á ægivald stjórnmálaflokka og kröfu hans um skýra aðgreiningu ríkisvaldsins og skipan hinna þriggja þátta þess – löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvalds – sem tengist m.a. hugmyndum um beint kjör forsætisráðherra.  Því skyld eru sjónarmið sem snerta skipun embættismanna ríkisins. Að sama skapi verður horft til þess hvernig Vilmundur og stjórnlagaráð fjölluðu um málskotsrétt og þjóðaratkvæðagreiðslur. Sjónum verður beint að mannréttindaákvæðum stjórnarskrár og ekki síst kjördæmaskipan og kröfunni um jafnt vægi atkvæða. Afstaða Vilmundar og stjórnlagaráðs til fjölmiðla verður einnig borin saman.

-----

Ljósmynd af Vilmundi Gylfasyni er fengi af vef Alþingis og ljósmynd af stjórnlagaráði af fésbókarsíðu ráðsins. 

[1] Sjá t.d. Ágúst Einarsson: „Ég vil byltingu og blóð“ Viðtal Karls Th. Birgissonar ritstjóra við Ágúst Einarsson sem birtist í Helgarpóstinum 2. nóvember 1995, Greinasafn fyrra bindi. Úrval greina og erinda um stjórnmál, menningu og menntun, ([Reykjavík] 2007), bls. 141.  Titill ritgerðarinnar er fenginn úr hátíðarræðu sem Vilmundur Gylfason flutti á Húsavík 17. júní 1975, sjá: „Við viljum bætt og umfram allt geðfelldara þjóðfélag. Hátíðarræða flutt á Húsavík 17. júní sl.“, Tíminn 24. júní 1975, bls. 10.

[2] Vilmundur Gylfason: Ræða um vantraust, 23. nóvember 1982, gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar. Ræðuna er að finna í Alþingistíðindum B 1982-1983, d.801- 806 en hér verður stuðst við samhljóða frumrit Vilmundar.

[3] Vef. „Þarf að breyta stjórnarskránni?“, Spurt og svarað á vef Stjórnlagaráðshttp://stjornlagarad.is/upplysingar/spurt-og-svarad/, skoðað 7. apríl 2014.

[4] Jón Ormur Halldórsson: Löglegt en siðlaust. Stjórnmálasaga Vilmundar Gylfasonar (Reykjavík 1985) og Jón Egilsson: „Siðspilling og siðbót: þjóðfélagsgagnrýni Vilmundar Gylfasonar 1975-1978“, óbirt BA ritgerð í sagnfræði (HÍ), 1997.

[5] Alþingistíðindi A 1982, bls. 802.

[6] Ólafur Jóhannesson: „Hugleiðingar um stjórnarskrána“, Helgafell (1945), bls. 104-113; Gylfi Þ. Gíslason: „Lýðræði og stjórnfesta. Hugleiðingar um stjórnskipunarmálið“, Helgafell (1945), bls 114-123 og Vilmundur Gylfason: „Franskt stjórnarfar og íslenskar aðstæður. Hugleiðingar um breytta stjórnarskrá“, Tímaritið Málþing (1979).

[7] Svanur Kristjánsson: „Frá nýsköpun lýðræðis til óhefts flokkavalds. Fjórir forsetar Íslands 1944-1996“, Skírnir 186 (Vor 2012); „Lýðræðisbrestir íslenska lýðveldisins. Frjálst framsal fiskveiðiheimilda.“ Skírnir, 187. ár (Haust 2013); Ragnheiður Kristjánsdóttir: „Efasemdir um þingræði.“, Þingræði á Íslandi. Samtíð og saga, ritstjórn: Ragnhildur Helgadóttir o.fl. (Reykjavík 2011); Ólafur Jóhannesson: Lög og réttur (Reykjavík 1985) og Gianfranco Poggi: „The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule“, Handbook  of Historical Sociology (London 2003), ritstjórar Gerard Delanty og Engin F. Isin.

[8] Spurningar til stjórnlagaráðsiða sneru að hversu mikilvægt þeim hefði þótt að uppræta spillingu, íhuga kjör embættismanna og vald stjórnmálamanna auk myndunar valdablokka. Rætt var um þrískiptingu ríkisvaldsins, kjördæmamál og jöfnun atkvæðaréttar. Rædd var sú hugmynd að kjósa forsætisráðherra beint. Sömuleiðis var vikið að hve ofarlega stjórnlagaráðsliðum hefði verið í huga afnám þingrofsréttar eða þrenging hans.  Einnig var spurt um beint lýðræði, ákvæði um mannréttindi svo sem eignarrétt, tjáningarfrelsi og eðli hagsmunasamtaka. Þeir voru einnig spurðir hvað hefði orðið til þess að þeir buðu sig fram, hvaða hugmyndafræði hefði verið þeim efst í huga og hvort hugmyndir Vilmundar Gylfasonar hefðu haft áhrif á þá,fyrir og á meðan störfum stjórnlagaráðs stóð.

[9] Eiríkur Bergmann Einarsson: Iceland and the International Financial Crisis:Boom, bust and Recovery (Basingstoke 2014) og Þorvaldur Gylfason: „From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“, CESifo Working Paper Series No. 3770, (June 2012).

[10] Guðni Th. Jóhannesson: Hrunið:Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykjavík 2009);  Ólafur Arnarson: Sofandi að feigðarósi (Reykjavík 2009); Guðrún Johnsen: Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland (Basingstoke 2014);  Ásgeir Jónsson: Why Iceland: How One of the World's Smallest Countries Became the Meltdown's Biggest Casualty (New York 2009) og Roger Boyes: Meltdown Iceland: How the Global Financial Crisis Bankrupted an Entire Country (London 2009).

[11] Atli Harðarson: „Neyddur til að vera frjáls“, Afarkostir. Greinasafn um heimspeki (Reykjavík 1995); Guðmundur Hálfdanarson: Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk (Reykjavík 2001); John Locke: Ritgerð um ríkisvald, íslenzk þýðing eftir Atla Harðarson (Reykjavík 1986); Michael Mann: „The Autonomous Power of the State“, States in History, ritstjóri John A. Hall (Oxford 1989); Páll Skúlason: „Réttlæti, velferð og lýðræði. Hlutverk siðfræðinnar í stjórnmálum“, Pælingar II (Reykjavík 1989); James Rachels: Stefnur og straumar í siðfræði (Reykjavík 1997) og Stefanía Óskarsdóttir: „Þingræði verður til“, Þingræði á Íslandi, samtíð og saga, Ritstjórn Ragnhildur Helgadóttir og fleiri (Reykjavík 2011).

[12] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum.“ Stjórnlagaráð. Umsjón með útgáfu: Agnar Bragi Bragason, Andrés Ingi Jónsson, Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir, Sif Guðjónsdóttir, Þorsteinn Fr. Sigurðsson, (Reykjavík 2011) og Ný stjórnarskrá Íslands. Frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga 2011, útgefandi Daði Ingólfsson í samstarfi við Stjórnarskrárfélagið  ([Reykjavík] 2011).

[13] Sjá: Sigurður Hólmar Kristjánsson: „Stjórnlagaráð, saga þess og hlutverk“, óbirt BA ritgerð í lögfræði (HA), 2012; Brynhildur Bolladóttir: „Tillögur stjórnlagaráðs að ákvæði í stjórnskipunarlögum um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana“, óbirt BA ritgerð í lögfræði (HÍ), 2012; Ásgeir Einarsson: „Málskotsréttur forseta Íslands“, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (HÍ), 2012; Salka Margrét Sigurðardóttir: „Er vilji allt sem þarf? Hvers vegna norræna velferðarstjórnin hafði ekki erindi sem erfiði við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (HÍ), 2014 og Einar Franz Ragnars: „Frá Búsáhaldabyltingu til Stjórnlagaþings : hver eru tengslin á milli Búsáhaldabyltingarinnar og Stjórnlagaþings?“, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (Bifröst) 2011.

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Vilmundur var svikinn svo mikið, að hann valdi að fyrirfara sér.

Skiljanlega.

Þannig er staðan enn þann dag í dag.

Þeir sem raunverulega reyna að fórna sér og breyta þessu spillta stjórnsýslusamfélagi eiga engra annarra kosta völ, heldur en að fyrirfara sér.

Það er nefnilega búið að leggja snörur fyrir þá ef þeir ætla að standa með lögum og réttlæti, samkvæmt samviskunni. Þess vegna virkar "lýðræðið" dómara-frímúrarastýrða og helspillta ekki betur en raun ber vitni.

Eiríkur Jónsson hefur reynt að segja sannleikann ásamt mörgum öðrum, en sannleikanum er hafnað á Íslandi. Fjölmiðlar eru ekki frjálsir og upplýsandi á Íslandi. Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki leyfi frá Páfaveldis-seðlabankanum til að segja satt um peningaþvætti Vatíkansins.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.1.2015 kl. 21:16

2 identicon

Komið þið sæl; Markús síðuhafi - Anna Sigríður, sem og þið önnur !

Markús, gamli spjall (blog) vinur  !

Ég vil byrja á - að árna þér allra heilla, með ritgerðina en, ..... varazt skaltu / að nota nokkur þau orð hér á Mbl. vefnum, sem styggja kynnu þau Hádegis móa fólk  (Morgunblaðsins Rauðvetninga), sem mér hafði víst tekist svo ríkulega / að aðgengi mitt að síðu minni var rofið - þann 19. Janúar s.l.

Sannarlega - hefi ég oft verið stóryrtur hér á vefnum í gegnum tíðina / eins og á gömlu síðunni minni (svarthamar.blog.is 2007 - 2014) en ég held nú marga geta verið kjarnyrtari í umræðu ýmissi hér á vefnum en ég hefi verið, að undanförnu.

Það er eins - og Mbl.fólk sé að sigta út nokkra þá, sem þeim þóknast ekki að hafa frekar innanborðs á blog svæði sínu / og vel má vera, að ég sé einungis einn þeirra fyrstu, sem ritskoðunar hryðja þeirra:: hin nýjasta, lemur svo hressilega á - hver veit ?

Þú finnur nýrri síðu mína - undir Útvarp og Málmiðnaður hér á vefnum, til frekari fróðskapar síðustu skrifa minna Markús minn, hafir þú tóm til.

En - taka vil ég fram / að ég kem til með að renna við í Hádegis móum undir Vorkomuna - og þiggja hjá þeim vænan kaffisopa, um leið og ég þakka þeim Soffíu Haraldsdóttur, vefumsjónarkonu vefsvæðisins pent fyrir útilokun mína, af þessu merka vefsvæði hins liðlega aldargamla fjölmiðils.

Hnipptu í þau Arnþrúði og Pétur; getir þú því við komið Markús / og bentu þeim á lævíslega sem vaxandi ritskoðunar þróunina, í Bananalýðveldinu Íslandi, fornvinur góður.

Með beztu kveðjum /

Óskar Helgi Helgason,

Hveragerðis- og Kotstrandar skírum.

Gsm : 618 5748 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 13:36

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Sæll Óskar - þakka þér fyrir góðar kveðjur og árnaðaróskir. Þessum upplýsingum mun ég lauma að þeim Pétri og Arnþrúði. Beztu kveðjur.

Markús frá Djúpalæk, 2.2.2015 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband