Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Erkitöffarinn

Valdimar Örn Flygenring var í síðdegisviðtalinu í dag. Við fórum á flakk um ferilinn hans og hlustuðum á uppáhaldstónlistina hans sem var alveg mögnuð, hver meistarinn upp af öðrum; Dylan, Springsteen, Neil Young að ógleymdum meistara Nick Cave.

Valdimar sagði skemmtilegar sögur af veiðinni, úr leikhúsinu og bíómyndunum. Hann sagði okkur frá nýja húsinu sínu í sveitinni, hundinum, hænunum og heimsætunum.

Þetta var afskaplega skemmtilegt viðtal við einn mesta erkitöffara leikhússins á Íslandi sem hefur smám saman verið að snúa sér í aðrar áttir, sem hann sagði líka frá í viðtalinu. Það er engin lognmolla þar sem Valdimar fer.flygenring

Ef þú vilt heyra viðtalið minni ég á endurtekningu á því á Útvarpi Sögu 99,4 kl. 23 í kvöld og ennfremur um helgina.


Eins og kerlingin sagði...

..sjaldan hefi ég flotinu neitað. Eða var það karlinn sem sagði það.  Ég hefði ekkert á móti því að eiga 400 milljónir, hvað þá að eiga þann gjaldstofn sem veldur þvílíkri skattgreiðslu.

Auðvitað er það bara frábært að fólk hafi svo fínar tekjur að það sé að borga í kringum fjögurhundruðmilljónir í skatt, er það ekki? En það væri gaman aðeins að átta okkur á hvað þessi upphæð er há.  Fyrir 400 milljón krónur er hægt að kaupa 8,9 nokkuð ágæt hús í Reykjavík. Það hægt að kaupa 190 og hálfan Toyota Yaris T-Sport á sértilboði. Það er hægt að kaupa rúmlega rúmlega 2666 flatskjái, tvær manneskjur geta farið 133.333 sinnum í bíó á fullu verði og fengið sér popp og kók. Ævin dugar ekki til, nema maður fari tvisvar á dag í bíó. 

Sá sem á 400 milljónir á sæmilegum bankareikningi sem gefur segjum 7% vexti á ári hefði 28 milljónir í vaxtatekjur á ári eða 25 milljónir rúmar í hreinar tekjur. Það þurfa flestir að lifa af minnu en það.

Þrátt fyrir að það sé í sjálfu sér mjög gott að til sé auðugt fólk, sem getur látið gott af sér leiða held ég að við þurfum aðeins að fara að velta fyrir okkur kjörum hinna sem ekkert hafa. Þeir eru margir sem kvíða hverjum degi vegna peningaleysis og vonleysis af þeim sökum.

Það er löngu orðið tímabært að jafna kjör fólks í okkar góða og gjöfula landi, en þangað til það gerist ætla ég að láta mig dreyma um að eiga fjögurhundruðmilljónkrónur.


mbl.is Hreiðar Már Sigurðsson gjaldahæstur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólóklúbburinn

Anna Magnea Harðardóttir, grunnskólakennari og formaður Sólóklúbbsins var í viðtali í fyrsta síðdegisþætti mínum eftir sumarfrí. Sólóklúbburinn er félagsskapur sem hún stofnaði fyrir nokkrum misserum og hefur vaxið og dafnað síðan og telur nú eitthvað á annaðhundrað manns.

Tilgangur félagsins er að vera einhleypu fólki innan handar um félagsskap við hinar ýmsu athafnir sem skemmtilegra er að stunda með öðrum, eins og t.d. að fara í bíó, leikhús, út að borða og margt, margt annað.  Mér sýnist þetta vera sniðug leið fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum er eitt síns liðs í lífinu, til að eignast vini og fá þann nauðsynlega félagsskap sem hver og einn þarf.

Anna sjálf var hress og kát og klukkutíminn var fljótur að líða.  Áhugasömum til uppfræðingar læt ég fylgja með slóð að heimasíðu klúbbsins www.soloklubburinn.com

Í dag er ætlunin að fá landsfrægan leikara í heimsókn sem ekki hefur verið mjög áberandi undanfarna mánuði en hefur nú aldeilis verið að gera góða hluti í gegnum tíðina.

Því er um að gera að stilla á fm 99,4 í dag kl. 16 og sperra eyrun, fá sér kakóbolla og súkkulaðikex og njóta.


Kræst

Til hvers? Að myrða einhvern sárasaklausan Kóreubúa sem veit ekkert hvað pólitík er einu sinni. Af hverju í ósköpunum getum við ekki farið að vera góð við hvert annað, hvort sem við erum talibanar eða sjálfstæðismenn? Það fer allt of mikil orka í að vera illur. T.d. þarf að eyða mun meiri orku í að setja upp reiðisvip en að brosa, því til þess þarf að nota miklu fleiri vöðva. Hugsum út í þetta næst þegar okkur dettur í hug að pirra okkur út af einhverju - smávægilegu yfirleitt. Það er hollara að taka þetta á léttleikanum.

Núna er ég kominn aðeins of langt frá morði á sárasaklausum Suður-kóreskum gísli hjá talibönum, en við skulum vona að þeir sjái að sér og skili restinni heilli á húfi.


mbl.is Talibanar tóku einn s-kóreskan gísl af lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með daginn...

...herra forseti.  Sögur herma að Arnaldur eigi sér þann draum heitastan að verða fyrsti forseti Bandaríkjanna úr hópi innflytjenda. Miðað við hvað karlinn hefur afrekað er aldrei að vita hvernig fer. Við skulum samt vona að ríkisstjórinn sé friðsamari í raun en hann virðist vera á hvíta tjaldinu.  Enn og aftur til hamingju með daginn!
mbl.is Arnold Schwarzenegger sextugur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímavélin

Bonnie Tyler kom til Íslands fyrir nokkrum árum. Ég missti af henni en að sögn þeirra sem hlýddu á þessa hásrödduðu, ljóshærðu, welsku þokkadís - þá mæmaði hún alla söngskrána. Ég veit ekki neitt um hvort það er rétt en hún hefur alltaf átt ákveðinn stað í tónlistarhjartanu mínu.

Ég hef verið að hlusta á safndisk með Bonnie, nýjan, sjóðheitan sem var bara að koma út og þar er hver gullmolinn á fætur öðrum. Lög sem eiga sér stað í minningunni og rifja upp ákveðinn tíma, hvert á sinn hátt.  Þarna eru t.d. hörkurokkararnir hans Jim Steinmans af Total Eclipse plötunni frá 1983 að ógleymdu laginu sem kom Bonnie á kortið, It´s a heartache ásamt öðru snilldarlagi eftir sömu höfunda, sem ég hafði aldrei heyrt áður. Sá opus heitir Lost in France og hefði ekki getað verið samið á neinum öðrum tíma en ofanverðum áttunda áratug tuttugusta aldarinnar.  Það kom út árið nítjánhundruðsjötíuogsjö nánar tiltekið.

Það ár var pönkið að taka völdin - sumstaðar allavega - en samt urðu til slagarar eins og þessir og flytjendur eins og Boney M, Donna Summer og Gerry Rafferty gerðu allt vitlaust með ljómandi fínum popplögum sem enn lifa.  Og svo var það Bonnie Tyler. Í mínum kolli minnir svona tónlist mig á bíltúra í gömlum Skoda, smíðavöll um hásumar, fótbolta á baklóðum í Breiðholtinu og alltaf skín sólin. Í minningunni.

Skyldi eitthvað af þeirri tónlist sem heyrist á öldum ljósvakans í dag eiga eftir að vekja sömu hugrenningartengsl hjá rúmlega fertugum manni árið 2037?  Það vona ég allavega því þetta er svo góð aðferð til tímaferðalaga.

Tónlistin er tímavélBonnietyler


Sorg

...er eina orðið sem lýsir mínum viðbrögðum við þessum atburði. Hér er um fjölskylduharmleik að ræða sem við hin ættum ekki að bulla meira um, heldur reyna eftir fremsta megni að láta svona hluti ekki gerast í eigin ranni.

Við skulum votta aðstandendum hinna látnu okkar dýpstu samúð og sýna þeim þá virðingu að gaspra ekki meira um málið.


mbl.is Lögregla lýsir eftir vitnum að skotárás í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá - hvað maður getur verið hégómlegur

Í Fréttablaðinu í gær - Sirkusblaðinu nánar tiltekið -  var grein þar sem 19 álitsgjafar voru látnir nefna beztu útvarpsraddirnar. Sigga mín sagði mér frá þessu áður en ég hafði lesið blaðið sjálfur og sagðist  hafa verið grútspæld með að ég væri þar hvergi á blaði - allavega frekar óánægð! Mér fannst það nú ekkert tiltökumál svosem meðan hún var að segja mér frá þessu, en hvað gerði ég þegar ég kom heim? Jú, ég greip blaðið og grandskoðaði opnuna þar sem myndirnar af Óla Palla og Ívari Guðmunds glottu til mín. Ég var sannfærður um að rekast á nafnið mitt, þó ekki væri nema í örsmáu letri einhvers staðar neðanmáls. En ó vei! Ó nei, aldeilis ekki.  Þarna voru ríkisútvarps- og Bylgjuraddir í miklum meirihluta, og auðvitað ekkert nema gott eitt um allt þetta fólk og þeirra raddir að segja. En svona getur maður verið hégómlegur; að langa til að vera á einhverjum lista í einhverju blaði sem eitthvað fólk velur saman - án þess einu sinni að vita hvernig farið var að.  Nú er ekki nema eitt til ráða.... tala meira. Og ekki væri verra að sleikja sig upp við eitthvað fólk sem einhvern tíma gæti orðið álitsgjafar um raddir. Hljómar það ekki eins og góð áætlun?Magnadur

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband