Manhattan Pylsuhagfræðin

Pylsustandur 

Maður nokkur ákvað að opna pylsuvagn á Manhattan, þar sem átti nú að vera aldeilis bisniss í slíkum rekstri. Það gekk nú ekkert sérlega vel, þannig að gæinn lagði hausinn í bleyti og velti fyrir sér hvað hann ætti að gera til að rétta reksturinn við. Hann fékk snilldarhugmynd, fór að bjóða tvær pylsur á verði einnar en smurði aðeins ofan á verðið á meðlætinu og gosinu. Skyndilega tók reksturinn við sér, allt blómstraði og gekk pylsusalanum í hag. Það gekk svo vel að hann gat sett upp nokkur auglýsingaskilti víða um borgina og enn jókst hagsæld pylsuvagnseigandans. Hann hafði meira að segja efni á að kosta son sinn til háskólanáms í frábærum skóla. Guttinn valdi hagfræði og gekk bara vel í náminu.

Í einu jólafríinu kom strákur heim og ræddi við föður sinn pylsusalann, um hvernig reksturinn gengi. Sá gamli bar sig vel, enda gekk ljómandi vel hjá honum sem fyrr. En strákurinn, orðinn nærri fullnuma í hagfræði vildi föður sínum vel og varaði hann við að kreppa væri framundan. Það yrði aldeilis að gæta aðhalds og sparnaðar á næstu árum og hvatti hagfræðistúdentinn föður sinn eindregið til að fylgja þeim ráðum.

Vitandi að sonurinn væri að verða sprenglærður hagfræðingur fór sá gamli að ráðum hans, hætti að bjóða tvær fyrir eina og lækkaði verðið á meðlætinu. Að því búnu slökkti hann á auglýsingaskiltunum og hætti við fyrirætlanir um að opna nýjan pylsuvagn.

Að nokkrum vikum liðnum hringdi hann í son sinn og þakkaði honum ráðin; "Þú hafðir alveg rétt fyrir þér sonur sæll, það er skollin á kreppa. Það hefur barasta dregið verulega saman í pylsusölunni síðustu vikurnar. Mikið var gott að ég fór að ráðum þínum."

Mórall sögunnar: Borgar sig alltaf að hlusta á hagfræðingana?

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.


mbl.is Deila um stöðu íslenskra efnahagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég hef ákveðið að taka á þessu kreppuhjali eins og froskurinn sem vann keppnina í að komast upp á turninn! Hann var nefnilega heyrnarlaus og heyrði ekki úrtölur áhorfenda!

;) 

Hrönn Sigurðardóttir, 15.7.2008 kl. 10:27

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ætlarðu semsé að gerast heyrnarlaus, eða froskur?  Eða jafnvel heyrnarlaus froskur?

Markús frá Djúpalæk, 15.7.2008 kl. 10:31

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Jamm, ég hef oft velt því fyrir mér hvort að þetta sé akki einmitt málið, að menn "tali" sig í kreppu.

Í það minnsta er það ekki að hjálpa hvað allir eru svartir, og látlaust er talað um það að allt sé að fara til andskotans.

Ég talaði við félaga minn í gær sem rekur byggingafyrirtæki hér fyrir austan, hann er að bæta við fólki og sér varla fram úr verkefnum, meðan aðrir í sama bransa eru svartari en blek þegar ástandið er rætt, m.a. stórverktakar af torfunni eru búnir að loka hjá sér hér vegna skorts á verkefnum.

Hann er reyndar jákvæður að eðlisfari og ég held að hann fljóti langt á því...

Eiður Ragnarsson, 15.7.2008 kl. 10:35

4 Smámynd: Skattborgari

Það er ágætt að hafa alltaf smá pening upp á að  hlaupa til að geta reddað sér ef vandamál koma upp.

Skattborgari, 15.7.2008 kl. 10:48

5 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Jákvæðni og hugrekki eru miklar dyggðir

Markús frá Djúpalæk, 15.7.2008 kl. 11:14

6 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Ég man nú ekki orðrétt það sem hinn vísi fyrrverandi alþingismaður Helgi Seljan sagði í blaðaviðtali um daginn...en það var eitthvað á þá leið að krepputal í dag sé hjóm eitt í eyrum þeirra sem lifðu raunverulega kreppu á síðustu öld. Held að margt sé til í því. Við þekkjum ekki kreppu eins og hún er í huga þeirra sem virkilega hafa liðið skort.

Sigþrúður Harðardóttir, 15.7.2008 kl. 13:54

7 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Það er vonandi langt í að fólk standi hungrað í biðröðum eftir brauði, en það breytir ekki því að það er orðið mjög erfitt hjá mörgum sem þurfa að borga af húsnæði og bílum, sem gera ekkert annað en lækka meðan lánin hækka. Kannski þetta megi kallast einhvers konar "lúxus-kreppa". Veit það ekki alveg.

Markús frá Djúpalæk, 15.7.2008 kl. 14:01

8 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Blessaður vertu Markús þetta er bara grátur sem er tilkominn útaf neyslustandard, engin er maður með mönnum nema að hann ofneyti svo sjáist langar leiðir. Enda eru uppvaxnar 1-3. kynslóðir sem vita ekki hvað er að neita sér um hlutinn.

Eiríkur Harðarson, 15.7.2008 kl. 15:05

9 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Við erum eyðsluklær - og stolt af því!

Markús frá Djúpalæk, 15.7.2008 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband