Ljóð dagsins

VEÐURVÍSUR  - Jónas Hallgrímsson

Hart vor

 

Hóla bítur hörkubál,
hrafnar éta gorið,
tittlingarnir týna sál.
Tarna er ljóta vorið!


Vornæðingur

 

Út um móinn enn er hér
engin gróin hola.
Fífiltóin fölnuð er -
farðu í sjóinn, gola!


Sunnanvindur

 

Sunnanvindur sólu frá
sveipar linda skýja.
Fannatinda, björgin blá,
björk og rinda ljómar á.


Sumarhret

 

Nú er sumar í Köldukinn, -
kveð ég á millum vita.
Fyrr má nú vera, faðir minn,
en flugurnar springi af hita!


Molla

 

Veðrið er hvorki vont né gott,
varla kalt og ekki heitt.
Það er hvorki þurrt né vott,
það er svo sem ekki neitt.


Niðaþoka

 

Búðarloka úti ein
er að gera á ferðum stanz, -
úðaþoka, hvergi hrein,
hún er úr nösum rækallans.


Rigning

 

Skuggabaldur úti einn
öli daufu rennir.
Skrugguvaldur, hvergi hreinn,
himinraufar glennir.


Útsynningur

 

Útsynningur yglir sig,
eilífa veðrið skekur mig.
Ég skjögra eins og skorinn kálfur, -
skyldi ég vera þetta sjálfur!

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.


 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Við þetta er fátt að bæta, nema kannski fallegri vísu eftir Egil Jónasson:

Blessuð jörðin vill bæta og laga
blómin vaxa og sólin skín.
Fyrir svona dýrðardaga
drottinn þarf ekki að skammast sín.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 26.4.2008 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband