Er ekkert að?

Sumir hafa leyft sér að halda því fram í ræðu og riti að allt sé í lukkunar velstandi á Íslandi, við séum bara að upplifa örlitla niðursveiflu sem sé ekkert til að hafa áhyggjur af. Hreint ekki.

En eff við rýnum í tölurnar í fréttinni má gera því skóna að á síðasta ári hafi, ef við notum meðalstærð fjölskyldu, 438 manneskjur misst heimili sín, lítil börn eiga ekki lengur herbergið sitt og gamlar konur ekki lengur stofuna sína. Það er alltaf hægt að standa upp og segja "þessu fólki var nær, að standa ekki við skuldbindingar sínar." og það er kannski mikið til í því. En stundum verða skuldbindingar of erfiðar, eins og við vitum og fólki er ekki hjálpað nóg til að leysa úr sínum málum. Eftir stendur hnípið fólk í vanda en tölurnar birtast í Mogganum rétt eins og yfirlit um fjölda kinda í Auðkúlurétt eða um laxagengd í Eyjafjarðarál.

Á bak við hverja einustu tölu er fjöldi sálna, hundruð manneskja sem hafa kvalist af kvíða og sorg mánuðum og árum saman án þess að fá nokkra aðstoð við að koma sínum málum á hreint. Manneskjur skipta nefnilega svo litlu máli á Íslandi að því er virðist, peningar aftur á móti eru heilagir og vei hverjum þeim sem ætlar að fara illa með þá, okurvextir eru sjálfsagðir, lögbundnir meira að segja. Svo á venjulegt fólk í þessu landi að standa undir að borga vextina og bjarga bönkunum í leiðinni svo þeir fari nú ekki á hausinn, litlu greyin. Skítt með pöbulinn, það er hvort eð er nóg til af honum.

Finnst fólki það í lagi að á árinu 2008 skuli í Reykjavík einni 27 fasteignir hafa lent undir hamrinum?

Jóhannes úr Kötlum orti:

Hér er stríð og hér er mæða
hreppstjórinn og oddvitinn
sín á milli saman ræða
sumir kunna ekki að græða
viltu í nefið vinur minn
sumir kunna ekki að græða
viltu í nefið vinur minn

Blágrá eins og blóðið frjósi
bóndi og kona skima þar
börnin ugg sinn lát í ljósi
Leidd er kýrin út úr fjósi
sólin skín á skuldirnar
Leidd er kýrin út úr fjósi
sólin skín á skuldirnar

Gæta verður heildarhagsins
hamrinum ennþá syngur í
yfir glöðum gestum dagsins
glampar fegurð sólarlagsins
lóan syngur dirrindí
yfir glöðum gestum dagsins
lóan syngur dirrindí

 


mbl.is Fleiri nauðungarsölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband