Bylting!

Eins og fólk hefur hugsanlega orðið vart við hefur gengi krónunnar hríðfallið á undanförnum vikum. Í kjölfarið hafa ýmsar nauðsynjar og ónauðsynjar hækkað mikið í verði og eiga að sögn eftir að hækka meira. Það sem hefur líka gerst og er kannski skelfilegasti fylgifiskur þessarra gengisbreytinga fyrir heimilin í landinu er hækkunin á gengistryggðu lánunum sem ótalmargir hafa verið að taka undanfarin ár, hvort sem það er til íbúða- eða bifreiðakaupa. Sumir tóku meira að segja svona lán til að kaupa sér hlutabréf, sem flest hafa hríðfallið í verði á sama tíma og gengið féll. Í sumum tilfellum virðist vera sem höfuðstóll slíkra lána hafi hækkað upp undir 50% á þessu tímabili, og greiðslubyrðin um það sama þar með. Mörg heimili í landinu eru á barmi taugaáfalls og jafnvel gjaldþrots ef svona heldur áfram og gengi krónunnar styrkist ekki. Vaxtahækkun Seðlabankans hafði einhver áhrif fyrsta daginn til styrkingar krónunnar en hún hefur veikst allmikið í dag, þannig að ástandið lítur ekki vel út fyrir almenning.

Einhverjir græða þó á þessu; bankarnir sjálfir sem seðlabankastjóri einn ónefndur hefur ýjað að að standi að einhverju leyti að baki þessu hruni krónunnar með miklum viðskiptum með krónur. Peningaeigendurnir eru að sjálfsögðu að reyna að tryggja peningana sína með öllum mögulegum ráðum. Skítt með pakkið. Þjóðina. Jafnvel hagnast kaupmenn og viðskiptajöfrar sem hækka gamla lagera í kjölfar gengissveiflunnar. Svo má ekki gleyma því að ríkissjóður, hvers forkólfar þegja næfurþunnu hljóði yfir þessum atburðum öllum og kalla til ekki-funda í gríð og erg, hagnast líka á þessu. Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti munu aukast töluvert, t.d. reiknaði FÍB út að hagnaður ríkisins af hækkun eldsneytisverðs undanfarið ár væri 2700 milljónir króna.

Hverjir borga brúsann? Við! Neytendur - fólkið og fjölskyldurnar súpa seyðið af þessu öllu en enginn segir neitt. Ekki upphátt. Nema nokkrir trukkakallar og kellur sem kalla ekki allt ömmu sína. Í öðrum þjóðfélögum sem horfðust í augu við almennt hrun hjá ótrúlegum fjölda venjulegra fjölskyldna yrðu læti. Uppþot. Jafnvel bylting. En við steinþegjum og vonum að það verði eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu um helgina.

Verðum við ekki að standa upp og krefjast viðbragða, lausna? Verðum við ekki að heimta að heildargjaldþroti íslensku þjóðarinnar verði forðað? Eða eigum við kannski skilið að fara á hausinn öll sem eitt?

Ég held ekki!


mbl.is Óku á 3 km hraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Fólk ætti aðeins að hugsa hvað það kýs yfir sig. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki almannahagsmuni að leiðarljósi heldur hagsmuni fárra manna í samfélaginu.

Þetta er nákvæmlega það stjórnarfar sem kom Færeyjum á hausinn. 

Halla Rut , 28.3.2008 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband