Kappið og ræðukeppnin
23.1.2008 | 10:46
Mikið fár hefur kviknað eftir uppákomu í ræðukeppni milli FB og Borgarholtsskóla síðastliðið föstudagskvöld. Þegar liðsmaður tapliðs Borgarholtsskóla stóð í pontu tók hann fram brjóstamynd af keppanda FB-liðsins, sem var að sögn stolið úr tölvu hennar fyrir nokkru. Á meðal viðstaddra voru móðir stúlkunnar og sex ára systir.
Þegar ég var örlítið yngri en ég er í dag tók ég iðulega þátt í ræðukeppnum af svipuðu tagi og Morfís og man eftir nokkrum uppákomum svipuðum þessari. Þó var nú aldrei gengið það langt að draga upp nektarmyndir af andstæðingunum, enda netið ekki til og nektarmyndir varla til nema í vafasömum blöðum sem yfirleitt voru höfð í efstu hillum bókaverslana.
Hvort sem myndin sem hér um ræðir er af umræddri stúlku eða ekki verða menn auðvitað að gæta sín og láta ekki kappið hlaupa með sig í gönur. Þeir sem taka þátt verða að muna að þrátt fyrir að ræðukeppnin sé sýndarveruleiki og fólk sé í ákveðnum leik um leið og í pontu er komið, er hætta á að særa fólk þó tilgangurinn hafi ekkert verið sá þegar brandarinn var búinn til. Slíkt gerðist fyrir aldarfjórðungi í Morfís keppni sem háð var á Akranesi, þar sem vegið var að persónu ákveðinnar manneskju sem ekki einu sinni tók þátt í keppninni. Agalega fyndið meðan það stóð á ræðuspjöldunum en sorglegt þegar það var komið fram af vörum ræðumannsins.
Sem betur fer olli það mál engum alvarlegum búsifjum eða álitshnekki og allir jafnvel löngu búnir að gleyma atburðinum, en ef hefndarþorstinn hefði verið látinn ráða hefði kannski ekki verið jafn auðvelt að gleyma og fyrirgefa. Þannig þurfa þeir sem nú eru fullir heiftar í garð ræðuliðs Borgarholtsskólans að finna leið til að fyrirgefa þeim barnaskapinn, þó ég skilji vel að í hita augnabliksins geti það virst fjarlægur möguleiki.
Í svona keppni þarf nefnilega að hafa aðgát í nærveru sálar, jafnt og í lífinu sjálfu.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.