Gestir í síðdegisútvarpi
5.9.2007 | 21:02
Í dag fékk ég Katrínu Hall, listrænan stjórnanda Íslenska Dansflokksins í heimsókn. Hún sagði okkur undan og ofan af sögu flokksins, starfinu í vetur og þeirri miklu grósku sem er í starfi Íslenska Dansflokksins. Hún sagði frá þeim verkum sem sýnd verða sunnudaginn 9. september næstkomandi og greinilegt að það er mikið um að vera hjá Íslenska dansflokknum sem hefur starfað í 34 ár.
Síðara viðtalið var við hana Þórdísi Tinnu sem hefur vakið mikla athygli fyrir bloggið sitt. Hún hefur þar sagt tæpitungulaust frá veikindum sínum, en hún er að berjast við lungnakrabbamein. Í gær var sendur tölvupóstur á félagsmála- og heilbrigðisráðherra að áeggjan Þórdísar Tinnu og Gíslínu sem líka er bloggari.
Þórdís sagði okkur sögu sína og hversu erfitt það getur verið að berjast við kerfið og blankheitin um leið og berjast þarf við vágestinn sem barið hefur að dyrum, veikindin. Hún segist samt sjálf vera afskaplega lánsöm enda að eigin sögn umvafin öryggisneti góðra vina og fjölskyldu en finnur greinilega til með þeim sem ekki hafa þess konar bakhjarla.
Við sögðum henni frá höfðinglegri gjöf sem henni barst frá einum hlustenda Útvarps Sögu, sem sýnir og sannar hve margt gott fólk er þarna úti sem vill láta gott af sér leiða. Það er frábært að vita til þess.
http://thordistinna.blog.is/blog/thordistinna/
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.