Ó-menning umferðar og Mannakorn

MaggipalmiaumferdÞað var fjölmenni í miðbænum í gærkvöldi, það er sko alveg á hreinu. Bílar og fólk alls staðar. Þegar ég gekk inn á Miklatún í miðjum klíðum Megasar brá mér í brún, þvílíkur var fjöldinn. Það heyrðist samt vel í Megasi og hann sást vel á risaskjá. Karlinn í fantaformi og hljómsveitin hans ekki síðri. Megas er tær snillingur og var auðvitað fagnað sem slíkum.

Það var svolítið fúlt að missa af öllum atriðum þar á undan, en svona er að sitja heima og lesa. 

Eftir nokkra bið tóku Mannakorn við og þeir voru í fantaformi, tóku gömlu slagarana af einstakri nautn þeirra sem lítið þurfa að hafa fyrir sínu. Þetta var bara eðlileg, kraftmikil rokkspilamennska og ég neita því ekki að á stundum spratt fram gæsahúð. Þegar Ellen bættist í hópinn eftir glæsilegan kórsöng tónleikagesta jókst fjörið enn. Ellen er ein mest heillandi söngkona sem við eigum og stóð sig með glæsibrag ásamt sínum gömlu félögum.

Takk fyrir mig Mannakorn.

Að tónleikum loknum styttist heldur betur í flugeldasýninguna, þessa miklu sýningu sem börn, fullorðnir, ungir og aldnir, íslendingar jafnt sem útlendingar staddir í Reykjavík á Menningarnótt bíða eftir í ofvæni. Einhvern veginn komumst við akandi niður á gömlu Skúlagötu þar sem hægt var að fylgjast með herlegheitunum í forundran yfir hvað hægt er að gera með smá sprengiefni og öðrum efnasamböndum. Alveg ljómandi fín flugeldasýning.

Svo var að komast heim. Akandi. Úr þvögunni. Og þá tók vitleysan við. Þó að sagt sé að umferðin hafi gengið vel, þá er það bara hálfur sannleikur. Inni í sjálfum miðbænum urðu ökumenn að treysta á eigið hyggjuvit og átta sig á hvernig þeir ættu að komast burt. Tengingar inn á Sæbraut voru t.d. ekki opnaðar, þannig að í mínu tilfelli varð ég að aka vestur Skúlagötuna, og loks upp Kalkofnsveg. Hann var lokaður við Hverfisgötu og Hverfisgatan lokuð til Vesturs, þannig að ekkert var að gera annað en aka gegnum mannþröngina upp Hverfisgötu. Þar var mikið af fólki, eðlilega, sem virtist þó engu skeyta þó bílum væri ekið eftir götunni.

Sem betur fer var hraðinn lítill og enginn það pirraður að stórslys gæti hlotist af. Engan lögreglu- eða gæslumann af öðrum uppruna var að sjá þarna í ringulreiðinni. Að lokum tókst að komast upp á Snorrabraut og enn sáust engir löggæslumenn þannig að nú tók frumskógarlögmálið við, því íslenskir ökumenn virðast ekki enn hafa lært tannhjólatrixið góða, að hleypa bílum inn í umferðina til skiptis, þannig að allt gangi eins og smurt. Onei. Það varð að troðast og frekjast á milli til að komast inn í umferðina á Snorrabraut.

Þegar að Sæbraut kom, þá gekk sæmilega að komast inn á akreinina sem beygir til hægri en þar gerðist það sem gerist alltaf í íslenskri umferð, margir ökumenn voru þeirrar skoðunar að þeir ættu ekkert að vera í röð og óku framfyrir röðina og reyndu svo að troða sér á milli. Svona gengur þetta á Íslandi. Enn gleymdist tannhjólatrixið við að komast inn á Sæbraut þannig að frekjan varð að ráða. Á Sæbrautinni gekk allt greiðlega því þar voru allir lögreglumennirnir, tveir og þrír á hverjum gatnamótum. Það tók um það bil 10 mínútur að aka upp í Breiðholt eftir Sæbraut en rúmar 40 að komast af Skúlagötu á Sæbraut. Það hefði ábyggilega gengið betur ef lögregla hefði sést á því svæði og umferðinni verið stjórnað af einhverju viti.

Menningarnótt er snilldarhugmynd á auðvitað að halda áfram, ég vona að allir þeir sem tóku þátt í gleðskapnum hafi skemmt sér vel, því til þess er leikurinn gerður!


mbl.is Síðustu gestir Menningarnætur á leið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband