Lýðræðið eitt - 8. hluti.
7.2.2015 | 16:56
Um málskotsrétt og þjóðaratkvæðagreiðslur
Í stjórnlagaþingshugmyndum Jóhönnu Sigurðardóttur frá tíunda áratugnum vildi hún að tekið væri á vandamálum í stjórnmálum og stjórnsýslu sem henni þóttu blasa við, svo sem jöfnun atkvæðavægis og takmörkunum stjórnarskrárinnar til þjóðaratkvæðagreiðslna.[1]
Nýmæli í tillögu Vilmundar var heimild til hins þjóðkjörna forsætisráðherra að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál sem væri. Það taldi hann vera brýnt ef upp kæmu andstæðar skoðanir löggjafarþings og forsætisráðherra.[2] Eins og komið hefur fram var hann mjög fylgjandi beinu lýðræði og taldi að almenningur ætti að koma að málum með ríkulegum hætti, enda hafði hann t.d. lagt til að gengið yrði til þjóðaratkvæðis um efnahagstillögur forsætisráðherra árið 1979.[3] Í þingsályktunartillögu sem Vilmundur Gylfason og Sighvatur Björgvinsson lögðu fram árið 1979 um setningu laga um þjóðaratkvæðagreiðslur var gert ráð fyrir að Alþingi tæki ákvörðun um hvort atkvæðagreiðslan skyldi vera bindandi eða ekki.[4]Að mati margra er buðu sig fram og náðu kjöri til stjórnlagaráðs var þjóðaratkvæði mikilvægur þáttur í endurnýjun stjórnarskrár, enda hafði krafa um slíkt verið býsna hávær í kjölfar hruns.
Beint lýðræði og aðhald með valdþáttunum með atbeina kjósenda var Pétri Gunnlaugssyni ofarlega í huga þegar hann bauð sig fram til stjórnlagaþings.[5] Nokkuð afgerandi stuðningur var við að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna gæti krafist málskots því rúm 73% þeirra sem atkvæði greiddu um frumvarp stjórnlagaráðs voru fylgjandi.[6] Svanur Kristjánsson og fleiri fræðimenn hafa talið afar mikilvægt að ákveðið hlutfall kjósenda gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.[7] Í niðurstöðu stjórnlagaráðs var einmitt það nýmæli að 10% kjósenda gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög með undantekningum varðandi fjárlög, þjóðréttarsamninga og slíkt án atbeina forseta.[8] Sigríður Andersen héraðsdómslögmaður velti fyrir sér hví slíkir þættir væru undanskildir og benti á að almenningur hefði t.d. ekkert haft um Icesave-málið að segja gilti slík regla.[9] Vilhjálmur Þorsteinsson taldi áríðandi að í nýrri stjórnarskrá væru skýrar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál, að undanskildum fjárlögum.[10] Á grundvelli þess að stjórnarskrá er ætlað að vera samfélagssáttmáli er vert að velta upp hvort skylda bæri Alþingi að bera ákvarðanir um mikilsverðar fjárskuldbindingar ríkissjóðs undir skattgreiðendur. Slíkt á einkum við ef fyrir dyrum stendur að binda almannafé með stórfelldum lántökum eða ef stefnt er að miklu fjárstreymi úr Seðlabankanum, líkt og gerðist í aðdraganda efnahagshrunsins. Sigríður taldi brýnt að þjóðaratkvæðagreiðslur væru bindandi til að geta talist marktækar, annars væru þær eins og hverjar aðrar skoðanakannanir.[11] Líkur hljóta að vera á að stjórnvöld reyndu hvað þau gætu að komast hjá bindandi atkvæðagreiðslum hefðu þau sjálfdæmi um hvernig þeim væri háttað hverju sinni.
Í tillögum stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir því að forseti gæti áfram synjað lögum staðfestingar, líkt og gert er ráð fyrir í 26. grein stjórnarskrárinnar, og færu þau þá í dóm kjósenda.[12] Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að nauðsynlegt væri að festa ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur um lagafrumvörp í stjórnarskrá og að ekki þyrfti að safna undirskriftum til að skora á einstaka menn eins og hann orðaði það til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hefur tekið undir það sjónarmið Bjarna.[13]
Ekki var tilgreint hvert kjósendur skyldu beina kröfu um atkvæðagreiðsluna, aðeins að það verði ákveðið með lögum. Gunnari Helga Kristinssyni fannst hugmyndin alltof róttæk, hlutfall kjósenda lágt og óttaðist að það gæti dregið úr djörfung framkvæmdarvaldsins til óvinsælla aðgerða, og jafnvel leitt til þess sem hann kallaði þörf fyrir ofurmeirihluta á þingi.[14] Líklegt má telja að Vilmundur Gylfason hefði að einhverju leyti fagnað þessum hugmyndum stjórnlagaráðsins, enda vildi hann mikið aðhald að valdþáttum ríkisins.
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
[1] Vef. Jóhanna Sigurðardóttir: Breytt kjördæmaskipan forsenda framfara. Skoðað 30. ágúst 2013.
[2] Vilmundur Gylfason: Vinnuplagg, bls. 2. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[3] Alþingistíðindi A 1978-9, bls. 1577-78.
[4] Alþingistíðindi A 1978-79, bls. 1755-57.
[5] Viðtal höfundar við Pétur Gunnlaugsson í ágúst 2013.
[6] Vef. Fyrstu umræðu um stjórnarskrárfrumvarp lokið, á vef Lögfræðingafélags Íslands, http://www.logfraedingafelag.is/um-felagid/frettabref/nr/349/, skoðað 26. ágúst 2013.
[7] Vef. Framtíð lýðræðis á Rás 1, 13. apríl 2014. Svanur Kristjánsson um lýðræði og fleira. Sjá: https://soundcloud.com/larahanna/svanur-kristj-nsson-um-l-rae-i á 40´25. Skoðað 15. apríl 2014.
[8] Ný stjórnarskrá Íslands, bls. 34-36.
[9] Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?, Fréttablaðið,19. október 2012, bls. 12.
[10] Vef. Vilhjálmur Þorsteinsson: Stefnumál. Skoðað 10. apríl 2014.
[11] Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?, Fréttablaðið,19. október 2012, bls. 12.
[12] Ný stjórnarskrá Íslands, bls.34-35.
[13] Viðtal við Bjarna Benediktsson og Katrínu Jakobsdóttur í þættinum Sprengisandur í umsjón Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni 25. ágúst 2013.
[14] Vef. Gagnrýnir óvissuferð stjórnlagaráðs. Skoðað 10. apríl 2014.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.