Lýðræðið eitt - 7. hluti.

Óháðir og óvilhallir dómstólar

Þingsályktunartillaga Vilmundar Gylfasonar sneri ekki að dómsvaldinu beint þótt hann væri alla tíð mjög gagnrýninn á íslenskt dómskerfi.[1] Hann hafði bent á að það væri valdhlýðið, of háð framkvæmdarvaldinu og hefði hagað sér í takti við vilja þess. Auk þess taldi hann langt í frá að allir væri jafnir fyrir lögunum, sem væri þó grundvöllur réttláts samfélags.[2] Að hans dómi yrðu Hæstaréttardómarar að vera algerlega sjálfstæðir, óbundnir framkvæmdar- og löggjafarvaldi og tilbúnir að dæma aðeins eftir eigin sannfæringu og lögum.[3] Um tíma velti Vilmundur jafnvel fyrir sér að taka upp notkun kviðdóms í undirrétti sem virðist eiga ágætlega við kenningar hans um jafnræði einstaklinga.[4] Hann talaði einnig um að mannréttindi væru brotin af hálfu dómstóla til að þjóna hagsmunum ríkisvaldsins og nefndi dæmi af því sem honum fannst athugavert við embættisfærslu sýslumanns eins í því sambandi.[5] Í kjölfarið sagði Vilmundur að allir samtryggingarþættir samfélagsins hafi farið af stað til varnar sýslumanninum.[6] Aðrir hafa tekið undir orð Vilmundar; Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður snupraði t.d. dómstóla fyrir að vera of hallir undir framkvæmdarvaldið og að þeir felldu athugasemdalaust dóma byggða á lögum sem færu á svig við alþjóðasamninga og stjórnarskrá.[7] Í ljósi þeirra orða er kaldranlegt að í eðli sínu var stjórnlagaráðið sjálft skipað að fenginni niðurstöðu þingnefndar sem felldi úrskurð Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna úr gildi. Löggjafarvaldið gekk þar með inn á svið dómstólsins í meintu hagræðingarskyni.

 

Þegar Vilmundur varð dómsmálaráðherra árið 1979 sagðist hann ekki ætla að taka fram fyrir hendur dómsvaldsins í nokkrum umdeildum sakamálum vegna þess hve þrískipting ríkisvaldsins væri honum mikilvæg.[8] Vilmundur sagði að það væri ekki hægt að umbylta kerfi á nokkrum mánuðum og hefur sennilega áttað sig á að daglegt amstur stjórnmálanna tekur oft athyglina frá grundvallaratriðum.[9] Það er til marks um ólguna í stjórnmálum þessa tíma að hann varð fyrir allmikilli gagnrýni þótt hann sæti ekki í embætti nema um nokkurra mánaða skeið. Jónas Kristjánsson ritstjóri sakaði Vilmund t.d. um spillingu, undir rós þó, eftir að hann skipaði flokksbróður sinn í embætti umboðsmann almennings.[10] Svipaða gagnrýni mátti hann þola af hálfu fleiri dagblaða. Sömuleiðis þótti sem hann skreytti sig stolnum fjöðrum hvað snerti nokkur umbótamál sem höfðu verið til umfjöllunar í ráðuneytinu, þar á meðal löggjöf um svokallaða lögréttu.[11] Svo lyktaði að sérstök umræða varð á Alþingi þar sem nokkuð hart var gengið að Vilmundi vegna embættisveitinga hans.[12] Eldhuganum kann að hafa fundist heldur hægt ganga að gera breytingar innan frá í kerfinu, enda fékk hann ekki marga mánuði til þess á ráðherrastóli. Með því að skipa flokksbræður sína og félaga í mikilvæg ný embætti gaf hann sömuleiðis færi á harðri gagnrýni sem varð að líkum óvægnari vegna fyrri afstöðu hans sjálfs. Þótt hann hafi hugsanlega talið að skipun manna sem hann þekkti og treysti gæti hraðað framþróun skapaðist sú hætta að þær ákvarðanir snerust upp í andstæðu sína um leið og umbótamaðurinn tók upp siði þeirra sem hann átaldi hvað harðast.

Sú orðalagsbreyting er í tillögum stjórnlagaráðs að Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fari með dómsvald. Skipan dómstóla utan hæstaréttar skal ákveðin með lögum líkt og nú er, og dómendur skulu eingöngu fara að lögum í embættisverkum sínum. Gert virðist ráð fyrir að ráðherra skipi alla dómara og veiti þeim lausn en sjálfstæði þeirra skuli tryggt með sérlögum. Ráðherra skipar sömuleiðis ríkissaksóknara sem skal vera sjálfstæður og verndaður með sama hætti og dómarar, með lögum.[13] Landsdómur hverfur úr stjórnarskrá. Þótt ekki sé tilgreint í frumvarpinu hvaða ráðherra skipi þessa embættismenn má líta svo á að dómsmála- eða innanríkisráðherra geri það. Án efa væri hægt að deila um hversu mjög þessi ráðstöfun styrkir þrískiptingu ríkisvalds þar sem fulltrúi framkvæmdarvaldsins hefur með beinum hætti áhrif á skipan dómsvaldsins. Þótt gert sé ráð fyrir að forseti Íslands staðfesti ákvörðun ráðherra og Alþingi til þrautavara synji forseti er dómsvaldið enn háð hinum þáttum ríkisvaldsins að þessu leyti. Stjórnlagaráð taldi að markmið um vandaða löggjöf, réttindi borgaranna og endurskoðun athafna æðstu ráðamanna næðist með auknu eftirliti með svokallaðri Lögréttu og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.[14] Þessi hugmynd kemur frá stjórnlaganefnd um ráðgefandi stjórnlagaráð og umfangsmeiri tillögum Eiríks Tómassonar lagaprófessors, en slík ráðgefandi nefnd mun starfandi bæði í Finnlandi og Svíþjóð.[15]Álit Lögréttu er þó aðeins ætlað að vera ráðgefandi og þingmannanefnd getur orðið fyrir þrýstingi frá framkvæmdarvaldinu sem hún á að hafa eftirlit með. Þó dregur úr þeirri hættu með því að ráðherrar sitji ekki á löggjafarþinginu.

Þorvaldur Gylfason hefur nefnt sem dæmi um þýlyndi dómstóla við aðra þætti ríkisvaldsins að Hæstiréttur Íslands hefði söðlað algerlega um árið 1999 í áliti um hvort fiskveiðilöggjöfin og framkvæmd hennar væru brot á núgildandi stjórnarskrá.[16] Þetta fullyrti Þorvaldur að ylli því að þjóðin gæti ekki treyst hlutleysi dómstóla því að úrskurður hefði fallið undir þrýstingi frá framkvæmdarvaldinu eftir öndverðan dóm árið 1998.[17] Þrátt fyrir slíkar hugrenningar verður að hafa í huga að viðurhlutamiklar breytingar voru gerðar á dómstólaskipan Íslands árið 1992 til aðskilnaðar dómsvalds og framkvæmdarvalds. Sú staðfesting á valdmörkum ríkisvaldsins er nokkuð í anda þess sem Vilmundur krafðist enda kvað Þorsteinn Pálsson þáverandi dómsmálaráðherra þarna mikið mannréttindamál á ferð. Í raun mátti greina á orðum hans og annarra lögfræðimenntaðra að breytingarnar vægju þungt á metum í samfélagi sem vildi kalla sig réttarríki.[18] Þótt lagareglur um starfsemi dómstóla séu orðnar nokkuð ótvíræðar hafa verið uppi efasemdaraddir um hlutleysi dómstóla og getu til að kveða upp dóma í viðamiklum málum í kjölfar bankahrunsins. Hér er ekki vettvangur til að reifa slík mál í smáatriðum, en nefna má álitaefni sem tengjast meintum lögbrotum innan ýmissa fjármálastofnana og varðandi lögmæti gengislána og verðtryggingar. Mikilsvert hlýtur að vera að dómstólar geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir í öllum dómsmálum enda áleit stjórnlagaráð áríðandi að styrkja stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna.[19] Eitt þess sem bíður nýrrar stjórnarskrárnefndar er að fjalla nánar um skipan dómsvalds á Íslandi.

---

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.

---

[1] Ólafur Jóhannesson: „Hugleiðingar um stjórnarskrána“ og Gylfi Þ. Gíslason: „Lýðræði og stjórnfesta“, bls. 122.

[2] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 7-9. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[3] Sama heimild, bls. 15.

[4] Sama heimild, bls. 13.

[5] Alþingistíðindi A 1982, bls. 384.

[6] Vilmundur Gylfason: Ræða um vantraust. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[7] Jón Steinar Gunnlaugsson: Deilt á dómarana (Reykjavík 1987), bls. 11-22.

[8] „Vilmundur Gylfason dómsmálaráðherra: Haukur verður ekki náðaður – mál Sólness vandlega kannað“, Dagblaðið, 16. október 1979, bls. 1.

[9] „Það er óravegur frá kerfinu til fólksins“. Vilmundur Gylfason ráðherra í samtali við Helgarblaðið“, Vísir, 20. nóvember 1979, bls. 6.

[10] Jónas Kristjánsson: „Fjölgun í möppudýralandi“, Dagblaðið,15. janúar 1980, bls. 10.

[11] „Eiríkur Tómasson um yfirlýsingar Vilmundar: „Nær öll málin voru í vinnslu““, Dagblaðið,10. nóvember 1979, bls. 7. Sjá einnig „Steingrímur Hermannsson: Allt tal Vilmundar Gylfasonar sem dómsmálaráðherra er eintóm auglýsingastarfsemi“, Tíminn,17. nóvember 1979, bls. 13.

[12] „Umræður um embættisveitingar dómsmálaráðherra á Alþingi“, Morgunblaðið, 11. janúar 1980, bls. 15.

[13] Ný stjórnarskrá Íslands, bls.5 og 53-55.

[14] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum“, bls. 183.

[15] Sama heimild, bls. 128-129.

[16] Í desember 1998 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm sinn í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu og taldi þær takmarkanir á atvinnufrelsi sem felast í 5. gr. laga um fiskveiðistjórn brjóta í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur taldi 5. gr. laganna fela í sér fyrirfarandi tálmun á getu einstaklinga til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni. Rökstuðningur Hæstaréttar var sá að skv. gildandi takmörkunum á þeim tíma væru veiðileyfi einungis veitt til ákveðinna skipa sem höfðu verið hluti af fiskiflotanum á tilteknu tímabili, eða til nýrra skipa sem koma í þeirra stað, og að þessar takmarkanir brytu í bága við stjórnarskrána. Hinn dómur Hæstaréttar sem skiptir máli, dagsettur 6. apríl 2000, varðar málið Ákæruvaldið gegn Birni Kristjánssyni, Svavari Guðnasyni og Hyrnó Ltd. Með tilliti til 7. gr. laganna ályktaði Hæstiréttur að takmarkanir á frelsi einstaklinga til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni brytu ekki í bága við 65 gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem þær væru byggðar á málefnalegum forsendum. Rétturinn tók sérstaklega fram að sú tilhögun að aflaheimildir séu varanlegar og framseljanlegar styddist við þá röksemd að hún gerði mönnum kleift að gera áætlanir um starfsemi sína til lengri tíma og auka eða minnka aflaheimildir sínar í einstökum tegundum eftir hentugleikum. (Sjá Vef. Á vef Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands: Haraldsson og Sveinsson gegn Íslandi. http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/haraldsson_og_sveinsson_gegn_islandi, skoðað 26. ágúst 2013).

[17] Vef. Viðtal Péturs Fjeldsted við Þorvald Gylfason á vefsvæðinu Hjari veraldar, http://hjariveraldar.is/, skoðað 26. ágúst 2013.

[18] „Ný dómstólaskipan tekur gildi: Meiri breytingar hafa ekki orðið á réttarfarinu ­ segir dómsmálaráðherra.“, Morgunblaðið, 2. júlí 1992, bls. 24.

[19] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum“, bls. 183.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband