Þjóð þykjustuleiksins

„Ástæða þess að Yang litla var ekki valin til að koma fram er sú að við vildum sýna ákveðna ímynd, við vorum að hugsa um hvað væri best fyrir þjóðina.“ 

Kínversk yfirvöld hafa sýnt það og sannað að þau vilja að land þeirra sé leiksvið, þar sem allt virðist slétt og fellt á yfirborðinu. Þykjustuland.  Eiginlega svo gervilegt að það er óhugnanlegt. Það að vilja ekki sýna ofurvenjulega, litla stelpu þó hún sé búlduleit og með skakka tönn er einfaldlega toppur fáránleika-ísjakans. Í Kína er bannað að eiga við þunglyndi að stríða og vei þeim sem burðast með enn þyngri andlegar byrðar. Í Kína er bannað að vera líkamlega veikur, að minnsta kosti eru eyðni og alvarlegir smitsjúkdómar hreinlega bannaðir. Ég veit svosem ekki hvað fleira er óæskilegt þar, en þetta dugar mér alveg.

Ég veit heldur ekki nákvæmlega hvað Kínverjar eru að reyna með þessum sýndarleik; fólk er almennt ekki svo skyni skroppið að það geri sér ekki grein fyrir að skakkar tennur og eyðni eru til í Kína sem annars staðar. Því hlýtur það að vera hlutverk fulltrúa íslenskra stjórnvalda og annara landa sem telja sig boðbera mannréttinda og manngæsku, sem þekkst hafa boð um að vera viðstaddir Ólympíuleikana að benda kínverskum ráðamönnum á þessa undarlegu pólítík, að maður tali ekki um að mótmæla mannréttindabrotum í Tíbet og víðar, þögnin yfir þeim er skelfilegur blettur á mannkyninu. Það má ekki óttast Kínverja þó þeir séu stórir og sterkir. Það var nefnilega oft þannig að mesta hrekkjusvínið í skólanum var með mestu minnimáttarkenndina, kannski þarf bara að hjálpa kínverskum stjórnvöldum að komast yfir minnimáttarkennd... hver veit?

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.


mbl.is Allt í plati í Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband