Er að lesa svakalega bók
24.7.2008 | 11:47
Mikael Torfason færði mér eintak af fyrstu bókinni sinni Falskur Fugl, sem hann endurútgaf nýverið. Hún kom út árið 1997 og er frásögn hins 16 ára Arnaldar sem lifir heldur skrautlegu lífi, kannski fullmikill töffari miðað við aldur en hann hefur ekki átt neitt sérstaklega góða ævi strákurinn. Hann er á kafi í eiturlyfjum og í sárum eftir sviplegt andlát bróður hans. Bókin er gríðarvel skrifuð og er þeirrar náttúru að ég á erfitt með að leggja hana frá mér, hún er gróf, ofbeldisfull og grimm, en undirniðri kraumar harmurinn og sú vissa að töffarinn Arnaldur er raunverulega bara barn sem vill ekkert vera í þeirri stöðu sem hann er kominn í. Það kvað við nýjan tón þegar bókin kom út fyrir rúmlega áratug, en ég er rosalega feginn að sjá ekki þennan heim sem Arnaldur lifir í, í dóttur minni 16 ára og hennar vinum. Ég er rétt rúmlega hálfnaður með bókina og hlakka til að halda áfram lestrinum í kvöld.
Ég sá í fréttum í vor að til stendur að gera kvikmynd eftir bókinni og þá stóð til að vinna við hana hæfist nú í haust. Jón Atli Jónasson leikskáld og fyrrverandi útvarpsmaður, hefur skrifað kvikmyndahandrit sem byggir á bókinni og mun Þór Ómar Jónsson leikstýra myndinni.
Mikael mun vera bjartsýnn á að myndin eigi eftir að koma vel út. Ég reikna með að hún verði svona einhverskonar íslensk útgáfa af Trainspotting mætir Fight Club, afþví hann er náttúrulega mikill töffari hann Arnaldur, aðalpersónan í bókinni. Að öðru leyti segist Mikael ætla að halda sig á hliðarlínunni við gerð kvikmyndarinnar og gefa Jóni Atla og Þór algjört frelsi með hana.
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
Athugasemdir
Mér fannst þetta hundleiðinleg bók og illa skrifuð en það er jú rétt hjá þér.. hún er ansi gróf.
Vonandi að myndin verði skárri en Gemsarnir hans Mikka.....
Þórður Helgi Þórðarson, 24.7.2008 kl. 12:51
Bókin er enginn óður til unglingsárana svo mikið er víst. En hún er sérstök. Fannst hún ekki skemmtileg frekar en honum Dodda hérna.
Þetta verður 19 lófa mynd ef af verður. ÓMÆÓMÆ
Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2008 kl. 12:58
Hún er sko ekki skemmtileg gott fólk, en hún er hrikalega sláandi. Þekkið þið svona unglinga eins og eru í bókinni?
Markús frá Djúpalæk, 24.7.2008 kl. 13:21
Þekki eina á leiðinni þangað.....
Þórður Helgi Þórðarson, 24.7.2008 kl. 14:37
Ekki gott...
Markús frá Djúpalæk, 24.7.2008 kl. 14:40
Þekki engan í þessum sporum, vá hvað ég er m-f heppin.
Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2008 kl. 14:56
Svo sannarlega Jenný....
Markús frá Djúpalæk, 24.7.2008 kl. 15:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.