Í tilefni vorkomunnar
16.4.2008 | 19:50

Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn.
Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar,
því vorið kemur sunnan yfir sæinn.
Sjá, sólskinið á gangstéttunum ljómar.
Og daprar sálir söngvar vorsins yngja.
Og svo er mikill ljóssins undrakraftur,
að jafnvel gamlir símastaurar syngja
í sólskininu og verða grænir aftur.
Og þúsund hjörtu grípur gömul kæti.
Og gömul hjörtu þrá á ný og sakna.
Ó, bernsku vorrar athvarf, Austurstræti,
hve endurminningarnar hjá þér vakna.
II
Hér lærðist oss að skrópa úr lífsins skóla.
Hér skalf vort hjarta sumarlangt af ást.
Og þó hún entist sjaldan heila sóla,
fann sál vor nýja, þegar önnur brást.
Þá færðust okkar fyrstu ljóð í letur,
því lífið mjög á hjörtu okkar fékk.
Og geri margir menntaskólar betur:
Ég minnist sextán skálda í fjórða bekk.
Og samt var stöðugt yfir okkur kvartað,
og eflaust hefur námið gengið tregt.
Við lögðum aðaláherslu á hjartað,
því okkur þótti hitt of veraldlegt.
Athugasemdir
Sæll Markús minn, setti athugasemd mína á bloggið hér að neðan, sorry.
kkv.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, 16.4.2008 kl. 20:03
Fallegt.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 16.4.2008 kl. 20:49
Amm, frábært þegar málin taka svona óvænta stefnu manni í hag. Kominn tími til að eitthvað fari að ganga upp hjá mér, he he. En annars frábært ljóð sem þú valdir núna, íslenskt blívur í mínum huga og eyrum.
Þótt ég lesi nær einvörðungu á ensku núorðið þá þarf músikin að vera íslensk. Eigðu góða nótt.
Bylgja Hafþórsdóttir, 16.4.2008 kl. 21:59
Markús frá Djúpalæk, 17.4.2008 kl. 10:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.