Ég er nöldurskjóða
15.4.2008 | 10:18
..og tuða svo oft í búðum að ég sé stundum afgreiðslufólk sem hefur séð mig áður, drífa sig í kaffi svo það lendi ekki á mér á kassanum. En eina virka verðverndin er að tuða og vera leiðinlegur við starfsfólkið á kassa og jafnvel elta uppi starfsfólk og spyrja um verð á ómerktum vörum. Það er ekkert kúl að láta hafa af sér fé, þó svo að hingað til hafi íslendingar verið þeirrar skoðunar að þeir verði að sýnast svo ríkir að þeir geti nú ekki verið að væla yfir smáaurum í verslunum.
En safnast þegar saman kemur!
Neytendasamtökin með átak í verslunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:21 | Facebook
Athugasemdir
Ég er líka tuðari, sko yfir þjónustinni, er blind á verð og ætla að bæta úr því.
Takk fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2008 kl. 10:19
Verði þér að góðu
Markús frá Djúpalæk, 15.4.2008 kl. 10:24
Já en Markús, það sem verrra er að afgreiðslufólkið ræður ekki verðinu, það eina sem það getur bætt er þjónustan.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 15.4.2008 kl. 10:31
Guðrún, ég er ekki að tuða yfir verðlagningunni sem slíkri, heldur því að mjög oft er ósamræmi milli verðs á hillu og kassa, verðmerkingar vantar og annað í þeim dúr. Það er starfsfólkið sem á að sjá um að slíkt sé í lagi, er fulltrúi fyrirtækisins gagnvart viðskiptavininum og sá eini sem hægt er að leita til í miðjum innkaupaleiðangrinum. Maður á að kvarta, ef ekki við almennan starfsmann, þá verslunarstjóra og helst ganga lengra ef manni finnst mjög brotið á sér.
Markús frá Djúpalæk, 15.4.2008 kl. 10:38
Það er víða mikið ósamræmi á milli verðmerkinga í hillum og verði á kassa í verslunum og ekki bara í matvöruverslunum. Yfirleitt er þetta ósamræmi neytendum í óhag og sjálfsagt mál að gera athugasemdir við starfsfólkið. Það er hilluverðið sem gildir ef um ósamræmi er að ræða hvort sem það er hærra eða lægra. Svo er annað sem er mjög áberandi þegar maður fer að fylgjast með því en það er hvernig dagstimpluðum vörum, sérstaklega mjólkurvörum eins og þykkmjólk, rjóma, jógúrt ofl. sem er í fernum, er raðað í hillurnar. Dagstimpillinn er látinn snúa aftur, þ.e. frá neytandanum til þess að hann sjái ekki stimpilinn í fljótu bragði. Þegar varan snýr svona er það gert af ásettu ráði og hef ég fengið upplýsingar um það frá starfsfólki að það hafi sérstök fyrirmæli um að láta dagstimilinn ekki snúa fram, að kúnnanum. Ég versla töluvert í Nóatúni og þar snýr stimpillinn alltaf frá kúnnanum! Ég geri mér stundum til skemmtunar að tína niður fernurnar eða snúa þeim þannig að stimpillinn sjáist og fengið bágt fyrir þegar ég var einu sinni staðinn að verki.
corvus corax, 15.4.2008 kl. 10:51
Já, og þarna kemurðu með eina mikilvæga ábendingu corvus corax og það er að skoða vel dagsetningu á vörunni því ég hef oft rekist á vörur komnar yfir síðasta sölu- eða neysludag. Slíkt þarf að benda verslunarstjóra á og krefjast úrbóta, og ef hann bregst ekki við eða ef maður rekst oftar en einu sinni á þetta í sömu verslun, að fara lengra. Fyrst í rekstraraðilann og jafnvel neytendasamtökin. Ég veit að þetta hljómar eins og leiðindatuð en það erum við sem borgum fyrir þetta allt.
Markús frá Djúpalæk, 15.4.2008 kl. 10:56
Markús, það er gott að vera á verði en þú mátt ekki láta ergelsi þitt út í kaupmenn bitna á illa launuðu starfsfólki. Það á eflaust nóg með sig og sitt þó svo þú farir ekki að gera því lífið leitt í ofanála, það getur farið að kvíða því að fara í vinnuna sína útaf leiðinlegum viðskiptavinum. Þú getur bent afgreiðslufólkinu kurteislega á þetta og beðið það um að koma skilaboðum á framfæri eða kallað til verslunarstjórann.
Ég get lofað þér því að þetta starfsfólk er ekki að hafa af þér fé.
Þóra Guðmundsdóttir, 15.4.2008 kl. 14:23
Nei en þetta fólk er fulltrúi verslunarinnar, ég geri þetta ekki ergilega heldur bendi á það sem að er mjög kurteislega. Starfsfólkið er líka það sem á að hafa hillumerkingar í lagi til dæmis, og yfirleitt er leyst úr málum mjög vel. Það er ansi hætt við að fólk fengi litla úrlausn sinna mála ef alltaf ætti að fara í höfuðstöðvar verslanakeðjanna með hinar ýmsu smáleiðréttingar. Einhvers staðar þarf þetta að byrja og mér persónulega finnst mjög kjánalegt að vilja ekki kvarta í verslunum af ótta við að styggja starfsfólkið. Það á eflaust nóg með sig og sitt þó svo þú farir ekki að gera því lífið leitt í ofanálag, segir þú, Þóra, en fólk sem vinnur við þjónustu þarf auðvitað bara að vinna vinnuna sína, óháð einhverjum persónulegum vandamálum. Ég hef unnið við sölumennsku þar sem viðskiptavinirnir kvörtuðu óspart ef þeim mislíkaði eitthvað, sem ég í sjálfu sér réði ekkert við, en það var mitt hlutverk að koma umkvörtun viðskiptavinarins til þeirra sem úr gátu leyst, og það virkaði alveg ljómandi vel. Auðvitað var það ekki alltaf gaman að fá fólk sem þurfti að kvarta, en það er bara hluti af svona starfi.
Markús frá Djúpalæk, 15.4.2008 kl. 14:35
Ég er alveg sammála þér Markús, auðvitað á að kvarta og leita eftir leiðréttingum. Ef að sá starfsmaður sem að þú nærð í rassinn á getur ekki aðstoðað þig, þá á hann bara að sækja þann/þá sem getur gert það.
Ég hef sjálf unnið í allskonar þjónustustörfum og jú auðvitað eru leiðindaskjóður innan um alla kúnnana, en ekki datt mér nokkurn tíman í hug að kvarta yfir því að fólk leitaði réttar síns.
Ég tek líka undir með corvus corax, ég leita sjálf alltaf eftir nýjustu vörunni í hillunni. Mér bara dettur ekki í hug að kaupa td mjólk með síðasta söludag á morgun ef að ég get keypt aðra með síðasta söludag 1, 2, eða 3 dögum seinna.
Sporðdrekinn, 15.4.2008 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.