Úr tengslum við raunveruleikann

Ég efast ekki um að margir stjórnmálamenn og embættismenn séu hið vænsta fólk og velviljað. Það sem gerist þó hjá mörgum, eftir nokkurn tíma á valdastóli er að tengslin við það sem kalla má venjulegt líf hverfa. Þetta fólk hefur fínar, öruggar tekjur, býr yfirleitt bara nokkuð vel, sumt meira að segja á kostnað skattborgaranna. Það ferðast um í bifreiðum af dýrara taginu með leðursætum og skyggðum rúðum, stundum með einkabílstjóra. Þegar það er ekki að ferðast með einkaþotum milli landa er setið á Saga class og gistingin er ekki tveggja stjörnu gistiheimili heldur vönduðustu og dýrustu hótel eða híbýli þjóðhöfðingja.

Í utanlandsferðum fær það lögbundna dagpeninga sem þýðir að sjaldan þarf að taka upp eigið veski til að kaupa það sem hugurinn girnist. Gestgjafarnir eru sömuleiðis vel haldnir, ýmist valdamenn eða auðjöfrar sem bjóða upp á kampavín og kavíar í öll mál. Þetta þýðir bara það að nánustu tengslin við almúgann verða ofan af svölum konungshalla eða útum bílglugga. Og hugsanlega má grilla í einhverja vesalinga í flughöfnum, en þá samt í talsverðum fjarska.

Ég hef aldrei séð háttsettan valdamann í Bónus eða fyrir framan Bæjarins Beztu. Ég hef heldur aldrei séð neinn úr þeirra röðum í Outlet búðinni í Faxafeni og á útsölu hjá Heklu. Eiginlega hef ég engan séð sem hefur mikil völd eða á mikla peninga nema úr fjarska.

Ég held að fólkið í landinu sé farið að þrá alþýðuhetju sem stendur með því á ögurstundum eins og núna ganga yfir, en ekki einhverja pótintáta sem halda því fram að það sé eiginlega bara allt í lagi, bara smá niðursveifla. Þó allt sé raunverulega á hverfanda hveli. Það sem nú hefur verið að gerast virðist nefnilega ekki snerta núverandi valdhafa neitt. Þeir eru komnir svo óralangt frá fólkinu sínu.

Svei attan.


mbl.is Forsetahjónin við vígslu óperuhússins í Ósló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Mar Smárason

Hvaða djöfulsinns væl er í þér?

Stjórnmála menn eru ósköp venjulegt fólk á íslandi (aðeins yfir meðaltekjum).

Fyrverandi borgarstjóri bjó t.d. í Breiðholtinu (gettó reykjavíkur).

Dagpeningar er fullkomlega eðlilegur hlutur, þar sem þau eru í vinnuferð.

Ég get lofað þér því að þau eru ekki að kaupa persknesk teppi fyrir dagpeningana, enda myndu þeir ekki slaga upp í 1/10 af því verði.

Ég veit ekki betur en svo að meiri hluti íslendinga keyrir um á glæ-nýjum bílum með leðursætum og skyggðum gluggum.

Síðan hef ég séð háttsetta menn á Bæjarinns Bestur, enda eru þetta Bæjarinns bestu pylsur.

Svona væl og aumingjaskapur fer alveg í mínar fínustu.

Þú hefur tækifæri til að vera hvað sem þú villt, meira að segja ríkasti maður á landinu.

En þú verður að vinna fyrir því.

Ég vil enga helv.. alþýðu hetju sem forsætisráðherra. Einhver sem skammar mig fyrir að hafa drauma (og ná að upplifa þá).

Ef þú þarft að kaupa allt þitt í Outlet búðinni, gista á 2 stjörnu mótelum og éta núðlusúpu í öll mál. Þá er það þér að kenna og engum örðum.

Farðu að hafa þér eins og maður og gerðu eitthvað. Sýndu dug...

Baldvin Mar Smárason, 11.4.2008 kl. 17:09

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Fyrrverandi borgarstjóri bjó í 70 milljón króna húsi á flottasta stað í Breiðholtinu, Breiðholt er nefnilega ekki það sama og Breiðholt. Íslendingarnir sem aka um á þessum rándýru bifreiðum skulda þær ein og hálfaldar núna flestir vegna efnahagsástandsins. Ég persónulega hef það takk bærilegt og veit það fullkomlega að ég get náð öllu því sem ég vil og geri það. Um það snýst ekki málið. Við eigum bara heimtingu á því að þeir sem við veljum okkur sem leiðtoga séu það, en ekki einhverjar snobbfígúrur sem segja ekkert af viti. Svona rugl fer alveg í mínar fínustu. Takk fyrir innlitið annars.

Markús frá Djúpalæk, 11.4.2008 kl. 17:18

3 identicon

Það er fínt að búa alls staðar í Breiðholti. Þeir sem halda öðru fram hafa eflaust aldrei búið þar.

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 17:57

4 Smámynd: Baldvin Mar Smárason

Ég er fæddur og uppalinn í breiðholtinu, svo það sé á hreinu.

En ég var að meina að íbúðarverð í breiðholtinu er ekki það sama og í garðabænum eða grafarvoginum.

Baldvin Mar Smárason, 11.4.2008 kl. 18:20

5 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Sniðugt að sjá strákinn hans Smára Grétars rífa kjaft eins og hann hefði fæðst með silfurskeið í sæta litla munninum sínum.

En þó mér sé það þvert um geð að verða uppvís að því að vera sammála síðuhöfundi þá rataðist kjöftugum ótrúlega vel satt orð á munn með þessari bráðgóðu færslu. Okkur vantar hugrakka og heiðarlega alþýðuhetju með eldmóð í hjarta, orðum og verkum. Einhvern sem vill, þorir, getur og gerir.

Einhvern sem rífur með sér íslenska alþýðu, sem á mannamáli þýðir allir venjulegir Íslendingar.  Einhvern sem sameinar þjóðina og gefur henni eina rödd, þrátt fyrir einstaklingsbundnar skoðanir og viðhorf. Einhvern sem ann þjóðinni af heilindum og ber hag hennar og framtíðarvelferð fyrir brjósti.

-Býr Íslendingur hér?

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 11.4.2008 kl. 22:23

6 identicon

Ég verð að vera sammála þér þegar það kemur að flestum löndum. En þegar við erum að tala um lítil lönd eins og Ísland þá gilda bara allt aðrar reglur. Ég sá t.d. Geir Haarde Forsetisráðherra Íslands setjast uppí jeppann sinn, án allrar fylgdar og enskukennarinn minn á eins jeppa þó hans sé einu ári eldri. Forseti lýðveldisins er kannski sá eini sem kemur nálægt þessari lýsingu þinni en hann er því miður með mjög takmarkað vald greyið. Ef þér líkar ekki þessir ráðamenn kjóstu þá aðra, en eins og er vill meirihluti þjóðarinn hafa þessa við stjórn og þegar kemur að lýðræði ræður meirhlutinn.

-Ísland æðra öllu 

Magnús F. (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 00:28

7 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ég held að flestir hafi misskilið pointið. Ráðamenn þessarar þjóðar hafa sýnt það og sannað síðustu vikur að þeir hafa engan skilning á hvað fólk er að ganga í gegnum þessa dagana. Það eru bara teknar ákvarðanir um að gera ekki neitt í efnahagsmálunum t.d. á meðan til er fólk sem ekki kemur undan sæng af áhyggjum yfir ástandi sínu. Við þurfum sterka leiðtoga sem standa upp og þora að taka ákvarðanir. Um annað en að leigja einkaþotur ....

Markús frá Djúpalæk, 12.4.2008 kl. 06:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband