Hækkun um næstum heila bíóferð
6.4.2008 | 08:30
Það rann upp fyrir mér ljós rétt áðan. Svona bíóljós. Ég fattaði allt í einu að ég fer rosalega sjaldan í bíó. Alltof sjaldan því bíóferð getur verið ágætis skemmtun ef frá eru taldar 20 mínúturnar sem notaðar eru til að auglýsa flatbökur og fjallareiðhjól á undan bíómyndinni. Aftur á móti pirra sýnishorn úr væntanlegum myndum mig eiginlega ekki neitt, nema ef sýnishornapakkinn er alveg úr takti við myndina sem berja á augum, til dæmis ef maður er á barnamynd og það er sýndur fjöldi búta úr þeim ofbeldis- og spennumyndum sem bíóið hyggst sýna á næstunni. Eins og hefur gerst.
En svo sjaldan fer ég í bíó, og þá oftast í boði kvikmyndahússins starfs míns vegna, að ég veit eiginlega varla lengur hvað það kostar stunda þessa hollu skemmtun. Nema stundum um helgar hafa kvikmyndahúsin auglýst það sem þau hafa kallað Sparbíó. Ekki sparibíó, neinei, Sparbíó. Það á semsagt að vera ódýrara fyrir heilu fjölskyldurnar að fara í bíó saman á þeim sýningum sem kallaðar hafa verið Sparbíó. Um síðustu helgi kostaði hver miði á slíka sýningu 450 krónur. Sem þýddi að bíóferðin, fyrir utan popp og kók og allan þann pakka, kostaði 1800 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Vel sloppið svona miðað við annað á Íslandi.
Í helgarblöðunum núna sýnist mér verið að auglýsa nákvæmlega sömu myndirnar og um síðustu helgi, en núna kostar 550 krónur í Sparbíóið. Sem gerir 2200 krónur fyrir sömu fjögurra manna fjölskylduna og áður var nefnd. Semsé hækkun um næstum heilan Sparbíómiða fyrir fjölskylduna, fyrir viku hefði verið hægt að taka Sigga frænda með fyrir sama pening. Þetta er hækkun um rúm 22%. Á að mestu sömu myndir og fyrir viku, maður hefði kannski skilið hækkun á nýinnkeyptar myndir. Nei, menn eru fljótir að hækka allt þegar krónan fellur, en einhvern veginn virðist alltaf vera meiri tregða til að lækka vörunar þegar kvikindið styrkist aftur.
Það er ekki mikið dýrara, og sennilega ódýrara ef fjölskyldan kaupir slikkerí í bíóinu, að kaupa bara myndina á DVD og horfa á hana í heimabíóinu.
Ég fékk í hendurnar í gær upplýsingar um mjög skuggalega hækkun láns hjá einu lánafyrirtækjanna sem ég ætla að skoða betur og blogga um eftir að ég hef skoðað það betur. Það virðist vera sem einhvers staðar, jafnvel víða, hafi fyrirtæki nýtt sér panikástandið í þjóðfélaginu og hækkað vörur og þjónustu mun meira en sem nemur því sem hægt er að skýra með gengisbreytingunni. Verum á verði gagnvart slíku, það er allt reynt.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Dægurmál, Kvikmyndir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.