Fyrsta minningin

eirasiÉg get nú alveg skilið svona flóttatilraun, allavega í ljósi minnar einu persónulegu reynslu af dvöl á svona stað. 

Ég er nú orðinn svo gamall sem á grönum má sjá, en ein fyrsta æskuminning mín er einmitt af leikskóla, eða sennilega gæsluvelli. Ég held að þeir séu aflagðir en þeir voru þeirrar náttúru að foreldrar gátu skilið börn sín eftir þar um stundarsakir án þess að barnið væri vistað þar að jafnaði. Við bræðurnir vorum svo lánsamir að mamma var nú alltaf heima með okkur, í íbúðinni beint á móti okkur bjó móðursystir mín og amma var þar líka. Þannig að það var stundum svona baðstofufílingur á Grettisgötunni. Heimurinn var líka miklu einfaldari í denn tíð og það þótti ekkert tiltökumál að vera bara á þeytingi út um allt og upp um allt og ef hungur eða önnur óáran svarf að var bara skotist heim í móðurfaðminn og föðurhlýjuna.

En hvað um það, einhvern tíma þegar við bræður vorum báðir tiltölulega litlir ákvað mamma að fara í klippingu, lagningu og alla þessa venjulegu yfirhalningu sem konur láta gera á höfði sér reglulega. Á horni Grettisgötu og Barónsstígs var hárgreiðslustofan Hödd þar sem Eiríkur hárgreiðslumaður og erkitöffari réði ríkjum. Þangað fóru konurnar í lífi mínu alltaf á þessum tíma þegar þær þurftu að láta dytta að höfuðbúnaði sínum hinum náttúrulega. Þangað ætlaði mamma að fara þennan umrædda dag, sem var ekta grár, regnvotur, reykvískur dagur. Af einhverri ástæðu sem ég get ekki fyrir mitt litla líf munað ákvað hún að fara með okkur á gæsluvöllinn sem var neðst á Njálsgötunni.

Þar var ömurleg vist þennan stutta tíma sem mamma var á hárgreiðslustofunni. Reyndar fannst okkur bræðrum vistin óralöng, næstum óendanleg. Það helliringdi og þó við værum í pollagöllum og vel klæddir að öðru leyti vorum við rennvotir, okkur var ískalt og það rann horinn úr litlu nösunum. Það voru einhverjir starfsmenn á þessum gæsluvelli sem gengu um eins og þýskir herforingjar og skipuðu börnunum að leika sér. Það sem um var að velja var klifurgrind úr stáli, ein róla og sandkassi. Þrátt fyrir úrhellið máttu börnin ekki fara inn í gæsluvallarhúsið sem auðvitað var eingöngu ætlað starfsfólkinu sem leitaði afdreps þar og sötraði kaffi meðan regnið barði okkur krakkana sem sátum í hnipri í sandbing og reyndum að verða ekki úti í rigningunni.

Ég get alveg lofað ykkur að ef ég hefði ekki verið jafn vel uppalinn og raun ber vitni hefði ég skipulagt flótta af þessum skelfingarstað, sem við bræðurnir þurftum reyndar aldrei að gista aftur eftir þetta.


mbl.is Flótti úr leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sporðdrekinn

Kannski þú hafir setið þarna í sandkassanum með mömmu minni og pabba. Pabbi reyndi víst að strjúka af róló, leið ekki vel þar.

Sporðdrekinn, 27.3.2008 kl. 13:00

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Kann að vera - samt grunar mig að ég sé yngri en foreldrar þínir. Hvernig er lífið þitt annars?

Markús frá Djúpalæk, 27.3.2008 kl. 13:07

3 Smámynd: Sporðdrekinn

Já ætli það ekki, annars eru þau mjög ung rétt rúmlega 55.

Lífið mitt, fallegt af þér að spyrja .  Hmmm... Það er þessi rússíbani, ekki barna rússíbaninn heldur sá stóri, með öllu tilheyrandi: Upp, niður, í hring, beint áfram og svo er farið af stað aftur. Ég er meyra að segja ringluð og oft jafn flökurt eins og þegar að ég hef farið í svona "alvöru" rússíbana. En þeir taka alltaf enda og ég bíð eftir honum

Sporðdrekinn, 27.3.2008 kl. 19:56

4 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ég kannast við svona rússíbanareið. Þær taka enda og þegar það gerist hefur maður bara upplifað eitthvað sem maður geymir í minningunni, sumar ferðirnar rosalega skemmtilegar aðrar erfiðari, en áfram heldur lífið og það fýkur jafnvel yfir minningarnar, jafnvel þær erfiðu. En auðvitað getur maður verið ringlaður og óttasleginn í erfiðustu rússíbanaferðunum. En aftur að róló: Ég er um það bil 12 árum yngri en foreldrar þínir, þannig að ekki borðaði ég sand með þeim (gerði reyndar lítið af því hvort eð er).

Markús frá Djúpalæk, 27.3.2008 kl. 20:01

5 Smámynd: Sporðdrekinn

Hehehe, ég spurði mömmu einmitt í dag: Hvernig var það, var strákur að nafni Markús á róló með þér þegar að þú áttir heima á Grettisgötunni?

Grettisgötunni?!? Ég hef aldrei átt heima á Grettisgötunni

Nei já úps það er víst hún frænka mín sem átti heima þar og það bara fyrir 3 árum  Mamma var á Njálsgötunni (að mig minnir), ég veit, ekki alveg á næsta horni

Sporðdrekinn, 28.3.2008 kl. 01:33

6 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Njálsgatan var bara næsta gata fyrir ofan, ég bjó þar í kringum 1970.... Úff langt síðan.

Markús frá Djúpalæk, 28.3.2008 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband