Staff hershöfðingi mættur í kryddsíld
10.3.2008 | 10:25
Vårt Land, fyrrum biskup í Noregi, hefur lagt til að orðið helvíti verði ekki notað í nýrri Biblíuþýðingu sem gefin verður út í Noregi árið 2010. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Vårt Land er kristilegt dagblað sem hefur verið gefið út í Noregi síðan 1945. Ítarleg leit leiddi engan fyrrrverandi norskan biskup með þessu nafni í ljós. Enda ættu þeir sem hafa minnstu innsýn í norræn tungumál að sjá að þetta nafn þýðir Vor fósturjörð. Odd Bondevik sem þarna er nefndur er ekki eingöngu formaður norska Biblíufélagsins heldur er hann þessi fyrrverandi biskup sem blaðamaður vill láta heita Vårt Land. Þarna er Staff hershöfðingi og menn hans auðsýnilega mættir í kryddsíld eina ferðina enn. General Staff var frægur hershöfðingi í seinni heimsstyrjöldinni og nokkrum sinnum nefndur í fréttum á Íslandi en auðvitað vita allir nú til dags að Staff var enginn hershöfðingi, heldur á þetta orðasamband við um yfirstjórn almennra herdeilda. Kryddsíldin er önnur skemmtileg þýðingarvilla, einhvern tíma átti íslenskur ráðamaður, Vigdís Finnbogdóttir að mig minnir, að mæta í krydsild hjá dönsku drottningunni. Krydsild gæti kannski bara kallast blaðamannafundur á íslenzku en einhver snillingurinn sá fyrir sér mikla síldarveislu. Vanda sig, blaðamenn!
Hætt að tala um helvíti? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:50 | Facebook
Athugasemdir
General Staff er reyndar það sem myndi væntanlega kallast herráð upp á ástkæra ylhýra. Annars man ég líka eftir frétt fyrir ekki svo löngu í íslenzkum fjölmiðli (man ekki hvaða) þar sem talað var um einhvern Lance undirliðþjálfa í Bandaríkjaher sem var ákærður fyrir að hafa brotið af sér í Írak. Þessi blessaði maður hét þó alls ekki Lance heldur var hann Lance Corporal að tign.
Hjörtur J. Guðmundsson, 10.3.2008 kl. 11:35
Já, auðvitað. Var að reyna að finna orðið. En það er kannski eðlilegt að okkur friðelskandi sé ekki töm orð tengd her og hernaði
Markús frá Djúpalæk, 10.3.2008 kl. 11:37
Kannski ;)
Hjörtur J. Guðmundsson, 10.3.2008 kl. 11:57
Mér finnst eiginlega fyndnast, já og bara bráðskemmtilegt, að við skulum svo hafa tekið þetta inn í málið þrátt fyrir kostulegan misskilning á "þvers-eldinum" (e. cross fire, d. kryds-ild,) yfir skipulagt orðaskak og/eða neistaflug manna í millum.
Beturvitringur, 10.3.2008 kl. 17:17
Já, það er nefnilega svo gaman þegar málið vex. Og dafnar.
Markús frá Djúpalæk, 10.3.2008 kl. 18:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.