Glæpurinn
2.3.2008 | 11:32
- síðasti dagurinn
Í kvöld mun það upplýsast hver framdi glæpinn, eða glæpina í samnefndum dönskum spennuþáttum. Margir hafa setið límdir við skjáinn á sunnudagskvöldum, vikum saman, og fylgst með hvernig hvert skref sem virtist færa rannsóknarlögreglumennina nær ódæðismanninum reyndist vera skref í snarvitlausa átt. Í hvert skipti sem rannsókninni átti að vera lokið birtist nýtt sönnunargagn sem hreinsaði þann mest grunaða í það skiptið og færði gruninn yfir á einhvern annan.
Þegar þáttaröðin hófst gerði ég mér ekki grein fyrir að allir 20 þættirnir ættu að vera um rannsókn sama málsins, ég sá fyrir mér hina hefðbundnu bresku uppbyggingu þar sem hvert mál væri leitt til lykta í 2 þáttum - en ónei ekki aldeilis. Þarna hefur dönunum tekist að búa til magnaða fléttu glæparannsóknar og þess mannlega harmleiks sem hlýtur að snerta alla sem lenda í miðju slíkrar rannsóknar, hvort sem það eru aðstandandur fórnarlambsins, rannsóknarmennirnir eða þeir sem grunaðir eru. Þannig er kafað djúpt undir yfirborðið sem okkur er yfirleitt látið nægja að sjá í öðrum þáttum sömu ættar. Hver einasta persóna þáttanna er orðin nátengd áhorfandanum og örlög hvers og eins skipta orðið miklu máli.
Taktu þátt í þessarri litlu skoðanakönnun sem ég hef verið með hér á síðunni, hvern telur þú vera morðingjann í Glæpnum?
Það verður spennandi að fylgjast með í kvöld, en þegar málið verður til lykta leitt veit ég að það myndast ákveðið tómarúm þegar þessir danir hverfa af skjánum. Þó þetta sé bara sjónvarp.
Nú má vorið koma.
Athugasemdir
Kunnugir segja að áhorfendur verði skildir eftir með óleysta gátu að miklum hluta. Ég hef fylgst með þessum þáttum og sökkt mér niður i allar þær pælingar sem kveikt hefur verið á og er engu nær. Helst sýnist mér að svo margir eigi eftir að gera hreint fyrir sínum dyrum að útilokað sé að skýringar fáist í einum þætti.
Árni Gunnarsson, 2.3.2008 kl. 12:02
Ég hafði einmitt verið að velta þessu sama fyrir mér. Flækjurnar eru svo margar og miklar að það verður varla hægt að svara öllum spurningum í einum þætti. En einhver svör fáum við, fjandakornið!
Markús frá Djúpalæk, 2.3.2008 kl. 12:12
Sæll Markús bloggfélagi, ég er búinn að kjósa og bíð spenntur eftir því hvort ég hef rétt fyrir mér.
Sigurður Þórðarson, 2.3.2008 kl. 18:53
Sæll Sigurður, frábært. Þú kannski gefur svo skýrslu um hversu nálægt eða fjarri sanni þú varst.
Markús frá Djúpalæk, 2.3.2008 kl. 19:53
Vorið kemur allavega ekki í komandi viku
Brynja Hjaltadóttir, 2.3.2008 kl. 21:44
Ég tek undir með Árna, það voru eiginlega of margir endar lausir til að klára fléttuna í einum þætti.
En þeir sem tóku þátt í könnuninni voru sannspáir.
Marta B Helgadóttir, 2.3.2008 kl. 22:41
Hmm -- ég held að vangavelturnar geti haldið áfram enn um sinn -- ég er ekki viss um að réttur maður hafi verið skotinn í gærkvöld.
Bíð spenntur eftir Forbrydelsen II, 1-40.
Sigurður Hreiðar, 3.3.2008 kl. 13:19
Góðan daginn!
Viljirðu njóta lífsins betur - bendi ég þér á www.netsaga.is
mbk.
Chillingoli
es. Vinsamlegast gerðu heiminum þann greiða að áframsenda skilaboðin!
Ólafur (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 16:37
Það er kosturinn við góða reyfara að skilja eftir fleiri spurningar en svör....
Markús frá Djúpalæk, 3.3.2008 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.