Beltin geta bjargað
19.2.2008 | 12:52
Ég hef ekki haft mikla lyst á að blogga um umferðina, en stundum brestur mann þolinmæðina. Það sem hér um ræðir er hræðilegt slys sem við öll ættum að láta kenna okkur ákveðna lexíu.
Þannig var að bíl var ekið á miklum hraða á hús við Vesturgötu á Akranesi rétt fyrir klukkan þrjú í gær. Tveir ungir menn, á átjánda aldursári voru í bílnum. Þeir voru báðir fluttir á sjúkrahúsið á Akranesi en að sögn lögreglu voru þeir báðir meðvitundarlausir þegar að var komið og meiðsl þeirra talin alvarleg.
Annar mannanna var fluttur til Reykjavíkur og liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landsspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Hinn var fluttur á sjúkrahús á Akranes, er með meðvitund og líðan hans er ágæt eftir atvikum. Í Skessuhorni kemur fram að bílnum hafi verið ekið á miklum hraða upp Vesturgötu en þar hafi ökumaður misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði á húsvegg. Höggið var svo þungt að hluti veggjar og gluggi á jarðhæð hússins þeyttust inn. Enginn var í þessum hluta hússins þegar ákeyrslan var, en þar er svefnherbergi. Bíllinn er gjörónýtur. Vitni sem Skessuhorn ræddi við og statt var í nærliggjandi götu sagði að höggið hafi verið svo mikið að hann hélt að sprenging hafi orðið í húsinu.
Samkvæmt því sem sagt var í fréttum Bylgjunnar í morgun voru ungu mennirnir ekki í öryggisbeltum. Á mynd af bílnum sem fylgdi fréttinni víða sést greinilega að loftpúðar sprungu út, sem þýðir að hefðu piltarnir verið í öryggisbeltum hefðu þeir ekki slasast eins alvarlega og raun ber vitni. Loftpúðarnir einir og sér bjarga engu, þeir eru hugsaðir til að vinna með öryggisbeltum bifreiða til þess að minnka líkamstjón.
Ungu fólki nú, eins og oft áður virðist finnast það töff að vera ekki í öryggisbeltum. Nú er lag að reyna að koma því inn að það sé töff að nota þau! Allavega miklu meira töff en að vera örkumla eða andaður!
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Facebook
Athugasemdir
Hvað ef einhver hefði verið í herberginu, segjum móðir með ungabarn, hvernig hefði það geta farið? Hvernig getur það flokkast undir töff eða ekki töff að nota bílbelti ? Það sannast víst þarna að maður lifir, eða lifir ekki, með þeim ákvörðunum sem maður tekur.
Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 13:01
Æ þessi blessuðu börn.
Ómar Örn Hauksson, 19.2.2008 kl. 13:07
Lísa, það virðist vera, og ég man bara þegar ég var 17, að það þykir á ákveðnum aldri ótöff að vera í bílbelti. Svo undarlega sem það kann að hljóma.
Markús frá Djúpalæk, 19.2.2008 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.