Sagan af Ögmundi Skrykk
7.12.2007 | 09:29
Áður birt í Veggblaðinu Pro & Contra sem kom út í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1985. Það verður að viðurkennast að þarna svífur mjög ungæðislegur andi yfir vötnum, enda höfundar um og undir tvítugu. Hér er farið afar frjálslega með fornsöguformið og greinilegt líka á hvaða tíma sagan er skrifuð, breaktónlist hafði borið höfuð og herðar yfir aðra dansskemmtan árið áður og greinilegt að áhrifa þess gætir enn. Höfundar voru ritstjórar þessa ágæta veggblaðs, sem á þessum tíma var orðið prentað tímarit. Njótið.
Inngangur
Saga sú er hér fer á eftir fannst fyrir hreina tilviljun undir niðursuðuverksmiðju á Skáni í Suðaustur-Færeyjum. Var hún rituð í kringum árið 750 á fornítölsku blandinni indapeptískum máláhrifum sem sjá má á bæjaheitum og viðurnefnum. Eintak það er fannst á Suðaustur-Færeyjum var íslensk þýðing á frumtextanum unnin a Gissuri Grallara inum lesblinda (d. 1250 er hann gleymdi að lesa utan á meðalaglas er hann tæmdi og hugði vera asprín) Gissur þessi var þekktastur fyrir það að hafa verið fyrstur manna til að falla í íslenskri stafsetningu við Svartaskóla (i) í París. Við þá skömm hugðist hann hefja nafn sitt á loft með því að þýða hinn þekkta fornreyfara Gianni Ciccone (ii) sem reit á indapeptískri ítölsku, en allar sögupersónur og staðhættir eru íslensk, en talið er að Ratágavpretqskijii Ciccone hafi farið til Íslands árið 750 með ferðaskrifstofunni Sólarknerrir (iii). Mun hann hafa orðið fyrir svo miklum áhrifum af drengskap og Brekmenningu innfæddra að hann fann sig knúinn til að rita sögu þess. Árið 1250 keypti Gissur Grallari sér svo eintak af sögunni í sjoppu við Péturstorgið og tók til við þýðingu hennar með litlum glæsibrag, sem sést best á lélegri stafsetningu og því að söguhetjunni gaf hann nafnið Ögmundr Skrykkr. Við prentun sögunnar ákváðu PC menn að breyta hinni upprunalegu stafsetningu ekki neitt. Að lokum viljum vér óska yður góðrar skemmtunar við lesturinn.
I
Maðr hét Ögmundr. Var hann nefndr Skrykkr. Var hann sonr Engilberts Imsalabimm sonar Herfiljóts Gunnarssonar Glymskratta. Sonur Hróðs Heigulssonar Konungsribbalda bróður Aðla Oflátungs með Uppsölur. Hann var sonr Agðils Jarls IV, sem gotinn var í beinan karllegg undan Jötunbirni Raumssyni inum gamla, konungi í Fjölgrautarríki. Þaðan var Ögmundr Skrykkr kominn í svona frekar óbeinan karllegg.
Ögmundr var maðr mikill að burðum og vexti. Lagði hann stund á íþrótt eina er í fornum kviðum er nefnd Brek(1) en kappar á dögum Ögmundar nefndu hana Skrykk. Dró Ögmundr þaðan viðurnefni sitt. Ögmundr var fráneygðr og hvsast nefjaðr, kinnfiskasoginn þónokkuð ok með hormottu eina mikla, frekar munnljótr ok slefgjarn mjök ok orðljótr svá at konr skiptu litum. Samsvaraði hann sér þó vel í vexti og var í viðgangi góðr.
Ögmundr átti Glymskratta(2) einn mikinn og voldugan, tvá hundruð ok fimm tuga sínusvatta með átta rása Dölby Medal stillingu, er hann eignast hafði í Breking(3), þar er Nýja Jórvík(4) nefndist. Sögðu menn að Glymskratti þessi væri fjórtug kúgilda virði. Var skrattinn nefndur Ögmundarnaut ok er hans getið í fornum sögum.
Skratti þessi var Ögmundi til fulltingis er hann skrykkjaði ok stóð honum enginn á sporði í þeim efnum. Gat Ögmundr brekað hæð sína í lopt upp í fullum herklæðum ok borað sig á höfði fimm álnir í jörð niður svá hratt at menn ok æsir á öndum stóðu. Svá virtist sem fimm lappir í lopti væru í senn. Ögmundr bjó at Grautarvík í Berufirði eystra og vestra. Var þar allt kyrrt að sinni.
II
Stefán hét maðr Bakstr ok nefndr svá nafni fyr at baka menn í Breki. Var hann sænskr maðr ok illr viðureignar, hávaðasamr, spottsamr, raupsamr og ódæll. Gat hann þat átt til að kveða drundrímr(5) miklar svá undirtók í fjöllum öllum. Bjó hann at Kvikindisfelli í Rotvík. Reið hann um sveitr ok skoraði menn á hólm í Brek. Bar hann jafnan sigr og stærði sig af. Tók hann ok ætíð í sigurfeng Skrykkspólr og Brektrúttr andskota sinna. Átti hann orðið gott safn Brektúttna ok Skrykkspólna. Skal hér staðar numið í frásögn af kappa þessum að sinni.
(Framhald síðar, sagan er löng og ekki má þreyta lesendur um of með löngum lestri).
Orðskýringar:
(i)Skólahús í Parie, sem var málað svart itl að halda heimskingjum og öðrum ónáttúrulegum forynjum vækkk.
(ii)Fyrra nafnið er af indópeptískum uppruna, hann var yfirleitt kallaður rindill.
(iii)Þessi staðreynd sýnir það og sannar að byggð var á Fróni löngu fyrir daga Landnámu.
1)Við rannsóknir á Breki kom í ljós að á Bolsévískum kirkjutöflum í mið Bláa-Rússlandi mátti finna menjar Breks, ýmist nefnt Break eða Breakdance. Var þetta yfirstéttardans sbr. rit Tolstojs 1. bindi bls. 432.
2)Í brekspólum var sérstakt reipi úr ufsahári, sem á voru bundnir hnútar á sérstakan hátt. Var snæri þetta tengt við tvö hjól sem voru í Brekspólunni. Á spólunni voru síðan tvö göt, sem vorum yfir öðrum tveimur er á spólunni voru. Svo virðist sem rottukvikindi hafi verið inni í Skrattanum og hafi það farið að hlaupa er ýtt var á vogarstöng er ýtti inn í bakið á rottunni. Rottan knúði síðan öxul einn mikinn er gekk inn í spólurnar og sneri áðurgreindum hjólum svo að hnútarnir drógust á ákveðinn hátt eftir hvalskíði svo að hávaði mikill myndaðist. Er talið að tónlistin hafi skrykkjast úr skratta þessum og sé þaðan dregið nafn íþróttarinnar.
3)Sbr. sögnina að leggjast í víking.
4)Rannsóknir benda mjög sterklega til þess að Ögmundur hafi eins og venjulega í ferðum sínum villst og tekið land á Vínlandi, því að í Harlem og á 52.street hafa fundist menjar glymskratta líkum þeim er Ögmundur Skrykkur átti og er á Þjóðminjasafninu.
5)Þetta mun þýða að leysa vind.
Flokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.