Tinni vinur minn
23.8.2007 | 13:17
Þegar ég var gutti var Tinni einn besti vinur minn. Ég eignaðist allar bækurnar um leið og þær komu út og sökkti mér í ævintýraheim þessa knáa blaðamanns. Ég var ekkert að spá í hvort hann þyrfti að vera í vinnunni né af hverju hann ætti ekki kærustu. Það skipti engu máli. Ævintýrið var aðalmálið. Mér fannst Svaðilför í Surtsey einhvern veginn skemmtilegasta bókin alltaf. Kannski af því hún gerðist að miklu leyti á Bretlandseyjum sem hafa heillað mig frá unga aldri. Veit ekki af hverju. Mér fannst fyrstu - eða elstu - bækurnar samt alltaf fremur hallærislegar. Ekki eins vandað til persónusköpunar og teikningar allar einfaldari. Börn síns tíma. Tinni í Kongó er einmitt ein af elstu bókunum. Ég held samt að ég hafi ekki beðið einhverja sálarhnekki af að lesa þessar bækur, í mínum huga voru þetta bara ævintýri og áttu ekkert með raunveruleikann að gera. Þó þær væru vel teiknaðar.
Það að halda að svona bækur ýti undir kynþáttafordóma einar og sér er auðvitað bara fordómar í sjálfu sér. Það þarf svo miklu meira til. Ef ég lít í eigin barm tel ég mig einmitt frekar víðsýnan og fordómalítinn mann og þakka það mikið til öllum þeim aragrúa bóka sem ég las í æsku, Tinni þar með talinn.
Látið Tinna vin minn í friði. Hann er orðinn svo gamall!
Tinni sleppur við bann í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
jamm látið tinna vera
kaptein ÍSLAND, 23.8.2007 kl. 13:26
En er það ekki rétt að við erum dáldið mikið haldin fordómum í garð Afríkubúa? Ekkert endilega slæmum þannig séð, ég er ekki að segja að flest fólk haldi að þeir séu eitthvað verri en við. En hvað sjáið þið fyrir ykkur þegar þið hugsið um Afríku? Strákofa og börn með útblásinn maga? Eða stórborgir iðandi af mannlífi á götum úti, kaffihúsum og skemmtistöðum?
Svör alveg óþörf, bara ef við kíkjum aðeins inn í heilann okkar og tékkum hvort allar upplýsingar séu ekki örugglega uppfærðar.
Harpa Heimisdóttir (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 13:35
Ætla samt að leyfa mér að svara. Ég sé hvort tveggja. Og margt þar á milli.
Markús frá Djúpalæk, 23.8.2007 kl. 13:50
Nákvæmlega. Og það er gott. En því miður er það ekki þannig alls staðar og bækur eins og Tinni í Congó og Litli Svarti Sambó (sem hefur verið bönnuð nær alls staðar í heiminum) ýta undir staðalhugmyndir sem grassera í íslensku samfélagi.
Harpa Heimisdóttir (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 14:32
Þær eru bara börn síns tíma þessar bækur, og mér finnst alls ekki að eigi að banna þær. En auðvitað er nauðsynlegt að það fylgi með þeim með einhverjum hætti útskýringar á einmitt því, að þær sýni nú alls ekki aðstæður eins og þær eru í raun og veru heldur hvernig viðkomandi listamenn sáu hlutina fyrir 80 árum.
Markús frá Djúpalæk, 23.8.2007 kl. 15:53
Skrifandi um fordóma... þegar þið hugsið um Holland sjáið þið ekki myllur og þegar þið hugsið um Belgíu gæti leynst súkkulaði eða jafnvel barnaperri í þeirri leiftursýn... þetta eru staðreyndir og staðreyndir eru nátengdar fordómum. Þetta fer því allt eftir hugsunarhætti hvers og eins, er það ekki?
ARV (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 00:34
Þetta er líka kannski spurningin um muninn á staðalímyndum og fordómum. Það er mun auðveldara að losa sig við þær fyrrnefndu.
Markús frá Djúpalæk, 24.8.2007 kl. 08:58
Byggja ekki staðalímyndir á fordómum? Eitt er það að draga fram jákvæð atriði úr ýmsum menningarheimum (eins og súkkulaði - mjööög svo jákvætt) en annað að stuðla að neikvæðum hugmyndum sem eiga ekki við rök að styðjast. Og þó svo þessar bækur séu börn síns tíma þýðir það ekki að skilaboðin sem í þeim felast séu, eða hafi nokkurn tíman verið, réttlætanleg. Við getum ekki dregið fram ýmis atriði úr mannkynssögunni og sagt að þau hafi verið allt í lagi því þau voru börn síns tíma, atriði eins og nornabrennur, óréttur kvenna til að kjósa og aðskilnaðarstefna (sem var auðvitað afleiðing kynþáttahaturs).
Harpa Heimisdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 16:36
Það er ekki mín meining heldur að skilaboð bókanna séu rétt. En það er jafnrangt að banna þær á þessum forsendum, hitt er að mínu viti réttara að setja í þær texta sem varar við þeim fordómum sem þar koma fram.
Markús frá Djúpalæk, 24.8.2007 kl. 17:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.