Hremmingar bifhjólamanna
15.8.2007 | 10:54
Hún er bæði ótrúleg og hræðileg sagan af bifhjólamanninum sem missti fótinn og tók ekki eftir því fyrr en talsverðu eftir slysið. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt eða lesið hana þá var þetta þannig að mótorhjólamaður ók utan í vegrið og fann til nístandi sársauka. Hann gerði ekkert með það fyrr en á næstu ljósum þar sem hann nam staðar og tók þá eftir að fótinn vantaði neðan við hné. Félagar hans brunuðu til baka og fundu fótinn sem var sendur í skyndi, ásamt eiganda sínum á sjúkrahús. Því miður var stubburinn svo illa farinn að ekki var hægt að græða hann á manninn. Það er svo sannarlega margt skrýtið í kýrhausnum.
Ég heyrði aðra sögu af íslenskum vélhjólamanni sem lenti í því á gatnamótum að ökumaður á skærbleikri Hondu með töffaramerkingum gerði sér leik að því að láta bílinn ítrekað snerta mótorhjólið með ógnandi hætti. Ökumanni vélhjólsins var ekki orðið um sel enda nýstiginn úr meiðslum eftir umferðarslys. Mér skilst að hegðun bílstjórans hafi verið með þeim hætti að bifhjólamaðurinn var farinn að óttast um líf sitt og limi. Hann komst þó óslasaður frá þessu, líkamlega en leið víst ekkert of vel á sálinni þegar heim var komið.
Svona hegðun í umferðinni er auðvitað með öllu ólíðandi og við eigum öll að standa saman um að láta svona ekki henda og gera okkar besta til að stöðva það ef við verðum vitni að einhverju svona í umferðinni. Lögreglan er ekki alls staðar, en rétt að láta hana vita ef svona nokkuð ber fyrir augu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.