Það vantar eitt
13.8.2007 | 14:19
...í Kringluna sem var þar í árdaga. Ég man þá tíð þegar ungt fólk flykktist þangað til að fá sér hamborgara, stórsteik, klúbbsamloku eða annað í stærðarflokki sem aldrei hafði sést áður á Íslandi. Undir dúndrandi rokktónlist sátum við vinirnir, eða ég og Sigga sæta, á þessum stað og röðuðum í okkur kræsingunum á leið í bíó eða úr því. Bíó sem nota bene voru ekki í verzlunarmiðstöðvum. Á veggjunum hengu minningarbrotin úr rokkheimum, plötuumslög, gítarar og heilu glamúrgallarnir. Líka hlutir sem sjaldan höfðu sést á Íslandi áður. Um beina gengu ungar stúlkur (sem núna eru orðnar virðulegar mömmur, og sumar kannski ömmur) í afskaplega stuttum einkennisbúningum, allt að því of stuttum. En einhver í hópnum slysaðist til að eiga afmæli var því laumað að þjóninum sem sá til að afmælisbarnið fékk óvæntan glaðning í lok máltíðar og afmælissöng frá staffinu. Það var gaman að koma á Hard Rock Café.
Smám saman hnignaði þessum frábæra stað og undir lokin var hann orðinn eins og þriðjaflokks hamborgarabúlla í Hull.
Mér finnst þrátt fyrir það vanta Hard Rock Café í Kringluna.
98 milljónir gesta á tuttugu árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.