Sóðar!
11.8.2007 | 18:53
Nú ætla ég að gerast neikvæður. Eða kannski ekki. Veit það eiginlega ekki. Allavega. Það var gott veður í Reykjavík í dag. Eins og lög gera ráð fyrir fórum við út í þetta góða veður. Og sömu lög gera ráð fyrir því að maður fái sér ís. Þess vegna hélt sá hluti fjölskyldunnar sem er heima, í Laugardalinn og sprangaði þar um í góða veðrinu. Dolli fékk gríðarlega athygli hjá öllu kvenkyns sem var á ferli á sömu slóðum og einnig nokkrum karlmönnum. Fyrir þá sem ekki vita er Dolli 8 ára gamall Pomeranian hundur sem heldur stundum að hann sé hvolpur. Heiðdís og dúkkan hennar fengu líka svipaða athygli, en við Sigga öllu minni.
En að aðalmálinu. Við fórum í löngu biðröðina í Ísbúðinni í Álfheimum, þar sem fæst bara dáyndisgóður ís í allskyns útfærslum. Við fengum nú bara afgreiðslu nokkuð fljótt og settumst á bekk á litlu torgi sem er rétt fyrir ofan ísbúðina, sem skartar afskaplega ljótu rauðu listaverki sem ég gleymdi að athuga hvað héti.
Þegar við höfðum gætt okkur á ísunum og bragðarefunum, við náðum meira að segja að klára áður en allt gumsið bráðnaði, gengum við af stað til baka. Þá sá ég hvar ungur maður sem hafði verið að sötra í sig mjólkurhristingi úr ísbúðinni grýtti tómri (eða næstum tómri) dollunni utan af honum út í loftið eitthvað. Ég reyndi að kalla á eftir honum en hann skeytti því engu og töffaraðist í farþegasætið á gulum Honda S2000 sportbíl sem brunaði svo í burtu. Ég er með skráningarnúmerið skrifað hjá mér ef einhver hefur áhuga.
Það er ekki nema von að borgin okkar sé ekki snyrtilegri en raun ber vitni, eins og í þessu tilfelli var ruslatunna í tveggja skrefa fjarlægð en það þótti eitthvað gæjalegra að grýta burtu umbúðunum, og sóða þannig út tilveru annars fólks.
Það er bara ekkert töffaralegra. Þetta er hallærislegt og ber vott um slóðahátt. Og hananú.
Athugasemdir
Hver hefur ekki séð tyggjóklessurnar á gangstéttum utanvið verslunarmiðstöðvarnar þar sem fólk hrækir slummunum út úr sér án þess að hugsa um þá sem á eftir ganga og notaðar umbúðir af hverskonar neysluvöru sem fólk hefur fleigt eða hrægt frá sér. Ég hef oft hugsað hversu miklir meiri sóðar íslendingar eru en allt fólk sem ég hef kinnst og hef þá viðmiðun frá löndum svo sem Evrópu, Ameríku. Afríku og Asíu. Sóðaskapurinn hérna nær út yfir allt!
Guðrún Magnea Helgadóttir, 11.8.2007 kl. 19:13
Það var líka mjög subbulegt í Austurstræti og á Lækjartorgi eftir gleðidaginn. Að læra að vera innan um fólk, taka tillit til annarra og sýna sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu verður að lærast í barnæsku. Það er ekki nóg að eiga peninga og flottan bíl þegar siðfræðina vantar. Ég hugsa stundum um hvernig það lítur út heima hjá þessu sóðum.
Heidi Strand, 11.8.2007 kl. 19:56
Hluti af skýringunni í gegnum tíðina hefur oft verið skortur á ruslafötum, en nú hefur það verið lagað víðast hvar, þó maður verði nú stundum hissa á því að sjá ekki slík þarfaþing svo kílómetrum skiptir sumstaðar.
Markús frá Djúpalæk, 11.8.2007 kl. 20:35
Að það vantar ruslatunnur er engin afsökun. Fólk getur geymt ruslið þar til ruslafata finnst. Ef fólk þarf að fara á klósett og langt er á næstu snyrtingu, þá sest fólk ekki bara niður á götu og gerir sitt. Það sama gildir um rusl. Hvar eru lagana verðir í borginni? Ég sé aldrei löggu á fæti í Reykjavík nema þegar von er á mótmælendum.
Heidi Strand, 11.8.2007 kl. 21:01
Það blasti ruslafata við þessum manni sem ég sagði frá í greininni. Samt fannst honum allt í lagi að henda ruslinu sínu eitthvað út í loftið sem fjærst ruslatunnunni. Ætli ég hefði ekki bara verið barinn ef ég hefði elt hann uppi og reynt að fá hann til að henda ruslinu sínu í tunnuna?
Markús frá Djúpalæk, 11.8.2007 kl. 22:24
þetta er uppeldislegt og hana nú! Fyrir okkur flestum (sem betur fer) er það jafn fjarri okkur að henda rusli út í loftið eins og að girða niður um okkur og gera þarfir okkar þar sem við stöndum. Þetta er barasta eitt af því sem þarf að koma frá foreldrum eða öðrum uppalendum.
Jóna Á. Gísladóttir, 12.8.2007 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.