Hláturskast blaðamannsins...

...eða konunnar.

Í Blaðinu í gær birtist grein eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur þar sem hún lýsir hláturskasti sem hún fékk eftir að hafa fengið tíðindi af því að jafnréttisráðherra Noregs hefði ákveðið að setja á fót sérstaka karlanefnd til að rétta stöðu karla.  Mér finnst yfirleitt gaman að lesa pistla Kolbrúnar en að þessu sinni þykir mér hún hafa skotið sig í fótinn.

Kolbrúnu þótti þessi ákvörðun jafnréttisráðherrans svona afskaplega fyndin vegna þess að "frá aldaöðli hafa karlar haft völd og áhrif í þessum heimi." Og vegna þess að einhverjir karlmenn hafa haft þessi völd og áhrif finnst Kolbrúnu það sprenghlægilegt að huga að hinum körlunum sem aldrei hafa haft þessi völd og áhrif. Mikið rétt, karlar hafa ráðið miklu, en það hafa líka verið til valdakonur, kannski ekki eins margar en alltaf einhverjar.  En það er bara ekki málið.

Því má nefnilega ekki gleyma að þrátt fyrir að karlar hafi haft svona mikil völd í gegnum tíðina hefur það langt í frá verið ALLIR karlmenn sem þau völd hafa haft. Það hefur barasta á hverjum tíma, verið stærstur hluti karla sem engu ráða, hafa engin ítök og eiga enga peninga. Menn sem mæta bara í vinnuna sína á morgnana, skila sínu og hverfa svo aftur heim án þess að hafa traðkað á einum eða neinum.
Það má ekki gleyma því að það er eðli valdsins að halda því hjá sér og hver sem hefur völdin er ekkert að láta þau af hendi eitthvað annað. Út um gjörvallan heim eru stórir hópar fólks af báðum kynjum sem hafa ekki þessi völd og ítök sem Kolbrúnu finnst svo mikilvæg. Lífið snýst um svo mikið meira en að hafa slíkt. Á undanförnum áratugum hefur það svo gerst að sá hópur karla sem ekki hefur þessi mikilvægu völd hefur horfið sjónum og misst fótanna. Það eru þeir sem norski jafnréttisráðherrann hefur áhyggjur af.

Það sem er mikilvægast í jafnréttisumræðunni og -framkvæmdinni að mínu viti er einmitt þetta sem norski jafnréttisráðherrann virðist skilja, að ALLIR hvernig sem þeir eru í laginu, hvernig sem þeir eru á litinn, hvaða kynhneigð, trú, stjórnmálaskoðanir eða hvað annað þeir hafi, þurfa að hafa sama rétt til hvers sem er í þjóðfélaginu. Það er varla hægt að fá hláturskast yfir því, eða hvað?

Það er að sjálfsögðu mikilvægt að jafna skarðan rétt kvenna, það er líka mikilvægt að jafna rétt barna, samkynhneigðra, geðsjúkra, útlendinga, gyðinga, múslíma, og svo má lengi telja. Það er ekki hægt að taka einn hóp út og gera gys að því að rétta eigi hlut hans, eingöngu vegna þess að einhverjir af sömu tegund ráði svo miklu.

Mér finnst það heimskulegt.

Jafnrétti næst ekki nema við stöndum öll saman og berum virðingu hvert fyrir öðru, á meðan við hlæjum að misréttinu breytist það ekkert!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Magnússon

Heyr, heyr!!!

Ég efast um að Kolbrún hefði fengið hláturskast ef ráðherrann hefði verið að setja á fót kvennanefnd!

Við erum öll einstök og jafnrétti, því miður, er ekki til í mannheimum, hefur ekki verið og ÞVÍ MIÐUR, mun sennilega aldrei verða!!

Snorri Magnússon, 10.8.2007 kl. 12:32

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Það má heldur ekki gleymast í þessu sambandi að norski jafnréttisráðherrann er kona. Jafnrétti byrjar inni í okkur sjálfum, en því miður er til alls konar ranglæti sem við í bezta falli getum passað okkur á að stunda ekki sjálf. Hætt er við að það taki langan tíma að útrýma öllu slíku.

Markús frá Djúpalæk, 10.8.2007 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband