Tímavélin

Bonnie Tyler kom til Íslands fyrir nokkrum árum. Ég missti af henni en að sögn þeirra sem hlýddu á þessa hásrödduðu, ljóshærðu, welsku þokkadís - þá mæmaði hún alla söngskrána. Ég veit ekki neitt um hvort það er rétt en hún hefur alltaf átt ákveðinn stað í tónlistarhjartanu mínu.

Ég hef verið að hlusta á safndisk með Bonnie, nýjan, sjóðheitan sem var bara að koma út og þar er hver gullmolinn á fætur öðrum. Lög sem eiga sér stað í minningunni og rifja upp ákveðinn tíma, hvert á sinn hátt.  Þarna eru t.d. hörkurokkararnir hans Jim Steinmans af Total Eclipse plötunni frá 1983 að ógleymdu laginu sem kom Bonnie á kortið, It´s a heartache ásamt öðru snilldarlagi eftir sömu höfunda, sem ég hafði aldrei heyrt áður. Sá opus heitir Lost in France og hefði ekki getað verið samið á neinum öðrum tíma en ofanverðum áttunda áratug tuttugusta aldarinnar.  Það kom út árið nítjánhundruðsjötíuogsjö nánar tiltekið.

Það ár var pönkið að taka völdin - sumstaðar allavega - en samt urðu til slagarar eins og þessir og flytjendur eins og Boney M, Donna Summer og Gerry Rafferty gerðu allt vitlaust með ljómandi fínum popplögum sem enn lifa.  Og svo var það Bonnie Tyler. Í mínum kolli minnir svona tónlist mig á bíltúra í gömlum Skoda, smíðavöll um hásumar, fótbolta á baklóðum í Breiðholtinu og alltaf skín sólin. Í minningunni.

Skyldi eitthvað af þeirri tónlist sem heyrist á öldum ljósvakans í dag eiga eftir að vekja sömu hugrenningartengsl hjá rúmlega fertugum manni árið 2037?  Það vona ég allavega því þetta er svo góð aðferð til tímaferðalaga.

Tónlistin er tímavélBonnietyler


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

það eru orð að sönnu. Nokkrir tónar geta fært mann umsvifalaust aftur í tíma. Í aðstæður, í augnablik. Stundum veit maður ekki einu sinni afhverju þessi laglína færði mann á þennan tiltekna stað. Fyrir mér er það eins með lykt.

Fyndið með gamla skodann... hjá mér var það eins. Minn var rauður. Hvernig var þinn á litinn?

Jóna Á. Gísladóttir, 29.7.2007 kl. 23:15

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ætli þeir hafi allir verið rauðir? :) Minn var það líka.

Markús frá Djúpalæk, 30.7.2007 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband