Lýðræðið eitt - 11. hluti. Mannréttindi og frelsi fjölmiðla
12.2.2015 | 10:46
Útvíkkun mannréttindaákvæða
Mannréttindi hafa iðulega verið jafnaðarmönnum eins og Vilmundi Gylfasyni ofarlega í huga, en hugtakið hefur smám saman víkkað út; samhliða þróun samfélaga hafa æ fleiri þættir talist til mannréttinda. Vilmundi fannst harla lítið koma til mannréttindaákvæða lýðveldisstjórnarskrárinnar.[1] Hann fullyrti að íslensk stjórnvöld brytu mannréttindi þegar það þjónaði hagsmunum valdsins og nefndi að koma pólitíska flóttamannsins Patrick Gervasonis hefði ógnað valdinu og viðbrögð yfirvalda væru dæmi um birtingarmynd yfirgangs ríkisvaldsins.[2] Að hans dómi var áríðandi að frelsi og friðhelgi borgaranna væri tryggt og jöfnuður hafður að leiðarljósi.[3] Honum varð t.d. tíðrætt um að á Íslandi væru ekki allir jafnir fyrir lögunum, að það hafi alltaf skipt miklu máli hver braut af sér og hvernig, þegar kemur að málsmeðferð fyrir dómi.[4] Þarna fullyrti Vilmundur að einn af meginþáttum mannréttinda væri brotinn þrátt fyrir ákvæði um annað í stjórnarskrá og lögum, sem vekur upp þá spurningu hvort dugi að setja reglur í stjórnarskrá ef ekki er farið eftir þeim. Vilmundur benti á að lög ættu að vera fá og einföld, þau væru fyrir borgara landsins en ekki til að verja óljósa hagsmunahópa fyrir fólki.[5]
Þótt mannréttindakafli gildandi stjórnarskrár væri nýjasti kafli hennar, og stjórnlagaráði ekki ætlað að fjalla sérstaklega um hann, varð ráðið strax ásátt um að kaflanum þyrfti að breyta og víkka út skilgreiningar hugtaksins mannréttindi. Þórhildur Þorleifsdóttir sem er yfirlýstur femínisti, sagði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar hafa verið sér ofarlega í huga og mikilvægur þáttur í endurnýjun samfélagsins að hann væri skýr og skilmerkilegur.[6] Stjórnlagaráðið ákvað að spyrða saman mannréttindi, auðlindir og náttúruvernd til að undirstrika samspil þessara þátta innbyrðis. Greinilega voru kjósendur fylgjandi slíkri áherslubreytingu því tæp 83% greiddu atkvæði með í nýrri stjórnarskrá yrðu náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu lýstar þjóðareign.[7]
Eitt af yfirlýstum markmiðum stjórnlagaráðsins var að auðvelda venjulegu fólki að leita réttar síns teldi það á sér brotið með náttúruspjöllum. Mannréttindakaflinn samanstendur af klassískum mannréttindaákvæðum og ýmsu nýmæli, eins og um auðlindir, sjálfbæra þróun og náttúru. Álit ýmissa stjórnlagaráðsliða var að náttúruverndarákvæðin gætu átt erindi út fyrir landsteinana, enda náttúrunni sjálfri fengin réttindi gagnvart manninum, að suðuramerískri fyrirmynd. Ákvæðum um fjölmiðla var komið fyrir í mannréttindakafla eins og vikið verður að síðar. Auk þess var ákvæðum um trú og trúfrelsi valinn staður innan mannréttindakaflans. Greinilegt er að beint lýðræði var stjórnlagaráðsliðum ofarlega í huga varðandi kirkjuskipanina enda ætla tillögur ráðsins þjóðinni að ákvarða kirkjuskipan landsins.[8] Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrárdrögin í október 2012 var uppi nokkur ágreiningur um hvernig haga bæri ákvæðum um þjóðkirkjuna en um 57% greiddu atkvæði með að í nýrri stjórnarskrá skyldi slíkt ákvæði vera.[9]
Vilmundur sagðist eins og aðrir jafnaðarmenn leggja áherslu á að land væri í þjóðareigu og nýting þess þar með.[10] Niðurstaða stjórnlagaráðs varð sú og töldu sumir stjórnlagaráðsmenn, eins og Þorvaldur Gylfason, að með slíku ákvæði væri komið til móts við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að íslensk fiskveiðilöggjöf hafi beinlínis verið mannréttindabrot í skilningi alþjóðalaga. Sé sú niðurstaða Þorvaldar rétt má búast við miklum deilum innan og utan dómstóla verði málum skipað með þeim hætti. Deilur gætu enn magnast ef ákvæðið ætti einnig við um orkuna í iðrum jarðar og veitt þannig eigendum auðlindanna tryggingu fyrir eðlilegum arði af þeim.[11] Í huga Gísla Tryggvasonar var hins vegar afar mikilvægt að hagsmunasamtök nytu jafnræðis við undirbúning löggjafar, en niðurstaðan varð að það gerist með óbeinum hætti.[12] Það er harla ólíkt viðhorfi Vilmundar sem fannst á sinni tíð hagsmunasamtök ýmis vera orðin of mikils ráðandi og vildi draga úr áhrifum þeirra. Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi ekki verið og séu ekki í framvarðarsveit setningar mannréttindaákvæða og því séu drög stjórnlagaráðs ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem sóst virðist eftir. Þau séu einfaldlega of framúrstefnuleg, einkum hvað snertir ímynduð réttindi náttúrunnar.[13]
Frelsi og sjálfstæði fjölmiðla
Vilmundur Gylfason sá fyrir sér valddreifingu, ekki aðeins í stjórnmálum heldur líka í fjölmiðlun. Hann vildi að fjölmiðlar yrðu frjálsir undan oki flokkakerfisins og ríkisvaldsins.[14] Hann vildi gefa útvarpsrekstur frjálsan, líkt og varð um miðjan níunda áratuginn. Þegar myndbanda-byltingin svokallaða varð á öndverðum níunda áratugnum ályktuðu alþýðuflokksmenn um að ótvírætt yrði að vera að dreifa mætti myndefni á lokuðum rásum en tryggja jafnframt hagsmuni höfunda.[15] Sú umræða minnir óneitanlega á þann vanda sem nú er staðið frammi fyrir um leiðir til að dreifa höfundavörðu efni á internetinu.
Þótt gert sé ráð fyrir ýmiss konar skýrslugjöf af hálfu framkvæmdarvaldsins til löggjafarvaldsins virðist stjórnlagaráðið ekki hafa viljað setja sérstakt ákvæði um mikilvægi sannsögli ráðherra í drög sín. Margvísleg reynsla Vilmundar Gylfasonar af því fjölmiðlaumhverfi sem hann ólst upp við og starfaði sjálfur í sannfærði hann um að þeir skyldu vera sjálfstæðir þjónar almennings gegn spillingu, samtryggingu og misbeitingu hvers konar valds.[16] Honum virtist þó lítið til íslenskra blaðamanna koma, að þeir væru illa menntaðir og kallaði Blaðamannafélag Íslands eina druslu valdsins.[17] Hann taldi augljóslega vald örfárra stjórnmálamanna yfir fjölmiðlum alltof mikið, enda voru flestir prentmiðlar tengdir stjórnmálaflokkum á einn eða annan hátt. Auk þessa vildi hann að stjórnmálamenn hyrfu alfarið með ítök sín úr ráðum og nefndum ríkisins, þ.á m. úr útvarpsráði.[18] Í því fjölmiðlaumhverfi hefur án efa verið bæði djarflegt og nauðsynlegt að stofna Dagblaðið 1975 og segja það vera frjálst og óháð. Síðan þá hafa orðið miklar breytingar í rekstri fjölmiðla á Íslandi; ljósvakamiðlun var gerð frjáls frá og með árinu 1986, prentmiðlar eru orðnir harla laustengdir stjórnmálaflokkum og netið hefur breytt tjáskiptum og miðlun efnis svo um munar.
Fjallað er um fjölmiðla í mannréttindakafla draga stjórnlagaráðs. Yfirlýstur tilgangur þeirra ákvæða hljómar nánast eins og Vilmundur hefði getað orðað hann því markmiðið er að gera aðhald almennings virkara gagnvart valdhöfum og að frýja fjölmiðla til dáða. Líkast til hefur stjórnlagaráðið litið til áranna fyrir efnahagshrunið þegar varðstaða margra fjölmiðla var sama og engin og þeir klöppuðu efnahagslífinu og jafnvel stjórnmálamönnum sífellt lof í lófa. Frelsi þeirra og sjálfstæði er getið í mannréttindakafla stjórnlagaráðs. Vernd blaðamanna og heimildarmanna þeirra, leyfi til upplýsingaöflunar og -söfnunar er tilgreint en gert ráð fyrir frekari tryggingu þeirra með sérstökum lögum.[19] Raunar mætti fullyrða að ákvæði stjórnlagaráðsins hvað þetta snertir séu ekki nógu afgerandi til að tryggja fjölmiðla sem skyldi, enda almenn lög alltaf óæðri stjórnarskrá. Í því samhengi má velta fyrir sér hvort óskýrt eignarhald á fjölmiðlum nútímans sé hagfelldara neytendum sem þurfa iðulega að hafa sig alla við að greina hvaða skoðunum reynt er að halda að þeim. Fjölmiðlar nútímans eru sömuleiðis mun háðari auglýsendum en áður var, sem geta haft með beinum eða óbeinum hætti áhrif á umfjöllun fjölmiðilsins. Sömuleiðis eru til dæmi um að stjórnmálamenn hafi reynt að snupra fjölmiðla með því að eggja auglýsendur til sniðgöngu, líkt og einn þingmaður Framsóknarflokksins gerði snemma árs 2014.[20]
Í drögum stjórnlagaráðs segir að öllum sé frjálst að safna og miðla upplýsingum og aðeins megi setja skorður þess í lýðræðislegum tilgangi.[21] Þessi grein átti við um öll gögn, ekki aðeins opinber, en nauðsynlegt er þó að lesa greinina saman með öðrum ákvæðum sem t.d. eiga við um friðhelgi einkalífs. Jafnframt á að tryggja frelsi vísinda, fræða og lista og með jafnræðisreglu er bannað að mismuna fólki eftir stjórnmálatengslum.[22] Í því samhengi má greina að stjórnlagaráð hafi verið sammála Vilmundi Gylfasyni og viljað koma í veg fyrir að listamenn margskonar, vísinda- og fræðimenn gætu lent í því að fá ekki tækifæri vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þýðingarmikið væri að skapandi þættir samfélagsins töpuðu ekki á hinum miklum áhrifum stjórnmálamanna.[23]
Hart var tekist á um stjórnarskrármálið á þingi en ekkert varð af nýrri stjórnarskrá. Fyrir þinglok 2013 var ákveðið að fresta afgreiðslu málsins fram á nýtt kjörtímabil, og samþykkt afbrigði á núgildandi stjórnarskrá til að einfaldara yrði að ganga til atkvæða um nýja.[24] Í júlí 2013 óskaði forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, eftir tilnefningum stjórnmálaflokka til níu manna stjórnarskrárnefndar. Nefndin skyldi meðal annars taka mið af tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 og starfi stjórnarskrárnefndar á árunum 20052007.[25] Sigurður Líndal, sem hafði áður borið brigður á að ráð skipað fulltrúum almennings gæti samið nýja stjórnarskrá, var upphaflega skipaður formaður nefndarinnar.[26] Síðar tók Páll Þórhallsson ráðuneytisstjóri við. Nefndinni er ætlað að ljúka störfum í tíma svo hægt verði að samþykkja frumvarp til stjórnskipunarlaga fyrir lok kjörtímabils 2017.[27] Allir flokkar á þingi náðu samkomulagi um skipan nefndarinnar. Meðferð stjórnarskrár var þar með horfin úr höndum borgaranna og að nýju komin á forræði stjórnmálaflokkanna.
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
[1] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 3. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[2] Vilmundur Gylfason: Ræða um vantraust, bls. 4. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[3] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 2. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[4] Sama heimild, bls. 9.
[5] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 12. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[6] Viðtal höfundar við Þórhildi Þorleifsdóttur, 15. apríl 2014.
[7] Vef. Fyrstu umræðu um stjórnarskrárfrumvarp lokið. Skoðað 26. ágúst 2013.
[8] Vef. Sjá t.d. Arnfríður Guðmundsdóttir: Tillögur Stjórnlagaráðs um tengsl ríkis og kirkju. Bakgrunnur og merking., 4. íslenska söguþingið 7. - 10. júní 2012. Ráðstefnurit, ritstjóri: Kristbjörn Helgi Björnsson, (Reykjavík 2013), bls. 32-33. http://skemman.is/stream/get/1946/17296/40366/1/r%C3%A1%C3%B0stefnurit_9_final.pdf, skoðað 24. apríl 2014.
[9] Vef. Fyrstu umræðu um stjórnarskrárfrumvarp lokið. Skoðað 26. ágúst 2013.
[10] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 2. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[11] Vef. Viðtal Péturs Fjeldsted við Þorvald Gylfason.Skoðað 26. ágúst 2013.
[12] Sjá 2. mgr. 57. gr. í Ný stjórnarskrá Íslands. Frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga 2011, útgefandi Daði Ingólfsson í samstarfi við Stjórnarskrárfélagið, ([Reykjavík] 2011), bls. 31 og viðtal og við Gísla Tryggvason, 28. apríl 2014.
[13]Vef. Sjá: Lára Magnúsardóttir: Náttúran í eigin rétti. Stjórnarskrá á mannamáli. Aðferðafræðileg tilraun. http://stofnanir.hi.is/skagastrond/sites/files/skagastrond/Lara%20M%20-%20Natturan%20%C3%AD%20eigin%20retti%202012%20%28-14%29.pdf, skoðað 24. apríl 2014.
[14] Vilmundur Gylfason til Kjartans Jóhannssonar: Athugasemdir um stefnuatriði vegna kosninga. (Trúnaðarmál. Ekki til dreifingar), bls. 2. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[15] Alþingistíðindi A 1981, bls. 722-23.
[16] Jón Ormur Halldórsson: Löglegt en siðlaust, bls. 87.
[17] Sama heimild, bls. 375.
[18] Vilmundur Gylfason: Ræða um vantraust. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.
[19] Ný stjórnarskrá Íslands, bls. 10-12.
[20] Vef. Vigdís hvetur EGF snyrtivörur til að sniðganga Kvennablaðið, á vefsíðunni visir.is, 27. febrúar 2014, http://www.visir.is/vigdis-hvetur-egf-snyrtivorur-til-ad-snidganga-kvennabladid/article/2014140228992, skoðað 3. maí 2014.
[21] Ný stjórnarskrá Íslands, bls. 10-11.
[22] Sama heimild, bls. 12.
[23] Vef. Viðtal Péturs Fjeldsted við Þorvald Gylfason. Skoðað 26. ágúst 2013.
[24] Sjá Vef.: Lög nr. 91, 11. júlí 2013, Stjórnarskipunarlög um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/stjt/2013.091.html, skoðað 1. maí 2014.
[25] Vef. Skipa nýja stjórnarskrárnefnd, á vefsíðunni mbl.is, 9. júlí 2013, http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/07/09/skipa_nyja_stjornarskrarnefnd/, skoðað 30. ágúst 2013.
[26] Vef. Sigurði Líndal líst ekki á stjórnlagaþing - Fulltrúar pólitískir og kunna ekki lögfræði, á vefsíðunni Pressan, http://www.pressan.is/m/Article.aspx?catID=6&ArtId=23074, skoðað 30. ágúst 2013.
[27] Vef. Forsætisráðherra skipar stjórnarskrárnefnd, á vef Forsætisráðuneytisins, 6. nóvember 2013, http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/7766, skoðað 20. apríl 2014.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.