Lýðræðið eitt - 9. hluti.

Kjördæmaskipan – jafnt vægi atkvæða – persónukjör

Vilmundur Gylfason sagði greinar Gylfa Þ. Gíslasonar og Ólafs Jóhannessonar í tímaritinu Helgafelli, sem hann notaði sem fylgiskjöl með þingsályktunartillögu sinni, meðal annars ritaðar vegna þess að þeir hefðu áhyggjur af kosningakerfinu og því að fjögurra flokka kerfið væri þingræðinu óhollt og gengi illa upp á Íslandi.[1] Kjördæmaskipanin hefur vakið deilur um langan aldur og illa gengið að finna lausn sem stjórnmálaflokkar og kjósendur virðast geta fellt sig við.

Vilmundur horfði til hugmynda Ólafs Jóhannessonar sem vildi gera gagngerar breytingar á kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi til að draga úr flokkavaldinu og til að tryggja lýðræðið frekar og draga úr valdi hagsmunahópa. Best hafði Ólafi hugnast að stækka kjördæmin, en vafasamt þótti honum að landið yrði eitt kjördæmi. Þetta taldi hann að styrkti og yki virðingu þingsins sem hann taldi að yrði að vera í einni málstofu, líkt og síðar varð raunin. Vilmundur var samþykkur því í þingsályktunartillögu sinni, en gerði þar ekki ráð fyrir breytingu á kosningalögum og kjördæmaskipan. Það kemur á óvart í ljósi fyrri ummæla um galla kjördæmaskipulagsins á Íslandi og að stjórnarskrárbreytingar þýddu í hugum flestra, ekki síst hans sjálfs, leiðréttingar og aukningu jafnréttis hvað varðar skiptingu atkvæða.[2] Hann taldi kerfi, þar sem misvægi atkvæða væri svo mikið sem raun bæri vitni, í raun óstjórnhæft og að kenna mætti því um efnahagslega óstjórn liðinna ára.[3] Áður hafði Vilmundur verið nokkuð andvígur fjölgun þingmanna og jafnvel velt upp þeim möguleika til að komast hjá fjölgun þeirra með að fækka kjördæmum og stækka.[4] Gylfi Þ. Gíslason hafði álitið vænlegast að kjördæmin yrðu fimm; Reykjavík og landsfjórðungar, þingmönnum fækkað og að þingið starfaði í einni málstofu. Sú skipan mála var reyndar viðruð í þingsályktunartillögu þingmanna Alþýðuflokksins í mars 1982 þótt hvorki væri gert ráð fyrir að landið yrði eitt kjördæmi né endurbætur á ríkjandi skipan útilokuð.[5]

Þrisvar hafa breytingar verið gerðar á núgildandi stjórnarskrá vegna kjördæmaskipunar. Í tillögum stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir að kjördæmin yrðu mest átta og að atkvæði skyldu vega jafnt alls staðar á landinu og þingmannafjöldi skyldi vera í samræmi við atkvæðamagn hvers framboðs.[6] Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hefur gert athugasemdir við misvægi atkvæða hér á landi, enda fer fjarri að viðmiðum stofnunarinnar um 10–15% frávik sé fylgt.[7] Mikilvægi úrræða varðandi kjördæmaskipanina var stjórnlagaráðsmönnum því ljós. Yfirlýstur tilgangur ráðsins var að efla lýðræði með því að auka bein áhrif kjósenda á val alþingismanna, að reyna að girða fyrir einsleitni á þinginu og tryggja að hlutfall kynja væri svo jafnt sem verða mætti.[8] Líkast til verður seint hægt að tryggja slíkt til fullnustu, en áhyggjur af kjördæmaskipan hljóta að teljast raunhæfar í ljósi athugasemda ÖSE og eins þess að þorra lýðveldistímans hafa þingmenn komið fram sem sérstakir fulltrúar síns kjördæmis og oft og tíðum ívilnað sveitungum sínum með margvíslegum hætti. Íris Lind Sæmundsdóttir lögfræðingur og fulltrúi í stjórnlagaráði sagði jafnframt að núverandi kjördæmaskipan hyglaði kjósendum á landsbyggðinni og bryti þannig í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.[9]

Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir persónukjöri eða hefðbundnu listakjöri eins og tíðkast hefur.[10] Það var m.a. hugsað til að bæta mannvalið á vettvangi stjórnmálanna til muna og skerða getu stjórnmálaflokkanna til að raða mönnum að vild í örugg sæti. .[11] Haukur Arnórsson stjórnsýslufræðingur telur hins vegar að flokkakerfinu standa ógn af persónukjöri, enda virtist hann telja stjórnmálaflokka hornstein lýðræðis á Íslandi. Ef kjósa ætti einstaklinga yrði það að gerast fyrir tilstuðlan flokkanna því betra væri að velja fólk sem hefði sannað sig innan þeirra en á öðrum vettvangi.[12] Hann vill því efla flokkakerfið frekar en veikja.

Gert er ráð fyrir jöfnu vægi atkvæða, hvar sem er á landinu í tillögum stjórnlagaráðs.[13] Enn fremur taldi ráðið að persónukjör væri mikilvægt mótvægi við flokkakerfið.[14] Kjósendur tóku nokkuð ólíka afstöðu til þessara þátta því rúm 78% voru því fylgjandi að persónukjör í kosningum yrði heimilað. Á hinn bóginn voru 66,5% þeirrar skoðunar að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skyldu vega jafnt.[15] Ef til vill má hér greina ugg um að landsbyggðin bæri skarðan hlut frá borði færi svo að atkvæðavægi yrði jafnað.

Í tillögum ráðsins gætu kjósendur átt val um alla frambjóðendur í landinu, sýnist þeim svo, en þeir sem í kjöri eru verða að bjóða sig fram í ákveðnum kjördæmum.[16] Þorvaldur Gylfason kallaði þessa leið „bombu“ og mjög mikilvægt mannréttindamál enda hefði misvægi atkvæða legið eins og mara á þjóðinni í yfir 100 ár. Hann útskýrði áhugaleysi einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka með því að stjórnmálaflokkarnir hefðu raunverulegan hag af misvægi atkvæða vegna búsetu. Þess vegna hefði heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar aldrei farið fram þrátt fyrir margvíslegar yfirlýsingar um að það yrði gert.[17] Ágúst Einarsson fyrrum samherji Vilmundar hefur líkt og fleiri tekið undir þessi sjónarmið, og sagði þingmenn iðulega hafa látið kjördæmasjónarmið ráða ákvörðunum sínum.[18] Svo virðist vera sem mjög fáir stjórnlagaráðsliðar hafi verið þeirrar skoðunar að jöfnun atkvæðisréttar væri ekki mikilvæg. Gísli Tryggvason taldi þó að fara ætti hægt í slíkar breytingar. Hann barðist þó ekki á móti jöfnun atkvæðisréttar, þótt hann teldi kjördæmakerfið mikilvægt til að halda tengslum kjörinna fulltrúa við kjósendur og kannski ekki síst til að bæta stöðu landsbyggðarinnar.[19]

Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaráðs sagðist Reimar Pétursson lögfræðingur telja að útfæra þyrfti frekar hvernig vægi atkvæða yrði gert jafnt í landinu. Hann sagði að til að það gengi upp yrði landið að vera eitt kjördæmi sem væri vont því erfitt yrði fyrir frambjóðendur til Alþingis að kynna sig fyrir kjósendum.[20] Hér mætti einnig velta upp þeim möguleika að skipta landinu upp í fjölda smærri kjördæma, þar sem frambjóðendur væru skyldaðir til að vera heimamenn. Vilhjálmur Þorsteinsson taldi einmitt best fara á að gera landið að einu kjördæmi, þótt niðurstaða stjórnlagaráðs yrði önnur.[21] Hægt er að færa rök fyrir að stjórnlagaráð hafi tekið undir sjónarmið Reimars, enda þyrftu íbúar hvers svæðis að hafa eitthvað um eigin mál að segja og tengsl kjósenda við þingmenn gætu versnað væri landið eitt kjördæmi.[22] Gegn þeim rökum má horfa til þess að raunveruleg tengsl kjósenda við þingmenn sína nú á tímum virðast ekki mikil, návist þeirra er í gegnum sjónvarp og aðra fjölmiðla en á hinn bóginn eiga kjósendur hvar sem er á landinu þess kost að senda þingmönnum skilaboð og hvatningarorð gegnum tölvupóst. Sú leið hefur verið notuð á síðari árum, jafnvel með skipulögðum hætti eins og þegar Hagsmunasamtök heimilanna hvöttu fólk til að senda þingmönnum póst vegna fyrirhugaðs greiðsluverkfalls og í aðdraganda fyrirhugaðs verkfalls háskólakennara á vordögum 2014.[23] Á hinn bóginn var réttilega bent á að kosningin til stjórnlagaráðs hefði sýnt greinilegan landsbyggðarhalla suðvesturhorninu í vil, auk þess sem stjórnsýsla nánast öll væri á því svæði.[24]

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.

[1] Vilmundur Gylfason: „Franskt stjórnarfar og íslenskar aðstæður“.

[2] Vilmundur Gylfason: Stjórnarskráin, bls. 1. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[3] Vilmundur Gylfason: „Franskt stjórnarfar og íslenskar aðstæður“.

[4] Vilmundur Gylfason: Kjördæmamálið, Fréttabréf frá Vilmundi Gylfasyni á Alþingi, 4. ágúst 1982, bls. 2. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[5] Alþingistíðindi A 1981-82, bls. 1827-28.

[6] Ný stjórnarskrá Íslands, bls.22-23.

[7] Vef. „Jafnt atkvæðavægi?“, á vef Ríkisútvarpsins, 10. Október 2012, http://www.ruv.is/frett/jafnt-atkvaedavaegi, skoðað 1. maí 2014.

[8] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum“, bls. 99.

[9] „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“, Fréttablaðið,19. október 2012, bls. 12.

[10] Ný stjórnarskrá Íslands, bls.22-24.

[11] Vef. Viðtal Péturs Fjeldsted við Þorvald Gylfason. Skoðað 26. ágúst 2013.

[12] „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“, Fréttablaðið,18. október 2012, bls. 10.

[13] Viðtal höfundar við Katrínu Oddsdóttur, 21. apríl 2014.

[14] „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“, Fréttablaðið,18. október 2012, bls. 10.

[15] Vef. „Fyrstu umræðu um stjórnarskrárfrumvarp lokið“. Skoðað 26. ágúst 2013.

[16] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum“, bls. 100.

[17] Vef. Viðtal Péturs Fjeldsted við Þorvald Gylfason. Skoðað 26. ágúst 2013.

[18] Ágúst Einarsson: „Dreifum valdi í fyrirtækjum og flokkum“, Greinasafn fyrra bindi. Úrval greina og erinda um stjórnmál, menningu og menntun, ([Reykjavík] 2007), bls. 93.

[19] Viðtal höfundar við Gísla Tryggvason, 28. apríl 2014.

[20] „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“, Fréttablaðið,19. október 2012, bls. 12.

[21] Vef. Vilhjálmur Þorsteinsson: „Stefnumál“. Skoðað 10. apríl 2014.

[22] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum“, bls. 100.

[23] Vef. Sjá t.d. vef Hagsmunasamtaka heimilanna, http://www.heimilin.is/varnarthing/rammaadgerdir/greidsluverkfall/skrifadu-thingmonnum.html og Vef. „Þrjú þúsund tölvupóstar til þingmanna“, á vefsvæðinu visir.is, http://www.visir.is/thrju-thusund-tolvupostar-til-thingmanna/article/2014140409076, skoðað 20. apríl 2014.

[24] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum“, bls. 100.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þessa yfirgripsmiklu og greinargóðu samantekt.
Sá sem hér slær á takka tölvu hefur lengi verið þeirrar skoðunar, að þegar menn eru að reyna að halda uppi sjálfstæðu og sjálfbæru samfélagi, sem telur þó ekki nema 320.000 manns, sé fráleitur kostur að vera með skiptingu í kjördæmi, hvað þá með jafn gríðarlega mismunandi vægi atkvæði og enn tíðkast, þrátt fyrir lagfæringar. Því hljóti að vera brýnt að breyta, enda erum við þegar orðin að hálfgerðu athlægi í evrópsku samfélagi af þessum sökum. En það er líka fleira fráleitt í þessu. Það hafa margir bent á að það sé líka út úr kú að vera með tvö stjórnsýslustig í jafn litlu samfélagi. Enda sé það bara út frá kostnaðarlegu samhengi tómt bull, svo notað sé orðalag unglinga. Ef við breytum þessu á þennan hátt, þ.e. hafa stjórnsýslustigið eitt og leggja þar með niður sveitarstjórnastigið, þá væri heppilegt að fækka um leið fulltrúum á þingi, eða hvað við kjósum að kalla þá samkomu, og binda fjölda þeirra jafnframt við fjölda kjósenda á kjörskrá, t.d. einn fulltrúi fyrir hverja 10.000 kjósendur. Þá yrði líka framkvæmdanlegt að koma á persónukjöri, þ.e. frambjóðendur byðu sig fram sem einstaklingar, en ekki fulltrúar tiltekinna flokka. Samhliða þessu yrði svo komið á því skipulagi, að kosinn yrði sérstaklega forystumaður ríkisstjórnar, sem við gætum þess vegna kallað forseta eða hvað sem okkur lysti. Sá skipaði síðan ríkisstjórn eftir sínu höfði, sem kjörinn yrði. Eitt megin hlutverk þingsins yrði síðan í fyrsta lagi að setja landinu lög, og í öðru lagi að hafa strangt eftirlit með framkvæmdavaldinu og embættismönnum.

Kjósandi (IP-tala skráð) 10.2.2015 kl. 16:42

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Þakka þér fyrir að lesa. Ég held að flestir þeirra sem vilja gera Ísland að betra samfélagi hljóti að fagna öllum bollaleggingum um hvernig best sé að fara að - á borð við það sem þú skrifar hér - enda orð til alls fyrst.

Markús frá Djúpalæk, 11.2.2015 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband