Þrítugasti árgangur tímaritsins Sagna væntanlegur

http://www.youtube.com/watch?v=x8cB5LCiyr4

Nú styttist óðum í að þrítugasti árgangur Sagna komi út. Í raun má segja að núverandi ritstjórn hafi rænt umboði til útgáfunnar, en það þurfti til að blaðið mætti koma út. Segja má jafnframt að ritstjórnin hafi verið svolítið anarkísk en eiginleg ritstjórnarstefna var ekki fyrir hendi heldur var lagt kapp á að blaðinu skyldi vera komið út og óheillaþróun síðustu ára snúið við. Þó var að sjálfsögðu lögð mikil áhersla á vönduð vinnubrögð í hvívetna, jafnt hvað efnistök og útlit ritsins áhrærir. Það er því von ritstjórnar að greinarnar sem í því birtast endurspegli að einhverju leyti áhugasvið nemenda við sagnfræðina í HÍ:

„Fyrir Íslendinga var Ólympíusigur fjarlægur draumur, en eins og margir fræðimenn hafa bent á eru íþróttir vettvangur fyrir pólitík, valdabaráttu og tækifæri til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri."

„Menn álitu að betur menntuð þjóð myndi ná betri árangri í að nýta þá möguleika sem Ísland ætti kost á."

„Annað sem einungis fæst í sveitinni er hin líkamlega vinna. Hún eflir skilning á því að vinna útheimtir bæði kunnáttu og þekkingu þess sem innir hana af hendi, og hún eykur einnig samhyggð með þeim stéttum sem strita fyrir brauði sínu."

„Hjartaknúsarinn írski, Johnny Logan, tók fyrstu skrefin í átt að krýningu sinni sem konungur Evrópusöngvakeppninnar með sigurlaginu What‘s Another Year. Íslendingar vöktu heimsathygli sumarið 1980, þegar þeir kusu sér konu sem forseta; Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri hlaut 33,8% atkvæða og skaut þar með þremur landsþekktum karlmönnum ref fyrir rass."

„Hér voru engar borgir, ekkert háskólasamfélag eða markaður fyrir ódýrar pappírsbækur. Ísland var bændasamfélag án borgarmyndunar, hér var ekki blómlegt viðskiptalíf eða fjölmenn stétt menntamanna."

„Þótt ekki sé hægt að alhæfa um að allar konur þessa tíma hafi reitt sig jafnmikið á skoðanir karlmannanna sem þær litu upp til er engu að síður áhugavert að 27 ára kona sem hugði að hjónabandi hafi byggt þá ákvörðun sína á áliti bróður síns."

„Þar hefðu nasistar orðið herrar samfélags, gegnsýrðu af fjandskap í garð gyðinga, sem gerði afar róttæka og öfgafulla leið til upprætingar þeirra framkvæmanlega."

„Var lífsmáti þeirra leið til að ögra hinum hefðbundnu gildum samfélagsins eða voru þetta bara ungar stúlkur að njóta lífsins og klæða sig eftir nýjustu tísku? Dreymdi þær um æðri menntun og starfsframa, eða um huggulegan eiginmann og börn?"

„Hún sá varla handa sinna skil og hræddist allan tíman að hún myndi fara út í Kálfslækinn og drukkna, því hann var svo djúpur. Hún bað bænirnar sínar í sífellu í huganum og þurrkaði tárin sem runnu niður kinnarnar. Kjarkurinn var ekki mikill eftir en hún gafst ekki upp og barðist áfram í hríðinni."

„Minna mætti suma stjórmálamenn nútímans á að ýmsar þær framfarir og breytingar sem urðu á íslensku samfélagi fyrri alda komu að utan."

„Aristókratar deila ekki um konur. Til þess virða þeir hvorn annan of mikið. En það voru ekki aðeins karlmenn sem þurftu að laga sig að hugsjónum riddaramennskunnar. Konur urðu einnig að temja sér ákveðna félagslega hegðun til að hin aristókratíska hjónabandspólitík gengi upp."

„[Hann] ... mun hafa litið þannig á, að nú væri tækifæri til að sýna það, að kommúnistar sköruðu fram úr öðrum í stjórnsemi, fyrirhyggju og öðrum mannkostum, þeim er alþýðunni gæti orðið að liði, og skar hann því herör upp um gjörvalt landið og kallaði til sín sinn rauða her. Voru þar kommúnistar saman komnir úr öllum landsfjórðungum ..."

„Það var þó meira en andúð á einræði sem leiddi til þessara viðbragða á Íslandi. Eins og Þjóðviljinn benti réttilega á í upphafi stríðsins, hafði almenningur ekki tekið jafn skýra samúðarafstöðu til þeirra þjóða sem þegar höfðu orðið Þýskalandi og Sovétríkjunum að bráð."

„Undir lok aldarinnar völdu börn sér hinsvegar oftar búninga með skírskotun til eitthvers hræðilegs og ógnvekjandi, líklegast vegna áhrifa frá afþreyingarmiðlum. Norna-, vampíru- og Frankensteinbúningar voru algengastir, að ógleymdri hinni sívinsælu Scream-grímu."

„En þrátt fyrir fátæklega myndlist á Bessastöðum skorti ekkert á að lögð væri stund á heimsbókmenntir því meðfram skólastarfi vann faðir hans að þýðingum einhverra mikilvægustu fornbókmenntaverka allra tíma; kviður Hómers, Ilionskviðu og Odisseyfskviðu."

„Höfundur greinarinnar undrast ekki að þessi trú hafi verið ríkjandi í landinu „á meðal fáfróðrar alþýðu,"  því margar misheppnaðar tilraunir höfðu verið gerðar."

Þetta er aðeins brot af því sem birtast mun í veglegri þrítugustu útgáfu Sagna sem væntanleg er innan mjög skamms. Þeir sem vilja vita meira ættu að hafa hraðar hendur og senda tölvupóst á

mth39@hi.is - upplagið verður takmarkað!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband