HVAR VORU LANDSMÆÐURNAR? Hlutverk og staða kvenna í amerísku byltingunni

Þó konur séu og hafi verið um helmingur mannkyns hafa þær fram á seinustu ár verið aukaleikarar á sviði sögunnar. Löngum var  sagan skrifuð um sigursæla hershöfðingja, konunga og keisara sem oftast  voru karlkyns. Helsta gagnrýni á sagnfræði fyrri tíma er einmitt skortur á konum þó það væri jafnvel talið að sá skortur stafaði af því að þær hefðu gert svo fátt.[1]  Smám saman efldist ritun sögu kvenna sem er talin eiga sér þrjú blómaskeið, það tilþrifamesta hófst á sjöunda áratug síðustu aldar með tilkomu kvennahreyfinga víða um veröld. Kvennasagan hefur þróast í þá átt að fjalla um samskipti beggja kynja í félagslegu samhengi, er orðin kynjasaga. Nýjar áherslur í söguritun, með áherslu á hversdagslífið, hið einstaka og persónulega, hafa dregið konur fram úr skúmaskotum sögunnar.[2]  Einstaklingar úr minnihlutahópum hafa orðið sýnilegir og mikilvægir sem viðfang sögunnar og ekki síður sem starfandi sagnfræðingar.[3]  Fyrsta blómaskeið kvennasögu var um og eftir frönsku stjórnarbyltinguna en hér verður skoðuð staða kvenna í aðdraganda og eftirmálum annarar byltingar, fáum árum fyrr,  þeirrar amerísku.  Allmiklar breytingar urðu hugarfarslega, á sviði stjórnarfars og menningar en það er ekki fyrr en á síðari árum sem þáttur kvenna hefur verið skoðaður markvisst. Hvernig var staða kvenna í nýlendum Breta fyrir, eftir og á meðan á amerísku byltingunni stóð?

Þeir sem undirrituðu sjálfstæðisyfirlýsingu og sömdu stjórnarskrá Bandaríkjanna hafa verið nefndir landsfeður Bandaríkjanna en hvar voru landsmæðurnar?

II

Á átjándu öld var veröldin að breytast, á annan bóginn hallæri og farsóttir en samtímis glitti í birtu upplýsingarinnar. Upplýsingin varð til þess að hugsuðir og framkvæmdamenn sannfærðust um að vísindin gætu útskýrt lögmál heimsins og ekki síst að mannkynið gæti stjórnað og ráðið eigin örlögum. Talið var að hægt væri að upplýsa fólk og fræða um að örlögin væru ekki fyrirfram ákveðin af guðlegri forsjón heldur gæti hver og einn skapað sína eigin framtíð.  Framfaratrú upplýsingarinnar ásamt hugmyndum tengdum náttúrurétti auk kröfunnar um frelsi og jafnrétti allra skóp grundvöllinn fyrir frönsku byltingunni og ekki síður þeirri amerísku.

            Nýlendur Breta voru orðnar mjög sjálfstæðar um stjórnarmálefni sín þegar um miðja átjándu öld með mjög sveigjanlegt pólítískt kerfi sem tiltölulega stórir hópar fólks tóku þátt í.[4] Með afar mikilli einföldun má segja að áralangar deilur við Breta um skattheimtu og stjórnskipan hafi valdið því að nýlendubúar risu upp, gerðu byltingu sem lauk með stofnun lýðveldis og tilurð stjórnarskrár sem samin var af hópi (vel stæðra) hvítra karlmanna. Þessir karlmenn litu á sig sem fulltrúa allra en hverjir voru þessir allir?   Þegar  réttindi til handa öllum voru tryggð í öndverðu ríkti sá skilningur að ekki væri átt við konur, ekki eignalausa, ekki indíána, svarta menn né aðra minnihlutahópa. Allir voru einfaldlega hvítir karlmenn á tilteknum aldri sem áttu eignir.  Smátt og smátt  hefur mengið allir  stækkað mjög mikið.  Hugmyndin um réttindi allra segir kvennasögufræðingurinn Joan Wallach Scott að hafi orðið til þess að amerískir karlar jafnt og konur hafi séð fyrir sér fullkomið, samhuga, jafnréttissamfélag[5] og Linda Kerber, sagnfræðingur telur að hugmyndin hefði verið að skapa samfélag, sem allir fullorðnir einstaklingar ættu að taka þátt í að móta.[6] Á átjándu öld hafði orðið mikil fólksfjölgun í nýlendunum, hlutfall karla og kvenna hafði jafnast, æ fleiri íbúar voru af öðrum uppruna en enskum og borgarmenningu hafði vaxið fiskur um hrygg. Fjölskyldan var mög mikilvæg eining í nýlendendunum.[7] Eftir 1775 varð sú hugarfarsbreyting að nýlendubúar hættu líta á sig sem þegna Bretakonungs og urðu þess í stað borgarar í lýðveldi, en hvað þýddi það?

            Kvenfrelsishreyfingar hafa sótt réttlætingu sína í hugmyndir upplýsingartímans um frelsi og jafnrétti allra manna[8]. Áðurnefnd skilgreining á öllum, sem náði til hvítra, menntaðra, efnaðra karlmanna hefur mótað sjálfsmynd þjóða, sem aftur hafði áhrif á þjóðernislega sjálfsmynd kvenna án þess beinlínis að eiga við um þær[9] sem Joan Scott segir að sé þó ekki náttúrulögmál.[10]  Samkvæmt kenningum Nira Yuval-Davis hafa þjóðernislegar hugmyndir um konur með móðurhlutverkið að gera, varðveislu menningararfsins og varðstöðu um þjóðlegt siðferði og hefðir. Sömuleiðis að konum hafi borið að styðja karlmenn í baráttu sinni en að ekki standa í henni sjálfar.[11] Þetta rímar við það sem franski kvennasögufræðingurinn Dominique Godineau hefur skrifað um konu lýðveldisins,  sem átti að hafa það örláta hlutverk að vera móðir sem skyldi að byltingu lokinni ala upp synina og viðhalda siðavendni þjóðarinnar.[12]  Fleiri skrif staðfesta þá skoðun og jafnframt að í kjölfar amerísku byltingarinnar hafi mótast skilningur á hver væri viðeigandi hegðun karla og kvenna, en hugmyndafræði lýðveldisins gerði ekki ráð fyrir breytingum á þessu hlutverki kvenna.[13] Bandaríski sagnfræðingurinn Betty Wood segir að borgaralegar skyldur konunnar hafi legið í því að hafa góð áhrif á eiginmann sinn og syni, henni bæri að sjá til þess að þeir yrðu vísir, dyggðugir, réttlátir og góðir menn.[14] Árið 1785 kom út bæklingurinn Women invited to war  eftir óþekktan höfund sem kallaði sig „Daughter of America", sem bergmálaði þetta.[15] Hin þekkta enska kvenréttindakona Mary Wollstonecraft spurði á móti hvernig nokkur gæti verið örlátur sem ekkert ætti sjálfur eða siðlegur án þess að vera frjáls.[16]

Í nútíma sagnfræði hafa menn séð að  hlutverk kvenna hafi verið að starfa innan einkasviðsins, en þær hafi lítið látið fyrir sér fara á því opinbera.[17]  Karlmennskan var fyrirferðarmeiri  á opinbera sviðinu og öðlaðist merkingu sína með því að vera andstaða þess kvenlega. Karl- og heiðursmennsku var stillt upp í Norður Ameríku sem andstæðum kvenlegra eiginda og jafnvel vansæmdar, sem skapaði ójöfn valdatengsl og -stöðu.[18]  Konur í nýlendunum vestanhafs munu almennt ekki hafa tekið opinberan þátt í pólítísku lífi á átjándu öld[19] en þær voru ötulir þátttakendur í ýmsum trúarhópum.[20]  Þó voru þær alls ekki áhugalausar um stjórnmál, þvert á móti.[21]  Hinir svokölluðu Sons of Liberty, sem var leynilegur andspyrnuhópur kaupmanna og menntamanna í nýlendunum, hvöttu konur þegar árið 1765 til að hætta að drekka innflutt te, og jafnvel til að búa sjálfar til fatnað og fleira sem ella væri keypt innflutt. Linda K. Kerber tekur undir þetta, að það hafi verið talið hlutverk kvenna að sniðganga innfluttar, breskar, vörur.[22] Þessu er Betty Wood sammála og segir að mikilvægi þessarar þátttöku kvenna hafi verið ljóst þeim karlmönnum sem börðust fyrir frelsi Ameríku.[23] Konur komu saman á heimilum sínum, þar sem þær drukku kaffi frekar en te, prjónuðu eða ófu og héldu þannig afskiptum sínum af byltingunni á einkasviðinu, litlu virtist skipta hvar í virðingarstiga þjóðfélagsins þær voru. Konur í Norður Ameríku munu að mestu leyti hafa unnið að hinu sameiginlega markmiði, einar eða í litlum hópum. Þegar vopnuð átök brutust loks út milli Ameríkumanna og Breta, sáu margar konur einar um rekstur sveitabýla og fyrirtækja bænda sinna meðan þeir börðust á vígvellinum.

Dominique Godineau heldur fram að þó allmargar konur hafi tjáð sig opinberlega um byltinguna hafi stuðningurinn við hana oftar verið með einstaklingsbundnari hætti; þær voru uppljóstrarar, hjúkrunarkonur, eldabuskur eða þvottakonur og margar keyptu svokölluð stríðsskuldabréf (e. War Bonds).[24] Þau viðskipti fóru ekki alltaf vel eins og frásögn gamallar konu sem hafði keypt slík bréf af New Jersey ríki sýnir, en hún fékk ekki greidda vexti af því á grundvelli þess að hún bjó ekki lengur í sama ríki þegar frelsisstríðinu lauk.[25]  Dominique Godineau fullyrðir að eina samvinnuverkefnið sem konur tóku að sér í byltingunni hafi verið peningasöfnun fyrir hermenn sem eiginkonur stjórnmálamanna í félagsskap nefndum Philadelphia Ladies Association, stóðu fyrir. Linda K. Kerber er ekki alveg á sama máli og nefnir nokkur atriði sem sýna að konur hafi sýnt hug sinn opinberlega gagnvart byltingunni, þar á meðal með þátttöku í mótmælum á götum úti.[26]  Hún segir einnig að byltingin hafi haft mikil áhrif á félagsleg tengsl eiginmanna og -kvenna, hún hafi breytt miklu um stigveldisskiptingu milli kynjanna. Sömuleiðis hafi mun meiri fjöldi kvenna verið á vígvöllunum sjálfum en ætlað hefur verið, að þær hafi reynt að koma að gagni hvar sem það var mögulegt. Að sögn Kerber fylgdu konurnar, sem oft voru bláfátækar,  iðulega hersveitum manna sem þær áttu í samböndum við, þó helstu forystumenn hersins væru  fremur andvígir því. Undir lok byltingarinnar munu konur tengdar hernum hafa verið orðnar ein á móti hverjum fimmtán karlmönnum.[27]  Til eru fjölmargar sögur af konum sem dulbjuggu sig sem karlmenn til að geta tekið þátt í bardögum, en ekki er rúm til að rekja þær hér.

III

Þó Abigail Adams, eiginkona Johns Adams sé sennilega ein frægasta kona byltingartímans í Norður Ameríku, var hún á þeim tíma aðeins þekkt í tiltölulega stórum en mjög lokuðum hópi. Hún skrifaðist reglulega á við mann sinn, var með gott pólítískt nef og var eldsnögg að átta sig á stöðu mála.[28]  Bréf hennar voru að mati Dominique Godineau stundum með femíniskum undirtóni, eins og þegar hún eitt sinn varaði mann sinn við því að gleyma konum Ameríku við setningu stjórnlaga, ella gæti þjóðin átt á hættu að standa frammi fyrir byltingu kvenna.[29] Það fylgdi ekki sögunni hvaða áhrif þessi skrif höfðu á manninn sem síðar varð annar forseti Bandaríkjanna, en kvenna og sérstakra réttinda þeirra er hvergi getið í stjórnarskránni, né viðbótum hennar frá 1789. Þar er aðeins fjallað um einstaklinga og almenning.  Giftar konur máttu ekki sjálfar eiga eignir og jafnvel þó mikil áhersla væri lögð á  jafnrétti og einstaklingsfrelsi þótti ekki hæfa að konur fengju kosningarétt, því það væri eins og að veita eiginmönnum þeirra rétt yfir tveimur  atkvæðum.[30] Betty Wood telur að þó byltingin hafi hvatt til endurmats á stöðu kvenna hafi engar stórkostlegar breytingar orðið á lífi þeirra fyrstu árin eftir hana.[31] Margir umbótamenn hvöttu konur til að mennta sig, fyrst og fremst til að geta alið börnin sín almennilega upp.[32] Þó ruddust fram á ritvöllinn konur eins og Judith Sargent Murray sem vildi sjá ungar konur skapa nýtt tímabil í sögu þeirra, hún vildi að konur menntuðu sig, sín vegna, en létu sér ekki nægja að bíða eftir draumaprinsinum og öryggi hjónasængurinnar.[33]

Þó amerískar konur hefðu ekki bein afskipti af stjórnmálafélögum fullnægðu þær félagsþörf sinni með stofnun ýmis konar líknarfélaga, sem oft voru tengd kirkjum og trúfélögum. Þar fengu konur tækifæri til að vinna margskonar góðverk, meðal annars til aðstoðar ekkjum og munaðarlausum, í mun meira mæli en áður hafði þekkst.   Þessi þátttaka kvenna í kirkjulegu starfi átti síðar eftir að hafa áhrif innkomu þeirra á svið stjórnmálaumræðunnar í Bandaríkjunum. Þar með hófu þær innreið sína á opinbera sviðið.  

Lokaorð

Á stuttum tíma breyttist staða Ameríkumanna úr því að vera þegnar bresku krúnunnar yfir í að vera borgarar hins nýja lýðveldis.  Hugtakið borgari hélst samt kynbundið um hríð, þó mögulegum borgararétti kvenna væri fagnað í aðra röndina var djúpstætt vantraust gegn honum á hinn bóginn.   Því er óhætt að fullyrða að þó að atburðirnir í Ameríku á seinni hluta 18. aldar séu svo sannarlega bylting sem margar konur tóku þátt í af heilum hug, breyttu þeir ekki miklu til skamms tíma fyrir þorra kvenna.  Fjölmargar konur komu við sögu byltingarinnar, opinberlega og á einkasviðinu, með skrifum, ræðuhöldum og mótmælagöngum. Aðrar létu sér nægja að sniðganga breskar vörur og kaupa stríðsskuldabréf meðan allnokkrar gengu hreinlega til liðs við byltingarherinn. Þegar friður komst á varð einfaldlega ekki pláss fyrir róstursama kvenmenn í lýðveldinu, þær konur sem höfðu haft sig í frammi á meðan óróinn varði urðu að hverfa aftur til þess að vera gjafmildar og siðavandar eiginkonur og mæður. Smám saman fikruðu amerískar konur sig inn á svið stjórnmálanna í gegnum trú- og líknarfélög ýmis konar en verkefni framtíðarinnar var að gera róttækari breytingar.


[1] Sheila Rowbotham, Hidden from History, bls. xvi.

[2] Duby og Perrot, „Writing the History of Women", bls.ix-x.

[3] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 179.

[4] Jack P. Greene, „The Preconditions of the American Revolution, bls. 48-49.

[5] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 214.

[6] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.

[7] Robert V. Wells, „Population and family in early America", bls. 40-48.

[8] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 421.

[9] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 423.

[10] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 425.

[11] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 423.

[12] Dominique Godineau, „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 28-29.

[13] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 304.

[14] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 407.

[15] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 301.

[16] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 303.

[17] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 424.

[18] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 425 og Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 302.

[19] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.

[20] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 22.

[21] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 403.

[22] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.

[23] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 405.

[24] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 23.

[25] Rachel Wells, „I have Don as much to Carrey on the Warr as maney ...", bls. 88-89.

[26] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 299-300.

[27] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 296-297.

[28] Linda K. Kerber, „The Republican Mother",  bls. 91.

[29] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 23.

[30] Linda K. Kerber, „The Republican Mother", bls. 90.

[31] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 399.

[32] Robert V. Wells, „Population and family in early America", bls. 50.

[33] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 27.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband