Ríkisvald
23.4.2013 | 11:49
Manneskjan er félagsvera sem frá örófi alda hefur búið í samfélagi við aðrar verur sömu tegundar. Samfélögin hafa verið misjöfn og margvísleg en hafa reynt að finna hina bestu leið sem völ er á til að sambúð fólksins verði sem þolanlegust. Frá sjónarhóli nútímamannsins hafa sumar þeirra tilrauna ekki verið ýkja skynsamlegar né sérstaklega hagkvæmar stærstum hluta þess fólks sem samfélögin hafa byggt. Smám saman hafa orðið til stofnanir innan samfélaga manna, sumar hafa orðið tímans tönn að bráð og horfið meðan aðrar hafa vaxið og dafnað.
Ein þeirra stofnana, þó huglæg sé, sem hafa gríðarleg áhrif á tilvist fólks er ríkið og ekki síður það vald sem því er búið, oft nefnt ríkisvald. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan einvaldskonungur einn í Evrópu á að hafa fullyrt hiklaust að hann sjálfur væri ríkið. Sjálfbirgingslegum konungi sem taldi sig fá valdið rakleiðis frá Guði var í þann tíð óhætt að tala þannig, en fljótlega eftir daga þessa konungs, og jafnvel meðan hann lifði, tók efasemda að gæta um að valdið kæmi frá himnaföðurnum sem fulltrúi hans á jörð sæi um að útdeila af visku sinni. Hugmyndir tóku að kvikna um að lýðurinn, fólkið sem skyldi háma í sig kökur vegna skorts á brauði, væri raunveruleg uppspretta valdsins. Hugsuðir víða um Evrópu settu fram hugmyndir um ríkið, valdið og tengsl hvors tveggja við almúgann. Síðan hafa liðið allmörg ár og aldir og nú virðist ríkja almenn samstaða um það að ríkið þiggi vald sitt frá almenningi, þegnum eða borgurum þess. En er það raunverulega svo? Þegar spurningunni um hvað ríki eða ríkisvaldið sé virðist aðspurðum oft vefjast tunga um tönn. Ríkið er bara þarna, hefur sína tilvist og hefur að margra mati alltaf verið til.
Hvað er ríkisvaldið, hver er uppspretta þess og hlutverk? Er tilvist ríkis og ríkisvalds algerlega óumflýjanleg? Þessum spurningum hyggst ég reyna að svara á næstu síðum.
I
Páll Skúlason, heimspekingur, hefur staðhæft að ríkisvald sé í sjálfu sér alræðislegt en hefur jafnframt, kannski til huggunar, bent á að lýðræði, það að fólk ráði sjálft sínum málum, sé leiðin til að komast hjá alræðinu. Til þess að það sé raunverulega mögulegt telur Páll þó nauðsynlegt að fólk sé vel upplýst.[1]
Á sautjándu öld benti enski heimspekingurinn Thomas Hobbes á það að náttúrulegt ástand stjórnarfars væri í raun óþolandi, því það væri eins og viðvarandi stríðsástand þar sem allir berðust gegn öllum. Hann hvatti til samvinnu byggðri á trausti um að hver og einn stæði við það sem af honum væri ætlast. Með slíku trausti taldi Hobbes að skapaðist tryggt samfélag sem væri hagkvæmara en hið náttúrulega. Til þess að þetta gengi eftir lagði Hobbes mikla áherslu að gerður yrði samfélagssáttmáli; ríki yrði stofnuð og settar á fót ríkisstjórnir, sem ásamt öðrum stofnunum samfélagsins tryggði tiltekið öryggi fólks í millum og gagnvart utanaðkomandi árásum.[2]
Enski raunhyggjumaðurinn John Locke gaf út hina síðari ritgerð sína um ríkisvald árið 1698 þar sem hann lagði fram stjórnspekikenningu sem byggðist á hugmyndum um náttúrurétt og samfélagssáttmála. Á hans tíma hafði konungsvald verið að eflast mjög í Vestur-Evrópu. Að mati Johns Locke byggist ríkisvald á rétti til að setja lög og leggja refsingar við brotum á þeim. Tilgangurinn er að hafa reglu á eignum manna og sjá þeim borgið. Afl samfélagsins, telur Locke, að rétt sé að beita til að framfylgja lögum og og til að verja ríkið fyrir utanaðkomandi árásum, í þágu almannaheillar.[3] Þarna er Locke fyrst og fremst að koma á framfæri hugmyndum sínum um hvernig ríkisvaldið skuli hegða sér og um rétt almennings til að gera uppreisn gegn kúgun og harðstjórn ríkisstjórnar sem ekki fer eftir þeim reglum sem henni hafa verið settar. Jean-Jacques Rousseau, fransk-svissneskur heimspekingur, ritaði samfélagssáttmála sinn sem kom fyrst út árið 1762 og vildi vísa mönnum veginn til æðra frelsis, sem byggjast átti á réttlátum lögum og stjórnskipun. Að mati Rousseaus átti almannaviljinn að vera æðsta vald samfélagsins, en hann hafði samtímis ofurtrú á skynsemi manna.[4] Ríkið ætti því að stjórnast af þessu birtingarformi hins góða í manninum, almannaviljanum.
Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins byggir á kenningum franska heimspekingsins Charles-Louis de Secondat Montesquieus sem hann aftur vann út frá hugmyndum Lockes. Ólafur Jóhannesson, fyrrum forsætisráðherra og lögspekingur, sagði þrískiptinguna í löggjafar- framkvæmda- og dómsvald vera grundvallarreglu stjórnskipunar, einkum í þeim ríkjum sem hann taldi vera lýðfrjáls". Tilvist þessara handhafa ríkisvaldsins taldi Ólafur semsé að hvíldi á þeirri grundvallarreglu að lýðræði ríkti, og að mati Ólafs er löggjafarvaldið frumstofn ríkisvaldsins.[5] Í lýðræðisríkjum er gert ráð fyrir að valdið komi frá almenningi sem kýs fulltrúa sína sem sjá eiga um að gæta og framfylgja valdinu. Miðstýring jókst og efldist í Vestur-Evrópu á 16. og 17. öld, þegar konungsvald styrktist og til urðu fullvalda ríki og ríkisvald í nútíma skilningi. Nítjánda öldin og fyrstu áratugir þeirra tuttugustu mörkuðu allmiklar breytingar í samskiptum ríkisvaldsins við almenning í ríkjum Evrópu. Einveldi liðu smám saman undir lok og lýðræðisþróun var mikil. Á sama tíma jukust möguleikar ríkisvaldsins á að beita áhrifum sínum til ystu endimarka ríkjanna.[6]
Á Bretlandi hófst þróun sem tók langan tíma, konungsvaldið takmarkaðist og kjörið þing tók við þeim völdum sem konungur áður hafði haft. Til varð fyrirbærið þingræði sem felur í sér að ríkisstjórn, sem er þá eftir orðanna hljóðan það fyrirbæri sem stjórnar ríkinu, hefur ríkisvaldið, verður að njóta stuðnings meirihluta þingsins.[7] Þingræðið er hugsanlega einhvers konar farvegur til að beisla almannaviljann sem Rousseau virtist hafa ofurtrú á.
Þess ber að sjálfsögðu að geta að hugsuðir eins og Tómas Aquinas og Georg Friedrich Hegel töldu ríkið af náttúrulegum meiði, að samfélag án ríkis væri óhugsandi og útilokað.
II
Ef við göngum út frá hugmyndum Lockes, Montesquieus og Rousseau um skynsamlegt, þrískipt ríkisvald sem sér um að hafa reglu á samfélaginu, má greina einhvers konar afl sem hefur almannaheill í þess orðs víðustu merkingu að leiðarljósi. Enda er það svo í nútímalýðræðisríkjum að til hefur orðið kerfi stofnana sem settar hafa verið á fót til að tryggja heill almennings, og samtímis jafnvel til að framfylgja almannaviljanum. Samkvæmt kenningu Lockes hefur ríkið rétt til að verja sig fyrir utanaðkomandi árásum, sem þýðir að því er afmarkað ákveðið landsvæði. Hvort tveggja á einmitt við um nútímaríki, þau eru landfræðilega afmörkuð og hafa rétt til að verja sig, inn- og út á við. Það ríki sem hefur getu og úrræði til að halda uppi eigin vörnum telst sömuleiðis vera fullvalda.
Hér má horfa til þýska félagsvísindamannsins Max Weber sem hefur haldið því fram að ríki hafi einokun á lögmætri valdbeitingu á afmörkuðu landsvæði sínu, og notar lagasetningarvald sitt til að setja þær reglur sem því og fólkinu ber að fara eftir. Með þessu er þó gert ráð fyrir að valdinu sem fulltrúum fólksins er fólgið sé ætíð beitt af skynsemi og góðvilja. Að mati Webers hafði hugtakið ríki þó ekki náð fullum þroska fyrr en í nútímanum, enda hafði það vaxið og þroskast í tímans rás.[8] Félagsfræðingurinn Michael Mann hefur haldið því fram að vald ríkisins sé nú orðið gríðarlegt. Hann hefur líka greint hversu voldugt ríkisvaldið er eftir mismunandi gerðum ríkja, þar sem greinilegt er að lénskerfi er lang valdaminnst og mesta valdið hvílir hjá valdboðsríkjum, eða í einræði.[9]
Ef við gerum ráð fyrir að ríkisvaldið þurfi að vera byggt á upplýsingu og almannavilja, má ætla að það ríkisvald sem hentar best sé það sem almenningur verður minnst var við. Í nútímaríki eru það embættismenn ríkisins sem hafa einir rétt til að beita valdi þess. Slíkt gæti auðveldlega valdið kvíða. Er tilvist ríkisins og einkaréttar þess á valdbeitingu algerlega nauðsynleg og óumflýjanleg? Anthony De Jasay, ungversk ættaður hagfræðingur og heimspekingur, mikill andstæðingur ríkisafskipta hefur til dæmis velt upp þeirri hugmynd hvort það tæki því að finna upp ríkisvaldið væri það ekki til. Hann fullyrðir að ríki séu á grundvelli uppruna síns, einhvers konar óhapp sem samfélagið hafi þurft að laga sig að, og að almenningur hafi ímyndað sér að hann þyrfti á ríkisvaldinu að halda. Jasay virðist ekki telja útilokað að ríkið gæti notað einokun sína á að beita afli gegn þeim sem það fær afl sitt frá; almenningi, sem í raun er algerlega á valdi ríkisvaldsins. Svo er að sjá að honum finnist það ekki áhættunnar virði.[10] Sennilega eru ekki allir sammála þessu mati Jasays, en ríkisvaldið hefur þó þanist mikið út, undanfarna áratugi, og með því hefur fjölgað lögum sem snúa beinlínis að rekstri ríkisins og stofnana þess, en eru ekki eingöngu með það að markmiði að auka vellíðan og réttindi almennings og að bæta samskipti þeirra innbyrðis. Að mati fræðimanna á borð við ítalska lög- og félagsfræðinginn Gianfranco Poggi er eitt helsta einkenni nútímaríkisins er mikil stofnanavæðing, enda er óhætt að fullyrða að það lætur fáa þætti mannlegs lífs óáreitta.[11] Það þarf ekki að líta lengi í kringum sig í íslensku samfélagi nútímans til að komast á snoðir um það.
Hluti af valdboði ríkisins nær til þess að útilokað sé fyrir íbúa þess að segja sig úr lögum við það; hvort sem mönnum líkar betur eða verr neyðast þeir til að tilheyra tilteknu samfélagi. Páll Skúlason segir beitingu alls valds ætíð vera vandasama, valdbeiting fulltrúa ríkisvaldsins á að hans mati að vera í þágu almennings.[12] Hann slær þó þann varnagla að ríkisvaldið sé alræðislegt í sjálfu sér, og er sama sinnis og Jasay að ekki sé til örugg trygging fyrir því að það misbeiti ekki afli sínu. Þó telur hann að öflugt dómsvald og réttarvitund borgaranna geti farið næst því að tryggja að ríkisvaldið haldi sig á mottunni.[13] Tilgangur laganna, frumstofns ríkisvaldsins, var að mati Lockes einmitt að vernda og auka frelsi en ekki að takmarka það eða afnema; að tryggja réttlæti í samskiptum þegnanna innbyrðis og gagnvart ríkisvaldinu.[14]
Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðingur, kemst að svipaðri niðurstöðu þegar hann segir að nútímaríki geti ekki beygt þegna sína nauðuga undir vald sitt til lengri tíma.[15] Niðurstaðan verður því ætíð sú sama að fulltrúar ríkisvaldins mega ekki misbeita afli þess, því þá glatar ríkið trausti almennings sem er uppspretta valdsins. Gera má sér í hugarlund að geri ríkisvaldið tilraun til kúgunar muni þeir sem valdið stafar frá brjótast undan henni og endurheimta vald sitt. Að mati marxista eru lögregla og her meginverkfæri ríkisvaldsins enda tilheyri það ráðandi yfirstétt.
III
Friedrich Nietzche notaði líkingamál um ríkið eins og svo margt annað, hann kallaði það köldustu ófreskju í heimi sem gleypti fjöldann, tyggði hann og jórtraði á honum.[16] Í gegnum þessa andstyggilegu lýsingu heimspekingins þýska mætti sjá glitta í nútímaríkið sem sífellt þarf að glefsa í almúgann, ríkið seilist alltaf dýpra í vasa borgaranna til að fjármagna æ dýrari starfsemi sína; ríkið hefur einkarétt á að skattleggja þegna sína, hefur algert leyfi til að taka fé hans án þess að upplýsa endilega að fullu fyrir hvað er verið að greiða. Þetta stunda handhafar valds nútímaríkisins að sögn til að efla innviði þess og viðhalda vexti, ásamt því að yfirlýstur tilgangur skattheimtunnar er að geta haldið uppi lögum og reglu í samfélaginu. Gera má ráð fyrir að hluti af skatttekjum ríkisins fari það mikilvæga verkefni að jafna lífsgæði milli fjarlægra svæða ríkisins og til að jafna hlut ólíkra hópa innan þess.
NIÐURLAG
Nútímaríkið nær yfir landfræðilega afmarkað svæði og inniheldur flókið kerfi margvíslegra stofnana með ólík hlutverk. Ríkið hefur orðið til eftir langa þróun í gegnum einhvers konar samfélagssáttmála, þar sem almenningur færir fulltrúum sínum umboð til að annast hlutverk þau sem ríkinu ber að sinna. Valdi þess hefur þótt réttast að skipta í þrennt, löggjafarvald, sem margir fræðimenn telja það allra mikilvægasta, framkvæmdavald og síðast en ekki síst dómsvald. Ríkinu ber að stjórnast af almannavilja, sem að mati hugmyndasmiða á borð við Locke, á að vera birtingarmynd hins góða í manninum. Helstu hlutverkin sem fólkið færir ríkisvaldinu eru að viðhalda innri friði og jafnframt þarf það að vera tilbúið að bregðast við utanaðkomandi ógn eða árás. Sömuleiðis færir almenningur ríkisvaldinu einkarétt til að setja lög og reglur og með þeim rétti fylgir réttur þess til beitingar valds, sem verður ætíð að vera í þágu almennings. Bregðist það mega, og jafnvel eiga, íbúar ríkisins að losa sig við valdhafa sem misbeita valdi sínu. Með skattheimtu, sem ríkið hefur sömuleiðis einkarétt á, ber því að tryggja að lífsgæðum sé jafnt skipt milli allra og að innviðir séu tryggir. Á liðinni öld óx ríkið og vald þess mjög og það tók að skipta sér af æ fleiri þáttum mannlegrar tilvistar.
Ýmsir hugsuðir og fræðimenn hafa talið ríkið náttúrulegt fyrirbæri og aðrir hafa fullyrt að það sé ónauðsynlegt og jafnvel hættulegt, alræðislegt í eðli sínu. Til að halda aftur af ógnareðli ríkisins hafa fræðimenn komist að þeirri niðurstöðu að mikil réttarvitund fólks og öflugt dómsvald þurfi að vera fyrir hendi.
Að öllu framangreindu metnu þykir mér óhætt að komast að þeirri niðurstöðu að ríki og ríkisvald í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, séu ill nauðsyn sem umbera þurfi, meðan við hvorki höfum né þekkjum annað betra.
[1] Páll Skúlason, Réttlæti, velferð og lýðræði. Hlutverk siðfræðinnar í stjórnmálum", Pælingar II (Reykjavík 1989), bls. 71-74.
[2] James Rachels, Stefnur og straumar í siðfræði (Reykjavík 1997), bls. 186-188.
[3] John Locke, Ritgerð um ríkisvald, íslenzk þýðing eftir Atla Harðarson (Reykjavík 1986), bls. 45.
[4] Atli Harðarson, Neyddur til að vera frjáls", Afarkostir. Greinasafn um heimspeki (Reykjavík 1995), bls. 95.
[5] Ólafur Jóhannesson, Lög og réttur. Þættir um íslenska réttarskipan (Reykjavík 1985), bls. 35.
[6] Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk (Reykjavík 2001), bls. 113.
[7] Stefanía Óskarsdóttir, Þingræði verður til", Þingræði á Íslandi, samtíð og saga, Ritstjórn Ragnhildur Helgadóttir og fleiri (Reykjavík 2011), bls. 39.
[8] Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk, bls. 114-115.
[9] Michael Mann, The Autonomous Power of the State", States in History, ritstjóri John A. Hall (Oxford 1989) bls. 114.
[10] Anthony De Jasay, The State (Indianapolis 1998), bls. 35-38.
[11] Gianfranco Poggi, The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule", Handbook of Historical Sociology (London 2003) Gerard Delanty og Engin F. Isin (ritstjórar), bls. 253.
[12] Réttlæti, velferð og lýðræði", bls. 66.
[13] Réttlæti, velferð og lýðræði", bls. 71.
[14] Ritgerð um ríkisvald, bls. 93.
[15] Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk, bls.129.
[16] Friedrich Nietzche, Svo mælti Zaraþústra. Bók fyrir alla og engan. Íslensk þýðing eftir Jón Árna Jónsson (Reykjavik 1996), bls. 72-73.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.