Hundadagadrottningin
17.4.2013 | 19:11
I N N G A N G U R
Sögusviðið er Reykjavík í upphafi nítjándu aldar, þorp sem taldi nokkur timburhús og dómkirkju. Allt umhverfis þorpið gaf að líta hrjóstruga mela, mýrarfláka eða stórgrýttar hæðir. Híbýli bæjarbúa voru mörg hver óttaleg hreysi en fólkið var á mun hærra menningarstigi en ætla mætti af húsakostinum, þó aðeins væru tveir skólar starfandi í landinu. Í Reykjavík voru á fjórða tug íbúðar- og verslunarhúsa sem stóðu í skipulegum röðum og hálft hundrað kotbæja á víð og dreif, byggðir úr torfi og grjóti. Reykjavík varð sérstakt lögsagnarumdæmi árið 1803 og þangað höfðu þyrpst fátækir þurrabúðar- eða tómthúsmenn en þeir einir gátu nefnt sig borgara sem höfðu fengið svokölluð borgarabréf. Þeir voru flestir kaupmenn og áttu sín hús, enda hafði bærinn verið kaupstaður allt frá árinu 1786. Bærinn var ekki fjölmennur, þar bjó eitthvað á fjórða hundrað manns, þó var hann orðinn miðstöð stjórnsýslu í landinu, þar sem meðal annars landfógeti, landlæknir og biskup höfðu aðsetur. Það var oft hart í ári, vetur langir og snjóþungir, gæftir ekki alltaf góðar og skortur iðulega í landinu. Talið hefur verið að hin svokallaða litla ísöld" hafi skollið á snemma á 13. öld og hafi staðið með örlitlum sveiflum fram á þá tuttugustu. Því má gera ráð fyrir að tíð hafi almennt ekki verið góð í upphafi 19. aldar, á Íslandi. Hart var nyrðra veturinn 1808 til 1809, en ástandið skárra sunnanlands, enda aflaðist ágætlega. Þó Ísland væri fjarri meginlandi Evrópu var það þó alls ekki einangrað land, hugmyndir og tíska bárust yfir hafið til þessa eylands í norðri, heldri konur íslenskar vildu til dæmis alls ekki vera eftirbátar kynsystra sinna í Danmörku eða á Englandi, hvað klæðaburð snerti.
Hér verður sögð saga ungrar íslenskrar konu, sem þráði það heitast að verða hefðarmær, enda hafði hún alla burði til þess. Guðrún Einarsdóttir Johnsen er líkast til eina íslenska konan sem næstum hefur orðið drottning þjóðar sinnar.
I
Í Götuhúsum í Reykjavík bjuggu þegar manntal var tekið árið 1801 Einar Jónsson, tómthúsmaður og kona hans Málfríður Einarsdóttir. Þau áttu þá þrjár dætur, þær Guðrúnu, Bergþóru og Guðríði. Aldur elstu dótturinnar er á reiki en hinar tvær voru eins og sex ára þegar manntalið var tekið. Anna Agnarsdóttir, sagnfræðingur, hefur fært sterk rök fyrir því að Guðrún Einarsdóttir hafi fæðst árið 1789, þar sem hún var skráð 14 ára við fermingu árið 1803. Ekki er að efa að Guðrún hefur verið vel gefin stúlka, og fögur mjög þó ekki gæti hún státað af ættgöfgi, hún virðist hafa haft einstakt lag á að blanda geði við fólk, hún kunni sig og virðist hafa verið fljót að tileinka sér nýja siði. Henry Holland kallaði hana eina af fegurstu stúlkum Reykjavíkur, en hann kynntist henni í Íslandsferð sinni árið 1810. Það fer ekki mörgum sögum af hverrar náttúru kynni Guðrúnar og Hollands voru, en eitthvað gott hefur þeim farið á milli því hann skrifaðist mjög hlýlega á við hana og sendi henni gjafir, eftir að hann sneri heim til Englands.
Úti í hinum stóra heimi geysaði styrjöld, kennd við keisarann franska, Napóleon. Stríðsástandið olli því að skipakomur til Íslands voru stopular, Bretar höfðu hertekið nokkur Íslandsskip árið 1807 og árið eftir fór svo að aðeins eitt skip kom til landsins, sem olli því að skortur varð á ýmsum nauðsynjum í landinu. Í upphafi ársins 1809 komu tvö skip til landsins, annað frá Noregi en hitt var enskt briggskip. Um sumarið kom svo enn eitt skip frá Englandi; með hinum ensku skipum komu menn sem áttu svo sannarlega eftir að setja mark sitt á og breyta lífi hinnar ungu Guðrúnar Einarsdóttur.
I I
Sem kunnugt er var gerð tilraun til að ræna völdum á Íslandi sumarið 1809. Þeir sem léku stærstu hlutverkin þar voru Daninn Jörgen Jörgensen, enski kaupmaðurinn Samuel Phelps og verslunarstjóri hans, James Savignac. Líklegast þykir að Guðrún hafi kynnst þeim kumpánum í spila- og drykkjuklúbbi þeim sem rekinn var í svokölluðu Scheelshúsi, Klúbbnum sem var algengur samkomustaður útlendinga, og var við enda Aðalstrætis þar sem kastali Hjálpræðishersins stendur í dag. Guðrún Einarsdóttir var skráð sem vinnukona í Klúbbnum í manntalinu 1816. Sögur herma að hún hafi verið heitbundin Jörgensen, en það samband mun þó hafa orðið endasleppt. Henry Holland staðhæfir jafnframt að hún hefði orðið eiginkona Jörgensens hefði hann haldið völdum á Íslandi. Aðdáun Andrews Wawn, prófessors í íslenskum og enskum fræðum, á Guðrúnu leynir sér ekki í formála hans að dagbókum Hollands; hann kallar hana remarkable girl" og notar enska orðið affinine" yfir samband þeirra Jörgens, sem gæti bent til að hann telji það hafi fremur orðið til af hagkvæmnisástæðum en af djúpri ást.[1] Telja verður að Jörgensen hafi hvað sem því leið verið afar hlýtt til Guðrúnar, en hagkvæmnistilgátan um samband þeirra þykir mér passa mjög vel við viðbrögð hans þegar hann hitti heitkonu" sína síðar, í slagtogi við mann sem Jörgensen var fremur í nöp við, James Savignac. Eftir að sambandinu við Jörgensen lauk fullyrðir Wawn þó að Guðrún hafi gerst viðsjárvert víf, femme fatale, enda virðist hún hafa átt í ástarsamböndum við marga menn, það langvinnasta og afdrifaríkasta einmitt við Savignac. James þessi Savignac hefur reyndar fengið hin hraklegustu eftirmæli og er nánast sama hvar drepið er niður; Jörgensen sagðist vart telja að til væri ógeðfelldari maður hér á jörð og Gísli Konráðsson mun hafa lýst honum sem ljótum manni - með órakaða efri vör! Margar frásagnir eru til af illdeilum hans við menn á Íslandi en þrátt fyrir það hefur hann líkast verið afskaplega heillandi í augum Guðrúnar, eins og kemur betur fram hér síðar. Eftir að bundinn var endir á valdaránið voru Jörgensen og Phelps fluttir til Englands, en Savignac ílentist á Íslandi til að gæta hagsmuna sápukaupmannsins.
Í Árbókum Espólíns er sagt frá því að Savignac og Gísli Símonarson kaupmaður hafi barist um athygli Guðrúnar, svo heiftarlega að minnstu munaði að til byssueinvígis kæmi milli þeirra. Biskupnum yfir Íslandi, Geir Vídalín, tókst að koma í veg fyrir einvígið en Espólín taldi Guðrúnu hafa látið báða lönd og leið og leitað í faðm enska ræðismannsins, Johns Parkes. Þótti Espólín greinilega nóg um prjálið því hann sagði Guðrúnu hafa borist á með gulli og silkiklæðum. Líkast til taldi Espólín það allt vera gjafir frá ræðismanninum. Parke og Guðrún yfirgáfu Ísland með ensku skipi haustið 1812 og var Savignac með í för og þótti landhreinsun að".[2] Ástralinn Dan Sprod, sem hefur skráð sögu Jörgens Jörgensen og atburða honum tengdum hefur haldið því fram að Guðrún hafi miklu fremur verið í för með Savignac en Parke, sem ég tel að megi til sanns vegar færa. Fátt í samskiptum Guðrúnar og Parkes þykir mér benda að hún hafi haft raunverulegan áhuga á honum Ræðismaðurinn mun hafa gert Guðrúnu ósiðlegt tilboð" þegar til Lundúna var komið sem hún hafnaði, en það varð til þess að hann snerist öndverður gegn henni og vildi ekki með nokkru móti greiða götu hennar aftur heim til Íslands.
I I I
Ætla má að það hafi verið mikið ævintýri fyrir unga konu ofan af Íslandi að koma til stórborgarinnar Lundúna. Alls staðar var ys og þys, háreistar byggingar hvert sem litið var, hestvagnar á ferð og flugi og mannfjöldi mikill. Ekki er þó víst að Guðrún Einarsdóttir hafi gert mikið úr furðu sinni við samferðamenn sína, henni kann að hafa fundist mikilvægara að virðast veraldarvön hefðarmær. Búast má við að henni hafi þó brugðið við þegar hún komst að því að vonbiðill hennar, Savignac, var kvæntur maður og átti börn. Þó virðist það ekki hafa nægt til að hún léti hann lönd og leið því næst fréttum við af henni, ásamt Savignac, í hinu illræmda Fleet-fangelsi, sem var lagt niður á fimmta áratug 19. aldar. Sennilega hefur Íslandsævintýrið verið Savignac dýrt, hann hafði verið dæmdur í skuldafangelsi og Guðrún tók að venja komur sínar til hans. Slíkt munu fangelsisyfirvöld ekki hafa litið hornauga, enda algengt að fjölskyldur dveldu saman í fangelsinu en hinar tíðu heimsóknir Guðrúnar kunna að vera ástæða þess að í einhverjum heimildum er hennar getið sem frú Savignac. Jörgen Jörgensen deildi, fremur óviljugur að sögn, klefa með Savignac en athyglisvert er að Daninn virtist ekki sýna djúpar tilfinningar í garð Guðrúnar, þó hann gerði hvað hann gat til að koma henni úr klóm skrímslisins" Savignacs.
Þegar þarna var komið sögu hafði Guðrún tekið upp Johnsen nafnið, sem án efa var þjálla í munni Englendinganna sem hún umgekkst, en hið rammíslenska föðurnafn hennar. Hún hefur þurft að venjast andrúmslofti stórborgarinnar og er sögð hafa verið mikið veik fyrsta veturinn þar, en mun hafa heimsótt Íslandsvininn Sir Joseph Banks vorið 1813 og tók sennilega að sér að gæta barna Howard-fjölskyldunnar í Finchley það sumar. Peningar voru líklega af skornum skammti hjá stúlkunni en hún fékk aðstoð góðra manna við að komast af í Lundúnum. Þar komu hinir miklu aðlögunar- og samskiptahæfileikar Guðrúnar vel í ljós því henni tókst ekki eingöngu að heilla Banks heldur sömuleiðis Hans F. Horneman, fyrrum ræðismann Dana í borginni að ógleymdum Samuel Whitbread þingmanni, sem vildu allir koma henni heim til Íslands. En holdið er torvelt að temja, nú eða ástarhuginn því þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Jörgensens og Banks að fá Guðrúnu, með ýmsum ráðum, til að forða sér frá Savignac lét hún ekki segjast og leitaði sífellt í faðm hans á ný. Þegar útséð varð með að Guðrún kæmist til Íslands haustið 1813 leitaði Banks til góðvinar síns Sir Johns Stanley og bað hann fyrir stúlkuna veturinn 1813 til 1814. Meginástæða þess mun hafa verið sú að hann bjó í Chesire á Norðurvestur Englandi, víðsfjarri Lundúnum og þar með Savignac.
I V
Guðrúnu Einarsdóttur Johnsen var tekið með kostum og kynjum af Stanley fjölskyldunni á óðalsetri hennar, Winnington, þar sem hún dvaldi fram á vor 1814. Telja má víst að hún hafi gætt barna þeirra Stanley-hjóna, en jafnframt lærði hún ensku og án efa eitthvað fleira nytsamlegt. Í bréfum sem Guðrún skrifaði lafði Stanley síðar má sjá að hún naut mikillar umhyggju og hlýju hjá fjölskyldunni. Hvarvetna má lesa þetta mikla sjálfsöryggi, dugnað og sjálfstæði úr viðmóti Guðrúnar; hún heillaði gestgjafa sína alla og hver og einn virtist tilbúinn að hlaupa undir bagga með henni. Það á ekki síst við um Whitbread og konu hans lafði Elizabeth sem gerðust velgjörðarmenn Guðrúnar eftir að hún sneri aftur til Lundúna að lokinni dvölinni í Winnington. Þeim hjónum hefur efalaust runnið til rifja umkomuleysi ungu stúlkunnar en ekki má síður gera ráð fyrir að fáguð framkoma hennar og lífsgleði hafi hrifið þau. Whitbread þingmaður brást við skjótt þegar hann komst á snoðir um að Savignac og Parke væru á ný komnir fram á sjónarsviðið og sá síðarnefndi tekinn að hafa hótunum við Guðrúnu. Atburðarásin varð líkt og í spennusögu, aðstoðarmaður Whitbreads sótti stúlkuna á hestvagni og þeysti til Liverpool þar sem koma átti henni á skip til Íslands. Til að auka enn á spennuna reyndist skipið nýfarið úr höfn þegar hún komst á áfangastað og þá voru góð ráð dýr. Það varð Guðrúnu til happs að John Stanley komst á snoðir um vandræði hennar og bauð henni húsaskjól að nýju, sem hún þáði með þökkum. Ég á ekki orð til að lýsa þeirri foreldraumhyggju sem mér var sýnd"[3] skrifaði hún í bréfi til Whitbreads, daginn áður en hún komst loksins á skipsfjöl til Íslands, í ágústlok 1814.
Guðrún komst heilu og höldnu til heimalands síns með skipinu Vittoria í septemberbyrjun. Heimildir herma að hún hafi þó fengið heldur þurrlegar kveðjur frá Dönum, búsettum í Reykjavík, vegna kunningskapar síns og tengsla við Englendinga. Þó ætla megi að heimþrá hafi verið farin að þjaka Guðrúnu nokkuð meðan á Englandsdvölinni stóð, undi hún hag sínum ekki vel á Íslandi. Eftir að hafa kynnst menningu stórborgarinnar Lundúna og hefðarlífi Stanley fjölskyldunnar og fleira fólks sem hún komst í kynni við má fullyrða að fásinnið í fólksfæðinni hafi fljótlega gert þessari fjörmiklu stúlku þungt í sinni. Í bréfi til lafði Stanley í ágúst 1815 sagðist hún aldrei geta orðið hamingjusöm á Íslandi en var vongóð um að komast með danskri fjölskyldu utan, sumarið eftir.
V
Skyldi hamingjan hafa brosað við Guðrúnu Einarsdóttur Johnsen í Danaveldi? Hvort sem hún komst þangað með fjölskyldunni sem bar á góma í fyrrnefndu bréfi eða með öðrum hætti liggur ekki alveg ljóst fyrir, en fremur var báglega komið fyrir henni í næstu þekktu heimildum. Þrjátíu árum eftir flóttann mikla frá Liverpool til Íslands var svo komið að Guðrún var bláfátæk beiningakona í Kaupmannahöfn og átti eina dóttur, Málfríði að nafni. Þær mæðgur lifðu við hungurmörk eins og kemur skýrt fram í bréfi Guðrúnar til Finns Magnússonar leyndarskjalavarðar skrifuðu árið 1845. Þó mátti sjá glitta í þá Guðrúnu sem við þekkjum því hún hafði verið í sambandi við yfirhirðstýru drottningar um hjálp, en öðlingurinn Finnur hefur án efa einnig aðstoðað Guðrúnu eftir fremsta megni.
Hér lýkur sögu Guðrúnar Einarsdóttur Johnsen, um stundarsakir að minnsta kosti. Hver sem örlög hennar urðu er óhætt að fullyrða að hún átti afar merkilegt lífshlaup. Tápmikla, heillandi, metnaðarfulla stúlkan sem hafði engan áhuga á að verða bóndakona á Íslandi upplifði hluti sem samtímafólk hennar hefði varla getað látið sig dreyma um. Þess vegna gæti orðið afar dapurlegt að hugsa til mögulegra afdrifa hennar í Kóngsins Kaupmannahöfn nema með því að leyfa sér að óska þess að örlögin hafi spunnið áfram sinn ævintýravef og gera sér í hugarlund að Guðrún Einarsdóttir Johnsen hafi lokið ævi sinni sem sú hefðarmey sem hún ætíð taldi sig vera.
[1] The Icelandic Journal of Henry Holland 1810, ritstjóri Andrew Wawn (London 1987), bls. 30, 36 og 104.
[2] Pjetur Guðmundsson, Annáll nítjándu aldar I. bindi, 1801 - 1830 (Akureyri 1912-1922), bls. 165.
[3] Hundadagadrottningin", bls. 108.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.