Glæpurinn

- síðasti dagurinn

Í kvöld mun það upplýsast hver framdi glæpinn, eða glæpina í samnefndum dönskum spennuþáttum. Margir hafa setið límdir við skjáinn á sunnudagskvöldum, vikum saman, og fylgst með hvernig hvert skref sem virtist færa rannsóknarlögreglumennina nær ódæðismanninum reyndist vera skref í snarvitlausa átt. Í hvert skipti sem rannsókninni átti að vera lokið birtist nýtt sönnunargagn sem hreinsaði þann mest grunaða í það skiptið og færði gruninn yfir á einhvern annan.

Þegar þáttaröðin hófst gerði ég mér ekki grein fyrir að allir 20 þættirnir ættu að vera um rannsókn sama málsins, ég sá fyrir mér hina hefðbundnu bresku uppbyggingu þar sem hvert mál væri leitt til lykta í 2 þáttum - en ónei ekki aldeilis. Þarna hefur dönunum tekist að búa til magnaða fléttu glæparannsóknar og þess mannlega harmleiks sem hlýtur að snerta alla sem lenda í miðju slíkrar rannsóknar, hvort sem það eru aðstandandur fórnarlambsins, rannsóknarmennirnir eða þeir sem grunaðir eru. Þannig er kafað djúpt undir yfirborðið sem okkur er yfirleitt látið nægja að sjá í öðrum þáttum sömu ættar. Hver einasta persóna þáttanna er orðin nátengd áhorfandanum og örlög hvers og eins skipta orðið miklu máli.

Taktu þátt í þessarri litlu skoðanakönnun sem ég hef verið með hér á síðunni, hvern telur þú vera morðingjann í Glæpnum? 

Það verður spennandi að fylgjast með í kvöld, en þegar málið verður til lykta leitt veit ég að það myndast ákveðið tómarúm þegar þessir danir hverfa af skjánum. Þó þetta sé bara sjónvarp.

Nú má vorið koma.


Bloggfærslur 2. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband