Verði þinn vilji
20.1.2008 | 10:07
Fyrir austan Þingvallakirkju er Þjóðargrafreiturinn, hringlaga mannvirki úr hraungrýti, sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson. Mín skoðun er sú að Robert Fischer hafi ekki gert það fyrir íslenzku þjóðina sem þessir tveir gerðu, auðvitað er hann andlegt stórmenni líkt og þeir, en mér finnst nú þurfa meira til en að hafa búið á Íslandi í 3 ár og hafa verið nokkuð flinkur að tefla til að komast að innan um þá andans mógúla. Þeir tveir sem þarna hvíla vildu Íslandi allt! Þó að Fischer hafi átt hér góða vini er ég ekkert viss um að hann hafi endilega lifað eftir þeim einkunnarorðum. Hann hefur bara verið feginn að fá hér skjól undan heimsins áþján, áþján sem hann skapaði sér mikið til sjálfur með ótrúlega bilaðri framkomu og orðum, á stundum.
Þegar verið var að undirbúa einvígi aldarinnar sem fram fór í Reykjavík 1972, þá vildi Fischer að það færi fram í Júgóslavíu en andstæðingur hans Spassky vildi að það færi fram hér. Um tíma var jafnvel talað um að halda það á báðum stöðum. Svo fór þó ekki.
Mig minnir líka að ég hafi lesið það einhvern tíma að Fischer vildi verða lagður til hvílu í hvítu marmaragrafhýsi, þannig að hann langar sennilega ekkert að vera skilinn eftir á Þingvöllum. Væri ekki nær að fara að óskum hins látna og útbúa (á kostnað dánarbúsins) hugglegt grafhýsi fyrir hann? Kannski er hægt að finna lausan blett í Suðurgötukirkjugarðinum, og ef ekki, eru nú til fleiri gullfallegir kirkjugarðar á Íslandi.
![]() |
Fischer grafinn á Þingvöllum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)