En hvers vegna, hvers vegna?

Það virðist hafa verið býsna erfitt í gegnum tíðina að breyta dómvenju á Íslandi. Svo virðist vera sem dómendur vilji gera það hægt og hægt en ekki með einhverjum látum. Það hefur samt slæm áhrif á réttarvitund allra sem til sjá hve glæpir sem snerta peninga virðast oft vera litnir alvarlegri augum af dómstólunum en glæpir gegn fólki, eins og ofbeldisglæpir þeir sem hér hafa verið til umfjöllunar. Það vekur líka furðu fólks þegar refsing er lækkuð milli dómstiga í jafn alvarlegum glæp eins og í þeim sem hér um ræðir. Mig grunar, þó ég vilji ekki vera að gera dómurunum upp einhverjar hugsanir, að þeir hafi litið á samþykki konunnar til kynlífsathafna sem einhvers konar ástæðu til að minnka refsingu afbrotamannsins.

Eins og fram kemur í dóminum fór konan með manninum í herbergi þar sem þau afklæddust og það er í sjálfu sér ekkert að því hana hafi langað að eiga notalega stund með þessum manni. Það sem svo á eftir fylgir er greinilega svo heiftarleg og hryllileg árás á konuna sem í sakleysi sínu er að sænga með þessum manni að nægt hefði hverjum manni til að dæma hann til að minnsta kosti tvöfaldrar þeirrar refsingar sem hann að lokum hlaut. Þær bætur sem honum er gert að greiða konunni eru líka smánarlegar og Hæstarétti til minnkunnar að hafa lækkað þær!

Innan mjög skamms tíma verður þessi maður kominn út aftur og farinn að tæla konur heim með sér, með fagurgala til þess eins að misþyrma þeim að því er virðist. Svona menn verður að stöðva og það verður ekki gert með því einu að dæma þá til korters fangelsisvistar, dómstólar landsins verða að bæta um betur þegar sekt í svona alvarlegu líkamsárásarmáli liggur ljós fyrir.

Það er krafa allra góðra manna.


mbl.is Bloggheimar loga vegna dóms yfir nauðgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex prósent???

LíkamsleitÞað  er magnað og eiginlega ógnvekjandi að 6% þeirra sem leitað var á skuli hafa haft á sér fíkniefni og ekki síður merkilegt að 2% báru sveðjur með sér á djammið. Verður ekki að gera því skóna að eingöngu hafið verið leitað á þeim sem lögreglan taldi grunsamlega, hvernig sem hún fer nú að því að sigta það út. Það er allavega ekki spennandi tilhugsun að geta átt von á því í sárasakleysi sínu við skemmtanahald í miðbænum, að fá yfir sig her lögreglumanna í leitarham. En svona er borgin okkar nú barasta orðin og ef til vill er skárra að leita á 92 saklausum og finna 8 grunaða, en leita á engum. Eða hvað? Úff hvað þetta er orðið erfitt.


mbl.is Sérsveitin og fíkniefnadeildin gerðu átak í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnuljósin og hálfkákið

StefnuljosÉg verð bara að fá að vera með smá nöldur um stefnuljós, þessi ótrúlega þægilegu og einföldu tæki sem með réttri notkun gera umferðina svo miklu þægilegri og skemmtilegri. Mér dettur nú helst til hugar að sumum hafi aldrei verið kenndur tilgangur þessarra ágætu appelsínugulu ljósa sem eru á hverju horni allra bíla. Ótrúlega margir nota þau aldrei, heldur beygja bara í allar áttir án þess að nokkur viti hvað þeir ætla sér, þessum einstaklingum flestum virðist þykja það fremur hallærislegt að brúka þessi ljós. Enn aðrir nota þau EFTIR að þeir hafa tekið beygjuna, og kemur þar hin ríka sagnahefð íslendinga heldur betur í ljós. Svo eru þeir sem nota þessi ágætu viðvörunartæki í miðri beygju, eftir að þeir eru hvort eð búnir að skipta um akrein eða byrjaðir að taka beygjuna inn í næstu götu. Ég skil ekki hugmyndafræðina að baki þeirri notkun, hún tengist örugglega hvorki sagnahefðinni né þeirri algeru leti að nenna aldrei að nota stefnuljósin. Ætli þetta sé hið heimsfræga íslenska hálfkák?

Bloggfærslur 15. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband