Allt er nú til...

Farsimi..en varla hefur hann getað notað órekjanlegan farsíma í 12 ár. Eða hvað? Er svona langt síðan farsímavæðingin hófst?  En talandi um farsíma, þá er ég að rembast við að reyna að komast í gegnum bók eftir Stephen King sem fjallar um það þegar allir þeir sem eru að tala í farsíma á ákveðnum tíma verða allt í einu snarvitlausir og breytast í einhvers konar geðveik, snarbrjáluð, zombísk óargardýr.

Mögnuð hugmynd, og í sögunni er okkur sýnt hvað við erum raunverulega orðin háð þessum græjum.

En annað hvort er ég að verða gamall, eða Konungurinn, því mér gengur voða illa að festa mig við söguna. Hugmyndin er samt góð, en það vantar eitthvað lím í frásögnina.

En maður spyr sig hvort þetta farsímafár sé eitthvað gott fyrir okkur, því mér finnst fólk oft vera orðið þjónn símans en ekki öfugt. Það er aldrei hægt að sleppa því að svara, hvort sem fólk er í röð í bankanum, á klósettinu eða úti að aka. Hvergi friður. Og til að forðast misskilning vil ég taka fram að ég er ekki barnanna bestur í þessu.

Vonandi lærum við smám saman að lifa með þessum tækjum og hættum að láta þau ráða ferðinni.


mbl.is Nærfatadóni fangelsaður í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá uppljóstrun...

..afar sjálfmiðuð. Ég sótti nefnilega af kerskni um þetta starf og fékk snarlega neitun, höfnun og afsvar. Hvort það var vegna kynferðis eða af öðrum orsökum skal ósagt látið. Enda fylgdi það ekki sögunni, en sú sem svaraði umsókninni þurfti endilega að segja mér að þrátt fyrir að mér hafi verið hafnað væru margir góðir um hituna. Það hefur sannast nú, flugfreyjur og fleira sætt fólk verður á skjánum okkar framvegis sem hingað til. Mér finnst nú sjónarsviptir af Guðmundi Bragasyni. Satt að segja finnst mér orðavalið í fréttinni benda til þess að hann hafi hálfgert verið beðinn um að taka hatt sinn og staf. Hvað mig snertir verður fólk bara að njóta raddar minnar á Útvarpi Sögu áfram, og jú í Stundinni Okkar á RUV sunnudaginn 25. nóvember næstkomandi.

Sperra eyrun!


mbl.is Flugfreyja flýgur í þulustarfið á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okrið

GullidklosettStundum verða smá slys, eins og um síðustu helgi þegar klósettsetan sprakk langsum og varð nær ónothæf. Auðvitað datt manni Byko fyrst í hug en þeir áttu ekkert sem heitið gat seta á þetta fína IFÖ klósett, og bentu á umboðsaðila IFÖ sem heitir Tengi. Tengi er í húsi sem er voðalega fínt að sjá, neðst við Smiðjuveg, veit reyndar ekki litinn á götunni, en húsið er grátt. Þangað skeiðaði ég glaður í bragði og hlakkaði mikið til að geta skipt um setu á klósettinu, t.d. að fá flotta viðarsetu, allavega eitthvað huggulegra en hið þunnildislega hismi sem nú var sprungið.

En nei, og nei aftur. Fyrstu kynni af þessarri verslun voru frekar fúl. Æ, það var í sjálfu sér ekkert að en andrúmsloftið allt var eitthvað neikvætt. Mér var bent til fjögurra sölumanna sem sátu með sútarsvip við skrifborð hlið við hlið. Ég bauð hressilega góðan dag, en enginn tók undir. Það var bara eins og ég væri ekki þarna. Loksins fékk ég þó aðstoð en draumur minn um flotta klósettsetu var nú fljótlega úti því sölumaðurinn sagði eingöngu vera til eina gerð, nákvæmlega eins og fyrir var. Sú gerð átti að kosta 2500 kr. Eftir smá grams í tölvunni fann þó sölumaðurinn aðra gerð sem hann sagði að kostaði tólfþúsund og eitthvað. Smellurinn sem heyrðist þegar ég missti andlitið í gólfið bergmálaði um alla búð, en enginn kippti sér upp við það. Sennilega alvanir. Mér tókst að tísta útúr mér hvað klósettið kostaði allt, og hvernig gullhúðin væri á setunni. Ég man ekki svörin, en ég er enn að jafna mig. Ég ákvað í sjokkinu að kaupa aumingjalegu setuna sem kostaði reyndar 2612 kr. þegar að kassanum kom. Finnst fólki bara allt í lagi að borga á þrettánda þúsund fyrir klósettsetu?? Mér finnst það ekki í lagi og 2612 er 2000 krónum of mikið fyrir plasthismið.

Nú, í morgun fór ég svo í bankann til að kaupa pund. Þar á ég við gjaldmiðil þeirra englendinga. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landsbankans var gengi pundsins í morgun kr. 125,68 en ég var rukkaður um 128 kr fyrir stykkið. Samkvæmt upplýsingum bankans er það sem ég þurfti að greiða svokallað seðlagengi og er þessu hærra vegna kostnaðar bankans við að kaupa seðlana í útlöndum, flytja þá til landsins og geyma. Þetta heitir að vera bæði með belti og axlabönd, og til að tryggja að brækur bankans haldist enn betur uppi eru þeir tilbúnir að borga mér rúmar 123 krónur fyrir þessa sömu seðla ef svo skyldi fara að ég notaði þá ekki alla. Þetta er bara siðlaust okur í minni bók.

Veit ekki hvað öðrum finnst.

 


London here I come

Þá veit ég hvað er nauðsynlegast að setja niður. Stígvélin og sjóhattinn. Það verður gaman að vaða um götur Lúndúna í þar til gerðum búnaði. Spurning hvort ég ætti að taka með mér kafarabúning aukreitis, svona til vonar og vara. Better safe than sorry, eins og við heimsborgararnir segjum.

Annars er líklegt að allt þetta bleytuvesen verði að baki á mánudaginn þegar London tekur á móti mér fagnandi. Enda nenni ég ekki að mæta í stígvélum í Downing strætið, það er eitthvað svo illa viðeigandi.


mbl.is Beðið eftir stormi á austurströnd Englands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband